Veruleiki kvenna er þessi:
Líkamar þeirra hafa verið leiksvæði karla. Þegar þær hafa risið upp gegn kúgun og ofbeldi hafa þær verið jaðarsettar og stimplaðar, beint eða óbeint, kallaðar druslur, geðveikar, lygarar. Lítið er gert úr þeim, atvikum og afleiðingum ofbeldisins.
Skömmu áður en hann var kjörinn til valda stærði forseti Bandaríkjanna sig af því að grípa í klof kvenna og komst svo upp með að afgreiða það sem karlatal – þegar flestar konur þekkja allt of vel að það er framkoma sem margir leyfa sér gagnvart þeim, að grípa í og þukla á kynfærum þeirra eða líkama, og nú nýlega náði stelpa undir lögaldri myndbandi af þjóðþekktum fullorðnum manni káfa samþykkislaust á klofi hennar.
Framþróunin í umræðunni eftir biskupsmálið, Myndina af pabba, Á mannamáli, beautytips-byltinguna, freethenipple, höfumhátt, metoo, allar þær þúsund konur sem hafa stigið fram, er sú að stúlkan fékk meiri stuðning en fordæmingar og hann axlaði ábyrgð.
Enn eru samt þeir sem spurðu meðal annars að því hví svo ung stelpa hafi verið úti svona seint, hvort hún hafi kannski verið drukkin, hún hefði líklega verið að daðra við hann, eins og það skipti einhverju máli. Svo voru þeir sem spurðu af hverju hún gerði ekkert til að stoppa hann í stað þess að taka hegðun hans upp á myndband, eins og það sé á hennar ábyrgð að stöðva hann en ekki hans að fá leyfi, virða mörk og halda sig innan hegningarlaga. Enn aðrir töluðu um að hann væri nú ekki verstur, til væru verri brot, þeir sem þau frömdu hefðu jafnvel ekki þurft að axla ábyrgð og hví hann? Eins og rangt verði rétt við það að til sé eitthvað annað og verra.
„Vitið þið hvað þið eruð að gera við ferilinn hans með því að pósta þessu?“
Eins og alltaf reis fólk upp til varnar gerandanum og þegar hann hafði beðist afsökunar mátti ekki tala meira um málið. Hann var allavega maður til að biðjast afsökunar. Þeir eru það ekki allir.
Reiðir karlar með samsæriskenningar
Klassísk viðbrögð geranda í kynferðisbrotamáli eru að þræta fyrir brotin, ráðast á alla þá sem bera sakir á viðkomandi, alla sem trúa þeim, teikna upp samsæriskenningar, sýna reiði og snúa hlutverkunum við, stilla sér upp sem fórnarlambi og gera þolandann að árásarmanni.
Munið eftir samsæriskenningu hæstaréttarlögmannsins þegar Egill Einarsson var kærður fyrir nauðgun?: „Femínistar hata Egil Gillz. Móðir stúlkunnar sem kærði viku eftir atvikið er í þeim hópi og áhrifamaður í VG. Tilviljun? Kannski. Ég hef aldrei verið trúaður á tilviljanir.“ Faðernismál þessa sama lögmanns varð seinna að byltingu kvenna gegn kynferðisofbeldi.
„Ég segi við þá sem eru að ofsækja mig: Vík burt. Hið illa er enn að verki.“
Freistingar, ofsóknir og hatur voru málsvörn Ólafs Skúlasonar biskups og boðbera kristni, þegar hann var sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn konum. „Freistingar hafa alltaf verið. Jesús sagði við freistara sinn: Vík burt, Satan. Hann þekkti hann. Hann sagði honum að fara. Ég ætla ekki að líkja mér við frelsarann Jesú Krist, en ég segi við þá sem eru að ofsækja mig: Vík burt. Hið illa er enn að verki.“ Líkti hann konunum, sem síðar fengu sanngirnisbætur frá kirkjunni, við hið illa, frásögn þeirra við samsæri, „þetta var eins og útspekúlerað, skipulagt,“ gerði lítið úr bæði þolendum og þeim sem studdu þá, setti fjárframlög kirkjunnar til Stígamóta í samhengi við ásakanirnar, stillti sér upp sem fórnarlambi, dró látna fjölskyldumeðlimi inn í umræðuna og kvartaði undan svefnleysi. „Hvílíkt hatur“ það væri í þeim sem vildu leggja slíkt böl á aðra, en hann hafði ekki aðeins kært þær til ríkissaksóknara heldur reyndi hann líka að biðja fyrir þeim.
Samsæriskenningarnar skorti heldur ekki hjá Brett Kavanaugh, sem hélt því fram fyrir öldungadeild bandaríska þingsins að ásakanir á hendur honum væru runnar undan rifjum vinstri manna og Clinton. Með tárin í augunum sagði hann að ásakanirnar hefðu tætt fjölskyldu sína í sundur, stillti sér upp sem fórnarlambi, missti stjórn á skapi sínu, laug og neitaði að svara spurningum. Alveg eins og biskupinn hafði gert mörgum árum áður, vísaði hann í gamla dagbók til að sýna fram á sakleysi sitt, ekkert var skráð um meint kynferðisbrot þar. Nokkrum dögum síðar var hann skipaður hæstaréttardómari í helsta stórveldi heimsins.
Reiðir karlar bregðast við ásökunum
Kona sem kærir nauðgun má eiga von á því að myndir verði birtar af henni að kyssa hann, daðra við hann, dansa við hann, á meðan stuðningsyfirlýsingum rignir yfir hann.
Fyrir dómi má gera ráð fyrir því að litið sé til þess hvort hún hafi gengið sjálfviljug inn í húsið þar sem hann nauðgaði henni, hvort hún hafi barist gegn honum, hagað sér rétt, fyrir, eftir og á meðan ofbeldinu stóð. Eins og það skipti máli.
Dirfist kona að segja frá því sem gerðist má hún eiga von á hótun lögmanna, kröfu um peninga, stefnu fyrir meiðyrði eða kæru fyrir rangar sakargiftir, jafnvel áður en rannsókn á ofbeldisverknaðinum hefur verið til lykta leidd.
Fuck you rapist bastard.
Það er ekki svo langt síðan kveikt var í bíl konu fyrir að skrifa bók um kynferðisbrot. Ein þeirra sem sakaði biskup um kynferðisbrot þurfti að flýja land vegna þess að samfélagið snerist gegn henni og öðrum sem sökuðu sama mann um slíkt hið sama. Enn styttra er síðan kona var ausin svívirðingum í kommentakerfi fjölmiðils við nafnlausa frétt um að sambýlismaður hennar hefði verið dæmdur fyrir að brjóta gegn henni. Í ljós kom að konan hafði sætt ofsóknum af hálfu fjölskyldu mannsins, sem taldi sig vita fyrir víst hvað gerðist þeirra á milli og leit svo á að maðurinn hefði farið saklaus í gegnum réttarkerfið og ranglega verið dæmdur, jafnvel þótt tölfræðin sýni að flestum málum er vísað frá og fari þau fyrir dóm eru helmingslíkur á sýknu.
Reiðir karlar afskrifa frásagnir kvenna
Þegar ekki tekst að þagga niður í þolendum eru þeir gjarnan gerðir að gerendum. „Hvaða kona sem er getur eyðilagt líf manna,“ sagði áhrifamaður í Repúblikanaflokknum og bætti því við að fólk ætti að sýna Kavanaugh samúð. Allar konur ættu feður, sumar ættu eiginmenn og syni, og væru líklega þeirrar skoðunar að þeir ættu að fá sanngjarna málsmeðferð.
Sú sem sakaði Kavanaugh um kynferðisbrot er hámenntuð, virt, í góðri stöðu. Hún er ein af þeim, en hún var kona.
„Það skiptir ekki máli. Við unnum.“
Með því að stíga fram sendi hún skýr skilaboð um að héðan í frá skiptir ekki máli hversu auðugur þú ert, hversu langt þú hefur náð, hversu mikið þú hefur afrekað, völdin munu ekki verja þig fyrir kynferðisbrotum. Um leið sendi hún skilaboð um að þótt þú hafir verið ungur og undir áhrifum þá munu ofbeldisverkin fylgja þér eins og skuggi. Fyrir vikið þurfti hún að flýja heimili sitt, þola líflátshótanir og ráða öryggisverði. Henni voru gerðar upp annarlegar hvatir, mál hennar stimplað sem pólitískar árásir og héðan í frá verður nafn hennar alltaf tengt myrkustu stundum lífsins.
Finnst þér þú hafa komið fram við hana af virðingu? spurði blaðamaður Trump.
Ég held það, já, ég gerði það.
En þú virðist ýja að því að hún hafi logið.
Ég ætla ekki að fara ofan í það … Af því við unnum. Það skiptir ekki máli. Við unnum.
Þetta voru skilaboðin frá forseta Bandaríkjanna, að frásögn hennar, sönn eða ekki, skipti ekki máli.
Enda hefur það ekki skipt máli þegar hann hefur sjálfur verið sakaður um að brjóta gegn konum, þegar hann hefur verið staðinn að því að stæra sig af því, hlutgera þær, lítillækka eða uppnefna. Horseface, sagði hann um konuna sem sagði þau hafa sofið saman skömmu eftir að hann eignaðist barn með eiginkonu sinni, og fengið greitt fyrir þögnina, og málið var afgreitt.
Almennt er vont að upplifa valdbeitingu, en það er jafnvel verra þegar þú getur ekki leitað réttar þíns, upplifir að reynsla þín sé höfð að engu, þér sé ekki trúað eða þú mætir mótlæti. Að þú skiptir ekki máli. Samt eru það skilaboðin sem samfélagið sendir þolendum alltof oft.
Reiðir karlar við stjórnvölinn
Hvaða skilaboð er annars verið að senda barnungum systrum sem saka föður sinn um kynferðisglæpi en eru samt skikkaðar af sýslumanni til að umgangast föður sinn fram á unglingsár, þar sem voðaverkin héldu áfram í þvinguðum heimsóknum? Þessar systur upplifðu sig réttlausar.
Það gerðu líka börn dæmds barnaníðings sem missti forræði yfir elstu dóttur sinni fyrir að níðast á henni, en hélt eftirlitslaust heimili með yngri börnum sínum og braut gegn þeim í skjóli nafnleyndar og aðgerðarleysis yfirvalda, þrátt fyrir viðvaranir fjölskyldumeðlima.
Þegar í ljós kom að þeir fáu menn sem dæmdir eru fengu síðan uppreist æru ráðuneytisins, án þess að þurfa svo mikið sem að biðjast afsökunar eða viðurkenna misgjörðir sínar, risu þolendur upp og kröfðust svara. Svörin bárust seint og illa, þáverandi forsætisráðherra hunsaði fyrirspurnir þeirra og dómsmálaráðherra braut upplýsingalög, áður en ríkisstjórnin féll vegna málsins. Ætli þessar konur hafi upplifað að þær skiptu máli þegar helsti kvenfrelsisflokkur landsins tók ákvörðun um að veita þeim sem reyndu með öllum ráðum að þagga niður í þolendum og umræðunni, uppreist æru með því að ganga í ríkisstjórnarsamstarf við þá?
Dómsmálaráðherra situr nú í umboði þeirra sem hafa helst barist fyrir jafnrétti og talar niður allar hugmyndir um kvenfrelsi, baráttuna gegn kynbundnum launamun og leggur fram frumvarp sem gerir það að verkum að nú þarf enginn uppreist æru lengur, brot þeirra sem beita kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum verða ekki upplýst, dómarnir verða ekki birtir í héraði og nöfn allra afmáð úr dómum. Hvernig er hægt að treysta dómskerfinu, þegar þú mátt hvorki vita hverjir eru dæmdir né hvernig dómar eru rökstuddir?
Reiðir karlar brjóta á börnum
Ofbeldi ógnar ekki aðeins lífi og heilsu kvenna heldur rænir það þær öryggistilfinningunni. Aðeins ein af hverjum fjórum konum telur sig örugga í miðborginni eftir myrkur, á meðan tveir af hverjum þremur körlum finna til öryggis.
Á meðan karlar óttast helst eignarspjöll óttast konur mun frekar innbrot og kynferðisbrot, eða 17 prósent kvenna og eitt prósent karla. Það er ekki að ástæðulausu. Stúlkur eru þrisvar sinnum líklegri en drengir til að verða fyrir kynferðisofbeldi í æsku, en talið er að ein af hverjum þremur til fjórum konum hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi fyrir átján ára aldur.
Jafnvel þótt ógnin sé veruleg er verndin takmörkuð.
Reiðir karlar ógna lífi kvenna
Nýlega gekk kona út af vinnustað sínum eftir símtal frá lögreglu þar sem hún var vöruð við því að fyrrverandi maðurinn hennar og ofbeldismaður væri í ójafnvægi að leita hennar. Hún fór snemma úr vinnu, sótti börnin og læddist bakdyramegin inn á heimilið, áður en hún lagði á flótta. Hún hefur ekki tölu á því hversu oft hún hefur þurft að flýja heimilið vegna hans, en lögregluskýrslur og áverkavottorð staðfesta ofbeldið sem hann hefur beitt hana. Beiðni hennar um nálgunarbann var hafnað.
Hún er ekki ein. Það sem af er ári hafa 1.245 heimilisofbeldismál verið til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og stefnir í metár. Karlar hafa tekið yfir líf kvenna með hótunum, ofsóknum og ofbeldi, með þeim afleiðingum að þær hafa lifað ótta, að nóttu sem degi. Margar hafa þurft að flýja heimili sitt, sveitarfélag eða land, í leit að skjóli. Stundin sagði nýlega sögu konu sem flúði land eftir að fyrrverandi maki hennar, sem áður hafði ráðist á hana og foreldra hennar, réðst á hana á körfuboltaæfingu sonarins. Beiðni hennar um nálgunarbann var hafnað, hún taldi sér ekki óhætt hér á landi og er nú farin.
„Ég lærði bara eitt af því og það er að leita aldrei nokkurn tímann til lögreglu aftur“
Árið 2015 fékk karlmaður fimmtán mánaða fangelsisdóm fyrir ítrekuð ofbeldisbrot gegn konu sinni og börnum. Hann var síðan dæmdur í nálgunarbann fyrir að reyna að keyra dóttur sína niður. Í kjölfarið lögðu börnin hans þrjú og móðir þeirra fram kæru á hendur honum, en nálgunarbannið hafði lítið upp á sig, annað en að konan missti trú á réttarkerfinu, því hann braut það ítrekað og án afleiðinga: „Ég lærði bara eitt af því og það er að leita aldrei nokkurn tímann til lögreglu aftur.“ Maðurinn hefur ekki enn verið kallaður inn til afplánunar en konan og börnin þurftu að flýja sveitarfélagið þar sem flestir tóku afstöðu með honum.
Á undanförnum tveimur árum hefur ein fengið 300 tölvupósta frá manni sem henti henni út af heimilinu á nærfötunum einum fata eftir grimmilega árás. Þetta kvöld rann upp fyrir henni að hjá honum væri hún í lífshættu. Lögregla var kölluð til og maðurinn umsvifalaust dæmdur í nálgunarbann, enda vettvangurinn blóðugur. Alls var maðurinn fimm sinnum dæmdur í nálgunarbann áður en málið var tekið fyrir í dómstólum, þar sem henni var gert að mæta honum. Réttur hans til að vera viðstaddur réttarhöldin var nálgunarbanninu yfirsterkari. Hann fékk níu mánaða dóm, en hefur ekki enn hafið afplánun. Síðast í apríl kærði hún hann aftur til lögreglu en hann var ekki kallaður til yfirheyrslu fyrr en í október. Ekkert hefur breyst.
Önnur fékk 300 skilaboð á dag, meðal annars með hótunum um barsmíðar og morð, áður en maðurinn lét verða af hótunum og var loks handtekinn.
„Auðvitað er fólk logandi hrætt,“ sagði fjölmiðlamaður í viðtali á dögunum. Um ótta karla við orðræðu femínista.
Reiðir karlar á gægjum
Reiðist konur vegna þessa ranglætis er reiði þeirra túlkuð sem staðfesting á ójafnvægi, notuð til að rýra trúverðugleika þeirra og gera marklausar í umræðunni, sjáið bara hvað hún er orðljót og klikkuð. Þær skulu sko skammast sín fyrir að tala illa um þá sem brutu gegn þeim, gerðu lítið úr brotunum og reyndu að réttlæta kerfið sem brást þeim, sögðu þeim hvernig þær áttu að hugsa, haga sér og líða. Öfgafemínisti sem þolir ekki að líkami hennar sé leikvöllur annarra.
Má bara ekkert lengur? Nei, þú máttir það aldrei.
Nýlega laumaði fyrrverandi hæstaréttardómari sér inn á lokað spjallsvæði kvenna, sá þar til þeirra sem ætluðu sér aldrei að bera sig fyrir honum, heyrði hvernig þær töluðu saman í trausti þess að þær væru þar einar og gætu óhræddar skipst á reynslu sinni og skoðunum, fengið útrás fyrir reiði sem þær ætluðu aldrei að bera annars á torg. Reiði sem beindist að dómskerfi sem brást þeim, samfélagi sem gerði lítið úr brotunum, og dómaranum fyrrverandi sem hélt því á lofti að þolendum myndi líða betur ef þeir bara fyrirgæfu gerendum sínum, á sama tíma og hann varði rétt síbrotamanns sem ruddist inn í vitund og líkama óharðnaðra unglinga og rændi þá trausti á sjálfum sér og lífinu, til þess að fá uppreist æru án þess að hafa nokkurn tímann beðist afsökunar á brotum sínum.
Er ekkert skakkt við þessa mynd? Kallar hún ekki fram nein hughrif um karl sem laumar sér inn í búningsklefa, vitandi að hann á ekki og má ekki vera þar? Myndum við reiðast honum eða þeim þegar hann greindi frá því að hann hefði nú heyrt þær baktala sig þar sem þær stóðu saman í sturtunni og reyndu að skola af sér skítinn, vonbrigðin, viðbjóðinn og reiðina?
Er rétt að afskrifa ástæður þess að þær reiddust honum vegna þess að á meðan hann lá á hleri og safnaði saman glósum í grein sem hann ætlaði að birta í dagblaði vinar síns varð hann var við ljótan munnsöfnuð á meðal þeirra? Skiptir samhengi hlutanna engu máli?
Mega konur aldrei reiðast?
Reiðir karlar ósáttir við spegilmyndina
Konur sem sumar hverjar hafa aldrei tekið þátt í opinberri umræðu áttu sér þarna griðastað, en hafa aldeilis fengið að kenna á því. Kona sem kallaði manninn kríp vegna framgöngu sinnar var nafngreind á stærsta vefmiðli landsins, og fékk í kjölfarið yfir sig holskeflu haturs og kvenfyrirlitningar. Mynd af andliti hennar var dreift á netinu þar sem hún var kölluð öllum illum nöfnum, brundfés, bitch, ófullnægð, spillt, geðbilað, drullupakk og viðbjóður, ógeð og kríp sem á að skammast sín og fara til andskotans.
Afhjúpun hæstaréttardómarans fyrrverandi var engin. Fólk talar illa um hvert annað á netinu.
Dæmi: Þegar Stundin greindi frá vafasömum viðskiptum þáverandi forsætisráðherra í aðdraganda hrunsins óskaði einn nafntogaður opinberlega eftir því að ritstjórnin yrði hengd fyrir hádegi á morgun.
Fyrir nokkrum árum síðan hélt Hildur Lilliendahl úti albúminu Karlar sem hata konur, þar sem hún birti internetið á internetinu, skjáskot af ummælum sem voru lítilsvirðandi gagnvart konum. Ummælin voru af misjöfnum toga, á meðan sum voru heimskuleg og hugsunarlaus, spruttu önnur af tortryggni gagnvart konum sem sögðu frá ofbeldi eða áreitni, en þarna voru líka grófari ummæli þar sem ljót orð voru viðhöfð um konur sem tóku þátt í opinberri umræðu, jafnvel hatursfull og í verstu tilvikum var hótað eða hvatt til ofbeldis gegn konum.
Saman myndaði albúmið eina heild, sakleysislegri ummæli urðu í samhenginu birtingarmynd kvenfyrirlitningar í samfélaginu. Endurspeglaði samantektin veruleika sem margar konur hafa reynt að lýsa í gegnum tíðina, allt frá því að borgarstjóri sagði borgarfulltrúa ekki nógu fallega, Siv Friðleifsdóttir var teiknuð upp sem dræsa í skopmynd fjölmiðils, Sóley Tómasdóttir fékk nauðgunarhótanir fyrir að tjá skoðanir sínar. Allar konurnar sem Gillz sagði að það þyrfti bara að senda einn harðan á og voru stimplaðar húmorslausar og leiðinlegar.
Reiðir karlar refsa reiðum konum
Fyrir vikið varð Hildur ein hataðasta kona landsins. Kjörinn fulltrúi kvenfrelsisflokks kallaði hana fasista, ógeðfellda og andlega sjúka, á opinberum vettvangi. Aðrir töluðu um hana sem „öfgafemínistatussu“. „Vá hvað Hildur Lilliendahl er fucking veik í kollinum. Ég er búinn að skoða nokkur af þessum kommentum sem eru á þessari síðu og mest megnis er verið að benda á hvað svona öfgafemíniskar hórur eru ILLA gefnar … hún virkar álíka skörp við að skoða þetta og meðlimir í KKK.“
Almennt er samfélagið fljótt að fyrirgefa þeim sem biðjast afsökunar á misgjörðum sínum. En þegar upp komst að Hildur hefði sjálf ástundað netníð nokkrum árum fyrr sendi hún frá sér afdráttarlausa afsökunarbeiðni. „Við öll þau sem ég hef sært og meitt vil ég segja fyrirgefðu.“ Afsökunarbeiðni hennar dugði skammt, engin krafa var um að málið þagnaði þá þegar, eins og þegar fullorðinn þjóðþekktur maður baðst afsökunar á því að hafa vaðið samþykkislaust í klof unglingsstúlku. Enn í dag þykir réttlætanlegt að ausa Hildi auri, eins og hún hafi kallað það yfir sig með því að reiðast yfir ranglætinu.
Skilaboðin eru skýr. Ekki reiðast, umfram allt ekki tjá þá reiði. Réttur karla til að brjóta gegn konum og viðhalda kerfi sem bregst, er meiri en réttur kvenna til að reiðast vegna þess. Það góða er samt að þótt þöggunartilburðirnir svíði þá munu þeir aldrei aftur hafa sömu áhrif og áður. Kallið konur ímyndunarveikar, athyglissjúkar, fégráðugar. Segið þær móðursjúkar, dramatískar, húmorslausar eða hörundssárar. Afskrifið þær sem femínista- eða „öfgafemínistatussur“, en vitið samt að þær munu ekki þagna. Til þess erum við komin of langt. Reiðin er ekki aðeins réttlætanleg heldur drifkraftur breytinga og rökrétt viðbragð við ranglæti.
* Hér er talað um konur, en átt við alla þá sem hafa þurft að berjast við úrsérgengnar og afdankaðar hugmyndir um ofbeldi og kúgun, hvort sem það eru konur, karlar eða lítil börn. Talað er um karla sem gerendur, jafnvel þótt konur geti líka verið gerendur, af því að langoftast eru þeir karlar. Með því er ekki sagt að allir karlar komi fram með þessum hætti.
Athugasemdir