„Já, það er bara búið að aflima hana,“ segir Steinunn Gunnlaugsdóttir, listamaðurinn sem á heiðurinn af Litlu hafpulsunni, en skemmdir voru unnar á verkinu í nótt. „Kannski var þetta bara of mikil ögrun eða of óþægilegt fyrir einhvern,“ segir Steinunn sem hefur ekki hugmynd um hver getur hafa verið þarna að verki en bendir á að þetta hafi gerst í nótt. „Ég var að skoða myndefni frá vefmyndaþjónustu Mílu og þetta virðist hafa gerst mjög seint í nótt,“ segir Steinunn sem bendir á að upptökurnar séu of dimmar til þess að hægt sé að greina hvað nákvæmlega hafi gengið þarna á.

Verkið var afhjúpað þann 26. október og er framlag Steinunnar til Cycle listahátíðarinnar og 100 ára fullveldisafmælis Íslendinga. Það vakti gríðarlega mikla athygli, og var meðal annars fjallað um það í erlendum fjölmiðlum. Steinunn hefur sagt að Litla hafpulsan sé táknmynd fullveldis Íslands. Þá hefur hún áður unnið verk þar sem pulsa, þjóðarréttur Íslendinga, er notuð sem myndlíking við lýðræðið. Þannig hefur hún til að mynda sýnt myndbandsverkið Lýðræðið er Pulsa fyrir hverjar einustu Alþingiskosningar síðan árið 2009. Í samtali við Vísi í október, sagði Steinunn kosningar samsvara því þegar álegg eru valin á pulsu. Sinnep, remúlaði eða tómatsósa, allt sé þetta svipað og „cheap“.
Á sama tíma og pulsan var aflimuð í Reykjavíkurtjörn var uppljóstrari Klaustursupptakanna að stíga fram í Stundinni. Marvin heitir raunverulega Bára Halldórsdóttir og er fötluð hinsegin kona. Hún tilheyrir þannig öllum þremur hópunum sem urðu verst úti í samræðum sexmenninganna á Klaustri bar, og lýsir því í viðtali við Stundina í dag hvernig hún hafi ekki trúað sínum eigin skilningarvitum þegar hún heyrði þingmennina tala með þessum hætti um viðkvæma hópa samfélagsins, og brugðið á það ráð að setja á upptöku í símanum sínum.
„Það er bara eins og það sé búið að taka tittlinginn af karlmanni“
Erfitt er að líta fram hjá ýmsum tengingum sem vakna við þessa tvo atburði, það er aflimum hafpulsunnar annars vegar, og uppljóstrana Báru hinsvegar. Hvað les listamaðurinn sjálfur út úr þessu, ef eitthvað? „Ég geri alveg líka einhverjar tengingar þarna en ég átta mig ekki alveg heldur á því hvað þetta nákvæmlega merkir,“ segir Steinunn sem notað þó orðið „aflimun“ um verknaðinn. „Það er búið að aflima hana. Það er bara eins og það sé búið að taka tittlinginn af karlmanni.“ Hún bendir á að pulsan sjálf hafi verið tekin niður á meðan neðri partur verksins, sá sem tákni hið kvenlega, sé ennþá heill. „Það má alveg lesa eitthvað í það,“ segir hún og hlær.
Sem fyrr segir þá vakti verkið mikla athygli þegar það var afhjúpað, en á kommentakerfum fjölmiðla mátti meðal annars greina mikla reiði sumra sem furðuðu sig á því að verkið fengi að standa í tjörninni. Steinunn segir það í rauninni ekki koma sér á óvart að Litla hafpulsan hafi verið skemmd með þessum hætti. „Ég bjóst ekkert endilega við að hún myndi lifa svona lengi og ég vissi eiginlega að um leið og það myndi frjósa þá hlyti eitthvað að koma fyrir. Engu að síður þá fannst mér mjög mjög leiðinlegt að sjá hana svona lágreista í morgun.“

Hún bendir á að pulsan hafi verið varin af ísköldu vatni tjarnarinnar þar til fór að frjósa. „Málið var að vatnið var ógeðslega kalt, þannig að þú hefðir þurft að vaða alveg upp í mitti, þannig að það var kannski svolítið hennar vörn. En um leið og hægt er að labba að henni þá þarf kannski ekki nema eitt mjög gott karatespark,“ segir Steinunn sem ætlaði að láta taka verkið niður fyrir nokkrum dögum, en þá fraus aftur í tjörninni sem þýddi að það var of erfitt að athafna sig. „En kannski eru þetta bara örlög hafpulsunnar,“ segir listmaðurinn að lokum.“
Athugasemdir