Fjölskylda forsetans rakar inn milljörðum eftir embættistökuna

Er­lend­ir að­il­ar dæla fjár­magni inn í fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta og barna hans.

Fjölskylda Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur hagnast um meira en 800 milljónir dala, eða tæplega 100 milljarða króna, á sölu sýndareigna (crypto) á fyrstu sex mánuðum ársins 2025, samkvæmt ítarlegri úttekt Reuters.

Mikill hluti tekna kom frá erlendum aðilum, á sama tíma og synir forsetans, Eric Trump og Donald Trump Jr., kynntu fyrirtækið World Liberty Financial (WLF) á fjárfestingarráðstefnum í Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu. 

Reuters segir að tekjur Trump-fyrirtækjanna (Trump Organization) hafi 17-faldast eftir embættistöku Trumps. Þær hafi verið 864 milljónir dala á fyrri helmingi ársins 2025, samanborið við 51 milljón á sama tímabili í fyrra. Þar er um að ræða raunverulegt fjárflæði, en ef tekið yrði tillit til hagnaðar á pappírunum gæti verið um mun hærri fjárhæðir að ræða.

Af þessu voru 802 milljónir dala, eða rúm 90%, tengdar verkefnum fjölskyldunnar með sýndareignir, þar á meðal sölu á WLFI-táknum, sem eru svokölluð stjórntákn sem veita rétt á aðild að ákvarðanatöku, meðal annars tillögurétt og atkvæðarétt í World Liberty Financial. Að auki áætlar Reuters að fjölskyldan hafi þénað um 336 milljónir dala á sölu „meme-mynta“ undir heitinu $TRUMP. Útreikningar Reuters byggja á opinberum fjárhagsupplýsingum, fasteignagögnum, gögnum úr dómsmálum og viðskiptagögnum á markaði fyrir sýndareignir.

Á meðal stærstu einstakra viðskipta voru yfirlýst kaup fyrir 100 milljónir dala á WLFI-stjórntáknum af hálfu samtakanna Aqua1 Foundation í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 26. júní. Samkvæmt Reuters fær fyrirtæki tengt Trump Organization 75% af tekjum af sölu WLF. 

Reuters greinir frá því að Eric Trump, sonur forsetans, hafi í maí hitt kínverskan viðskiptamann, Guren „Bobby“ Zhou, í Dubai. Zhou, sem gegnir hlutverkum í nokkrum fyrirtækjum. Hann er til rannsóknar í Bretlandi vegna gruns um peningaþvætti, samkvæmt bresku National Crime Agency og skjals hjá Royal Courts of Justice. Í yfirlýsingu til Reuters sagðist félag að nafni Aqua Labs Investment LLC, sem lýsir Zhou sem stofnanda, vera Abú Dabí-eining Aqua1 Foundation og að fjárfesting Aqua1 í WLFI hafi verið viðskiptaleg ákvörðun. Eric Trump og Aqua1 Foundation svöruðu ekki beiðnum Reuters um viðbrögð.

Boðuðu vettvang fyrir jafningjalán

Á vefsíðu WLF hefur fyrirtækið kynnt ýmis áform, meðal annars innlánsforrit og lánaþjónustu með tryggingu í sýndareignum, en Reuters segir að aðalvara félagsins — vettvangur fyrir jafningjalán sem ætti að keppa við hefðbundna banka — hafi ekki litið dagsins ljós. Þá segir í umfjöllun Reuters að WLFI-tákn veiti eigendum takmörkuð stjórnunarréttindi, og $TRUMP-myntin sé fyrst og fremst safngripur sem endurspegli vinsældir nafnsins. 

Lögfræðingur WLF, Timothy Parlatore, sagði í bréfi til Reuters að WLFI-táknin væru ekki verðbréf heldur „stafræn eign með raunverulegt notagildi,“ og að áætlanir um virði og tekjur væru „rangar og villandi.“ Hann gaf ekki frekari tæknilega útskýringu á ávinningi handhafa táknanna. 

Fordæmalaus hagsmunaárekstur

Siðfræðingar með áherslu á opinbera stjórnsýslu telja samspil verkefna fjölskyldunnar í sýndareignum og opinberrar stöðu forsetans til að móta reglur á sviði sýndareigna skapa fordæmalausan hagsmunaárekstur í samtímasögu Bandaríkjanna — þó að ekkert staðfesti ólögmæt fyrirheit um aðgang eða ívilnanir gegn fjárfestingu. „Þetta er löglegt en ósiðlegt,“ sagði Richard Painter, fyrrverandi siðaráðgjafi Hvíta hússins undir George W. Bush. Hvíta húsið hefur ítrekað hafnað því að hagsmunaárekstur sé fyrir hendi og vísað á að forsetinn hafi sett fyrirtækin í sjóð undir stjórn barna sinna þegar hann tók við embætti. 

Verð WLFI-tákna hefur verið sveiflukennt. Eftir að viðskipti hófust 1. september hækkaði verðið í upphafi en lækkaði síðan skarpt. Reuters greindi í kjölfarið frá því að hluti tákna stórkaupanda, Justin Sun, hefði verið frystur á meðan takmarkanir gilda um endursölu stofnfjárfesta.

Flestir erlendir

Reuters segir að stór hluti fjárfestanna sé erlendur. Greining Nansen fyrir Reuters á 50 stærstu veskjunum með sýndareignirnar 15. september benti til þess að 36 þeirra væru líklega tengd erlendum kaupendum.

Bandarísk veskjaeign var að mestu bundin við Nasdaq-skráða Alt5 Sigma, sem safnaði fjármagni til að kaupa um 7,5% af heildarframboði WLFI-tákna, en sú aðgerð skilaði Trump-fjölskyldunni verulegu reiðufé, óháð þróun hlutabréfa Alt5 eftir á.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Bandaríki Trumps

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár