Uppsafnaður hagnaður tveggja íslenskra hótelkeðja síðastliðin sjö ár eru tæplega 3,4 og rúmlega 2 milljarðar króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í athugun Stundarinnar á ársreikningum stærstu hótelkeðja Íslands sem og umsvifamestu rútubílafyrirtækjunum sem yfirstandandi verkfallshrinur verkalýðshreyfingarinnar ná til. Á árunum 2010 til 2017 nemur uppsafnaður hagnaður hótelkeðjunnar Íslandshótela, sem meðal annars rekur Grand Hótel og Fosshótelin, 3.373 milljónum króna, og hagnaður KEA-hótela, sem meðal annars rekur samnefnt hótel á Akureyri, nemur 2.005 milljónum króna.
Þrátt fyrir mikinn hagnað í hótelgeiranum hafa eigendur hótela varað eindregið við launahækkunum starfsfólks. Verkföll meðal félagsmanna VR og Eflingar ná til þessara tveggja hótelkeðja meðal annarra.
Hvorki framkvæmdastjóri KEA-hótela, Páll L. Sigurjónsson, né framkvæmdastjóri Íslandshótela, Davíð Torfi Ólafsson, hafa gefið Stundinni færi á viðtölum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Athugasemdir