Svavar Jóhannsson og Sonja Magnúsdóttir kynntust Oscari Andreas Boganegra Florez fyrst árið 2023 en þá var hann skólafélagi yngri barna þeirra hjóna. „Hann byrjaði að venja komur sínar hérna á heimilið og var fljótlega orðinn daglegur gestur,“ segir Sonja. Hjónin hrifust strax af drengnum sem er vinamargur, vel liðinn og brosmildur.
Þau vissu þá þegar að hann væri barn á flótta sem væri hér á landi með föður sínum. „En fljótlega fór okkur að gruna að eitthvað væri að,“ segir Sonja um samskipti þeirra feðga. „Hann sótti mikið í að vera hérna. Hann fékk oft að leggja sig og svaf rosa mikið og þá fór mig að gruna að hann væri ekkert að sofa á næturnar.“ Svavar bætir við: „Hann var hérna allan daginn eftir skóla og vildi fara sem seinast heim á kvöldin.“

Athugasemdir (2)