„Það var enga vernd að fá“

„Við sitj­um eft­ir í sorg, horf­um yf­ir sögu son­ar okk­ar og klór­um okk­ur í höfð­inu. Eft­ir stend­ur spurn­ing­in: Hvað gerð­ist?“ seg­ir Hjör­leif­ur Björns­son, en son­ur hans, Há­varð­ur Máni Hjör­leifs­son, svipti sig lífi þann 2. sept­em­ber, að­eins tví­tug­ur. Feðg­arn­ir voru báð­ir áhuga­menn um tónlist, greind­ir með ADHD og glímdu ung­ir við fíkn, en eitt greindi þá að. Há­varð­ur var brot­inn nið­ur af kerfi sem hann féll ekki inn í.

„Það var enga vernd að fá“

„Alkóhólismi hefur litað líf mitt ótrúlega mikið frá því að ég var lítið barn,“ segir Hjörleifur, sem ólst upp við alkóhólisma föður síns. „Ég þurfti að horfa upp á veikindi föður míns, ég gekk sjálfur í gegnum þessi veikindi og horfði síðan á son minn veikjast mjög alvarlega. Auk þess sem ég hef séð á eftir vinum sem létust af völdum þessa sjúkdóms. Alkóhólismi hefur því verið stór partur af mínu lífi,“ segir Hjörleifur. Hann þekkir því betur en margir hvað má betur fara í þessu kerfi sem hér hefur verið reist.

„Þegar þú reynir að átta þig á því hvers vegna þessu ástandi er leyft að viðgangast þá hljóta fordómar fyrir þessum sjúkdómi að vera ein ástæðan fyrir því. Börn sem eru neyðarvistuð á Stuðlum eru börn sem eru orðin veik af fíkn.“ 

Slíkum vanmætti, skilningsleysi og fordómum fylgir jaðarsetning og skömm. Skömm sem er þungt að bera. „Skömmin er hluti af þessum sjúkdómi. Ég er heppinn að vera hluti af stórum og breiðum hópi fólks sem hefur náð sér af þessum sjúkdómi, hef unnið það mikið í sjálfum mér og á það mikið af góðum vinum og fjölskyldu þar sem þessi mál eru rædd opinskátt að ég er laus við skömmina. Það var rosalega gott að losna við skömmina, því það á enginn að skammast sín fyrir að vera veikur. Sem barn átti ég ekki heldur að þurfa að bera skömm vegna þess að pabbi minn var veikur. En það gerist í þessum aðstæðum. Skömmin tengist því kannski að skilja ekki hvað er að gerast og eins ef það er ekki mikla hjálp að fá.“ 

Það er nógu erfitt fyrir barn að alast upp við alkóhólisma, hvað þá að þurfa að bera slíka skömm með sér út í lífið. „Það hefur erfið áhrif á barnshjartað að sjá foreldri sitt undir áhrifum, sjá það hverfa til lengri eða skemmri tíma og upplifa ítrekuð áföll vegna þessa sjúkdóms. Það er ofboðslega erfitt að alast upp við alkóhólisma. Ég var heppinn að eiga móður sem var klettur í minni barnæsku og þrátt fyrir að faðir minn væri veikur alkóhólisti þá var hann alveg einstaklega góður maður sem reyndi allt sem hann gat til þess að rétta sig af. Þegar það tókst ekki hafði það mikil áhrif á okkur.“

Einstakt ljúfmenni

Hjörleifur varð ungur faðir, en hann var 21 árs gamall þegar Hávarður Máni fæddist. Móðir drengsins, Hilma Dögg Hávarðardóttir, bar hitann og þungann af uppeldinu fyrstu árin. „Ég náði ekki tökum á mínum sjúkdómi fyrr en sonur minn var orðinn þriggja ára gamall. Fyrstu ár ævi sinnar bjó hann á Blönduósi með móður sinni og ég heimsótti hann þangað.“ Hún flutti síðan með hann til Reykjavíkur þegar hann var fjögurra ára gamall. 

Ætlaði að segja sögu sínaHávarður Máni hóf grunnskólagönguna fullur sjálfstrausts en foreldrar horfðu á hann mölbrotna undan kerfi sem hann féll ekki inn í. Áður en hann lést hafði hann í hyggju að segja sögu sína.

Hann hafði þá reynt að ná bata frá alkóhólisma frá átján ára aldri. Bataferlið tók nokkur ár. En það var honum mikilvægt að búa syni sínum aðrar heimilisaðstæður en hann hafði sjálfur alist upp við. Eftir að honum tókst 24 ára gömlum að snúa við blaðinu tók hann virkan þátt í lífi sonarins og með þeim tókst náin vinátta. „Í leikskóla gekk honum vel. Þar fékk hann að vera barn og vera hann sjálfur. Allir sem komu nálægt Hávarði Mána, hvort sem það var á þeim árum eða síðar, töluðu um hvað hann væri mikið einstakt ljúfmenni, yndislegur drengur og með risastórt hjarta.“ 

„Allir sem komu nálægt Hávarði Mána töluðu um það hvað hann væri mikið einstakt ljúfmenni“

Líkt og önnur börn hóf Hávarður Máni grunnskólagönguna fullur eftirvæntingar. „Hann var ekki að glíma við neina stórkostlega erfiðleika þegar hann byrjaði í grunnskóla. En fljótlega fór að síga á ógæfuhliðina.“ 

Foreldrar hans fóru að fá skilaboð um að sonur þeirra léti illa að stjórn, gæti illa haldið athygli og það væri ekki vinnufriður fyrir honum. „Þegar hann kom inn í grunnskóla þar sem börn eiga að hafa stjórn á sjálfum sér og það á að ramma þau inn og beita þau aga kom betur í ljós hvað var í gangi. Við sáum mjög fljótlega að þarna væri eitthvað á ferðinni eins og ADHD. Hann var svo ör og hvatvís. Við sáum því til þess að hann fengi greiningu og borguðum fyrir það sjálf, til að við þyrftum ekki að bíða í mörg ár. Þrátt fyrir greininguna var stöðugt verið að tala um hann sem vandamál.“ 

Aðskilinn frá bekkjarsystkinum

Skólagangan var varla hafin þegar foreldrarnir voru boðaðir á fyrsta fundinn til að ræða málin. Hjörleifur var sjálfur greindur með ADHD í seinni tíð og segist hafa haft skilning á stöðu sonarins. „Ég gæti ekki skilið þessi börn betur. Eini munurinn á mér og syni mínum var sá að ég gat setið kyrr og leyst verkefni. Mitt ADHD birtist öðruvísi. Ég gat bullað mig í gegnum skólagönguna og fékk góðar einkunnir, því ég hafði eirð í mér og einbeitingu til að skila því sem þurfti til. Sonur minn hafði ekki frekar en mörg önnur börn hæfileikann til þess að gera það. Það varð til þess að bola honum út úr bekknum.“

Með því á Hjörleifur við að syni hans hafi verið „leyft að fara fram“ á meðan bekkurinn var að vinna að verkefnum. „Eins og það væri gert fyrir hann.“ 

Alla sína grunnskólagöngu var Hávarður Máni reglulega aðskilinn frá bekknum sínum. Faðir hans lýsir því að sonur sinn hafi „verið geymdur“ á ganginum frammi, hjá námsráðgjafa og inni á bókasafni. Hann hafi greint foreldrum sínum frá vanlíðan vegna þess. „Honum leið ömurlega með þetta. Síðan kom hann heim með einkunnaspjöld sem á stóð 2, 3 og 4. Systir hans var ekki í neinum erfiðleikum með að komast í gegnum þetta kerfi og kom heim með góðar einkunnir. Allt var þetta niðurbrjótandi. Frá því að hann hóf skólagönguna, strax í fyrsta bekk, horfðum við á hann í frjálsu falli, beinustu leið niður á við. Hann brotnaði gjörsamlega niður.“ 

Neikvæð skilaboð 

Hann hefur ekki tölu á því hvað þau voru boðuð á marga fundi í skólanum næstu árin. „Örugglega hundrað. Við sátum þessa fundi sem ábyrgir foreldrar, öll af vilja gerð til að reyna að rétta þetta af og laga stöðuna. Á meðan við vorum inni í þessu ferli þá fórum við að taka þátt í því. Þú ferð að finna fyrir skömm yfir því að barnið sé ómögulegt og geti ekki verið til friðs. Þú ferð að sjá það sem vandamál og taka þátt í niðurrifinu, skamma hann og reyna að aga hann til að vera góður drengur og gera betur.“

Enda bárust stöðug skilaboð á Mentor um að það væri ekki allt í lagi. „Þetta var meira og minna allt neikvætt og niðurdrepandi. Þegar ég lít til baka upplifi ég svo sterkt hvað skólinn sá son okkar sem mikið vandamál og sneri því síðan upp á okkur foreldrana. Alla hans skólagöngu vorum við kölluð á endalausa teymisfundi sem við sátum, algjörlega vanmáttug, því við höfðum enga rödd á þessum fundum. Við vorum alltaf að fá þau skilaboð að við ættum að gera eitthvað í þessu.“

Aðspurður hvað þau hafi átt að gera svarar hann: „Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað við áttum eiginlega að gera. Ég veit það í alvörunni ekki.“ 

Í öðrum bekk hafi gengið betur um tíma, sem varði aðeins í tæpt ár. „Þá var hann með umsjónarkennara sem henti öllum bókum til hliðar og gaf sig alla að honum, sem gerði það að verkum að hann fór að vaxa, styrkjast og ganga betur. Um tíma hættu þessir stöðugu teymisfundir. Svo fór hann upp um bekk, fékk nýjan kennara og það fór allt í steik aftur.“

Sár missirDaginn fyrir fráfall Hávarðs Mána ræddu feðgarnir saman. Þá var bjart yfir drengnum, sem var staðráðinn í að standa sig.

Skiptu um skóla

Foreldrar Hávarðar Mána gripu til þess ráðs að skipta um skóla. „Okkur var orðið ljóst að það voru engin úrræði til staðar í Rimaskóla. Engjaskóli átti að vera betur til þess fallinn að mæta börnum með sérþarfir. En þar mættum við nákvæmlega sama úrræðaleysinu.“ 

Ekkert breyttist í raun. Fundarhöldin héldu áfram. Sömu skilaboð voru endurtekin. „Við vorum alltaf að tala við skólastjórnendur og fulltrúa frá barnavernd þegar þeir voru farnir að sitja þessa fundi og alltaf voru allir af vilja gerðir til að aðstoða okkur og aldrei var neitt gert. Eins ótrúlega og það hljómar þá man ég ekki eftir neinu sem var hrint í framkvæmd sem varð til einhvers.“ 

Reynt var að fá Hávarð Mána til að aðstoða sér yngri nemendur. Það gekk ágætlega. „Öðru man ég ekki eftir,“ segir faðir hans. „Enginn var tilbúinn til að mæta honum þar sem hann var. Enginn var tilbúinn til að leggja námskrána til hliðar og spila inn á hans styrkleika til að byggja hann upp.“

Að rampa upp skólakerfið

Fyrir tæpu ári síðan var Þórhildur Helga Þorleifsdóttir til viðtals í Heimildinni þar sem hún sagði sögu sonarsonarins, Patreks Jóhanns Kjartanssonar Eberl, sem svipti sig lífi fimmtán ára gamall. Líkt og Hávarður Máni var hann greindur með ADHD og upplifði sig utanveltu í skólakerfinu. Amma hans lýsti sama niðurbroti og Hjörleifur gerir hér. „Það sem mér finnst erfiðast við okkar sögu er hvernig kerfið brýtur þessa krakka niður,“ sagði Þórhildur, sem hefur sjálf starfað innan menntakerfisins um árabil, meðal annars sem skólastjóri og kennsluráðgjafi, og þekkir það því vel.

Í viðtalinu talaði hún um mikilvægi þess að rampa upp skólakerfið fyrir þennan hóp barna sem fellur ekki inn í rammann. „Þegar barn í hjólastól kemur inn í bekk er rampað upp. Rampurinn gagnast fleirum, til dæmis barni sem fótbrotnar. Hér þarf að rampa upp fyrir ADHD-börn. Allavega tíu prósent nemenda eru með ADHD og það þarf að gera ráð fyrir þeim. Ef það er gert ráð fyrir þeim er það um leið gott fyrir öll börn,“ útskýrði hún. Benti hún á að barn með sykursýki þyrfti ekki aðeins að taka lyf heldur þyrfti einnig að huga að mataræði barnsins. Mataræði sem er gott fyrir börn með sykursýki er einnig hollt og gott fyrir öll börn. Sama ætti við um þetta. 

Hjörleifur tekur undir þessar hugmyndir og segir að að óbreyttu sé verið að fórna hópi barna fyrir stöðugleika, eða kyrrstöðu í kerfi sem sé brotið. „Einhvern tímann heyrði ég heiðarlegan mann segja: „Við getum ekki farið að breyta öllu skólakerfinu fyrir minnihlutahóp.“ Ég er enginn sérfræðingur en eftir að hafa gengið í gegnum þessa þrautargöngu spyr ég hvort það sé ekki einfalt að aðlaga kerfið að þessum hópi barna fyrst hann er svona fámennur? Það hlýtur að vera hægt að búa til úrræði sem leyfir frávik frá þessari námskrá svo þau geti fundið sig með sínum jafningjum. Þetta eru börn sem eiga heima í venjulegum grunnskóla með öðrum börnum, þótt þau ráði ekki við rammann sem er verið að reyna að troða öllum börnum í.“

Stöðug þróun niður á við

Hér eigi að vera virk stefna um skóla án aðgreiningar, en svo sé ekki í reynd. „Enginn grunnskóli á Íslandi er skóli aðgreiningar. Það má lítið sem ekkert út af bera hjá krökkum án þess að þau séu álitin vandamál, sem síðan er snúið upp á foreldrana.“  

Að mæta slíku viðhorfi tók sinn toll af allri fjölskyldunni. „Við vorum endalaust að reyna að taka ábyrgð, reyna að taka þátt í hans áskorunum og erfiðleikum, en það eina sem við fengum fyrir það var stöðug þróun niður á við.“ 

Eftir á hefði hann viljað takast öðruvísi á við vandann. „Við hefðum átt að berja í borðið og hætta að taka þátt í þessu á þessum forsendum. Við hefðum átt að krefjast þess að skóli sem vinnur eftir stefnunni skóli án aðgreiningar væri ekki að aðskilja son okkar frá jafningjum sínum og skilgreina hann sem vandamál. Við hefðum átt að neita að taka þátt í þessu ferli þar sem var verið að mölbrjóta drenginn okkar, ár eftir ár, vegna þess að hann passaði ekki í eitthvert box.“ 

„Við hefðum átt að neita að taka þátt í þessu ferli þar sem var verið að mölbrjóta drenginn okkar“

Það sé hins vegar auðvelt að vera vitur eftir á. Á sínum tíma hafi hann verið að reyna að gera sitt besta, og þau öll. „Ég hef rætt þetta við móður Hávarðar Mána. Við höfum talað um að við vorum ung og vissum ekki betur. Við treystum því að skólayfirvöld vissu hvað þau væru að gera og myndu gera það sem þau sögðust ætla að gera. Þau sögðust ætla að einstaklingsmiða námið og veita meiri stuðning inni í bekknum og búa til meira rými fyrir hann að njóta sín. Alltaf var talað mjög fallega um hvað ætti að gera og hvað þau vildu gera, en svo var ekkert gert.“  

Viðbragð við vanlíðan

Það er sárt að hugsa til baka. Ekki síst í ljósi þess sem síðar varð, þegar Hávarður Máni var orðinn gjörsamlega niðurbrotinn. „Ég var að ala upp barnið mitt og trúði því og treysti að grunnskólakerfið væri að gera sitt besta til að hjálpa honum. Þegar ég sá barnið mitt vera í erfiðleikum í kerfinu leit ég fram hjá því og vonaðist til þess að hann kæmist þokkalega heill í gegnum það. En sonur okkar er öfgafullt dæmi um allt sem er að í þessu samfélagi. Auðvitað áttum við ekki von á því að þetta myndi fara svona, eða að hann yrði hvergi gripinn á neinu stigi málsins. Ég er svo gáttaður á þessu.“ 

Vanlíðan drengsins var orðin slík að hann fór að leita leiða til þess að deyfa sársaukann. Upp á sitt einsdæmi, án þess að vera í félagsskap við aðra, varð hann sér úti um vímuefni. „Þetta var viðbragð við vanlíðan. Ekkert annað,“ segir faðir hans. 

Sjálfur var Hjörleifur þrettán ára gamall þegar hann fór að neyta vímuefna. Aðstæður hans voru hins vegar allt aðrar en sonarins. „Pabbi minn var mjög veikur alkóhólisti sem náði sér aldrei á strik og lést úr þessum sjúkdómi þegar ég var átján ára gamall. Það var áfall sem var lengi í uppsiglingu. Hann var veikur allt mitt líf. Inni á milli átti hann stutta spretti þar sem hann náði edrútímabilum, en hann náði aldrei neinum varanlegum bata. Hávarður Máni átti allsgáða aðstandendur, bæði innan hans nánustu fjölskyldu og einnig stórfjölskyldunni. Allar hans fyrirmyndir voru edrú, hann átti góð systkini og var í nánum tengslum við okkur. Hann gat alltaf leitað til okkar. Hann var bara svo þjakaður af vanlíðan.“

Ömurlegar uppákomur 

Einn daginn var Hávarð Mána hvergi að finna. Hann hafði látið sig hverfa og gerði það margoft þaðan í frá. Svo oft að lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson, sem leitar að týndum börnum, var einn þeirra sem bar kistuna í útförinni. „Óhugnanlegasta tilfinning sem hægt er að upplifa er þegar barnið þitt er horfið, tólf ára gamalt, og þú veist ekki hvar það er. Fá síðan símtal um að barnið þitt hafi næstum því látið lífið vegna þess að það dó áfengisdauða á Klambratúni að hávetri. Saga hans var svona, ömurlegar uppákomur, ofneysla og örvænting.“ 

Líkt og ábyrgir foreldrar gera leituðu þau eftir aðstoð barnaverndaryfirvalda. „Því miður,“ segir Hjörleifur. „Við töldum að við værum að sýna ábyrgð og gera það sem var best fyrir son okkar með því að grípa snemma inn í og biðja barnavernd um aðstoð. En það er ekkert sem ég sé meira eftir í þessu lífi en að hafa leitað til barnaverndar.

Þeirra svar við erfiðleikum sonar okkar var að neyðarvista hann á Stuðlum. Tólf ára gamall sat hann þar einn með sautján ára gömlum sprautufíkli. Þeir voru tveir á neyðarvistun Stuðla í það skiptið. Sonur okkar var aðeins búinn að vera í neyslu í nokkra mánuði en var farinn að láta sig hverfa. Þá var hann á einhverju ráfi og þefaði uppi neyslustaði á meðan við vorum að leita að honum.“ 

Týndu börnin sem láta lífið

Hjörleifur vísar í viðtal við Guðmund sem birt var í byrjun mánaðar á RÚV. Þar greindi Guðmundur frá þessu atviki þegar Hávarður Máni var sendur í neyðarvistun á Stuðlum. „Ungi pilturinn er rétt að byrja, hinn er í bullandi neyslu, jafnvel með vímuefnum um æð,“ sagði Guðmundur. „Þeir tveir voru vistaðir saman á neyðarvistun, einir tveir. Þarna geta orðið smitáhrif.“ 

Skortur væri á úrræðum og þeim hafi aðeins fækkað. „Árið 2017 var Háholti lokað. Þá átti að fara að byggja úrræði hér á höfuðborgarsvæðinu sem átti að takast á við þetta,“ sagði Guðmundur. „Það er ekki komið. Ég veit ekki hvort það eru einu sinni komnar teikningar … en erum við ekki að fara að stækka Þjóðleikhúsið?“

Í umfjöllun RÚV kom fram að lögreglan hafi aldrei fengið fleiri leitarbeiðnir en nú í ár. Að meðaltali berist ein beiðni um leit að barni á dag. Yngsta barnið hafi aðeins verið ellefu ára gamalt. En samtals hafi borist um 250 beiðnir vegna 75 barna. Í 99 tilfellum hafi börnin verið send á Stuðla þegar þau fundust, þar af fóru átta börn í neyðarvistun.

Þá sagði Guðmundur frá því að á þeim 11 árum sem hann hefur verið í þessu hlutverki hafi níu börn látist. „Það sem við erum að gera í dag virkar illa á þennan verst setta hóp. Af hverju erum við enn þá á þeim stað?“ spurði hann. 

Neyðarvistun sem fór illa 

Hjörleifur spyr þess sama: „Ég veit um tilfelli þar sem sautján ára stúlka lést. Það síðasta sem hún sagði við barnavernd var: „Ef þið hjálpið mér ekki þá mun ég drepa mig.“ Hún fyrirfór sér síðan.

Það er enga hjálp fyrir börn að fá. Hvernig stendur á því að það er enn verið að sópa saman börnum á öllum aldri og í alls konar neyslu og henda þeim inn á neyðarvistun Stuðla? Eitt ár er síðan neyðarvistun Stuðla brann og ungur drengur lést í brunanum. Það er ekki komin niðurstaða í þetta mál en við erum enn að gera þetta.“ 

Í viðtali við Morgunblaðið sagði móðir Hávarðs Mána, Hilma Dögg, að stærstu mistökin sem þau hafi gert hafi verið að senda hann á Stuðla. „Ég myndi aldrei ráðleggja nokkru foreldri að samþykkja að barnið þeirra færi á Stuðla, ekki nema það væri að fara í gæsluvarðhald vegna alvarlegra afbrota eða væri hættulegt sjálfu sér og öðrum,“ sagði hún.  

Eftir heimkomuna áttaði Hjörleifur sig á því að Hávarður Máni, sem fram að þessu var aðeins að fikta við að reykja gras, var farinn að horfa á myndbönd á Youtube um hvernig ætti að sprauta sig. „Ég veit ekki hvort það var vegna þess að hann hafði verið með þessum strák í neyðarvistun eða ekki. Við vissum ekki einu sinni að það hefði verið þannig. Lögreglumaður sagði okkur það seinna. Í kjölfarið kröfðumst við svara frá barnavernd og skýringarnar voru að það væru einfaldlega engin önnur úrræði í boði.“

Fíknivandinn stigmagnaðist „á ljóshraða“, eins og faðir hans orðar það. Áður en Hávarður Máni fór á Stuðla átti hann ekki neyslufélaga. Nú voru þeir komnir. Eldri krakkar í mun harðari neyslu. „Eftir það hófst hans neyslusaga fyrir alvöru. Við réðum ekkert við ástandið. Hann lét sig hverfa, lögreglan leitaði að honum og skilaði honum aftur á neyðarvistun á Stuðlum. Sama sagan endurtók sig aftur og aftur og aftur.“  

Rífur allt og tætir í sig

Foreldrarnir óskuðu eftir styrktu fóstri fyrir son sinn, en því var hafnað. Þess í stað var þeim boðið MST-úrræði fyrir börn með alvarlegan hegðunar- eða fíknivanda, sem fer fram inni á heimili barnsins. Staðan var orðin of alvarleg til að slíkt úrræði dygði til. 

Foreldrunum var einnig boðið á námskeið sem þau sóttu. „Það snerist um samstöðu á milli heimila og að setja mörk. Þú setur ekki barni mörk sem er komið í alvarlegan fíknivanda með óþroskaðan framheila. Þetta hjálpaði okkur ekkert.“ 

Á þessum tímapunkti var ekkert gert til að ráðast að rót vandans sem var djúpstæð vanlíðan drengsins. Þvert á móti upplifði hann enn frekari höfnun og niðurbrot. „Eftir því sem neyslan ágerðist og hann varð forhertari, eins og þessir krakkar verða, því oftar var tekið fram fyrir hendurnar á okkur. Staðan var orðin þannig að hann var sjálfkrafa neyðarvistaður á Stuðlum, enda engin önnur úrræði í boði.“ 

Ef Hjörleifur stæði aftur í sömu sporum, vitandi það sem hann veit núna, myndi hann flytja með barnið út á land. „Ég myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum hafa samband við barnavernd. Ég er ekki að reyna að dramatísera neitt en hér á Íslandi beitir barnavernd börn ofbeldi á hverjum einasta degi, sem birtist í úrræða- og skeytingarleysi.“

Óttinn fylgdi fjölskyldunni næstu árin. Við tók röð áfalla. „Þetta gjörsamlega rífur og tætir allt í sig.“

Til að geta verið til staðar fyrir fjölskylduna hefur Hjörleifur sótt ráðgjöf þerapista. „Ég er líka í ákveðnum félagsskap til að styrkja mig og efla eigin bata frá þessum sjúkdómi.“ 

Vildi standa sig

Þrátt fyrir allt hafði sonur hans alltaf vilja til þess að standa sig vel. „Frá því að hann var lítill drengur var hann allur af vilja gerður til þess að gera sitt allra besta. Hann var kurteis og velviljaður drengur sem vildi bara að foreldrar sínir væru ánægðir með hann og stoltir af honum. Hann vildi bara passa inn og vera hluti af, það var það sem hann þráði mest. Öll hans neysla var ömurleg leið til þess að deyfa sársauka.“

Neyslunni fylgdi stjórnleysi, sem lagðist þungt á drenginn. Hann réði illa við aðstæður, sjálfan sig og fíknina. „Hann stal hlutum af heimilinu, lét sig hverfa og þess háttar. Hann talaði um það sjálfur hvað sér þætti þetta vont. Honum leið ömurlega með eigin hegðun. Líklega fannst honum það verst af öllu þegar hann kom illa fram og það urðu uppákomur inni á heimilinu. Auðvitað skyggði það á samskiptin, en ég sá alltaf son minn þarna á bak við.“ 

Á unglingaheimili úti á landi

Enn var hann að mæta í skólann, eftir bestu getu. En höfnunin sem hann upplifði í skólakerfinu áður en hann fór að deyfa sig með vímuefnum varð enn meiri og sárari. „Áður átti hann vini en um leið og hans fíknihegðun byrjaði varð hann algjörlega utangátta við allt og alla. Félagslega átti hann erfitt uppdráttar. Þetta var orðið alveg ofboðslega óspennandi og ömurlegt fyrir hann, að sitja stöðugt undir því að hann væri heimskur og vitlaus og væri bara vandamál.“ 

Á endanum var ekki heldur hægt að hafa hann inni á heimilinu með öðrum börnum. Hann fór þá á Lækjarbakka, meðferðarheimili í Geldingalæk, sem er ætlað unglingum sem glíma við alvarlegan vanda. Börn eru ekki send þangað nema vægari úrræði hafi ekki skilað árangri og þau hafa lokið meðferð á Stuðlum, líkt og hann hafði margoft gert. „Þar náði hann tímabilum án vímuefna. En það gekk ekki þrautalaust fyrir sig, hann fór að strjúka þaðan, lögreglan var kölluð til, hann sendur í neyðarvistun á Stuðla og aftur á Lækjarbakka.“ 

Sama sagan upphófst yfirleitt þegar Hávarður Máni heimsótti foreldra sína til Reykjavíkur. „Því fylgdi yfirleitt strok þegar hann kom og afturför. Hann var svo ungur orðinn svo veikur fíkill, farinn að sprauta sig sextán ára.“ 

Sárt að skilja við hann

Hjörleifur vandist því aldrei að sjá son sinn í þessu umhverfi. „Það var ömurlegt að þurfa að sjá barnið sitt vistað á unglingaheimili úti á landi. Ég held að allir foreldrar séu sammála um það. Eins að upplifa það að þú sért að hafna barninu þínu í hvert einasta skipti sem þú kveður það. Hávarður Máni vildi auðvitað vera heima hjá sér, þó að hann gæti skilið af hverju hann gat það ekki. Hann skildi fíknivanda sinn. Hann vildi samt koma með okkur heim og það var ömurlegt að skilja við hann þarna.“

Spurður hvort hann hafi reynt að bæta syni sínum það upp með einhverjum hætti, svarar Hjörleifur neitandi. „Það er ekkert sem þú gerir sem bætir upp fyrir þetta.“ 

„Það er ekkert sem þú gerir sem bætir upp fyrir þetta“

Til að takast á við það reyndi hann að muna af hverju sonur hans væri þarna. „Þetta var besti ömurlegi valkosturinn sem var í boði. Það var skárra að vita af barninu sínu læstu inni á unglingaheimili úti á landi en í virkri sprautuneyslu á götum borgarinnar.“

FeðgarnirFeðgarnir voru alla tíð nánir og miklir mátar. Margt var líkt með þeim, en þeir deildu til að mynda áhuga á tónlist.

Naut sín í tónlistinni 

Næstu árin var Hávarður Máni á Lækjarbakka. Þar gekk hann í skóla auk þess að sinna húsverkum og búa sig undir bílprófið. Þar var byggt á hans styrkleikum og hann naut sín. „Þarna var rosalega gott fólk sem hélt vel utan um hann og hjálpaði honum mikið.“ 

Hann æfði box og sinnti sínu helsta áhugamáli, tónlistinni. Tónlistaráhuganum deildu feðgarnir, en Hjörleifur er framkvæmdastjóri HH Music og spilar á gítar í hljómsveitinni SoundThing. „Hávarður Máni var virkilega hæfileikaríkur tónlistarmaður. Hann var rappari, geggjaður rappari. Ég var alltaf að hvetja hann til þess að stíga fram með þá hæfileika, en hann náði sér aldrei nógu vel á strik til þess að gera það. En hann skrifaði ógrynni af textum og tjáði tilfinningar sínar. 

Honum leið bara illa. Hann var ekki samþykktur og var brotinn niður og beittur ofbeldi af úrræðum sem eiga að grípa börn og hjálpa þeim og mæta þeim þar sem þau eru stödd. Hann talaði sjálfur um að hann vildi ná bata og tala þá um upplifun sína af grunnskólakerfinu. Hann kemur ekki til með að gera það.“

Sendur út í samfélagið

Átján ára gamall var Hávarður Máni sendur heim. Hann var orðinn lögráða og heyrði ekki lengur undir kerfið. Þar með var engin þjónusta í boði lengur. „Við kviðum mjög mikið fyrir því að hann yrði átján ára. Þá var öllu kippt úr sambandi og hann þurfti að sjá um sig sjálfur. Hann var enn barn þegar hann fór út í samfélagið án þess að hafa nokkurn tímann fengið þá aðstoð sem hann þurfti og þar með upphófst lokakaflinn í hans sögu. Hann náði sér aldrei á strik.“

Í fyrstu fór Hávarður Máni til móður sinnar. Í virkri neyslu gerðist Hávarður Máni sekur um glæpi, þjófnaði, innbrot og jafnvel ofbeldisbrot. Eftir því sem hann varð veikari af fíknisjúkdómi ágerðust ranghugmyndirnar og ofsóknarbrjálæði sótti að. Samhliða því fór hann að ganga um vopnaður. „Ítrekað var hringt í lögregluna sem þurfti að fjarlægja hann af heimilinu, vopnaðan og ógnandi í geðrofi. Tilkynnt var til barnaverndar að hann væri að birtast vopnaður heima hjá móður sinni sem réði ekkert við hann.

Eitt sinn var hann handtekinn við leikskóla í Grafarholti þar sem hann bað um að fá að hringja, með hníf innanklæða. Það var aðeins eitt af óteljandi skiptum sem hann var handtekinn.“ 

Með réttu hefði Hávarður Máni átt að fara í fangelsi. Hjörleifur reyndi að koma því til leiðar, en án árangurs. „Allir voru sammála því að hann ætti að vera í síbrotagæslu. Lögreglan, lögmenn, ég og móðir hans vorum öll sammála því. En það var ekki hægt að setja hann í síbrotagæslu því fangelsin voru full. Varðstjóri hjá lögreglunni greindi mér frá því.“ 

Aðspurður hvað honum finnst um það segir Hjörleifur: „Sonur minn væri lifandi ef hann hefði verið settur í síbrotagæslu.“

Í geðhvörfum við eldhúsborðið

Hávarður Máni virtist vera meðvitaður um að hann þyrfti á aðstoð að halda og tilbúinn til að þiggja hana. „Hann var allur af vilja gerður til þess að sækja sér aðstoð. Hann vildi þiggja hjálp til þess að komast út úr þessu ástandi.“

Enda leitaði hann sér margoft aðstoðar, fór í meðferð, dvaldi á áfangaheimilum og leitaði sjálfur á geðdeild þegar svo bar undir. „Síðasta árið hófst geðvandi hans. Eftir langvarandi neyslu var hann farinn að fá alvarleg geðrof og ofsóknarbrjálæðisköst.“

Hávarður Máni var að mestu hjá móður sinni þetta síðasta ár sem hann lifði. Í síðasta skipti sem hann útskrifaðist af geðdeild gisti hann hjá föður sínum áður en hann átti að fara í meðferð.  „Þá var hann heima hjá mér í geðrofi eftir að hafa verið útskrifaður af geðdeild. Þetta var hræðilegt,“ segir Hjörleifur. 

„Sonur minn var með alvarlegar ranghugmyndir um að það stæði til að skaða fjölskylduna hans. Þetta snerist allt um að það ætti að skaða fjölskylduna til þess að meiða hann. Að aðilar í undirheiminum væru á eftir honum og að hlera símann hans. Það var enginn fótur fyrir þessu, þetta var bara sama sagan og hjá öllum sem eru of lengi í ofneyslu og missa vitið. En það var hræðilegt að eiga við son minn í geðrofi.“ 

Í tæpt ár fór Hávarður Máni endurtekið í gegnum sama hringinn, nokkurra daga innlögn á geðdeild áður en hann var útskrifaður, endaði aftur í neyslu og fór þaðan í meðferð eða á geðdeild. „Eina sem var í boði á geðdeild var að hýsa hann í nokkra daga og útskrifa hann síðan. Hann kom fárveikur út af geðdeild, enn mjög veikur af geðrofi, brotinn og tættur. Síðan var farið að útskrifa hann með lyfjapokum. Þá þurftum við móðir hans að vakta það að hann væri að taka lyfin, sem gekk yfirleitt ágætlega fyrst um sinn, síðan fór hann að ljúga því að hann væri búinn að taka lyfin og svo var hann horfinn í neyslu.“

Eftir ítrekaðar innlagnir var Hávarður Máni færður inn á sérhæfðri deild, fyrir fólk í geðrofi. „Þá voru þeir farnir að sjá hvað ástandið var alvarlegt. Nokkrum dögum síðar var hann færður aftur á venjulega fíknigeðdeild og útskrifaður þaðan nokkrum dögum síðar. Það var súrrealískt að sitja með drengnum mínum við eldhúsborðið heima og reyna að róa hann niður, þar sem hann var fljúgandi veikur á geði, nýkominn út af geðdeild með geðrofslyf í poka. Við reyndum að tala við lækna og hjúkrunarfræðinga en þar voru engin svör að fá. Hann var orðinn lögráða og svona var þetta bara. Hann lifði ekki af marga mánuði í þessum pakka.“ 

Lögreglan bankaði upp á 

Líkt og áður hefur komið fram þekkir Hjörleifur glímuna við fíkn af eigin raun. Átján ára gamall leitaði hann fyrst til SÁÁ og fór oft þangað á stuttum tíma sem ungur maður. „Það er langt í frá sjálfsagt að ná sér úr fíknivanda. Mér tókst það eftir margar tilraunir. Mín saga er ekki bein lína. Ég þurfti að falla oft á rassinn og rífa mig aftur upp. Batinn minn snerist um að gefast aldrei upp og leita mér aðstoðar þar sem hana var að fá, eða í grasrótarsamtökum. Ég hvet alla sem glíma við þetta að leita þangað.“ 

Sonur hans dvaldi á áfangaheimilinu Draumasetrinu þegar þeir hittust í síðasta sinn. Það var nokkrum dögum áður en Hávarður Máni lést. „Ég sótti hann, við spjölluðum saman og ég skutlaði honum í ræktina.“ Daginn áður en Hávarður Máni lést töluðu feðgarnir saman í síma. „Þá var hann að tala um að hann ætlaði að standa sig og góðir hlutir væru að gerast. Hann var mjög jákvæður og bjartsýnn.“ 

Daginn eftir bárust harmafregnir. Kona Hjörleifs stóð við hlið hans þegar honum voru færðar fréttirnar. Sonur hans hafði svipt sig lífi. „Það var ólýsanlegt áfall. Eitthvað sem ég þarf að lifa með það sem eftir er ævinnar. Tíminn mun kannski deyfa þessi sár en ég verð aldrei samur.“

Eftir standa margar spurningar sem aldrei munu fást svör við. „Ég held að sonur minn hafi tekið þessa ákvörðun eftir að hafa fallið enn einu sinni. Hann gafst upp. En við vitum það ekki. Auðvitað er erfitt að fá ekki svör, en það breytir því ekki að hann er farinn, þetta gerðist.“ 

FjölskyldanHávarður Máni átti sterka fjölskyldu sem stóð alla tíð þétt við bakið á honum og reyndi sitt allra besta.

Umvafinn vinum og vandamönnum

Tæpur mánuður er liðinn frá fráfalli sonarins. Enn er doði yfir öllu. Hjörleifur segist skilja það vitsmunalega að sonur sinn sé farinn frá sér en líkaminn eigi enn eftir að meðtaka það. „Ég er heppinn að eiga marga góða vini sem eru duglegir að umgangast mig. Ég hef ekki leyft mér að vera einn. Það er ekki gott að einangra sig í sorginni. Ég finn fyrir tilhneigingu til að fara í reiðina, biturðina og sjálfsvorkunnina. Allt eru þetta tilfinningar sem ég má ekki gefa mig á vald. Ég reyni því að umgangast fólk, þótt það sé erfitt. En ég hef ekki getað unnið frá því að þetta gerðist,“ segir Hjörleifur, sem er framkvæmdastjóri Garðaþjónustu Reykjavíkur. „Ég tek einn dag í einu.“ 

„Ég hef ekki leyft mér að vera einn. Það er ekki gott að einangra sig í sorginni.“

Útför Hávarðar Mána var afar fjölsótt og falleg. „Hátt í fimm hundruð manns mættu og fjölmargir fylgdust með á netinu. Við fengum hafsjó af kveðjum. Eftir að hann féll frá urðum við þess vör hvað hann hafði snert marga. Af því að hann var alltaf að reyna að ná bata, koma inn í AA-samtökin, fara í meðferð og leita sér aðstoðar á geðdeild. Hann var alltaf að reyna að standa upp og ná árangri, það var það sem hann þráði heitast í lífinu. Eina ástæðan fyrir því að hann fyrirfór sér var að hann gafst upp á að reyna það. Ekkert annað. Hann var ekki þunglyndur eða með sjálfsvígshugsanir.“ 

Áleitnar spurningar sækja að

Áleitnasta spurningin sem sækir að er: Hvernig gat þetta farið svona? „Drengur sem átti alla möguleika á að fá aðstoð og var tilbúinn til að þiggja hana, var vel gefinn, vel máli farinn, hæfileikaríkur, fallegur drengur sem er látinn 20 ára gamall eftir píslargöngu í gegnum brotin kerfi. Sama hvað maður reifst, stappaði og barðist náðum við ekki í gegn neinum breytingum. Enn í dag, hafa engar breytingar orðið á kerfi sem allir eru sammála um að sé brotið. Ég klóra mér bara í höfðinu. Ég skil þetta ekki.“ 

Níu ár eru liðin frá því að Hjörleifur og Hilma Dögg helguðu sig baráttunni fyrir bættum úrræðum fyrir börn í þessari stöðu. „Ég trúði ekki öðru en að það væri nóg að benda á vankantana til að það yrðu gerðar úrbætur á kerfinu. Við ræddum við þáverandi félagsráðherra og alls konar fólk og veittum viðtöl. Skrítnast var að allir sem við töluðum við voru hjartanlega sammála því sem við vorum að segja. Þess vegna héldum við að nú yrði eitthvað gert.“ 

Hann segir sárt að hafa tekið þennan slag án árangurs. „Það dró úr mér allan vind að ræða við ráðamenn sem áttuðu sig á vandanum. Fleiri eru með heilbrigða skynsemi og sjá að þetta er ofbeldi. Þegar þú ferð að tala um þetta þá sérðu að það er engin barátta því það eru allir sammála. En það breytir ekki neinu. Enn þann dag í dag eru börn beitt sama ofbeldi á hverjum einasta degi, þar sem þeim er hent inn á Stuðla og smitast af hvað öðru. Sonur minn deyr síðan og mér fallast bara hendur. Það var enga vernd að fá fyrir son minn og það er engan verndarhjúp að fá fyrir þessi börn í samfélaginu.“  

Segja sannleika sonarins

Í ljósi alls er hann hættur að berjast fyrir breytingum. „Ég mun ekki taka annan slag fyrir þessum málum. Þetta er búið að taka nógu mikið frá minni fjölskyldu og af okkar sál. Nú finnst okkur mikilvægast að hans sannleikur sé sagður, vegna þess að hann getur ekki sagt hann sjálfur.“

Að lokum tekur hann fram að þótt hann gagnrýni kerfið beri hann ekki kala til neins. Allra síst starfsmanna þessara kerfa. „Ég sárvorkenni fólki sem vinnur þarna, því við töluðum við marga kennara, barnaverndarfulltrúa, lögreglumenn, meðferðarfulltrúa og starfsmenn geðdeilda sem blöskraði þetta öllum. Ráðamenn koma og fara en kerfin viðhalda sér. Engum er um að kenna, nema skeytingarleysi samfélagsins. Ef við myndum öll mótmæla því að hér sé verið að fórna börnum þá yrði þessu kerfi breytt samstundis. En við gerum það ekki og á meðan munu börn þjást. Við erum öll samsek.“

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár