Vegagerðin telur að betra sé að fyrirhuguð Sundabraut verði brú heldur en göng, ef tekið er mið af markmiðum. Verði vilji Vegagerðarinnar að veruleika mun borgin við Sundin, eins og Reykjavík er kölluð, liggja við brúuð Sund.
Sundabraut mun liggja frá Sæbraut að Kjalarnesi og er henni ætlað að létta á umferð á öllum norðurhluta höfuðborgarsvæðisins og stytta ferðatíma, fyrir alla ferðamáta. Verktíminn er áætlaður frá 2026 til 2031, en verkefnið er ennþá í matsferli.
Til athugunar er að leggja Sundabraut annað hvort sem brú eða sem göng yfir í Grafarvogshverfi, en Vegagerðin tekur í dag afstöðu gegn göngum.
„Jarðgöng ná síður að uppfylla öll þau markmið sem sett hafa verið sem leiðarljós undirbúnings framkvæmdarinnar,“ segir í umfjöllun Vegagerðarinnar.

Göngin á 80 metra dýpi
„Kostir jarðgangalausnarinnar eru að áhrif ásýndar eru minni og þau viðhalda betri samfellu milli byggðar í Grafarvogi. Einnig verða íbúar næst brautinni fyrir minni áhrifum þar sem umferðin er neðanjarðar,“ segir í umsögn Vegagerðarinnar, en um leið er bent á gallana. „Gangamunnar þurfa mikið rými, sem takmarkar möguleika á að tengja þá fyrirliggjandi mannvirkjum. Til þess að tryggja öryggi jarðganga þurfa þau að vera um 40 metrum undir föstum sjávarbotni. Sundagöng undir Kleppsvík yrðu því á um 80 metra dýpi undir sjávarmáli þar sem þau fara dýpst. Til þess að tryggja öryggi vegfarenda mega jarðgöng ekki vera of brött, m.a. vegna brunahættu. Fyrir hverja 20 metra sem niður er farið lengjast göngin því um að lágmarki 400 m í báða enda miðað við lárétt yfirborð,“ segir Vegagerðin.
Brú munu hins vegar bjóða upp á mismunandi fararmáta, það er að segja göngu og hjólreiðar.
„Sundabrúin gerir ráð fyrir styttri og beinni tengingum við hverfið og býður þannig upp á fleiri aðkomuleiðir að Sundabrautinni. Með þessu styttist ferðatími Grafarvogsbúa og dregur úr umferð innan hverfisins, samanborið við jarðgangakostinn. Þá mun brúarlausnin létta meira á umferð um Gullinbrú en jarðgöng myndu gera, samkvæmt greiningum, og þar af leiðandi fremur létta á umferð á Höfðabakka en jarðgöng.“
Kynningarfundir framundan
Í framtíðarsýn Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að Reykjanesbraut, Sæbraut og Sundabraut myndi saman „skilvirkt og vel tengt stofnvegakerfi sem tryggi gott umferðarflæði um meginleiðir höfuðborgarsvæðisins“. Sundabraut verður stofnvegur sem tengir Norðurland og Vesturland við höfuðborgarsvæðið.
Undirbúningur miðar að því að verkefnið verði boðið út sem samvinnuverkefni og fjármagnað með gjaldtöku af umferð.
Í undirbúningi eru opnir kynningarfundir vegna væntanlegrar umhverfismatsskýrslu vegna Sundabrautar í Reykjavík, Mosfellsbæ og á Akranesi, auk þess sem drög að aðalskipulagsbreytingum í Reykjavík verða kynnt. Gert er ráð fyrir að umhverfismatsskýrslan verði birt í samráðsgátt Skipulagsstofnunar í næstu viku.

Guðlaugur Þór gagnrýnir Sundabraut
Umfjöllun Vegagerðarinnar kemur í kjölfar þess að Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður úr Grafarvogi, segir í umfjöllun Morgunblaðsins í dag að eðlilegt sé að skoða að grafa Sundagöng, frekar en að brúa. Vegalengd yfir í Grafarvog og alla leið í Mosfellsbæ yrði ígildi ferfaldra Hvalfjarðarganga.
Guðlaugur segir í samtalið við Morgunblaðið að Sundabraut muni klippa Grafarvogshverfið í sundur. „Viðbrögð fólks í þessum hverfum við Sundabraut eins og hún er hugsuð nú hafa verið mjög neikvæð. Það vilja þó allir tenginguna en margir hafa áhyggjur af útfærslunni,“ segir hann.
Athugasemdir