Sjö rússneskir mótmælendur hafa nú þegar verið dæmdir fyrir þátttöku sína í nýlegum mótmælum í Moskvu, og að hafa stuðlað að „fjöldaóeirðum“ í ólöglegri mótmælagöngu þann 27. júlí síðastliðinn. Fjölmenn og stigmagnandi mótmæli hafa átt sér stað á götum höfuðborgar Rússlands síðastliðnar vikur, eða eftir að ljóst varð að fjölmörgum frambjóðendum stjórnarandstöðunnar yrði ekki gert kleift að bjóða sig fram til þingsins í Moskvu. Dómstóll í Moskvu staðfesti þann 15. ágúst áframhaldandi gæsluvarðhald yfir sex mótmælendum, en þeirra á meðal var hinn 22 ára gamli stjórnmálafræðinemi Egor Zhukov sem hefur vakið athygli fyrir beitt myndbönd á Youtube þar sem hann gagnrýnir rússneskt stjórnarfar.
Málið hefur vakið athygli í Rússlandi en ekki síður utan landsteinanna. Þá hafa fjölmargir Rússar lýst yfir stuðningi við mótmælendurna, þar á meðal frægir tónlistarmenn á borð við hinn heimsfræga rappara Oxxxymiron, sem mætti einmitt fyrir dóminn í Moskvu þann 15. ágúst til að hlýða á úrskurðarorð dómarans en var gert að bíða fyrir utan. Þrír háskólanemar eru á meðal þeirra sem hafa verið í haldi en mál frjálslynda stjórnmálafræðinemans Zhukov hefur farið hvað hæst enda hafa kennarar, starfsmenn og samnemendur hans við HSE háskólann í Moskvu tekið sig saman og byggt upp öfluga hreyfingu honum til stuðnings. Dómara bárust alls 612 áfrýjunarbeiðnir í máli hans en þar af komu um helmingur frá fyrrnefndum samnemendum og samstarfsfólki.
Zhukov var meðal annars sakaður um að hafa með handahreyfingum sínum og bendingum stýrt hópi mótmælenda í Moskvu, en allt að átta ára fangelsisdómur liggur við brotinu. Saksóknarar drógu fram myndband þessu til sönnunar en verjendur Zhukov bentu á að hann hefði einfaldlega verið að reyna að beina fólkinu frá umferðarþungri götu. Zhukov ávarpaði dóminn úr fangaklefa sínum þann 15. ágúst og sagðist þakklátur rússneskum stjórnvöldum fyrir að hafa byggt undir málstað mótmælenda með harkalegum viðbrögðum. Blaðamaður Stundarinnar heyrði í tveimur samnemendum Zhukov í Moskvu í lok ágúst, þeim Victoriu Belaiu og Eugen Ocharov, og fékk að heyra meira um umrætt mál sem og mótmælin sem hafa geisað í landinu að undanförnu.
Uppfært þann 6. september: Ákæruvaldið hefur látið mál gegn sex mótmælendum niður falla, þar á meðal Egor Zhukov. Saksóknarar hafa hinsvegar opnað nýtt mál gegn honum fyrir að hafa breitt út „öfgastefnu“ á samfélagsmiðlum en hann gæti átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur. Þá hafa sjö mótmælendur verið dæmdir í allt að fimm ára fangelsi á síðustu dögum, meðal annars fyrir að tísta um börn lögreglumanna, taka ítrekað þátt í ólöglegum mótmælum, og/eða verjast handtökum. Umfjöllunin hefur verið uppfærð í samræmi við þetta.
Gagnrýndi stjórnvöld á Youtube
Sem fyrr segir þá er Egor Zhukov 22 ára gamall stjórnmálafræðinemi við HSE háskólann í Moskvu, en skólinn var stofnaður eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991 og er á meðal fremstu skóla Rússlands á sviði hagfræði og skyldra faga. Zhukov er ekki síst þekktur sem frjálslyndur bloggari og hefur vakið mikla athygli fyrir gagnrýni sína á Pútín og stjórn hans í myndböndum sem hafa fengið mikla dreifingu á Youtube þar sem hann er nú með 123 þúsund áskrifendur. Hann hugðist bjóða sig fram á þingið í Moskvu í kosningunum þann 8. september en í kjölfar vandræða við að safna undirskriftum dró hann framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við frambjóðendurna Dmitry Gudkov og Alexander Soloviev sem hafa farið fyrir sameinuðum lýðræðissinnum.
Athugasemdir