Vinir og ættingjar Ásgeirs H. Ingólfssonar eru ekki þau einu sem misstu mikið þegar hann féll skyndilega frá heldur er íslenskt menningarlíf fátækara. Um það voru allir sammála sem mættu á Lífskviðuna, listviðburð og mannfagnað, sem Ásgeir var að skipuleggja síðustu daga lífs síns ásamt vinum sínum og fjölskyldu. Hann greindist með krabbamein í desember og í janúar fékk hann þær fregnir að meinið væri ekki tækt til meðferðar – hann ætti aðeins vikur eða mánuði eftir. Tíminn var skemmri en hann áttaði sig á.
Lífskviðan fór fram laugardaginn 25. janúar í sumarhúsi við Kjarnaskóg sem Ásgeir leigði af sjúkrahúsinu á Akureyri, skóginn sem afi hans átti stóran þátt í að rækta upp og Ásgeir kallaði gjarnan skóginn hans afa. Þangað hafði hann sótt mikið þegar hann var að alast upp á Akureyri og þegar hann var ungur maður að hugsa um hvaða leið hann vildi fara í lífinu, og setti stefnuna á bókmenntafræði, skáldskap og listina.
Lést nóttina áður
Þarna ætlaði Ásgeir að fagna listinni og lífinu með vinum sínum. Hann hafði hlakkað mikið til en auk þess að stefna þarna saman vinum úr ólíkum áttum víðs vegar að úr heiminum ætlaði Ásgeir þarna að finna farveg fyrir arfleifð sína – öll ókláruðu verkin hans. En Ásgeir lifði ekki til að vera viðstaddur Lífskviðuna. Hann lést nóttina áður, öllum að óvörum.
Ásgeir var í viðtali hjá Heimildinni tveimur dögum fyrr sem birtist í blaðinu á föstudeginum þar sem hann sagðist auðvitað vera „alveg hundfúll“ yfir því að vera að deyja en hann var harðákveðinn í einu: „Ég ætla samt að halda partí.“
Frá upphafi var ljóst að þeir sem kæmu á Lífskviðuna væru að upplifa sorg yfir því að Ásgeir væri dauðvona, þrátt fyrir tilhlökkunina um að hitta hann og gleðina yfir að verja með honum þessum einstaka viðburði – fögnuði í skugga dauðadóms. En í stað þess að sorgin væri undirliggjandi þá var hún alltumlykjandi og umvafði allt, líka brosin og hláturinn þegar fólk rifjaði upp góðar stundir með Ásgeiri, yfir einhverju frumlegu sem hann gerði eða úthugsuðu sem hann sagði. Þarna var ekki bara fólk frá Íslandi heldur einnig fólk sem hafði komið frá Bristol, Tromsö og Prag.
„Það er eiginlega ótrúlegt að standa hér fyrir framan ykkur öll og sjá hvaða frábæra fólk Ásgeir þekkti, elskaði, dró saman og er allt komið hingað í kvöld
Jón Bjarki Magnússon, einn af nánustu vinum Ásgeirs, kvikmyndagerðarmaður og blaðamaður, ávarpaði í upphafi þá tugi fólks sem þarna heiðruðu minningu hans. „Kæru vinir. Þá erum við saman komin hér. Það er eiginlega ótrúlegt að standa hér fyrir framan ykkur öll og sjá hvaða frábæra fólk Ásgeir þekkti, elskaði, dró saman og er allt komið hingað í kvöld,“ sagði hann, grátklökkur. Jón Bjarki þekkti alls ekki alla þarna en bætti við að Ásgeir hafi alltaf litið svo á að vinir hans væru vinir sínir. „Hann langaði svo að fá fólkið sitt saman, úr ólíkum áttum, til að eiga þessa stund og sameinast.“
Myndir af Ásgeiri liðu yfir sjónvarpsskjáinn í bakgrunninum, af honum á ýmsum tímapunktum í lífinu. Jón Bjarki kynnti síðan inn myndskeið sem hann og Haukur Már Helgason, skáld og blaðamaður, höfðu klippt saman eftir að hafa fyrir nokkru fylgt Ásgeiri eftir með kvikmyndavél. Ásgeir hafði sjálfur aldrei séð þetta efni klippt saman. Það hafði átt að koma honum á óvart þetta kvöld.
Þeir vinir hans höfðu fylgt honum eftir þar sem hann bjó í Prag, en þangað flutti Ásgeir fyrir tæpum áratug til að geta dregið fram lífið á ódýrari hátt en á Íslandi og náð þannig að sinna því sem hann elskaði, menningarlífinu; skrifa, lesa, rýna. Horfa á kvikmyndir, sem hann rýndi ásamt bókmenntunum, en þeir fylgdu honum einnig eftir á kvikmyndahátíðinni Berlinale. Og líka þar sem hann vann sem næturvörður eitt sumarið á Jarðböðunum á Mývatni þar sem Ásgeir ætlaði að safna sér pening til að lifa af yfir veturinn í Prag. Ásgeir hafði reiknað með því að geta nýtt tímann á næturvaktinni til að lesa en þess í stað þurfti hann að þrífa, en setti það ekki fyrir sig. Í myndbandinu sást Ásgeir skúra og ræða um lífsins gagn og nauðsynjar. Hann ræddi til að mynda túrismann á Íslandi, sagði undarlegt að hér á landi væri alltaf allur mannauðurinn settur í sama bransann, þann sem skilaði þjóðinni peningum í það skiptið. Túrisminn var þó að hans mati „skárri en álverin og bankabrjálæðið“.
Á meðan Ásgeir sást hita sér upp pasta á næturvaktinni var búið að klippa inn upplestur hans á ljóði úr Framtíðinni, annarri af tveimur ljóðabókum eftir hann, ljóðið Sósan hans Alfredo. Ásgeir las, og hér er seinasti hluti ljóðsins:
„Hann sagði mér hvernig bjórinn varð til, hvað Kafka borðaði í kvöldmat á sunnudögum, hvað ég ætti að segja við tékknesku stelpurnar. En aldrei sagði hann mér hvað var í sósunni – og ég verð að viðurkenna að það er lygi að hitt hafi verið jafn merkilegt. Uppskriftin að sósunni hans Alfredo er lykillinn að sjálfri hamingjunni, lífsgátunni – en líklega vissi Alfredo að mig langaði að halda áfram að leita.“
Maður sem hægt var að tala við
Valur Gunnarsson, sem ásamt Ásgeiri, Jóni Bjarka og fleirum kom að skipulagningu Lífskviðunnar, tók sér stöðu við míkrófóninn og sagði frá því að hann hafi kynnst Ásgeiri þegar fyrsta skáldsaga Vals kom út, Konungur norðursins. „Mig grunar að hann hafi verið eini maðurinn sem las hana,“ sagði Valur en eftir það tók Ásgeir viðtal við Val, og Valur komst að því að Ásgeir var „maður sem hægt var að tala við“, ekki síst eftir að hann vissi að Ásgeir hafði séð kvikmyndina Russian Ark eftir Sokurov: „Ásgeir kunni reyndar ekki að meta hana en mér fannst magnað að hann hefði séð hana.“
Á veggnum yfir borðinu með veitingunum var búið að hengja upp ljósmyndir af honum frá ýmsum stöðum lífshlaupsins. Á boðstólum voru veitingar úr ýmsum áttum, en sumar þó sérvaldar. Það var kakó, því Ásgeir vildi hafa kakó. Þarna var líka púðursykursterta því hún var í uppáhaldi hjá Ásgeiri og það sem hann fékk sér helst í kökuboðum. Einhver hafði komið með tékkneskan bjór því Ásgeir bjó í Tékklandi, og annar með rauðvín því hann hafði gjarnan skálað við Ásgeir í rauðvíni yfir góðum samræðum.
„Þetta var ótrúleg stund og mikil gjöf sem hann færði okkur sem eftir stóðum, að fá að vera þarna saman á þessari stundu
Jón Bjarki lýsir því í samtali við blaðamann eftir viðburðinn að hugmyndin að Lífskviðunni hefði komið skömmu eftir að Ásgeir fékk þær fregnir að hann ætti lítið eftir. „Hann var rosalega einbeittur og spenntur yfir þessu, og talaði við svo mikið af fólki sem hann bauð að koma. Allir voru velkomnir,“ segir hann. Það hafi síðan verið mikið áfall þegar Ásgeir lést nóttina áður. Þrátt fyrir sorgina hafi þau öll, vinir hans og fjölskylda, þó ákveðið að halda Lífsvökuna engu að síður. „Við vorum öll á því að klára þetta síðasta verk sem hann lagði upp með,“ segir hann, en þau hafi alls ekki vitað hvort margir myndu hætta við að koma og hversu margir yrðu þarna saman við Kjarnaskóg um kvöldið. Þau eru sannfærð um að þetta hafi verið rétt ákvörðun: „Þetta var blanda af sterkum tilfinningum, sorg en líka gríðarlega mikil ást og væntumþykja. Þetta var svo skrýtið, mér fannst eins og hann væri þarna með okkur öllum,“ segir Jón Bjarki. „Þetta var ótrúleg stund og mikil gjöf sem hann færði okkur sem eftir stóðum, að fá að vera þarna saman á þessari stundu.“
Arfleifðin í verkum hans
Á borðum voru ljóðabækur Ásgeirs en einnig útprentanir á ýmsu efni sem hann hafði skrifað í gegnum tíðina, kláruðu og ókláruðu, eins og hann hafði lagt upp með. Í viðtali við Heimildina við skipulagninguna benti Ásgeir á að þar sem hann væri ógiftur, barnlaus og ætti ekki miklar veraldlegar eignir, þá væru verkin hans sú arfleifð sem hann skilur eftir sig. „Það sem mig langaði að gera var að finna ljósmæður og ljósfeður og ritstjóra fyrir allt sem ég á, til að hjálpa mér að koma því í eitthvert form eða halda áfram með verkin sem ég byrjaði á. Kannski getur einhver klárað skáldsöguna sem ég er bara búinn að skrifa fyrstu tíu blaðsíðurnar af,“ sagði hann tveimur dögum áður en hann lést.
Valur Gunnarsson segir eftir Lífsvökuna að honum finnist gott að viðburðurinn fór fram. „Sem hann hefði kannski ekki gert ef Ásgeir hefði farið fyrr en ekki einmitt þarna nóttina áður. En það sem hann vildi var að færa vini sína saman og þetta er það sem var honum mest hugleikið síðustu dagana, að skipulegga þetta. Þetta var hans draumur,“ segir hann.
„Hann er maður sem fórnaði sér algjörlega fyrir listina alla tíð
Valur leggur áherslu á hversu ástríðufullur Ásgeir var gagnvart listinni. „Hann er maður sem fórnaði sér algjörlega fyrir listina alla tíð. Hann stóð alltaf með listinni og varð eiginlega að flýja land til að geta lifað af þessu,“ segir hann.
Þarna var einnig varpað fram þeirri hugmynd að koma á laggirnar sjóði í minningu Ásgeirs sem gerði fólki kleift að starfa við menningarrýni á Íslandi, eða veita menningarverðlaun í hans nafni, og er ýmis vinna farin í gang til að reyna að gera þær hugmyndir að veruleika.
Vinir Ásgeirs í Prag, hópur ljóðskálda og listamanna, ætla að koma saman á laugardag, klukkan 18 á íslenskum tíma, til þess að heiðra minningu góðs vinar og skáldbróður með ljóðum, ræðum og hvers kyns list. Atburðurinn ber heitið We love you Asgeir og verður streymt í beinni útsendingu á Zoom. Vinir og velunnarar Ásgeirs í Reykjavík hyggjast koma saman í Bíó Paradís af þessu tilefni til þess að fylgjast með streyminu í beinni.
Skarpur menningarrýnir
Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur er á meðal þeirra sem komu á Lífskviðuna. Þeir Ásgeir þekktust fyrst og fremst í gegnum menningarlífið, og hann ákvað að mæta á Lífsvökuna vegna þeirrar virðingar sem hann ber fyrir Ásgeiri. „Framlag Ásgeirs til íslenskrar menningar verður seint ofmetið. Hann var einfaldlega einn allra skarpasti, ærlegasti og pródúktívasti menningargagnrýnandi sem við höfum átt. Hann var sjálfstæður í hugsun – sem er meira en að segja það í þessu litla menningarsamfélagi þar sem allir þekkjast, elskast, hatast, skjallast, óttast – og aldrei hræddur við að hrífast eða hafa orð á því sem honum þótti miður fara, og gerði oft bæði í sama textanum.“ Eiríkur Örn segist í samtali við Heimildina hafa verið lagður af stað til Akureyrar, í miðju Ísafjarðardjúpi, þegar hann fékk þær fregnir að Ásgeir væri látinn. Restina af leiðinni, fimm, sex tíma leið, hafi hann keyrt í hálfgerðu móki. „Í Guðlaugsvík keyrði ég fram á 14 metra búrhval, sem lá dauður einsog jarteikn í fjörunni. Ég staldraði þar heillengi við og ég man að það hvarflaði að mér að þetta hefði kvikmyndagagnrýnandanum Ásgeiri áreiðanlega þótt talsvert overkill – og beðið leikstjórann að slaka á myndmálinu.“
„Framlag Ásgeirs til íslenskrar menningar verður seint ofmetið
Ásgeir var sonur Hrefnu Hjálmarsdóttur og Ingólfs Ármannssonar heitins og systkini hans voru Auður H. Ingólfsdóttir og Ármann Ingólfsson. Hrefna, móðir hans, var á opna húsinu sem haldið var á laugardeginum, samkvæmt fyrir fram ákveðinni dagskrá, en treysti sér ekki til að vera um kvöldið líka. Í samtali við Heimildina segir hún að þau systkini hans hafi verið að ræða stjörnugjafir Ásgeirs þegar kom að bókarýni.
„Ásgeir var ekki þekktur fyrir að gefa margar stjörnur. Það var í fyrsta skipti núna fyrir jólin sem hann gaf einni bók fimm stjörnur,“ segir hún en það var í einu af bókablöðum Heimildarinnar fyrir jólin sem hann gaf skáldsögunni Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson fullt hús stiga.
„Það að gefa almennt ekkert of margar stjörnur getur þýtt að gagnrýnandinn sýnir höfundi þá virðingu að lesa skrifin vel og vandlega. Þetta hefur verið okkur umhugsunarefni,“ segir Hrefna og bætir við: „Mig langar að koma því á framfæri hvað Heimildin var mikilvægur miðill fyrir hann til að koma skrifum sínum á framfæri.“ Ásgeir hélt úti eigin vef um margra ára skeið, Menningarsmygl, en hann skrifaði fyrir báða fyrirrennara Heimildarinnar, Stundina og Kjarnann, auk til að mynda RÚV og Morgunblaðsins.
Hrefna rifjar líka upp dóm sem Ásgeir skrifaði og birtist nú fyrir jólin í Heimildinni, um Ferðalok eftir Arnald Indriðason. Í dómnum segir: „Hjúkrunarkonan systir Vilhelmína er hins vegar bitastæðasta aukapersónan og maður hefði viljað fá miklu meira að heyra af henni, og eins eru sjúklingarnir með honum í herbergi og fólkið sem hjálpar honum á spítalann forvitnilegar aukapersónur sem hefði mátt vinna betur með.“
„Síðan gerist það bara stuttu seinna að hann á allt sitt undir hjúkrunarfólki sem sinnti honum og líknaði síðustu dagana. Mér fannst það svolítið merkilegt“
Hrefna segir að hún hafi hugsað til þessara orða nýverið: „Hann nefnir sérstaklega að það hefði mátt gera þeim betur skil sem hjúkruðu persónunni. Síðan gerist það bara stuttu seinna að hann á allt sitt undir hjúkrunarfólki sem sinnti honum og líknaði síðustu dagana. Mér fannst það svolítið merkilegt. Aukapersónan var í hans huga aðalpersóna,“ segir hún.
Táknin í hversdeginum
Lífsvakan stóð fram undir miðnætti og var Valur Brynjar Antonsson, heimspekingur og kennari við Listaháskóla Íslands, einn þeirra sem tóku til máls. Hann talaði um hvernig draumar dauðvona fólks gefi ekki til kynna að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast heldur að það sé aðeins lítið skref „og það sem við höfum í þessu lífi tökum við ekki með okkur í það næsta“. Hann sagði einnig að áður en fólk veit sjálft að dauðinn nálgast þá viti líkaminn það. Stundum séu ýmis tákn í umhverfinu sem hægt sé að lesa í, og kynnti hann því næst inn myndband sem hann sá á Facebook-síðu Ásgeirs, myndband sem hann hafði sett inn skömmu áður en hann var greindur með krabbamein; myndband sem Valur sagðist telja sig geta fundið ákveðin skilaboð í.
Á myndbandinu hans Ásgeirs mátti sjá íkorna sem var að reyna að komast í gegnum hlið en sama hvað hann reyndi þá komst hann ekki á milli járnrimlanna því hann hélt á einhverju. Fólkið í stofunni brosti og hló að sætum íkornanum en síðan sló allt í einu þögn á hópinn; íkorninn sleppti því sem hann hélt á, skildi það eftir, og komst þá í gegnum hliðið.
„Þetta er ákveðið ljóð,“ sagði Valur, á þessum viðburði sem Ásgeir skipulagði til að fagna með vinum sínum áður en hann dó. Því síðasta sem hann skildi eftir sig.
Athugasemdir