Stöðugleikaframlagið er samkomulagsatriði milli kröfuhafa og ríkisstjórnar til þess að afnema gjaldeyrishöftin; ef slíkt samkomulag næst ekki hyggst ríkisstjórnin leggja á einskiptisskatt, svokallaðan stöðugleikaskatt, á heildareignir fallinna viðskiptabanka og sparisjóða, og mun hann nema 39% af heildareignum þeirra. Áætlað er að slíkur skattur skili ríkinu 682 miljörðum króna tekjum að teknu tilliti til frádráttarheimildar sem samsvarar til um 34% af landsframleiðslu.
Upphæð stöðugleikaframlagsins, eða hverning það skuli greitt, virðist hins vegar vera á huldu. Heyrst hafa tölur á bilinu 300 til 500 miljarða króna, eða á milli 15 og 25% af landsframleiðslu. Þetta eru háar upphæðir og eiga sér varla hliðstæðu í Íslandssögunni, en til samanburðar lentu um 25% af landsframleiðslunni á herðum skattgreiðenda vegna gjaldþrots Seðlabankans í Hruninu.
Stöðugleikaskatturinn er talsvert hærri en stöðugleikaframlagið og eingöngu hugsaður sem nauðvörn skattgreiðenda ef samkomulag næst ekki við kröfuhafa, þ.e. þeir lögaðilar sem nú sæta slitameðferð en fá staðfestan nauðasamning fyrir 31. desember 2015 teljast ekki meðal skattskyldra aðila. Hvaða vægi hefur þessi hótun? Stökkva kröfuhafar til og greiða strax, eða eru þetta Potemkintjöld, farsi í anda Molière til þess eins að rugla kjósendur í ríminu? Gjaldeyrishöftin skipta hinn almenna borgara sáralitlu máli. Krónan og krónuhagkerfið sjá um að rýra kjörin. Gjaldeyrishöftin veita hins vegar vernd gegn erlendum sveiflum. Öðru máli gegnir um þá sem tilheyra gjaldeyrishagkerfinu. Þeir hagnast talsvert með aðgangi að ódýrara fjármagni. Hagsmunir þessara tveggja hópa fara ekki saman.
„Gjaldeyrishöftin skipta hinn almenna borgara sáralitlu máli. Krónan og krónuhagkerfið sjá um að rýra kjörin.“
Einskiptisskattur var lagður á árið 1950 og svo aftur árið 1957 og í báðum tilvikum með vísan til þjóðarnauðsynjar eins og nú. Ólíkt því sem nú gerist var mjög almenn óánægja með þessa skattlagningu. Þjóðfélagið beinlínis logaði stafna á milli vegna skattsins. Skattgreiðendur fóru í mál við ríkið og töpuðu. Hæstiréttur klofnaði í bæði skiptin. Seinna málið fór alla leið til mannréttindanefndar Evrópu og er fyrsta mál sem Íslendingar senda til hennar. Það er vel þekkt í alþjóðlegum skattarétti og gengur almennt undir nafninu „the Gudmundsson case“.
Náist ekki samkomulag milli deiluaðila leggur ríkisstjórnin á stöðugleikaskatt, málið fer fyrir dóm og þar munu ofannefndir dómar liggja til grundvallar, enda fordæmisgefandi. Hér eru dómarnir rifjaðir upp og athugað hvort fælingarmáttur felist í hótuninni um 39% skatt á heildareignir fallinna viðskiptabanka og sparisjóða; ef ekki, þá rýrir það samningsstöðu ríkisins verulega og bendir það til þess að ætlunin með afnámi hafta hafi verið einhver önnur en að leggja á umræddan stöðugleikaskatt. Viðræðurnar má líta á sem leik í leikjafræði þar sem viðmælendur þekkja allar forsendur og möguleika hvors annars. Fyrst verður álagning einskiptisskatts árið 1950 reifuð, síðan dómsmálið, svo álagning einskiptisskatts 1957 og síðan dómsmálið. Að lokum verða niðurstöður og forsendur stöðugleikaskatts skoðaðar með hliðsjón af umræddum hæstaréttadómum og þróun á alþjóðavettvangi, en fyrst verða tillögur þeirra dr. Benjamíns H. J. Eirikssonar og prófessors Ólafs Björnssonar um aðgerðir í efnahagsmálum reifaðar en þær lögðu grunninn að umræddri skattlagningu árið 1950.
„Árið 1950 var ástandið svipað því sem nú er: skattsvik, fjárhagshöft, verðbólga og átök á vinnumarkaði.“
Hagfræðingar kallaðir til
Árið 1950 var ástandið svipað því sem nú er: skattsvik, fjárhagshöft, verðbólga og átök á vinnumarkaði. Þá kallaði ríkisstjórnin til hagfræðinganna dr. Benjamín H. J. Eiriksson og prófessor Ólaf Björnsson. Þeir athuguðu þrjár leiðir: styrkja- og ábyrgðaleiðina, niðurfærslu- eða verðhjöðnunarleiðina og gengislækkunarleiðina. Þeir mæltu sérstaklega með síðastnefndu leiðinni og féllst ríkisstjórnin á hana. Samkvæmt tillögunum skyldi gengi íslensku krónunnar fellt um 42,6%. Fræðilega séð hækkar verð fasteigna og annarra sambærilegra eigna við gengislækkun. Þar sem megintilgangur þessara aðgerða var að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum en ekki að færa neinum sérstökum hópi manna óeðlilegan gróða lögðu þeir Benjamín og Ólafur til að lagður yrði á sérstakur einskiptisskattur á alla skattskylda einstaklinga og fyrirtæki. Skatturinn skyldi leggjast á þær eignir einar sem hækkuðu í verði að krónutölu vegna gengislækkunarinnar og greiðast upp á 20 árum. Skattskuldin bæri 3,5% í ársvexti. Þess vegna skyldi draga frá peninga, verðbréf og útistandandi skuldir frá hreinni eign áður en skatturinn yrði lagður á. Til að meta áhrif gengisfellingarinnar var eignamönnum skipt upp í fjóra hópa:
- þá sem áttu skuldlausar eignir í fríðu,
- þá sem áttu peninga eða verðbréf,
- þá sem skulduðu
- og þá sem skulduðu en áttu eignir í fríðu.
Við almenna verðhækkun hækka allar eignir í verði, aðrar en peningar og verðbréf, sem nemur hinni almennu verðhækkun. Eigi menn skuldlausa eign er því ekki um raunverulega eignaraukningu að ræða heldur hefur gildi peninga rýrnað um það sem nemur hinni almennri verðhækkun. Peningarnir verða minna virði mældir í verðmætum í fríðu, svo sem fasteignum eða gjaldeyri. Þeir sem áttu eignir í peningum og verðbréfum urðu þannig fyrir raunverulegu tjóni. Skuldararnir í þriðja hópnum högnuðust hins vegar um þá upphæð sem samsvaraði tapi þeirra sem áttu peninga og verðbréf. Í fjórða hópnum áttu menn eftir sem áður sömu eignir en högnuðust á gildisrýrnun skulda, svo sem húsnæðisskulda. Tveir seinustu hóparnir högnuðust því verulega á gengisfellingunni.
„Peningarnir verða minna virði mældir í verðmætum í fríðu, svo sem fasteignum eða gjaldeyri.“
Skatturinn var bæði hugsaður sem eignaskattur og gengishagnaðarskattur og skyldi leggjast á eignir sem ekki rýrnuðu vegna gengislækkunarinnar. Eingöngu þeir sem höfðu tekjur og áttu eign sem næmi meira en 300.000 krónum skyldu greiða stóreignaskatt, sem var meðalverð íbúðar á þessum tíma og skyldi skattur vera eins á hlutafélög og samvinnufélög en mjög erfitt var að láta einstaklinga bera skattinn í hlutfalli við eign sína vegna þróunar og samtvinnunar á hlutafélagalöggjöfinni og skattalögunum, þar sem hlutafélagaeign væri ekki til frjálsrar ráðstöfunar eins og aðrar eignir. Einungis nettóeign félaga skyldi skattlögð.
Samkvæmt tillögunum var miðað við eignastöðu 31. desember 1949. Einstaklingar skyldu greiða 10% af eignum á bilinu 300.000 krónur til einnar miljón krónur, en 12% af eignum umfram eina miljón krónur. Samsvarandi skatthlutfall fyrir hlutafélög og samvinnufélög var átta og tíu af hundraði, en þau skyldu greiða jafnt. Heimilt skyldi að greiða skattinn á 20 árum með 3,5% ársvaxta af skattskuldinni.
Skatturinn 1950
Hugmyndir þeirra dr. Benjamíns H. J. Eirikssonar og Ólafs Björnssonar prófessors breyttust allverulega í meðförum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, úr stöðugleikaskatti í fjáröflunarkskatt. Skattinn skyldi greiða að hluta innan sex mánaða en eftirstöðvarnar með skuldabréfi til 20 ára, eins og áður, en ársvextirnir af skattskuldinni voru ákvarðaðir 4% í stað 3,5. Ríkisstjórnin ákvað form og texta skuldabréfanna.
Af skatttekjunum skyldu fimm miljónir króna renna til aflatryggingasjóðs, tíu miljónir króna til uppbóta á sparifé en afgangurinn skyldi skiptast jafnt milli byggingarsjóðs og til greiðslu á lausaskuldum ríkissjóðs. Skilyrðin fyrir því að njóta uppbóta á sparifé voru ströng. Aðeins einstaklingar nutu uppbóta, ekki félög, sjóðir eða stofnanir.
Umsókn um bætur á sparifé var flókin. Það sama gilti um útreikning uppbótanna og komu upp mörg álitamál upp við álagningu hjá skattstjóra, þó ekki verði fjallað um þau hér, en það var ekki bara úthlutun uppbóta á sparifé sem skók skattkerfið, heldur allt í sambandi við skattlagninguna. Skattstjóri Reykjavíkur hafði yfirumsjón með álagningu skattsins. Hins vegar önnuðust yfirskattanefndir og skattstjórar hver í sínu umdæmi allar undirbúningsframkvæmdir vegna álagningar skattsins til sannprófunar réttu eignaframtali. Yfirskattanefndirnar báðu um aukaaðstoð frá Reykjavík en skattstofan átti erfitt um vik vegna mannfæðar. Þá var ríkisskattanefnd að kafna í kærum, sem skiptu hundruðum, og fór fram á að gjalddagi skattsins yrði færður svo hún gæti klárað að úrskurða.
Málaferlin
Þeir sem komu verst út úr stóreignaskattinum voru atvinnurekendur og mótmæltu samtök þeirra skattheimtunni harðlega. Þeir sættu sig ekki við að ríkið skuldfærði fjórðung eigna nokkurra öflugusta fyrirtækja landsins á einu bretti og ákváðu að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort slíkt stæðist ákvæði stjórnarskrár. Ákveðið var að Guðmundur Guðmundsson, Trésmiðjunni Víði, höfðaði prófmálið. Guðmundur hafði brennandi áhuga á málinu og auk þess endurspeglaði eignasamsetning hans flest það sem Samtök atvinnurekanda vildu fá úr skorið. Trésmiðjan Víðir var hlutafélag, sameignarfélag var um húseignina á Laugavegi 166 en íbúðarhúsið á Víðimelnum var einkaeign hans. Guðmundur hafði kært álagningu til skattstjórans í Reykjavík, en ekki fengið neina úrlausn þar. Hann kærði málið því til ríkisskattanefndar sem lækkaði skattskylda eign hans lítillega. Þetta skyldi greiða ofan á alla aðra skatta og vildi hann alls ekki una því.
„Þeir sættu sig ekki við að ríkið skuldfærði fjórðung eigna nokkurra öflugusta fyrirtækja landsins á einu bretti og ákváðu að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort slíkt stæðist ákvæði stjórnarskrár.“
Í málflutningnum var lögð áhersla á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og grundvallarreglu skattlagningar, sem gjarnan er kennd við Adam Smith, þ.e. skattar eiga að vera jafnir og sanngjarnir og mega ekki ráðast af geðþóttaákvörðunum stjórnvalda. En stjórnvöld mismunuðu samvinnufélögum og þátttakendum í slíkum félögum á kostnað hlutafélaga og hluthafa þannig að meginþungi skattsins lenti á þeim sem kusu síðastnefnda rekstrarformið. Einnig áttu skattar vera þekktir og rækilega skilgreindir þannig að ekki væri hægt að koma aftan að mönnum. Uppfylltu skattar ekki þessi ákvæði væri ekki um skatt að ræða heldur eignarnám, en lögin mismunuðu mönnum eftir búsetu og fjórðungur eigna færi til ríkisins.
Ekki var fallist á þetta. Dómurinn taldi að þótt skatturinn kæmi verr niður hlutafélögum og hluthöfum þeirra, þá væru þeir mun efnaðri en þátttakendur í samvinnufélögum og bæri því að greiða meira. Þá var skatturinn ekki talinn hár þar sem hann mætti greiða á allt að 20 árum og skerti því ekki eignir viðkomandi að ráði. Með lögum um stóreignaskatt hefði eldri ákvæðum skattalaga verið vikið frá og ný ákvæði verið sett. Samkvæmt þeim væru hlutafélög ekki sjálfstæðir skattaðilar vegna greiðslu stóreignaskatts, heldur skyldi skipta eignum hlutafélaga niður á hina raunverulegu eigendur þeirra, og reikna síðan stóreignaskattinn af allri eigninni. Dómurinn kvað það á engan hátt brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins þegar litið væri á hinar sérstöku ástæður að baki skattlagningunni.
„Dómurinn taldi að þótt skatturinn kæmi verr niður hlutafélögum og hluthöfum þeirra, þá væru þeir mun efnaðri en þátttakendur í samvinnufélögum og bæri því að greiða meira.“
Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar, sem klofnaði í málinu. Tveir af fimm dómurum skiluðu séráliti en meirihlutinn félst á dóm undirréttar að öllu leyti nema einu. Hann taldi Trésmiðjuna Víði h/f ekki vera aðila að málinu og því yrði hvorki fjallað um tryggingariðgjaldið né viðskiptavildina. Aðalmisræmið á milli meirihluta og minnihluta Hæstaréttar fólst í verðlagningu hlutabréfanna. Undirréttur taldi að með álagningu stóreignaskattsins hefðu yfirvöld sett nýjar reglur um verðmætismat hlutabréfa, sem skyldi eingöngu notað í þetta eina sinn. Þótt meirihluta Hæstaréttar fyndist þetta ákvæði bæði óskýrt og loðið féllst hann samt á dóm undirréttar um verðmætamat hlutabréfanna. Minnihlutinn taldi hins vegar að þetta gæti leitt til þess að þau væru ofmetin til skatts.
Skatturinn 1957
Eins og fyrr er getið mæltu þeir Benjamín og Ólafur með því að gengislækkunarleiðin yrði farin. Raunin varð sú að þessi leið var sett til hliðar. Gengið var að vísu fellt en í reynd fylgdi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styrkjaleiðinni. Styrkir til bátaflotans jukust stöðugt og þar af leiðandi jókst skattbyrðin á almenning og jafnvægisleysið í þjóðarbúskapnum hélt áfram. Hallinn á ríkissjóði ásamt tilheyrandi dýrtíð jókst því frekar en hitt. Við það hækkuðu launin, framleiðslukostnaður hækkaði og launakröfurnar jukust. Togaraverkfallið árið 1950 og stóru verkföllin 1952 og 1955 eiga rætur sínar að rekja til þessa ástands. Ástandið í þjóðfélaginu fór síversnaði og þegar fram liðu stundir varð styrkjaleiðin sjálf aðalvandamálið. Eina leið stjórnvalda til aukinna tekna var í gegnum skattakerfið en það eru takmörk á því sem hægt er að skattleggja fyrirtækin og fólkið í landinu, eða hvað?
„Eina leið stjórnvalda til aukinna tekna var í gegnum skattakerfið en það eru takmörk á því sem hægt er að skattleggja fyrirtækin og fólkið í landinu, eða hvað?“
Aðeins fimm árum eftir málaferlin var enn höggvið í sama knérunn. Ný lög um stóreignaskatt voru sett í tíð vinstri stjórnar Hermanns Jónassonar. Nýju lögin voru um flest lík þeim fyrri og ollu miklum deilum. Samt höfðu menn greinilega tekið tillit til dómsins frá 1952 því ógreiddur söluskattur, slysatrygging og atvinnurekandaiðgjöld vegna ársins á undan töldust nú til skulda. Hins vegar var bætt við ákvæði um þá sem höfðu greitt erfingjum út arf fyrirfram. Fyrirframgreiðsla arfs skyldi, að frádregnum erfðafjárskatti, leggjast við eign þess er innti hana af hendi, en dragast frá eign erfingja. Skattinn skyldi innheimta hjá arfleiðanda en erfinginn bar eigi að síður ábyrgð á skattinum. Það sem olli hins vegar mestum deildum var eignamatið sjálft, greiðslutíminn og skattstiginn. Skatturinn skyldi greiddur á næstu 10 árum í stað 20 áður. Miljón króna eign var skattlaus, en af fyrstu hálfu miljóninni sem var framyfir skyldi greiða 15 af hundraði, af næstu einni og hálfu miljón krónum skyldi greiða 20 af hundraði og af þeim eignum sem voru umfram þrjár miljónir króna tók ríkið fjórðung í skatt.
Félag íslenzkra iðnrekenda og Vinnuveitandasamband Íslands sendu þinginu mótmælabréf. Samtökin bentu á að stutt væri síðan samskonar skattur hefði verið lagður á og ylli skatturinn ekki aðeins atvinnufyrirtækjunum tjóni heldur öllum launþegum þessara sömu fyrirtækja og líka öllum almenningi í landinu bæði beint og óbeint. Þau töldu mjög misráðið að leggja „drápsklyfjar á atvinnureksturinn umfram venjulegar skatta- og úrsvarsgreiðslur“ eins og þeir orðuðu það og lögðu meðal annars til að draga mætti skatt og útsvar frá tekjum áður en stóreignaskatturinn væri reiknaður svo komist yrði hjá tvísköttun og að allur atvinnurekstur í landinu yrði skattlagður eins en fyrirtækjum yrði ekki mismunað eftir rekstrarformum en þeim fannst hlutafélögum refsað á kostnað samvinnufélaga.
„Þessir sjóðir fengu jafnframt skyldusparnað ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára, svokölluð sparimerki sem brunnu síðar upp í verðbólgunni.“
Ekki væri ætlunin að skatturinn yrði að eyðslueyri, heldur skyldu tveir þriðju hlutar hans renna í byggingasjóð ríkisins og afgangurinn til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands. Þessir sjóðir fengu jafnframt skyldusparnað ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára, svokölluð sparimerki sem brunnu síðar upp í verðbólgunni og urðu einnig að dómsmáli, sem ekki verður fjallað nánar hér. Með skattinum var lagður grunnur að almennu húsnæðiskerfi en fram til þessa fengu menn ekki lán í bönkum nema þeir væru í réttum flokki.
Sjálfstæðisflokkurinn var nú eini stjórnarandstöðuflokkurinn og beitti sér af miklum krafti gegn stóreignaskattslögunum á þingi. Nú eins og áður fór verðmat hlutabréfa fyrir brjóstið á þingmönnum. Þau skyldu ekki metin á nafnvirði til skatts heldur skyldi fara fram sérstakt mat á þeim. Hlutabréf sem ekki var einu sinni hægt að selja á nafnvirði gátu því verið metin til stóreignaskatts fimm- til sexhundruðfalt. Tekin voru dæmi af bréfum keyptum í Eimskipafélaginu við stofnun upp þess árið 1914. Bréfin voru að nafnvirði 750 krónur, en „handlangarar fjármálaráðherra“ eins og sumir þingmenn orðuðu það, mátu bréfin á 77.304 krónur og af því mati skyldi greiða í stóreignaskatt þrefalt nafnverð bréfanna, vitaskuld fyrir utan eignarskatt og útsvar. Þetta töldu menn algert einsdæmi þar sem lögum samkvæmt fengu menn ekki nema fjóra af hundraði í arð á ári. Jóhann Jósefsson, fv. fjármálaraðherra, lauk umræðu af hálfu sjálfstæðismanna með þeim orðum að hér væri verið að fremja stórfellt stjórnarskrárbrot og sagði: „Ég sé fram á það, ... að sá hluti þjóðarinnar, sem hefur orðið fyrir misbeitingu valds við setningu stóreignaskattslaganna, hlýtur að snúa sér til dómstóla landsins, og verður hver að hlíta því, sem þar verður seinast niðurstaða ... En það er farið að verða eftirtektarvert, ef þingið fer æ ofan í æ að setja löggjöf, sem gengur svo nærri stjórnarskránni og eins og í tilfellinu um stóreignaskattinn þverbrýtur undirstöðu mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar, að þegnarnir neyðast til þess að leita til dómstólanna sér til verndar. Þeir, sem þannig eru leiknir, þegar um óbilgjarna valdhafa er að ræða, sem í skjóli þess, að þeir sitja á þingi og í ríkisstjórn, fótumtroða mannréttindi þegnanna, eiga ekki annars úrkosta en að leita til dómsstólanna“.
„Með skattinum var lagður grunnur að almennu húsnæðiskerfi en fram til þessa fengu menn ekki lán í bönkum nema þeir væru í réttum flokki.“
Nýtt dómsmál
Samkvæmt frumvarpinu nam álagður stóreignaskattur um 136 miljónum króna. Til samanburðar var álagður eignaskattur árið 1957 á alla landsmenn og öll félög 11,3 miljónir króna. Gjaldendur voru þá ríflega 30.000, en aðeins 604 einstaklingar skyldu greiða stóreignaskattinn, auk fimm erlendra hlutafélaga. Þá skyldu 674 hlutafélög svara til skattsins, en aðeins 20 samvinnufélög, og þar stóð hnífurinn í kúnni. Andstaða skattgreiðenda magnaðist og skipulagðar andófsaðgerðir hófust. Skattamálanefnd Verslunarráðs Íslands beitti sér fyrir samstarfi hagsmunasamtaka til að fá lögunum hrundið með dómi. Skattanefnd atvinnuveganna fékk það verkefni, en hún var skipuð fulltrúum frá 11 hagsmunasamtökum. Minnugir úrslitanna 1952 voru menn vantrúaðir á að nokkur árangur næðist hjá dómsstólum.
Þess var krafist að skatturinn yrði með öllu felldur niður. Til vara var þess krafist að hlutabréf yrðu metin á nafnvirði en ekki færu ekki eftir mati skattyfirvalda þ.e. þrefalt nafnverð hlutabréfanna.
„Vinstri stjórnin fetaði hér í fótspor ríkisstjórnar Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna með því að velja styrkjaleiðina áfram, í stað gengisfellingarleiðarinnar eins og hagfræðingarnir höfðu mælt með.“
Málið var sem fyrr byggt á að téð skattalög brytu í bága við ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar. Af heildarfjárhæð skattsins greiddu hlutafélög 60% en samvinnufélög 0,2% og töldu sækjendur að ekki væri fylgt almennri reglu við álagningu.
Aðalkrafan snerist því um tvennt, í fyrsta lagi um það hvað langt ríkið gæti gengið í skattlagningu og í öðru lagi hvort það mætti mismuna skattgreiðendum sem væru eins fjárhagslega staddir.
Verjendur mótmæltu og kváðu að hingað til hafi enginn efast um löggjafarvald Alþingis. Það bæði gæti og ætti að setja lög er skylduðu borgara þessa lands til að greiða í sameiginlega sjóði. Vitaskuld leiði skattar til almennra takmarkana á eignarrétti manna, en flestir skattar væru lagðir á samkvæmt föstum reglum og efnahagslegum mælikvarða. Þannig leggist þeir jafnt á þá þjóðfélagshópa sem séu með svipaða fjárhagslega stöðu. Hins vegar feli Alþingi stundum öðrum aðilum að ákveða álagningarreglurnar og þá skattfjárhæðina, samanber lög um útsvör, og geti þeim sem eins eru staddir fjárhagslega verið mismunað eftir búsetu. Verjandi tók fram að lög um stóreignaskatt væru hluti af efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnar, sem ætlaði að þær leiddu til hærra eignaverðs í krónutölu, ekki ósvipað því sem gerðist þegar gengið var fellt árið 1950. Stóreignaskattslögin væru því fyrirbyggjandi aðgerð og ættu ekkert skylt við eignaupptöku í skilningi stjórnarskrár. Vissulega var þetta rétt. Vinstri stjórnin fetaði hér í fótspor ríkisstjórnar Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna með því að velja styrkjaleiðina áfram, í stað gengisfellingarleiðarinnar eins og hagfræðingarnir höfðu mælt með, en eina leiðin samkvæmt styrkjaleiðinni til að auka tekjur ríkisins var í gegnum skattakerfið. Verjandinn mótmælti því hins vegar að lögin mismunuðu fyrirtækjum eftir rekstrarformi. Eignir fyrirtækja væru metnar eftir sömu reglum. Fyrirtækin gætu síðan innheimt skattinn hjá viðkomandi einstaklingum. Hins vegar væri hlutur samvinnufélaga að því leyti verri en hlutafélaga að þau gætu aðeins endurheimt hluta þess skatts sem þau þurftu að standa skil á. Munurinn á skattgreiðslum hlutafélaga og samvinnufélaga stafaði því eingöngu af að hinir fyrrnefndu ættu meiri eignir. Jafnframt benti hann á að engin ákvæði væru um hámark skattfjárhæðar í stjórnskipunarlögum, heldur einungis um að skattar skuli vera lagðir á með lögum. Alþingi hafi því alfarið frjálsar hendur við mat sitt á skattþörf ríkisins og geti lagt allverulegar kvaðir á almenning án þess að um eignaupptöku væri að ræða.
„Í dómi Hæstaréttar fer ekki á milli mála að hann telur stóreignaskattinn vera á mörkum þess að vera stjórnarskrárbrot.“
Dómari dæmdi verjanda í vil, tók að vísu fram að skattstiginn væri hár og að stutt væri síðan samskonar skattur hefði verið lagður á, en taldi að efnahagslegarforsendur fyrir lagasetningunni bættu það upp. Verjandi náði þó einu atriði fram, sem byggðist á áliti minnihluta Hæstaréttar 1952. Stóreignaskatturinn var lagður á einstaklinga en ekki fyrirtæki. Öllum eignum hlutafélaga var skipt niður á eigendur þeirra í réttu hlutfalli við eign hvers og eins samkvæmt mati skattstjóra, en ekki samkvæmt nafnvirði bréfanna. Félögin báru eigi að síður ábyrgð á greiðslunum en áttu endurkröfurétt á hluthafann. Verjandi benti á að ekkert samband væri á milli eigna hlutafélagsins og verðs hlutabréfanna. Þessi regla skattstjóra gæti því leitt til ofmats á verðgildi bréfanna og að verið væri að nota eign eins aðila, sem gjaldstofn fyrir skattgjaldi annars aðila. Dómari dæmdi þetta ekki samrýmast stjórnarskrár og skyldu hlutabréfin metin upp á nýtt.
Málið fór fyrir Hæstarétt, sem staðfesti dóminn. Aftur klofnaði Hæstiréttur um stóreignaskattinn þegar tveir af fimm dómurum skiluðu séráliti um hverjir væru í raun gjaldendur skattsins. Í dómi Hæstaréttar fer ekki á milli mála að hann telur stóreignaskattinn vera á mörkum þess að vera stjórnarskrárbrot, en þar segir m.a.:
„[Stóreignaskattlögin] eru sérstæð og óvenjuleg skattalög, m.a. að því leyti, að þau leggja á sérstakan eignarskatt til viðbótar við hinn almenna eignarskatt ... Skattgjaldendur eru heldur ekki hinir sömu og þeir, sem eru skattaðiljar samkvæmt hinum almennu lögum ... Þá gilda og sérstæðar reglur um skattmat verðmæta svo og um greiðslu skattsins og ábyrgð á greiðslu hans“.
Jafnframt taldi Hæstiréttur gjaldendur stóreignaskattsins nytu mun lakari kjara með lögunum 1957 en með lögunum 1950. Um mismunun milli hlutafélaga og samvinnufélaga segir í dómnum: „og verður því ekki neitað, að þessum félagsformum er gert mishátt undir höfði með þessum skattháttum“. Ennfremur er varla hægt að misskilja varnaðarorð Hæstaréttar til Alþingis:
Þótt skattgjald samkvæmt lögum nr. 44/1957 sé allhátt í sjálfu sér, verður að fallast á þá skoðun héraðsdómara, að rök bresti til þess að hrinda lögunum samkvæmt 67. grein stjórnarskráinnar af þeim sökum, enda er skattgjaldið ekki svo hátt, að lagt verði á borð við upptöku fjár. Með því að leggja háa eignarskatta á eignir manna með stuttu árabili er hinsvegar að sjálfsögðu unnt að fara á svig við greint ákvæði stjórnarskrárinnar“.
Haldið til Strassborgar
Menn létu engan bilbug á sér finna. Í maí 1959 samþykkti Félag stóreignaskattsgjaldanda að skjóta dómi Hæstaréttar til mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg í Frakklandi. Málsmeðferð var þannig að kærur voru sendar til nefndarinnar sem kannaði málin og ákvað hvort málið færi til Mannréttindadómstólsins.
„Nefndin taldi engan vafa á því að sérhverju fullvalda ríki væri bært að leggja á skatt eða aðrar álögur til opinberra þarfa.“
Þau atriði sem menn lögðu upp með voru þessi:
- Skattlagningin bryti í bága við stjórnarskrána
- Skattlagningin væri eignaupptaka
- Skattlagningin væri óréttlát
- Meinsemdir efnahagslífsins læknuðust ekki við skattheimtuna
- Álagning þess væri ekki skattur í almennt viðurkenndri merkingu þess orðs
- Álagning þessi mismunaði bæði mönnum og rekstrarformum fyrirtækja
- Skattheimtan væri af pólitískum toga spunnin og miðaði að því að höggva að rótum lýðræðis í landinu.
Meðferð málsins í Strassborg tók á annað ár og vakti mikla athygli og margt var skrafað um málið á göngum Evrópuráðsins. Nefndin taldi engan vafa á því að sérhverju fullvalda ríki væri bært að leggja á skatt eða aðrar álögur til opinberra þarfa. Hér væri að vísu um eignarskatt að ræða en hinar almennu meginreglur þjóðarréttar, sem fyrsta grein viðbótarsamningsins víkur að, taldi nefndin að ættu eingöngu við um eignir útlendinga. Jafnframt taldi nefndi að mismunun væri fylgifiskur skattalaga og því ætti 14. greinin ekki heldur við. Nefndin vísaði því kærunni frá á grundvelli 2. málsgreinar 27. greinar Mannréttindasamnings. Menn eru alls ekki einróma um niðurstöðu mannréttindanefndarinnar og hafa bent á að sú fullyrðing að fyrsta grein sáttmálans verndi aðeins eignir útlendinga en ekki eignir borgara eigin ríkis sé ansi hæpin:
- Með fyrstu grein sáttmálans skuldbinda aðildarríkin sig til að tryggja hverjum þeim sem er innan yfirráðasvæðis þeirra öll þau réttindi sem tilgreind eru í fyrsta kafla sáttmálans.
- Samkvæmt 14. greininni skulu þessi réttindi tryggð án manngreinarálits.
- Í fyrstu greininni segir: „Öllum mönnum og persónum að lögum ber réttur til þess að njóta eigna sinna í friði“.
- Þar af leiðandi óþarfi hjá nefndinni að vitna til almennra meginreglna þjóðarréttar til að réttlæta það að ekki megi gera upptækar eigur útlendinga úr því að vernd á eignarrétti þeirra var þegar viðtekin og viðurkennd regla.
Ákvörðun mannréttindanefndarinnar varð ekki hnekkt en Félag stóreignaskattsgjaldenda hvatti menn til að höfða mál út af öllum hugsanlegum vafaatriðum og krefjast ógildingar eða verulegrar lækkunar á skattinum. Markmiðið var að kaffæra skattyfirvöld í pappírsflóði svo þau stæðu ráðþrota gagnvart umfangi málsins. Á timabili voru rekin 52 mál í héraðsdómi og fóru fimm þeirra til Hæstaréttar, þrjú lögtaksmál voru sótt og varin fyrst fyrir fógetarétti og svo Hæstarétti, auk nokkurra smærri mála. Stóreignaskattsmálinu lauk ekki fyrr en í Hæstarétti árið 1969 eða tólf árum eftir setningu laga um stóreignaskatt.
„Með tímanum líktist álagning stóreignaskattsins farsa sem enginn gat tekið alvarlega. Lítið fékkst því í ríkiskassann með álagningu stóreignaskattsins, þar sem mikið tapaðist vegna málaferla og verðbólgu.“
Hver var svo ávinningurinn af þessu öllu saman? Í upphafi höfðu 136 miljónir króna verið lagðar á 609 gjaldendur. Með dómi Hæstaréttar árið 1958 lækkaði álagningin í 113 miljónir króna. Það mat var svo kært aftur til ríkisskattanefndar sem lækkaði matið í 74 miljónir króna og gjaldendum fækkaði úr 609 í 447. Álagningu samkvæmt mati ríkisskattanefndar lauk ekki fyrr en árið 1960, eða þrem árum eftir álagningu stóreignaskattsins. Gífurleg ringulreið fylgdi álagningu skattsins og stjórnsýslan almennt í molum. Yfirvöld gleymdu að taka lögtök bæði í Vestmannaeyjum og á Akranesi til tryggingar skattgreiðslunum. Skattgreiðslan fyrntist því þar hjá flestum. Með tímanum líktist álagning stóreignaskattsins farsa sem enginn gat tekið alvarlega. Lítið fékkst því í ríkiskassann með álagningu stóreignaskattsins, þar sem mikið tapaðist vegna málaferla og verðbólgu. Eftirstöðvar hans fóru á fjögurra ára skuldabréf árið 1969. Hann nam 15,4% árið 1952 en eftir það dettur vægi hans niður þar til nýr skattur er settur á árið 1957. Sá skattur var mun lægri, eða 8,2% af innheimtum beinum sköttum til ríkisins en mikill varð álitshnekkir Alþingis hér heima og erlendis vegna þessar máls.
Stöðugleikaskattur og niðurstöður
Árið 1950 lögðu hagfræðingarnir dr. Benjamín H. J. Eiriksson og prófessor Ólafur Björnsson til almennar aðgerðir í efnahagsmálum, aðgerðir sem hefðu drifið land og þjóð áfram. Í þeirra stað gripu stjórnmálamenn til sértækra aðgerða, aðgerða og átaka sem ekki sér fyrir endann á og snerust að mestu um að halda genginu hagstæðu fyrir sjávarútveginn, en sjávarútvegurinn var undanþeginn stóreignaskatti. Með frumvarpi um stöðugleikaskatt er haldið áfram á þessari braut. Mannréttindamál hafa allt annað vægi í dag heldur en þegar dómur um stóreignaskatt féll. Vald ríkisstjórna hefur minnkað og færst til alþjóðastofnana og allt önnur efnahagslögmál gilda með frjálsu flæði fjármagns. Það er því mikill vafi á því hvernig stóreignaskattsmálið færi í dag, bæði fyrir Hæastarétti og ef til kasta Mannréttindadómstóls kæmi, og reyndar mjög ólíklegt að sama niðurstaða fengist. Frumvarp um stöðugleikaskatt vekur því margar spurningar.
„Forsendur frumvarpsins eru mjög hæpnar og ganga m.a. þvert á niðurstöðu rannsóknarskýrslu Alþingis.“
Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneyti, í samvinnu við forsætisráðuneyti, Seðlabanka Íslands og ríkisskattstjóra. Með því er lagt til að lögfestur verði einskiptis skattur í því markmiði að skapa forsendur fyrir losun þeirra fjármagnshafta sem komið var á í kjölfar Hrunsins árið 2008. Hlutfall skattsins yrði 39%, sem er töluvert hærra en bæði 1950 og 1957 en þá nam skatturinn „ekki nema“ 25% og þótti mörgum þó nóg um.
Það sem skiptir máli hér eru forsendur frumvarpsins, 1. gr., markmið og ráðstöfun, 2. gr., skattskyldir aðilar, og 9. gr., um málsmeðferð fyrir dómstólum. Forsendur frumvarpsins eru mjög hæpnar og ganga m.a. þvert á niðurstöðu rannsóknarskýrslu Alþingis og Landsdómsmálsins um orsakir Hrunsins. Í frumvarpinu segir m.a.:
„Jafnframt er ljóst að fjármagnshöft og önnur viðbrögð stjórnvalda þarf að skoða í ljósi þeirra sérstöku og alvarlegu aðstæðna sem þau stóðu frammi fyrir í október 2008. Óbrúanlegt bil hafði skapast á tiltölulega skömmum tíma á milli þeirrar kerfisáhættu, sem hafði byggst upp vegna ójafnvægis í fjármálakerfinu og þjóðarbúskapnum ... Ójafnvægið í fjármála- og hagkerfinu birtist skýrast í stakkaskiptum bankakerfisins ... [sem] fólust í því að viðskiptabankarnir breyttust á örfáum árum úr því að vera fábreyttar, meðalstórar og innanlandsmiðaðar fjármálastofnanir yfir í feikistórar, flóknar og áhættusæknar fjármálastofnanir sem reru öllum árum að aukinni alþjóðlegri starfsemi í krafti auðsóttar erlendrar fjármögnunar við skilyrði lausafjárgnóttar í heimsbúskapnum og auðfengins starfsleyfis á Evrópska efnahagssvæðinu vegna EES-samningsins. Með þessari breytingu bankakerfisins byggðist upp kerfisáhætta, einkum vegna umfangsmikillar og áhættusamrar erlendrar skuldsetningar sem gat reynst erfitt að fjármagna við erfiðari alþjóðleg fjármálaleg skilyrði. ... Bankarnir tóku ekki tillit til mögulegs kostnaðar vegna þessarar kerfisáhættu í viðleitni sinni að auka umsvif sín og þegar vantraust fór vaxandi gagnvart þeim, fyrst á árinu 2006 en einkum eftir því sem hinni alþjóðlegu fjármálakreppu óx ásmegin frá miðbiki árs 2007 og náði hámarki í kjölfar falls Lehman Brothers haustið 2008, máttu þeir sín lítils gagnvart því áhlaupi sem varð á erlenda fjármögnun þeirra.“
„Ríkisstjórnin hafði það meðal annars á stefnuskrá sinni að breyta Íslandi í fjármálamiðstöð í líkingu við Kaímaneyjar, Jersey og fleiri slíkar „paradísir“. Í þeim tilgangi braut hún niður allt eftirlit.“
Hér er alveg horft framhjá hinni pólitísku stefnu ríkisstjórnarinnar og látið að því liggja að orsakir Hrunsins megi helst rekja til EES-samningsins. Ekki er minnst á stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í aðdraganda Hrunsins, en ríkisstjórnin hafði það meðal annars á stefnuskrá sinni að breyta Íslandi í fjármálamiðstöð í líkingu við Kaímaneyjar, Jersey og fleiri slíkar „paradísir“. Í þeim tilgangi braut hún niður allt eftirlit skattkerfis, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Bankarnir léku þar stórt hlutverk og var Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupthings m.a. formaður nefndar um alþjóðlega fjármálastarfsemi, ásamt þremur ráðuneytisstjórum, seðlabankastjóra, forstjóra BYKO og framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja svo fáeinir séu nefndir. Megintilgangur nefndarinnar var að búa til aðstæður fyrir einskonar aðalstétt, eða elítu, sem væri með skráð lögheimili erlendis en ynni hérlendis og nyti allrar þjónustu af hendi ríkisins—ex-patriates. Í þeim tilgangi yrðu m.a. settir á fót enskir einkaskólar fyrir börn elítunnar. Allt var þetta gert í því nafni að lokka útlendinga til landsins en að frátöldum félögum Sheikh Mohammed bin Khalifa Al-Thani í Katar hafa mjög fáir útlendingar fjárfest hérlendis í gegnum tíðina svo einhverju nemi.
Ekki verður betur séð að með því að velja þessa leið til að afnema gjaldeyrishöftin, það er að hafa krónuna og krónuhagkerfið fyrir hinn venjulega borgara en gjaldeyri og gjaldeyrishagkerfi fyrir elítuna sé verið að endurvekja þessar hugmyndir sem birtast í nefndaráliti um alþjóðlega fjármálastarfsemi: tvær þjóðir í einu landi. Þar með er orðið mjög óljóst hvað átt sé við með „almannahagur“ í 1. gr. frumvarpsins.
„Megintilgangur nefndarinnar var að búa til aðstæður fyrir einskonar aðalstétt, eða elítu, sem væri með skráð lögheimili erlendis en ynni hérlendis og nyti allrar þjónustu af hendi ríkisins—ex-patriates.“
Skattur er greiðsla, venjulega peningagreiðsla, sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila verða að gjalda til hins opinbera samkvæmt einhliða ákvörðun ríkisvaldsins eftir almennum, efnislegum mælikvarða og án sérstaks endurgjalds frá hinu opinbera. Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins eru skattskyldir aðilar þeir lögaðilar sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, sbr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og sæta slitameðferð, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, eða hafa lokið slitameðferð, sbr. 103. gr. sömu laga, vegna þess að héraðsdómur hefur úrskurðað að þeir skuli teknir til gjaldþrotaskipta. Með öðrum orðum er hér ekki farið eftir almennum efnislegum gæðum við ákvörðun álagningarinnar, heldur eru skattgreiðendur tilgreindir nákvæmlega í frumvarpinu. Það er að vísu tekið frama að þótt skattskyldir aðilar séu fáir, þá beinist skatturinn í reynd að þeim 50 þúsund kröfuhöfum sem eiga kröfu í áðurnefnd bú. Þetta er hins vegar mjög loðið og teygjanlegt, eins og reyndar allt frumvarpið, sem bendir til þess að stjórnvöld geri sér grein fyrir að ekki sé allt eins og þau vilja vera láta. Þessi grein yrði því væntalega grundvallarspurning, yrði málið tekið fyrir af dómstólum, færi það þá leið.
Að lokum má nefna 9. gr., um málsmeðferð fyrir dómstólum, en hún takmarkar málsskotsrétt skattskyldra aðila.
„Þetta er hins vegar mjög loðið og teygjanlegt, eins og reyndar allt frumvarpið, sem bendir til þess að stjórnvöld geri sér grein fyrir að ekki sé allt eins og þau vilja vera láta.“
Að framansögðu má vera ljóst að tilgangurinn með lögum um stöðugleikaskatt er hvorki sá að leggja hann á né að bæta samningsstöðu ríkisins við kröfuhafa, heldur er verið að rugla kjósendur í ríminu með sértækum aðgerðum. Ef stöðugleikaskattur yrði lagður á, færi málið fyrir dómstóla og þótt kröfuhafar ynnu málið má leiða líkur að því að slík málaferli tækju áraraðir, sbr. mál Guðmundar Guðmundssonar, og málaferlin myndu festa höftin enn frekar í sessi. Slík niðurstaða er fjármagnseigendum ekki þóknanleg.
Í frumvarpi um stöðugleikaskatt blanda stjórnvöld saman tveimur hugtökum: afnámi hafta og samkomulagi við kröfuhafa. Samskonar samkomulag við kröfuhafa hefur legið fyrir síðan 2012. Jóhanna Sigurðardóttir vildi hins vegar leysa höftin með almennum aðgerðum og gerði ráð fyir aðkomu ESB og AGS, og í framhaldinu upptöku evru, og þannig yrði losnað við krónuna og verðtrygginguna á einu bretti. Núverandi stjórnvöld gera hins vegar allt til að halda í krónuna og það efnahagsumhverfi sem hún skapar, sem skýrir dráttinn á samkomulaginu við kröfuhafa. Hér er því enn á ný gripið til sértækra aðgerða til „bjargar“ sjávarútvegi í anda sjötta áratugarins til þess eins að búa til tvær þjóðir í landinu, þar sem elítan hefur aðgang að ódýru fjármagni með gjaldeyrishagkerfinu, en hinir búa við verðtryggða krónu.
Jóhannes Hraunfjörð Karlsson, hagfræðingur og sagnfræðingu 1]
1] Greinin er byggð á óbirtu riti höfundar: Saga skatta og skattlagningar á Íslandi frá öndverðu til vorra daga; grein í veftímaritið, stjórnmál og stjónsýsla: http://www.irpa.is/article/view/1064, og MSc ritgerðar hans í hagfræði, Moulding the Icelandic Tax System: http://skemman.is/en/item/view/1946/19766. Sjá einnig frumvarp um stöðugleikaskatt: http://www.althingi.is/altext/144/s/1400.html
Athugasemdir