Játning: Ég sit í Stúdentaráði Háskóla Íslands.
Oftar en ekki er fólki sem ég tala við sama um þessa staðreynd. Sumum er jafnvel svo sama að þau hlæja eða gera grín og tala um það lengi hvað þeim er sama. Aðrir brosa kurteisislega og beina samtalinu annað í flýti. En seinustu mánuði, vikur og daga hefur þetta gjörbreyst. Fólk sem ég tala við um stúdentapólitík er forvitið. Skoðanasterkt. Spennt. Jafnvel reitt.
Þau tala aðallega um afstöðu ráðsins til frumvarps til laga um LÍN, en frumvarpið hefur heldur betur verið milli tannanna á stúdentum og öðrum upp á síðkastið. Þar hafa tveir pólar tekist á: „þetta frumvarp er til háborinnar skammar og einunigs byggt á sérhagsmunabaráttu fárra“ á móti „þetta er betra fyrir langstærstan hluta stúdenta, hættið að tefja og drífið þetta í gegn“. Merkilegt nokk ætla ég ekki að taka afstöðu til pólanna í þessum pistli. Þess í stað mun ég ræða þær forsendur sem ég hef getað unnið með þegar ég nálgast frumvarpið, hvaða ályktanir ég hef geta dregið út frá þeim forsendum og hvaða kröfur ég geri til sjóðsins.
Þegar kemur að því að ræða ríkisrekinn lánasjóð námsmanna eru ýmis sjónarmið sem takast á, og þarf að gæta þess að hugsa um málið út frá hagfræðilegum útreikningum – bæði fyrir einstaklinga og stærra samhengi – en jafnframt út frá samfélagslegu hlutverki og áhrifum sjóðsins.
Fyrst langaði mig að ræða greiningu SHÍ, ráðsins sem ég sit í, á frumvarpinu. Sú greining byggir á meðtali launa fólks í ákveðnum starfsstéttum og hversu hátt lán fólk í hverri starfstétt er venjulega að taka. Niðurstaðan er sú að 98% þeirra sem taki lán í núverandi kerfi sé betur borgið í boðuðu kerfi. En hvað er það sem þessi greining raunverulega segir okkur? Er þessi niðustaða réttmæt? Við skulum nú sjá.
Laun eru þess eðlis að hafa eitthvað lágmark, en ekkert hámark. Laun fara aldrei niður fyrir eitthvað ákveðið mark, en geta orðið himinhá og fyrir því eru (nánast) engin takmörk. Dreifni stakanna í þýðinu er því mjög ójöfn, minnir mig að maður segi. Ég gæti t.d. trúað því að Kári Stefánsson skekkti meðtal launa erfðafræðinga töluvert, hýfi hina örlagaríku meðaltalslínu upp yfir fjölmörg „stök erfðafræðinga“. Því segir meðtalið í þessu samhengi nánast enga sögu, þar sem meirihluti þýðisins er undir meðaltalinu. Niðurstaða greiningar SHÍ er því eftirfarandi: minnihluti starfstéttar, þau sem þiggja meðallaun eða hærri, kemur betur út í 98% tilfella. Leyfið mér að endurtaka: fólkið sem er með hlutfallslega há laun kemur oftar en ekki betur út. Þetta er ekki forsenda sem ég sætti mig við til að segja boðað kerfi vera betra.
Næst til umræðu er greining menntamálaráðuneytisins, sem ráðherra og fleiri grípa stundum til þegar þau eru ekki að notast við ofangreinda greiningu SHÍ. Sú greining ber saman núverandi kerfi við boðað kerfi. Í útreikningunum taka einstaklingar í núverandi kerfi 100% lán, upp að framfærsluviðmiði LÍN, en einhverra hluta vegna er lánið mun lægra í boðuðu kerfi, þrátt fyrir að framfærsluviðmiðið sé hækkað. Ef kafað er í þetta sést að menntamálaráðherra hefur gefið sér að námsmenn taki einungis lán upp á framfærsluviðmiði, að frádregnum bótum sem viðkomandi kann að eiga rétt á og námsstyrk sem kemur með nýju kerfi. Það er að segja: talan sem notuð er til að reikna út afborganir í frumvarpinu er mikið lægri en talan í núverandi kerfi, án rökstuðnings. Nú hef ég talað við fjölmarga stúdenta sem eru á námslánum og allir segja að sér finnist framfærsluviðmiðið allt of lágt. Hvort það muni bjarga stúdentum að hækka framfærsluna um nokkur prósent getur Illugi ekki gefið sér. Ekki nóg með það, heldur efa ég að fólk sem er með börn á framfærslu sé mikið að taka lægri lán en þeim stendur til boða, bara því það er með bætur. Sumt fólk hefur ekki efni á því að eiga lítinn pening. Það er kannski erfitt fyrir einhverja að skilja. Ef nám er vinna, þá er Illugi að gefa sér að fólk sætti sig við lægri laun af því að það fær bætur. Pant ekki fara í launaviðtal þar sem vinnuveitandi stingur upp á launum neðan við lágmarkslaun því ég er á barnabótum. Bæturnar eru þarna af ástæðu. Þótt reikningar menntamálaráðherra séu réttir eru þeir langt frá því að vera réttmætir. Þeir eru hreint út sagt villandi og byggja á hæpnum forsendum eins og sandkastali við sjávarmál. Ég get því miður ekki sætt mig við það.
„Pant ekki fara í launaviðtal þar sem vinnuveitandi stingur upp á launum neðan við lágmarkslaun því ég er á barnabótum“
Við erum að tala um að afnema tekjutenginu, sem hefur verið stoð og stytta þeirra sem eru tekjulágir þegar kemur að afborgunum, og að hækka vexti sem byrja að tikka um leið og skuldabréfi er lokað, sem kemur langverst niður á fólki sem tekur hátt lán (það eru oftast fólk sem börn á framfærslu, fólk í dýru námi og/eða fólk sem er lengi í námi). Ég spyr mig: af hverju ætlum við að sætta okkur við frumvarp sem kemur niður á fólkinu sem þarf mest á sjóðnum að halda? Hverjar eru kröfurnar okkar, sem hagsmunaafl stúdenta? Sem samfélag?
Ég sætti mig ekki við kröfuna „að sem flestir græði meira“. Ég vil kerfi sem kemur betur út fyrir flesta OG sér til þess að enginn verði skilinn eftir í drullusvaði. Það er ábyrgðarhlutverk lánasjóðsins. Ég fer ekki fram á minna.
Athugasemdir