Dovelyn Rannveig Mendoza, sérfræðingur á sviði fólksflutninga, á sér athyglisverða sögu. Hún er fædd á Filippseyjum en fluttist árið 1995, þegar hún var 16 ára gömul, til Íslands. Hér á landi vann hún til að mynda á veitingastað, hjá ORA, hjá Fönn og við heimilisþrif. „Ég kom með stóra drauma og minningar mínar af Íslandi, mörgum árum eftir að ég fór aftur, eru allt yndislega fólkið sem ég vann með,“ segir Dovelyn. Hún bjó á landinu um nokkurra ára skeið og býr raunar móðurfjölskylda hennar hér enn og vinnur verkamannastörf.
Dovelyn ber millinafnið Rannveig samkvæmt þágildandi mannanafnalögum hér á landi, sem kváðu á um að erlent fólk sem tæki sér íslenskan ríkisborgararétt tæki sér eitt íslenskt nafn til viðbótar eiginnafni sínu. Þrátt fyrir að hafa aðeins búið á Íslandi um nokkurra ára skeið kom henni það þó ekki til hugar að breyta nafni sínu aftur, enda upplifun hennar sem innflytjanda á Íslandi afar góð. Talar hún um Ísland og Íslendinga sem „okkur“ og „við“.
Þar sem upplifun Dovelyn af því að vera innflytjandi á Íslandi er einkar jákvæð var henni nokkuð brugðið þegar hún heyrði af því hvernig komið er fyrir þjónustu til handa erlendu starfsfólki í dag. Telur hún slíka þjónustu hafa verið betri fyrir um aldarfjórðungi síðan.
Athugasemdir