I
Bara núna 20. desember síðastliðinn voru í bókablaði Heimildarinnar nokkrir ritdómar eftir Ásgeir. Blaðið hafði verið stækkað tveimur dögum fyrir prent og skyndilega bráðlá á að vinna meira efni. Sú okkar sem þá ritstýrði bókablaðinu (Auður) hringdi því í Ásgeir og spurði hvort hann gæti lesið tvær bækur og skrifað um þær á aðeins tveimur dögum. Það var auðfengið; hann gekk í málið án þess að kippa sér upp við það og dómarnir skiluðu sér – málinu var reddað og langt í frá í fyrsta sinn sem hann reddaði málum. Að Ásgeir væri þá veikur af krabbameini óraði mann ekki fyrir.
Einhvern veginn gengum við að honum vísum; hann var okkur ómetanlegur bakhjarl þegar við ritstýrðum bókablöðum Stundarinnar og Heimildarinnar. Alltaf til í að redda því sem redda þurfti þegar mikið lá við, eins áreynslulaust og hann vann hratt og skilvirkt. Með evrópsk gleraugu á nefinu og listræna nálgun á listrænt efni. Sjálfur hafði hann séð um menninguna á Stundinni um tíma og gagnrýnt bækur fyrir bæði Stundina og síðar Heimildina í sjö ár. En hann var enginn stjörnubruðlari.
Nú fyrir jól bar svo við að hann gaf í fyrsta skipti bók fimm stjörnur á öllum þessum tíma. Það sætti slíkum tíðindum að því var slegið upp í yfirfyrirsögn. Ásgeir Ingólfsson gefur fimm stjörnur í fyrsta skipti í sjö ár!
Já, Ásgeir var svo traustur að okkur fannst að hann hlyti alltaf að vera á sínum stað. Reiðubúinn að grípa örvæntingarfullan bóka- og menningarritstjóra þegar þurfti að redda því ógerlega, alltaf mildur og kátur, til í að hugsa í lausnum.
Það gerði hann líka í lifanda lífi.
Nú í vor var önnur okkar (Auður) eitthvað rislág eftir opinbera umræðu að ráfa í öngum sínum heim á leið upp Laugaveginn seint um kvöld þegar hún rak augun í Ásgeir – sem aldrei þessu vant var á Íslandi en ekki í Tékklandi. Líka að ráfa, eins og guð hefði sent hann. Augnabliki síðar sat hún ásamt honum á Mónakó og hellti raunum sínum yfir hann sem brosti svo blítt en stóískt að hugarangrið varð að engu. Allt í einu var bara hlegið yfir nokkrum bjórum – að lífinu!
Raunar stóð til að bjóða Ásgeiri á Mónakó þegar hann yrði hér heima um jólin og búið að plana það og hlakka til.
Svo fór sem fór.
Aðeins eru örfáir dagar síðan hin okkar, Alma, hafði samband við áðurnefnda og sagði henni að Ásgeir væri lífshættulega veikur. Þá hafði Auður ekki verið á Facebook síðan í nóvember og auk þess nýkomin heim að utan. En skilaboðin voru óraunveruleg. Hvernig gat þetta verið? Rétt tæpur mánuður síðan hann hamaðist við að skrifa fyrir síðasta bókablaðið fyrir jólin og svo …
Og svo er Ásgeir dáinn.
Auður hafði leitað að réttu orðunum til að skrifa honum. Að kvöldi sendi hún honum nokkrar línur, þegar ljóst varð að stundum eru réttu orðin ekki til. Morguninn eftir sá hún að hann hafði séð orðin, örfáum tímum síðar fréttist að hann væri dáinn þegar hin okkar, Alma, hringdi með grátinn í kverkunum.
Hvorug okkar trúði þessu.
Að Ásgeir, sem var meira lifandi en flestir þegar talað var um hugmyndir, skáldskap og menningarblaðamennsku, væri farinn. Við getum aldrei aftur hringt í hann til að heilaspinna eða sent línu með ábyrgðarlausum pælingum og fengið að heyra eitthvað svo notalega góðlátlegt.
Hann ástundaði menningarblaðamennsku af lífi og sál.
Trúði á hana eins og hann trúði á skáldskapinn. Nógu trúaður skáldskapnum til að þora að skrifa beitt þegar honum fannst skáldskapnum ekki vera sýnd næg virðing. Og alltaf ástríðufullur í spjalli um hvernig best væri að útfæra menningarefni, hvað þyrfti að vera til staðar. Eins áhugasamur um pólsk ljóðskáld og listamenn frá Úkraínu í hernum eða ungskáld á Akureyri.
II
Minningargrein um Ásgeir þarf að fá að leysast upp í fagurfræði saknaðarins. Við stígum inn á leiksvið í lítilli sveitaborg í Tékklandi eða í gamla leikhúsinu á Akureyri og Alma setur á sig svartan kúluhatt þegar hún minnist samstarfsfélaga okkar. Hún segir:
Þú þorðir að segja til þín, eins og rithöfundurinn Haukur Már Helgason orðaði það í greininni sem þú sendir mér: Án þess hafa bófarnir yfirhöndina.
Haukur var að vísa í þessa grein þína: Glerborg blankheitanna.
Þessi pistill er svo skemmtilegur og fræðandi og sannur og einlægur, eins og þú. Hann lýsir þér vel. Þú lýsir því vel hvernig þú varðst bara að skrifa, hvernig þú fluttir landa á milli til þess að geta lifað á því eða lifað við það.
Heimurinn er nefnilega bara úr gleri ef þú hefur ekki efni á bestu lögfræðingunum – sagðir þú.
Þetta er svo flott setning, Ásgeir.
Þú kunnir að skrifa um lífið og ég held að þess vegna hafir þú verið svo góður í að skrifa um menningu því þú skildir ofan í kjarna að menningin er órjúfanlegur hluti af lífinu en ekki glerdýr sem situr á hillu og enginn má snerta.
Þú komst aldrei fram við menninguna eins og þau sem sköpuðu hana líkt og þau væru úr gleri. Þú vissir að menningin átti betra skilið. Enga stjörnugjafarverðbólgu. Bókin um dauðann fékk – manstu – tvær og hálfa stjörnu. Þér fannst of mikið af æðruleysi gagnvart dauðanum í henni. Þér fannst það óbærilegt. Þér fannst óbærilegt að það væri talað í kringum dauðann og ekki farið í kvikuna á honum.
III
Okkur, Ölmu og Auði, finnst óbærilegt að þú sért farinn.
Við ávörpum þig, segjum þú – af því þú verður alltaf með okkur.
Þú sagðir að þér hefði orðið ljóst í Kjarnaskógi, skóginum sem afi þinn gróðursetti, að þú þyrftir að skrifa.
Þú sagðir að afi þinn hefði getað sagt þér að það taki tíma fyrir alvöru tré að vaxa. Að við lifum stundum ekki nógu lengi til þess að sjá hverju örfá fræ fá áorkað. Þessu langaði þig að trúa. Og þú sagðir: Stundum trúi ég því.
Það var einmitt á langleiðinni út í Kjarnaskóg sem þú ætlaðir að tryggja orðunum þínum, hugmyndum og skrifum framhaldslíf. Og mögulega eitt slíkt fyrir þig líka, þar sem þú, samkvæmt þínum orðum, varst kominn með dauðadóm. Dauðadómur, orðnotkun eins og úr einu af uppáhaldsljóðinu þínu, Þú mátt ekki sofa, eftir Arnulf Overland. Þessi setning úr því á svo fallega við þig:
Þú mátt ekki hírast í helgum steini
með hlutlausri aumkun í þögn og leyni!
Þau hrópa, slitrin af mannsrödd minni:
Þú mátt ekki gleyma köllun þinni!
Takk, Ásgeir.
Athugasemdir