Ólík öfl takast á innan Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að formannskosningunum sem fram fara næsta sunnudag. Flokkurinn stendur á tímamótum eftir að hafa fengið undir tuttugu prósent í síðustu kosningum, sem er lægsta fylgið frá upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn er líka utan ríkisstjórnar, sem er sjaldgæft í íslenskum stjórnmálum.
Formannsefnin eru bæði frambærileg, og söguleg þegar kemur að forystu flokksins, en báðir frambjóðendur eru konur. Annars vegar býður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sig fram, sem er lýst sem metnaðarfullri manneskju sem fyllir fólk andagift úr ræðustólnum. Hún varð ritari Sjálfstæðisflokksins 25 ára gömul og var orðin dómsmálaráðherra fyrir þrítugt, eða 29 ára gömul.
Hins vegar er það Guðrún Hafsteinsdóttir, sem er þaulreynd úr atvinnulífinu og nýtur mikillar virðingar á því sviði. Hún fékk fyrirtæki fjölskyldu sinnar, Kjörís, í fangið aðeins 23 ára gömul. Það hefur vaxið samhliða Guðrúnu og orðið eitt farsælasta fyrirtæki landsins. Hún var dómsmálaráðherra frá árinu 2023 til 2024.
Athugasemdir