Ég var hlýðinn og ábyrgðarfullur krakki sem lagði mig fram um að gera það sem mér var sagt að gera. „Hún byrjaði að brjóta saman þvott þegar hún var tveggja ára“ (heimild: Mamma). Ég skil foreldra mína vel; að ala upp iðinn heimilisþræl er eitthvað sem ég mun líka gera einhvern daginn. Þegar ég var ekki að læra eða ryksuga æfði ég mig á píanóið. Ég stillti úrið mitt, eftirlíkingu af G-shock, á þrjátíu mínútur og æfði tónskala. Ekki þar til ég var búin heldur þar til klukkan pípti. Reglur voru reglur og reglur bar að virða.
Þegar ég var átta ára hlotnaðist mér sá heiður að fara með pabba í sjónvarpsþáttinn Gesti á Stöð 2, sem Magnús Scheving stýrði. Mér tókst að kría út Russell-heilgalla fyrir útsendinguna en ég vissi að Maggi Scheving var andlit fyrirtækisins og kynni að meta það. Fyrir viðtalið sagðist hann ætla að spyrja mig hvort heima hjá mér funduðu fjölskyldumeðlimir reglulega. Ég ætti að svara því játandi. Myndavélarnar rúlluðu inn; ég var sminkuð í fyrsta skipti og var ansi heitt í íþróttagallanum þótt þægilegur væri. Loksins, loksins kom að mér: „Hvað segir þú Björg, haldið þið reglulega fjölskyldufundi?“ Ég svaraði eins og ábyrgt vélmenni án þess að taka inn í myndina að þetta væri alls ekki satt: „Já, við höldum reglulega fjölskyldufundi. Það er mjög mikilvægt að gera það.“ Líf mitt gekk vel undir þessum formerkjum; ég var löghlýðin, uppáhald kennara og „mjög meðfærilegt barn“ (heimild: Mamma).
Það var eitt sem setti strik í heimsmynd mína: hrekkjusvín í skólanum, sem reis upp í þriðja bekk með miklum látum.
Það var eitt sem setti strik í heimsmynd mína: hrekkjusvín í skólanum, sem reis upp í þriðja bekk með miklum látum. Hann spilaði allar nóturnar sem mér hafði verið kennt að sleppa; hlýddi engum reglum, blaðraði hátt án þess að vera ávarpaður, skilaði aldrei heimavinnu og stríddi öllum. Enginn kennari réð við þetta skrímsli, sem reyndi að komast til skólastjórans allavega einu sinni í viku. Það fannst mér hneyksli.
Framan af lagði ég mig fram um að hundsa hann. Hann hlyti að vera eins og púkinn á fjósabitanum; ef hann væri ekki fóðraður myndi hann veslast upp og deyja. Í sem stystu máli var kenning mín alröng; hrekkjusvínið styrkti stöðu sína með hegðun sinni. Hann náði félagslegum völdum, stýrði lítilli herdeild sem gerði okkur, sem vorum kurteis og regluhlýðin, erfitt fyrir. Hann tók allt plássið; fékk óskipta athygli kennaranna og kúl-stigin hrönnuðust inn eftir því sem hann var oftar sendur til skólastjórans. Staða stríðnispúka-einvaldsins styrktist á sama tíma og gremja mín í hans garð óx. Vandamálið var það að ég gat ekkert gert. Vopnabúr mitt var skammarlega tómt enda var ég of „kurteis og vel uppalin“ (heimild: Mamma) til þess að svara honum í sömu mynt. Ég hataði hann og tíminn leið.
Við erum stödd í stærðfræðitíma í fjórða bekk. Skaðvaldurinn var enn einu sinni að niðurlægja bekkjarfélaga samhliða því að taka kennarann á taugum með nærgöngulum neðanbeltis-spurningum. Ég fann reiðina magnast innra með mér; þetta óargardýr var 100% óþolandi. Kennarinn var kafrjóður í framan og reyndi að sussa á hann, 100% án árangurs.
Það brast eitthvað innra með mér og ég stóð upp. Hrekkjusvínið varð vart við það og leit á mig. Við horfðumst í augu í nokkrar sekúndur áður en ég öskraði á hann: ÞEGIÐU! Í stuttu máli sagt brá honum svo að hann limpaðist niður í stólinn sinn.
Þetta var í fyrsta sinn á ævinni sem ég minnist þess að hafa skipað einhverjum að þegja fyrir utan fjölskyldumeðlimi. Ég vissi að ég var að brjóta reglu en tilfinningin var frábær. Um leið og orðið slapp út vissi ég að eitthvað var breytt til frambúðar. Ég hafði áttað mig á því að stundum þarf bara að segja fólki að þegja.
Athugasemdir