Krafan um skemmri vinnuviku er áberandi í íslensku samfélagi en undir hana hafa mörg stéttarfélög tekið undanfarin misseri, sem er vel. Má þar nefna BSRB, BHM, VR, Eflingu, ASÍ og hið nýmyndaða stéttarfélag Sameyki, stór félög og öflug. Á vegum BSRB, Reykjavíkurborgar og ríkisins hafa verið rekin tilraunaverkefni undanfarin ár um styttingu vinnuvikunnar sem hafa gefist vel, en nú eru um 2.000 manns sem taka þátt í styttingunni hjá Reykjavíkurborg, næstum 1 prósent vinnandi fólks á Íslandi. Tilraunaverkefnin gefa góða hugmynd um það sem hægt er að gera í samfélaginu öllu.
Gegn kröfunni um styttri vinnuviku berjast sérhagsmunasamtök atvinnurekenda og fjármagnseigenda harðlega og beita til þess ýmsum sérkennilegum rökum. Nú undanfarið er það Viðskiptaráð Íslands sem hefur hvað harðast beitt sér, en einnig hafa Samtök atvinnulífsins verið áberandi undanfarin misseri. Af málflutningi þessara samtaka er það helst að skilja að allt hrynji til grunna hér á landi ef vinnuvikan verður stytt. Þó stendur ekki til að stytta vinnutíma nema til þess sem gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar.
„Íhaldssemin sem Konráð boðar í þessu samhengi er tímaskekkja“
Undanfarið hefur orðið vart stefnubreytingar hjá hagfræðingi Viðskiptaráðs, Konráði S. Guðjónssyni, frá því sem var. Fyrir nokkrum mánuðum sendi Konráð umsögn til Alþingis fyrir hönd ráðsins þar sem öllum hugmyndum um styttingu vinnuvikunnar með löggjöf var hafnað. Nú er hins vegar komið nokkuð annað hljóð í strokkinn. Fyrir stuttu skrifaði Konráð eftirfarandi á Twitter-síðu sína: „Stytting vinnuvikunnar er góð og líklega rétt pæling fram á við. Það eru mikil lífsgæði fólgin í frítíma líkt og þeim tekjum og öðru sem vinnan veitir okkur. Einfaldlega spurning um jafnvægi.“
Það er hárrétt að jafnvægi skiptir máli hvað varðar vinnu og frítíma, en við hér á Íslandi stöndum okkur illa hvað það varðar – við komum að því aftur síðar. Hins vegar vill hagfræðingurinn ekki styttingu nú, heldur síðar, sem sést best á orðunum „fram á við“. Við það vil ég gera athugasemd því stytting vinnuvikunnar er löngu tímabær. Raunar ætti hún að vera fullkomlega gerleg miðað við hagsæld okkar og tæknistig. Íhaldssemin sem Konráð boðar í þessu samhengi er tímaskekkja.
Það er líka nauðsynlegt að kafa í röksemdir Konráðs en þær bera vott af hræðslu og erfiðleikum við að ímynda sér breyttan heim. Hvort tveggja er óþarft, sérstaklega í samhengi við styttingu vinnuvikunnar. Það er líka rétt að skoða hvað Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði gengur raunverulega til í andstöðu sinni.
Af hverju stytting vinnuvikunnar?
Áður en lengra er haldið er rétt að minna á af hverju stytting vinnuvikunnar er brýn í samtímanum. Vinnuvikan á Íslandi er lengri en í hinum norrænum ríkjunum, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, þrátt fyrir að við búum að öðru leyti við svipaða hagsæld og fólk í þessum löndum gerir.
Þá vinnum við einnig lengri starfsævi en fólk í sömu löndum. Þá er Ísland mjög neðarlega á lista OECD um jafnvægi vinnu og einkalífs, á meðan önnur norræn ríki skipa sér ofarlega. Má rekja það til langs vinnudags á Fróni (sjá OECD Better Life Index). Á Íslandi eru líka merki um að vinnutengd kulnun fari vaxandi. Það er því eftir miklu að slægjast hvað styttinguna varðar.
En þetta er ekki allt, því Ísland stendur sig mun verr hvað framleiðni varðar en nágrannaríkin. Í nágrannaríkjunum er framleiðnin meiri mæld í hverri vinnustund heldur en á Íslandi. Framleiðni í þessu samhengi merkir hversu mikil verðmæti eru sköpuð á hverri vinnustund. Léleg framleiðni er nátengd slæmu vinnuskipulagi, þreytu vegna ofvinnu og skorti á skipulagi vinnunnar. Ísland er ríkt land, ámóta ríkt og hin norrænu ríkin, hagsæld og tæknistig hér er svipað og því ekkert sem bendir til annars en að framleiðnin ætti að geta verið svipuð hér á landi og er í nágrannalöndunum. Það er hér sem íslenskt samfélag gæti tekið til hendinni, til að gera styttingu vinnuvikunnar mögulega sem allra fyrst. Við getum breytt skipulagi vinnustaðanna, starfsaðferðum sem tíðkast, innleitt nýja tækni og svo framvegis, en með því eykst framleiðnin. Við getum svo unnið skemur á móti. Með þessu getum við stytt vinnuvikuna áfallalaust.
Þetta er allt mögulegt, en ekki er sjálfsagt að hreyfing verði á nema að til komi þrýstingur, og sá þrýstingur gæti einmitt verið stytting vinnuvikunnar. Það hefur nefnilega sýnt sig ítrekað í vinnustaðarannsóknum að stytting vinnuvikunnar setur þrýsting á vinnustaðina um að auka framleiðni, en einnig hafa rannsóknir sýnt að fólk nær að hvílast betur, og ánægja með jafnvægi vinnu og einkalífs eykst við styttingu vinnuvikunnar. Þetta hefur meðal annars sýnt sig í tilraunum með skemmri vinnuviku hjá Reykjavíkurborg og ríkinu. Það er eftir miklu að slægjast fyrir íslenskt samfélag.
Er ástæða til hiks?
Eins og áður var nefnt virðist hagfræðingur Viðskiptaráðs vera sammála því að stytting vinnuvikunnar sé gagnleg, en hann virðist vilja fresta henni þar til síðar. Þetta er sama leið og við sem samfélag völdum að fara svo áratugum skipti í umhverfismálum, en nú er orðið ljóst að það var vægast sagt slæm hugmynd. Þótt vinnutímamálin séu af nokkuð öðrum toga en umhverfismálin, þá er þó þessi sama tilhneiging til staðar í báðum málefnum og það af sömu ástæðu: Allar þær breytingar sem þarf að gera – til að bjarga umhverfinu eða til að draga úr vinnu – eru sérhagsmunahópunum ekki að skapi og í þeirra huga alltof erfiðar, það verði því að fresta þeim til framtíðarinnar. En einhvern tímann hljótum við að segja: „Stopp, hingað og ekki lengra, þetta er okkar líf, okkar samfélag og okkar framtíð sem hér er um vélað – við, almennir borgarar, hljótum að hafa eitthvað um þetta að segja.“ Nú er sá tími vonandi upp runninn, bæði hvað varðar umhverfismálin og vinnutímann.
„Allar þær breytingar sem þarf að gera – til að bjarga umhverfinu eða til að draga úr vinnu – eru sérhagsmunahópunum ekki að skapi“
Það er nefnilega engin ástæða lengur til hiks og íhaldssemi hvað vinnutímann áhrærir, því við búum við ríkidæmi og tækni sem á að gera okkur kleift að vinna minna. Við þurfum bara að beisla hvorutveggja í okkar þágu.
Sem dæmi hefur tæknin gerbreytt öllum störfum í verslun, svo nú þarf ekki lengur að slá inn verð á vörum handvirkt, heldur eru notuð strikamerki sem gerir ferlið mun hraðvirkara. Einnig er allt utanumhald um lager og vörutalningu auðveldara en var því lagerhald er hluti af þeim rafrænu kerfum sem verslanir eiga og reka. Vinnudagur fólks í verslunum er þó enn langur, þrátt fyrir þetta, enda hefur afgreiðslutími verslana verið lengdur.
Í frystihúsum landsins er mjög lítið um að fiskur sé flattur í höndunum heldur eru komnar til sögunnar vélar sem fletja fiskinn nær sjálfvirkt. Þetta hefur haft í för með sér að mun færri þarf til að fletja fisk nú til dags heldur en áður var, en vinnustundir fólks í frystihúsum eru enn langar.
Í mjög mörgum störfum er enn krafist 40 stunda viðveru á viku, jafnvel þótt engin ástæða sé til þess, svo sem í skrifstofustörfum og í störfum þar sem vinnan felst í hugrænum úrlausnarefnum. Í flestum tilvikum er engin ástæða til að láta fólk hanga á vinnustaðnum til að fylla þessar 40 stundir, færri stundir duga oft. Þetta þekkja allir sem unnið hafa slík störf, þótt fáir segi það upphátt.
Þetta eru vissulega bara örfá dæmi, en það má líka varpa fram tölum sem sýna að það sama gildir um allt hagkerfið. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig vinnutími og framleiðni hefur þróast undanfarna áratugi á Íslandi. Vinnutími styttist verulega til um 1980, ásamt því að framleiðni jókst, en síðan um 1980 hefur framleiðnin tvöfaldast á meðan vinnutíminn hefur lítið styst. Við búum til næstum tvöfalt magn verðmæta nú á hverri vinnustund á við 1980, en vinnutíminn hefur sem sagt lítið breyst á móti. Það má því með sanni segja að við sem samfélag höfum lítt nýtt tæknina til að stytta vinnuvikuna undanfarna áratugi.
Við höfum hins vegar efnast mjög mikið frá um 1980 og er nú svo komið að við erum með ríkustu samfélögum veraldar. Tæknin hefur mjög verið beisluð í átt að því marki að gera okkur ríkari og ríkari, en áherslan hefur ekki verið á að draga úr löngum vinnudegi á Íslandi, jafnvel þótt fullt tilefni sé til. Krafan í samtímanum er að bæta úr því og beisla þessa miklu tækni sem við búum yfir í því augnamiði að gera fólki kleift að stytta vinnuvikuna.
Það er í sjálfu sér engin ástæða til hiks, enda erum við efnuð, efnahagsástandið gott og tæknin fyrir hendi. Að fresta skemmri vinnuviku nú myndi ekki bjóða upp á neinar jákvæðar breytingar heldur stöðnun. Og stöðnun á tímum langra vinnustunda, sjálfvirkni, kulnunar og mikillar hagsældar er til trafala og óþurftar. Þess vegna er íhaldssemin sem hagfræðingur Viðskiptaráðs ber á borð fyrir okkur hin fullkomin tímaskekkja.
Hvers vegna er andstaðan?
Andstaða Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins byggir á nokkrum rökum en þessi rök mörg hver má hrekja fremur einfaldlega. Skoðum nokkur rök gegn skemmri vinnuviku sem Konráð setti fram fyrir skemmstu, einnig á Twitter-síðu sinni.
„… í frumvarpi um styttingu vinnuvikunnar … er sagt að stytting vinnuvikunnar hafi skilað „jákvæðum hagtölum“. Það er algerlega úr lausu lofti gripið og þar að auki var hagvöxtur á mann að jafnaði meiri á árinu á undan en á árinu á eftir.“
Með „styttingu“ á Konráð við lög frá 1971 um 40 stunda vinnuviku, en frumvarpið sem hann nefnir er frumvarp Pírata um 35 stunda vinnuviku, sem lagt hefur verið fram ítrekað á undanförnum árum á Alþingi og ekki fengist samþykkt þar. Tölurnar sem hagfræðingurinn gefur í skyn að séu ótraustar koma úr opinberum gagnasöfnum og því varla hægt að segja að þær séu úr lausu lofti gripnar. Annars er það rétt að efnahagsástandið á Íslandi eftir 1970 var ekki hið glæsilegasta, enda hvarf síldin á árunum 1968 til 1969. Með hvarfi hennar hurfu um 40 prósent af útflutningsverðmætum landsins á afar stuttum tíma. Slíkt myndi valda verulegum vandræðum hvar sem er og verður líklega ekki hægt að kenna lögum um vinnustundir um slíkt ástand.
„Þess er rétt að geta að Samtök atvinnulífsins hafa beitt um margt sams konar málflutningi, en þau gleyma alltaf síldinni“
Konráð bendir enda ekki á neinar rannsóknir til stuðnings þessum fullyrðingum sínum, en þó eru þær fyrir hendi. Í ársskýrslu Seðlabanka Íslands árið 1970 er ekki minnst á vinnutíma eða lög þar um (enda ekki til komin enn), en nóg er fjallað um búsifjar og verðbólgu vegna hvarfs síldarinnar, sem hafði mjög alvarleg áhrif á hagkerfið í landinu. Þá hefur verið gerð seinni tíma rannsókn á vegum Seðlabanka Íslands á efnahagsumbrotum tuttugustu aldarinnar hér á landi, og sérstaklega verðbólgu og gjaldeyrisvanda landsins. Þar er hvergi minnst á títtnefnd lög, mikið er talað um hvarf síldarinnar hins vegar (sjá ritið The long history of financial boom-bust cycles in Iceland).
Þess er rétt að geta að Samtök atvinnulífsins hafa beitt um margt sams konar málflutningi, en þau gleyma alltaf síldinni. Þar held ég að sé ekki um að ræða ungæðishátt starfsmanna samtakanna, enda nokkrir þeirra sem muna sjöunda áratuginnn. Miklu fremur tel ég að um sé að ræða tyllirök. Menn tína til ýmsar staðreyndir og gögn sem henta þeim, horfa framhjá heildarmyndinni, og beita fyrir sig rökunum – ekki af því þeir trúa því sem þeir segja, heldur af öðrum ástæðum sem komið verður að síðar.
Rökin eru tyllirök
Snúum okkur þá að næstu röksemd Konráðs, en hún hefur með það að gera hvernig við aukum framleiðni til að stytting vinnuvikunnar gangi upp. Hann skrifar: „Setjum svo útflutningsgreinarnar í samhengi við styttingu vinnuvikunnar. Byrjum á fluginu, sem er grunnforsenda ferðaþjónustu. Hvernig á að auka framleiðni þar með styttri vinnuviku? Fljúga hraðar? Hafa færri flugliða sem þjóna hraðar? Bera töskurnar hraðar?“
Við fyrstu sýn virkar þetta sannfærandi, en þegar nánar er að gáð er það alls ekki svo. Í flugheiminum hefur framleiðnin aukist gríðarlega undanfarna áratugi, ef svo má að orði komast, og er nú meira af fólki á faraldsfæti en í kringum 1960. En það er ekki vegna þess að flugvélarnar fljúgi hraðar: Boeing 727-100 skreið af framleiðslulínunni árið 1963, og er kjörflughraði þessarar tegundar um 917 km/klst, á meðan kjörhraði Boeing 777-300ER er svipaður, og var sú tegund kynnt til sögunnar árið 2006. Millilandaflugvellir í heiminum, einkum þeim vestræna, anna mun meira af fólki nú en á sjöunda áratugnum, en ekki fljúga þoturnar hraðar. Ástæðan fyrir þessari aukningu fólksflutninga er að þoturnar eru stærri, flugvellirnir hafa breyst, sjálfvirknin er orðin mun meiri, minna er um vandkvæði, pláss er nýtt til hins ítrasta og svo framvegis. Þannig hefur allur töskuburður minnkað mjög, og eru töskurnar nú á dögum fluttar nær alfarið með færiböndum, nema kannski lokaspölinn af kerru og í flugvélarnar (og öfugt). Raunar eru breytingar að verða þar, líka.
Látum þetta duga, því þessar breytingar skilja trúlega flestir þegar nánar er að gáð og verða þá rök hagfræðingsins um aukinn flughraða heldur sérkennileg. Rökin eru tyllirök: Nytsamleg rök til að setja fram, án þess að nauðsynlega trúa þeim sjálfur.
Nokkuð ljóslega myndi styttri vinnuvika setja þrýsting á flugfélög og þjónustufyrirtæki þeirra um að breyta því hvernig þeirra starfsemi er háttað. Í stað þess að fljúga hraðar og bera töskur hraðar, þá yrði að innleiða nýja sjálfvirkni, breyta verkferlum, breyta vaktaplönum og svo framvegis, en þannig myndi myndast svigrúm til að stytting vinnuvikunnar gangi upp án viðvarandi aukins kostnaðar. Það er svona sem framleiðni er aukin. Höfum í huga að aukin sjálfvirkni getur aukið framleiðnina umfram það sem styttingin krefst, en þá hagnast fyrirtækin, ekki launafólk.
Eitthvað svipað ætti í raun að geta gilt um vel flest fyrirtæki, því aðeins örfá fyrirtæki nýta sér ekki tækni nú á dögum. Í flestum tilfellum þarf að leggja höfuðið í bleyti, stundum lengi, en oftast eiga að finnast leiðir.
Í raun og veru er sérkennilegt að Konráð beiti fyrir sig þeim rökum sem hann þó gerir, því það hefur legið fyrir mjög lengi að fyrirtæki sem starfa á mörkuðum bregðast við breyttum aðstæðum, hvort sem er aukinni samkeppni eða breyttum vinnutíma, með tækniþróun og hagræðingu. Það eru raunar helst forkólfar frjálshyggjunnar sem hafa hvað hæst um slíkar röksemdir, nema þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar, þá láta þeir eins og styttingin sé ómöguleg. Hvað veldur því?
Hin raunverulega ástæða andstöðunnar
Ég nefndi hér að framan að þau rök sem andstæðingar skemmri vinnuviku tefldu fram væru tyllirök. Tyllirök eru nefnd svo, því þeir sem halda þeim fram trúa þeim ekki, heldur notfæra sér þau – „tylla sér“ á þau – og vona að þau dugi til að sannfæra aðra. Oft býr eitthvað annað að baki sem er kannski ekki augljóst öðrum.
„Ef andstæðingar skemmri vinnuviku tapa orustunni um hana, þá vita þeir að þeir gætu þurft að sætta sig við að aðrir þættir okkar annars ágæta samfélags breytist, svo sem eins og skattheimta fyrirtækja og auðfólks, eða þá að misskiptingin kunni að minnka“
Í tilfelli Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands tel ég að raunveruleg ástæða andstöðunnar sé óttinn við að missa stjórn á stjórnmálunum og að bandalög launafólks geti farið að prófa sig áfram með nýja hluti, nokkuð sem þeim hefur ekki leyfst undanfarin tíu til fimmtán ár. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa farið með töglin og hagldirnar í þessu landi of lengi, þau hafa lagt línurnar um hvað vinnandi fólki leyfist að prófa sig áfram með, hvort sem það eru fleiri frídagar, hærri laun, skemmri vinnustundir eða bætt velferðarkerfi.
Ef andstæðingar skemmri vinnuviku tapa orustunni um hana, þá vita þeir að þeir gætu þurft að sætta sig við að aðrir þættir okkar annars ágæta samfélags breytist, svo sem eins og skattheimta fyrirtækja og auðfólks, eða þá að misskiptingin kunni að minnka. Þetta er þeim allt á móti skapi og gengur gegn þeirra pólitísku sannfæringu; í þeirra hugarheimi er auðurinn réttmæt eign þeirra sem eiga fyrirtækin, en ekki þeirra sem hann skapa – vinnandi fólks – og í þeirra huga á vinnandi fólk að vinna eins lengi og þóknast fyrirtækjunum, en ekki eins lengi og hentar vinnandi fólki og fjölskyldum þeirra.
Þetta geta Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins auðvitað ekki sagt, og þess vegna beita þau fyrir sig alls kyns misgóðum rökum, hvort sem fólkið sem vinnur fyrir þessi samtök trúir þeim eða ekki. Sumt af þessu annars prýðilega fólki trúir því áreiðanlega sem það segir, en örugglega ekki öllu.
Baráttan um skemmri vinnuviku er í raun og veru barátta um völd, völd yfir tíma og lífi vinnandi fólks. Við þurfum að leggjast á eitt um að fólk endurheimti meira af þeim tíma og lífi frá vinnunni, því lífið er okkar en ekki vinnunnar. Styttum vinnudaginn sem fyrst.
Athugasemdir