Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Valdastéttin fékk tvöfalda launahækkun kennara og hjúkrunarfræðinga

Þann 31. mars næst­kom­andi losna 152 samn­ing­ar hjá ríki og sveit­ar­fé­lög­um. Stefnt er að enn frek­ari launa­hækk­un þing­manna og æðstu emb­ætt­is­manna þann 1. júlí þrátt fyr­ir að framúr­keyrsla und­an­far­inna ára hafi ekki ver­ið leið­rétt.

Valdastéttin fékk tvöfalda launahækkun kennara og hjúkrunarfræðinga
Hækkunin mest á toppnum Þingmenn og æðstu embættismenn hafa hækkað miklu meira í launum, bæði hlutfallslega og í krónum talið, heldur en ríkisstarfsmenn á borð við kennara og hjúkrunarfræðinga. Mynd: Davíð Þór

Þingfararkaup hækkaði um 60 prósent á árunum 2014 til 2017 og heildarlaun æðstu embættismanna ríkis og sveitarstjórna um 32 prósent. Á sama tímabili hækkuðu laun hjúkrunarfræðinga um 21 prósent og laun grunnskólakennara um 25 prósent. 

Þannig hefur þróunin verið samkvæmt upplýsingum úr launarannsókn Hagstofunnar þegar rýnt er í meðaltal heildarlauna fullvinnandi fólks eftir starfsstéttum með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs.

Samræmdar tölur um launaþróun stéttanna taka til þessara fjögurra ára en fram kemur á vef Hagstofunnar að von sé á sams konar gögnum sem nái lengra aftur í tímann.

Þótt laun þingmanna og æðstu embættismanna hafi hækkað umfram laun almennings á undanförnum árum og áratugum er gert ráð fyrir að þau hækki enn frekar þann 1. júlí næstkomandi samkvæmt frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um breytt fyrirkomulag launaákvarðana. Mun þá koma í hlut Fjársýslu ríkisins að uppfæra krónutölufjárhæðir til samræmis við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna. 

ASÍ hefur gagnrýnt fyrirhugaða hækkun harðlega og hvatt til þess að henni verði frestað; laun þingmanna og æðstu embættismanna verði látin standa í stað til að leiðrétta framúrkeyrslu undanfarinna ára. Slíkar kröfur hafa ekki fengið hljómgrunn hjá stjórnmálastéttinni. Viðkvæmar kjaraviðræður hafa staðið yfir undanfarnar vikur og bæði talsmenn atvinnurekenda og stjórnvalda hafa brýnt fyrir verkalýðshreyfingunni að stilla kröfum sínum í hóf, ellegar verði efnahagslegum stöðugleika ógnað. Þann 31. mars næstkomandi munu svo losna 152 samningar hjá ríki og sveitarfélögum.

Myndin birtist í úttekt Stundarinnar um kjör þingmanna í fyrra.

Uppi varð fótur og fit þegar kjararáð hækkaði laun þingmanna um 44 prósent, 338 þúsund krónur í einu skrefi, þann 29. október 2016. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hvatti þingheim til að hnekkja ákvörðuninni með lagasetningu og ákvað að gefa eigin launahækkun til góðgerðarmála. Alþingi kaus hins vegar að láta ákvörðun kjararáðs standa. Með því tryggðu þingmennirnir sér betri launakjör en kollegar þeirra á Norðurlöndunum, þingfararkaup sem var 75 prósentum hærra en meðalþingfararkaup í ríkjum Evrópusambandsins í janúar 2018. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Efnahagsmál

Verðbólga hækkar meira en væntingar gerðu ráð fyrir
FréttirEfnahagsmál

Verð­bólga hækk­ar meira en vænt­ing­ar gerðu ráð fyr­ir

Vísi­tala neyslu­verðs hækk­aði um 0,46% frá því í júní. Ár­s­verð­bólga mæl­ist nú 6,3 pró­sent en var kom­in nið­ur í 5,8 pró­sent síð­asta mán­uði. Það er meiri hækk­un en spár við­skipta­bank­anna gerðu ráð fyr­ir. Auk­in verð­bólga þýð­ir að minni lík­ur eru á því að stýri­vaxta­hækk­an­ir muni eiga sér stað á þessu ári eins og von­ast var til.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu