Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna reis hópur láglaunafólks upp gegn því misrétti sem þrífst í íslensku samfélagi með vitund og vilja stjórnvalda, þegar starfsmenn sem vinna við þrif á hótelum og gistirýmum fóru í verkfall undir formerkjum Eflingar.
Ill meðferð starfsfólks
Við höfum heyrt frásagnir starfsfólks af íslenskum hótelum og gistiheimilum.
Sara Qujakitsoq er 36 ára grænlensk kona sem kom til Íslands til að vinna á gistiheimili fyrir vestan á meðan hún safnaði sér fyrir námi. Á meðal verkefna hennar var að undirbúa morgunmat, þrífa herbergi, þvo þvott, bera fram hádegismat, innrita gesti og mála húsið að innan sem utan. Vinnudagurinn hófst klukkan sjö á morgnana og honum lauk um ellefu á kvöldin. Hún vann alla daga, líka um helgar. Stundum svaf hún á háaloftinu því það var víst ekki pláss fyrir hana annars staðar. Að launum fékk hún 270 þúsund krónur á mánuði. Yfirvöld höfðu afskipti af henni en hún sagðist vera kærasta eigandans, eins og hann hafði sagt henni að gera. Kvaðst hann ekki hafa hana í vinnu heldur væri hún vinkona hans sem innti stundum af hendi ýmiss konar viðvik fyrir hann. Frásögn hans stangaðist á við gögn málsins. Grunur kviknaði um að þarna væri um mansal að ræða en lögreglan taldi ekki ástæðu til að hefja rannsókn. Sara yfirgaf loks landið, búin að missa trú á Íslendingum.
Kristýna Králová kynntist eiganda Hótels Adam í Tékklandi, þar sem hann sannfærði hana um að fylgja sér til Íslands og hefja störf á hótelinu. Hann var seinna dæmdur til að greiða henni tæpar þrjár milljónir króna vegna vangoldinna launa. Viðurlögin voru engin, önnur en að greiða vangoldin laun. En það var ekki allt. Í samtali við Stundina lýsti hún aðstæðum sínum, því hvernig hún var látin sofa í sama rúmi og eigandinn, sem hefði ítrekað reynt að komast yfir hana. Hann hefði einnig sannfært sig um að hún yrði handtekin af lögreglunni því hún væri ólöglegur innflytjandi. Það hafði lengi verið draumur hennar að fara til Íslands, en dvölin snerist upp í martröð. Eftir að hún hætti að vinna fyrir Hótel Adam hóf hún störf hjá ræstingafyrirtæki en til að ná endum saman þurfti hún að vinna líka á veitingastað á kvöldin. Samt taldi hún saman klink til að komast af. Undir lok mánaðar þurfti hún að sleppa því að borða í tvo daga til að eiga fyrir strætisvagnafargjöldum til og frá vinnu. Til að seðja sárasta hungrið stal hún stundum brauði. Á þessum tíma deildi hún litlu rými með kærastanum sínum. Seinna endaði Kristýna í Kvennaathvarfinu vegna heimilisofbeldis, en helmingur þeirra sem leituðu þangað í fyrra voru konur af erlendum uppruna.
Í vettvangsferð verkalýðsfélagsins á Hótel Adam lýsti önnur kona því hvernig 80 þúsund krónur voru dregnar af laununum hennar fyrir leigu, en hún kvaðst einnig deila íbúð með eiganda hótelsins. Óskaði hún eftir aðstoð stéttarfélagsins. Hótelinu var lokað í kjölfar umfjöllunar.
Árið 2007 kom Wiktoria Joanna Ginter til landsins. Hún kom frá Póllandi og fékk starf sem þerna á hóteli í Reykjavík. Engir Íslendingar voru þar að störfum nema í móttökunni. Erlenda starfsfólkinu var gert að þrífa nýtt hótel sem var verið að opna, en lokað var fyrir vatnið svo starfsfólkið þurfti að bera fötur fullar af vatni úr einu húsi í annað, sagði hún. Hún greindi jafnframt frá því að starfsfólki hefði verið bannað að fara út í matarpásum og gert að snæða frosið brauð og egg yfir rúmum sem höfðu verið klædd plastdúkum. Hún sagðist hafa áttað sig á því þegar hún fór að ræða við samstarfsfólk sitt að laun þeirra væru langt undir kjarasamningum, en fólkið var of hrætt til að mótmæla því þar sem dvalarleyfið var bundið vinnustaðnum. Hún var að undirbúa mótmæli gegn þessu þegar hún var kölluð á fund yfirmanna og sagt upp störfum. Án þess að þekkja rétt sinn skrifaði hún undir, kastaði pennanum í yfirmanninn og skellti hurðinni á eftir sér.
Sögurnar eru miklu fleiri og flestar endurspegla þær virðingarleysi gagnvart starfsfólki. Þegar vinsælu hosteli í Reykjavík var lokað lýsti starfsfólkið framkomu eigenda. Helga Thoroddsen var ein þeirra sem þar stigu fram. „Einstaka sinnum rúlluðu þau við á rándýrum bílum, en þau gerðu sér aldrei far um að kynnast manni. ... Maður upplifir sig sem lítið láglaunapeð, sem fullkomlega „disposable“ fyrir þessu fólki.“ Fleiri hafa tekið í sama streng: „Litið er á starfsfólk hótelsins eins og einnota gúmmíhanska sem hent er í ruslið,“ sagði hótelstarfsmaður í samtali við Stundina. Á vinnustaðnum hafði skammarlisti yfir veikindadaga starfsfólks verið hengdur upp í almennu starfsmannarými og starfsmaðurinn sagðist vera orðinn þreyttur á að sjá samstarfsfólk sitt gráta vegna vanlíðanar í vinnunni, þar sem litið væri niður á þá lægst launuðu.
Niðurlægjandi viðmót
Ræstingafólk er sá hópur sem fær lægsta dagvinnukaupið, þrátt fyrir að sinna starfi sem fyrrverandi ræstingakona lýsti sem því „erfiðasta sem nokkur maður getur unnið“.
„Ræstingar eru að vera með bakverki, þurrar hendur eftir einnota hanska, bera þunga poka, ryksuga sveimandi bananaflugur og anda að sér alls konar hreinsiefnum,“ skrifaði Diljá Sigurðardóttir í grein þar sem hún lýsti reynslu sinni af starfinu fyrir Stundina. Niðurlægjandi starf, líkamlegt skítverk, sem líkt og önnur störf í sama flokki væri nauðsynlegt til að samfélagið færi ekki á hliðina, en þess eðlis að fólkið sem starfar við ræstingar verður gjarnan fyrir fordómum fólks sem lítur niður á þá sem sinna þessum verkum. „Það er meðal annars af þeim sökum sem þau eru gjarnan illa launuð og ekki metin að verðleikum, það er líkt og samfélagið telji störfin sjálf mikilvæg en fólkið ekki.“
„Það er líkt og samfélagið telji störfin sjálf mikilvæg en fólkið ekki“
Í frásögn hennar varð vanvirðingin áþreifanleg þegar hún lýsti því hvernig hún hrökklaðist á endanum inn í ræstikompuna með samlokuna sína í matartímanum til að forðast viðmót starfsfólksins á vinnustaðnum sem hún þreif daglega, vegna þess að það virti hana ekki viðlits og yrti aldrei á hana, nema þá helst rétt til þess að segja afsakið eða takk. Múrinn á milli þeirra var ósýnilegur en tilfinningin eins og hún væri ekki jafn mikils virði og aðrir.
Ein af þeim sögum sem var hvað sárast að lesa í metoo-byltingunni var frásögn erlendrar konu sem lýsti því þegar henni var nauðgað þar sem hún var ein að þrífa fyrirtæki að kvöldlagi, á gólfinu sem hún hafði skúrað kvöld eftir kvöld. Hann sagði að hún mætti ekki segja frá, „hann vildi bara prófa útlensk kona eins og mig,“ hún væri falleg og góð. Hún mætti aldrei aftur til vinnu en eftirmaður hennar fann umslag við skúringadótið. Í umslaginu voru 100 þúsund krónur. Eins og virði hennar sem manneskju væri þar fundið og metið.
Sjötíuföld laun verkamanns
Eflaust eiga margir erfitt með að tengja við stöðu þeirra. Ísland er land tækifæranna - fyrir suma, ekki alla.
Hér hefur skapast tvískipt samfélag þar sem hinir ríku verða stöðugt ríkari á meðan hinir lægst launuðu sitja eftir. Á meðan meðallaun Íslendinga hækkuðu um 19 prósent hækkaði tekjuhæsta eina prósentið tvöfalt meira, eða um 40 prósent. Í krónum talið jukust tekjur ríkasta eina prósentsins um sem nemur 70-faldri launagreiðslu verkamanns. Á þriggja ára tímabili, frá 2014 til 2017.
Ríkasta 0,1 prósentið samanstendur af eigendum og stjórnendum fyrirtækja, útgerðarmönnum, bankamönnum, fjárfestum og fólki sem seldi hluti í fyrirtækjum fyrir háar fjárhæðir. Hópnum tilheyra líka læknar, lögmenn, listamenn og erfingjar. Þetta er 330 manna hópur, sem árið 2016 fékk 60 milljarða, þar af voru 86 prósent fjármagnstekjur með aðeins 20 prósenta skattbyrði.
Að meðaltali var ríkasta 0,1 prósentið með 15 milljónir á mánuði árið 2016, 44 sinnum hærri tekjur en lágtekjufólk. Tekjulægsta fólkið sem tilheyrir 0,1 prósentinu fékk fimm milljónir á mánuði árið 2016, en verkamaður við neðstu tíundarmörk launa fékk að meðaltali einn fimmtánda þess, 347 þúsund krónur á mánuði. Lágtekjufólk væri 720 ár að vinna sér inn tekjur tveggja tekjuhæstu Íslendinganna 2016, sem höfðu selt útgerð á árinu og hagnast af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.
Þetta sama ár áttu ríkustu tíu prósent þjóðarinnar 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Á meðan hlutur þessa hóps jókst um 185 milljarða á árinu, jókst eigið fé allra hinna 90 prósent landsmanna um 209 milljarða. Um helmingurinn rann því til ríkustu tíu prósentanna.
„Lágtekjufólk væri hins vegar 720 ár að vinna sér inn þær tekjur sem tveir tekjuhæstu Íslendingarnir 2016 fengu“
Þegar fjármálaráðherra fullyrðir að „við höfum aldrei haft það jafn gott eins og í dag“, eiga orð hans við um ákveðinn hóp í íslensku samfélagi en ekki alla, og síst þá sem þarfnast þess mest allra að brugðist sé við stöðu þeirra.
Föst í fátækt
Í Reykjavík búa hundruð barna við fátækt. Þetta er hópur barna sem hefur ekki sama tækifæri til að skapa sér betra líf og önnur börn.
Börn sem alast upp við fátækt fara síður á leikskóla, eru ólíklegri til að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi, stunda ekki tónlistarnám og hafa almennt takmarkaðan aðgang að félagsneti og gæðum samfélagsins. Börn foreldra sem þurfa að þræla sér út í vinnu til að ná endum saman eru í meiri hættu á að vera afskiptalaus og njóta minni stuðnings en aðrir. Föt þeirra eru öðruvísi en jafnaldranna og þau skera sig úr, upplifa skömm og kvíða. Heilsufar þeirra er verra, bæði andlega og líkamlega og skólagangan erfiðari. Þau eru líklegri til að ljúka ekki framhaldsskólanámi og mæta í kjölfarið þeim hindrunum sem ómenntað fólk stendur frammi fyrir í íslensku samfélagi. Hætt er við því að þessi börn einangrist félagslega og koðni niður, án þess að ná nokkurn tímann að fullnýta hæfileika sína eða brjótast út úr fátækt foreldranna. Börn sem alast upp í fátækt eru líklegri en aðrir til að glíma við fátækt á fullorðinsárum og fram í ellina.
Sautján ára stúlka sem býr við sára fátækt sagðist í samtali við Stundina finna fyrir fordómum frá jafnöldrum vegna aðstæðna hennar. Hún átti aðeins eitt par af skóm og götótt föt. Fjárhagur fjölskyldunnar hafði snarversnað þegar móðir hennar veiktist af sjaldgæfum taugasjúkdómi og varð óvinnufær.
„Mér finnst það ekki lýsa þeim raunveruleika sem blasir við mér í íslensku samfélagi“
„Mér finnst það ekki lýsa þeim raunveruleika sem blasir við mér í íslensku samfélagi,“ sagði fjármálaráðherra í ræðustól Alþingis, inntur eftir svörum við því hvenær það væri hægt að útrýma örbirgð þeirra barna sem búa við fátækt. „Ég held að sá dagur muni seint renna upp að við getum sagt hér á þinginu að verkinu sé lokið,“ var svar Bjarna Benediktssonar.
Skattkerfi hinna ríku
Ein leið til að vinna gegn barnafátækt væri að hækka lægstu laun og draga úr skattbyrði þeirra.
En enginn einn hópur hefur grætt jafn mikið á íslenska skattkerfinu og ríkasta eina prósentið. Hvergi á Norðurlöndunum greiðir hátekjufólk eins lága skatta, en skattbyrði þessa hóps fór úr 42 prósentum niður í 23 prósent á árunum 2012 til 2016. Á sama tímabili jókst skattbyrði 80 prósent fjölskyldna á Íslandi; mest hjá tekjulægstu hópunum. Frá aldamótum hefur skattbyrði lágtekjufjölskyldna aukist meira á Íslandi heldur en alls staðar annars staðar í OECD-ríkjunum.
„Maður borgar bara þessa skatta og er hundfúll yfir því“
„Maður borgar bara þessa skatta og er hundfúll yfir því,“ sagði einn úr hópi ríkasta eina prósentsins, stjórnarformaður fasteignafélags, sem fékk meira en milljarð í fjármagnstekjur árið 2017.
Þingmenn og æðstu embættismenn tilheyra þeim tekjuhópi sem hefur fengið skattalækkanir á undanförnum árum, en flestir hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og grunnskólakennarar tilheyra þeim hópi sem hefur þurft að taka á sig auknar skattbyrðar. Laun grunnskólakennara hækkuðu um 118 þúsund krónur frá 2013 til 2017 en þingfararkaupið hækkaði þrefalt meira, um 416 þúsund krónur.
Án vitundar almennings voru laun þingmanna hækkuð sama dag og gengið var til alþingiskosninga. Hækkunin ein og sér nam 1,3 lágmarkslaunum.
Frostpinnar að launum
Manstu þegar það varð methagnaður í HB Granda og fiskvinnslufólkið fékk frostpinna að launum fyrir að tvöfalda afköstin? Á sama tíma og hluthafar skiptu á milli sín 2,7 milljarða arðgreiðslu og laun stjórnar voru hækkuð um 33 prósent, úr 150 þúsund í 200 þúsund á mánuði.
Þessi dæmisaga úr íslensku viðskiptalífi kristallar viðhorfið sem láglaunafólk hefur löngum mætt – að það sé lítils virði, skipti eiginlega engu máli, eigi ekkert betra skilið.
Þetta var árið 2015 og þótti sem blaut tuska í andlit verkafólks á Íslandi. Árið 2018 voru tæplega tveir milljarðar greiddir út í arð til hluthafa HB Granda, þar af 647 milljónir til félaga í eigu forstjórans og systkina hans, Guðmundar Kristjánssonar í Brim. Laun stjórnarmanna voru komin upp í 285 þúsund krónur, auk þess sem varaformaður fær einn og hálfan hlut, formaður tvo. Að jafnaði fundar stjórnin mánaðarlega, en fiskvinnslufólk sem er í fullu starfi og með fimm ára starfsreynslu fær 274 þúsund krónur í laun á mánuði. Sérhæft fiskvinnslufólk sem hefur tekið viðbótarnámskeið og starfað fyrir sama atvinnurekanda í sjö ár fær 287 þúsund krónur.
Staða ræstitækna er jafnvel verri. Þeir ná ekki einu sinni 250 þúsund krónum á mánuði.
Engin útgönguleið
Til að ná endum saman þarf barnlaus einstaklingur sem greiðir hvorki af húsaleigu né fasteignalánum að hafa 138 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt framfærsluviðmiði Umboðsmanns skuldara. Ofan á það bætist húsnæðiskostnaður, en það heyrir til undantekninga ef fátækt fólk á skuldlausar fasteignir, þvert á móti er þetta sá hópur sem er líklegastur til að festast á leigumarkaði.
„Hræðslan við að eiga aldrei heimili hefur áhrif á mig langt ofan í kjarna“
„Ég sé einn grundvallarmun á okkur,“ sagði Alma Mjöll Ólafsdóttir við vin sinn. „Þú munt fá aðstoð við að kaupa íbúð og losna út af þessum leigumarkaði en ég óttast að vera föst á honum að eilífu. Hræðslan við að eiga aldrei heimili hefur áhrif á mig langt ofan í kjarna.“
Alma sagði frá því hvernig það mótaði hana að alast upp í verkamannastétt í pistli sem birtist í Stundinni.
Í Breiðholtinu er 65 fermetra, tveggja herbergja kjallaraíbúð, til leigu á 180 þúsund krónur á mánuði. Á Leifsgötu er reyndar hægt að fá ódýrara húsnæði, 20 fermetra stúdíóíbúð til leigu á 160 þúsund krónur.
Móðir í fullu starfi, sem er með þrjár háskólagráður, lýsti því hvernig hún var að bugast á íslenskum leigumarkaði sem væri að murka úr henni lífið. Hvergi væri hægt að fá húsnæði til leigu á því verði sem hún réði við, með 300 þúsund krónur útborgað á mánuði. Hún sá fram á að þurfa jafnvel að flytja í iðnaðarhúsnæði með son sinn, en vildi ekki gera honum það.
Það er ekki að ástæðulausu sem þúsundir búa í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði í Reykjavík, þar af 860 börn. Munurinn á lágtekjuhlutföllum fyrir og eftir húsnæðiskostnað er með meira móti hér í samanburði við önnur Evrópulönd.
Íslensk kona um sextugt lýsti því í samtali við Stundina hvernig það væri að búa á efri hæð verkstæðis líkt og hún hafði gert undanfarin tvö ár. „Ef það myndi kvikna í þá eru engar útgönguleiðir,“ útskýrði hún. Verst væri þó að mæta afskiptaleysi stjórnvalda og hugsa til þess hvernig samfélaginu virðist almennt standa á sama um örlög hennar og annarra í sömu stöðu. „Það er bara þannig. Það er öllum sama.“
„Ef það myndi kvikna í þá eru engar útgönguleiðir“
Hagnast á leiguhúsnæði
Íbúðalánasjóður eignaðist fjölda fasteigna með nauðungaruppboðum í kjölfar hrunsins en lánaði fjárfestum milljarða til uppkaupa á eignum. Stór leigufélög kaupa sífellt fleiri eignir og hækka síðan leiguna um tugi prósenta, með þeim afleiðingum að leiguverð hækkaði um sextíu prósent á sex ára tímabili. Leigufélagið Heimavellir var aðeins hálft ár að hagnast um rúman milljarð og keypti þá fimm heilar blokkir til viðbótar.
Fleiri hafa séð tækifæri á leigumarkaði. Stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs á þrettán leiguíbúðir í tveimur leigufélögum. Fyrrverandi aðstoðarmaður félagsmálaráðherra er orðinn stórtækur fjárfestir í fasteignakaupum og keypti ellefu íbúðir með lánum frá Íbúðalánasjóði.
Dósent í hagfræði velti hins vegar upp þeirri spurningu hvort „ofsinn á samfélagsmiðlum“ hefði fælt fjárfesta frá og þar með hækkað leiguverð.
Upprisa láglaunafólksins
Stétt með stétt var eitt sinn slagorð Sjálfstæðisflokksins, eins og hér væri stéttlaust samfélag þar sem allir væru jafnir. Sú hugmynd var lengi útbreidd á meðal Íslendinga, enda ítrekað haldið á lofti á síðum Morgunblaðsins, samkvæmt rannsókn Guðmundar Ævars Oddssonar, doktors í félagsfræði. Sama stef mátti greina í málflutningi stjórnmálamanna.
Jafnvel þótt fólk gerði sér grein fyrir því að efnahagsleg staða fólks væri misjöfn þá töldu Íslendingar þjóðfélagið réttlátt og opið með tilliti til aðstæðna og tækifæra, að ójöfnuður væri einstaklingsbundinn fremur en félagslegt fyrirbæri. Slík viðhorf hafa í för með sér að sjálfsmynd fólks veltur meira á ákvörðunum þess en stéttarstöðu, eins og það geti sjálfu sér um kennt, sem er kannski rótin að skömminni sem fátækt fólk hefur borið. Skömm sem hefur ranglega verið haldið að fátækum vegna þess að fólk sem skammast sín fyrir stöðu sína er ólíklegra til þess að nota rödd sína og krafta til að rísa upp gegn óréttlætinu. Skömm sem þjónar engum nema helst þeim sem hagnast á neyð þeirra.
Yfirburðir hinna nýríku
„Það að búa við langvarandi fátækt hefur niðurbrjótandi áhrif á þá sem við þau kjör búa og skömmin, sem ætti að vera skömm samfélagsins, fylgir þeim,“ sagði Harpa Njálsdóttir, í umfjöllun um fátækt árið 2007. Á þeim tíma var nánast útilokað að fá fátækt fólk til að stíga fram undir nafni og mynd. Skömmin var of mikil og viðhorfið of fjandsamlegt, í samfélagi sem hampaði nýríkum Íslendingum sem hetjum og menn fengu ofurlaun því þeir þóttu svo einstaklega hæfir.
Jón Ásgeir Jóhannesson, Björgólfur Thor Björgólfsson, Róbert Wessmann og Sigurjón Árnason. Þetta voru menn ársins 2007 að mati Markaðarins, fylgiblaði Fréttblaðsins, í eigu Jóns Ásgeirs.
„Skömmin, sem ætti að vera skömm samfélagsins, fylgir þeim“
Meira að segja forsetinn ýtti undir hugmyndina um yfirburði þeirra sem voru við völd í íslensku efnahagslífi á árunum fyrir hrun. Í ræðum sínum gerði hann það að umtalsefni að mannkostir eins og vinnusemi, áræðni og kjarkur þessara manna - að þora þegar aðrir hika, væri grundvöllur velgengni þeirra. Síðar kom reyndar í ljós að margir helstu leikendur íslensks viðskiptalífs á árunum fyrir hrun ástunduðu svo vafasama viðskiptahætti að þeir fóru fyrir dóm og enduðu jafnvel í fangelsi.
Vandi ríka fólksins
Hinir ríku glímdu við sín vandamál, eins og Ármann Þorvaldsson lýsti í kjölfar hrunsins: „Fyrir hina nýríku Íslendinga skapaði velgengnin ný og áður óþekkt vandamál … Bílstjórinn var latur, heimilishjálpin þreif illa og barnfóstran ætlaði aldrei að vakna á morgnana. Börnin kvörtuðu undan því að vera alltaf að ferðast til staða eins og Courchevel, St. Tropex og Dubai og vildu frekar vera heima og fara út að hjóla. Val á vínum olli nú heilabrotum. Nokkrum árum áður drukku allir gin og tónik. Nú þótti hallærislegt að drekka rauðvín sem var yngra en maður sjálfur.“
„Bílstjórinn var latur, heimilishjálpin þreif illa og barnfóstran ætlaði aldrei að vakna á morgnana“
Það er kannski erfitt fyrir fólk sem lifir þessu lífi að skilja aðstæður þeirra sem eiga ekki fyrir mat, lyfjum eða fargjaldi í strætó. Barnshafandi konu sem sefur á gólfinu vegna þess að hún á bara lítið rúm fyrir barnið sitt. Konur sem greiða alla innkomuna í leigu og þurfa að leita annarra leiða til að brauðfæða börnin. Fólk sem getur ekki tekist á við óvæntan kostnað, eins og tannlæknakostnað eða bilun á þvottavél.
Fólk í þeirri stöðu hefur nú ákveðið að stíga fram og varpa ljósi á aðstæður þeirra sem lifa við fátækarmörkin. Um leið berst það fyrir réttlátara samfélagi. Af því að fátækt er ekki náttúrulögmál heldur pólitísk ákvörðun. Fátækt í samfélagi sem er ríkt af auðlindum er afleiðing ákvarðana stjórnvalda og samfélags. Það kostar hugrekki að breyta því, en er vel hægt.
Athugasemdir