Ég ákveð að fá mér eitt rauðvínsglas á lókalnum fyrir lokun og svo í háttinn. Þetta hljómar eins og einfalt plan, en það er sjaldnast að hlutirnir fara samkvæmt áætlun. Glasið kostar átta pund, næstum íslenskir prísar, en þetta er í miðborg Lundúna og maður lætur sig hafa það að borga jafn mikið og á Ölstofunni.
Ljósin blikka um miðnætti og ég fer út að reykja. Ljóshærð kona að nálgast miðjan aldur gengur upp að mér og spyr mig hvaða lag hafi verið í fyrsta sæti þegar ég fæddist. Ég rifja það upp að Sex Pistols hafi verið að byrja um svipað leyti. Hún er fljót að leiðrétta þetta. „Don‘t Go Breaking My Heart“ með Elton John og Kiki Dee, segir hún og starir á símann. Þar höfum við það.
Athugasemdir