Eitt af stærri erindum Sjálfstæðisflokksins í landsstjórninni hefur verið það að lækka skatta á þá tekjuhæstu og eignamestu, eigendur fyrirtækja og fjármagns. Á móti var skattbyrði lægri og milli tekjuhópa aukin verulega. Þessi þróun var í gangi frá 1995 til 2019, að undanskildum stjórnarárum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 til 2013. 1
Hluti af þessari þróun var tilkoma sérstaks fjármagnstekjuskatts (1997) sem var með mun minni álagningu en var á atvinnutekjur vinnandi fólks og lífeyri eftirlaunafólks. Áður voru fjármagnstekjur að mestu skattlagðar eins og atvinnutekjur. Annar þáttur aukinna fríðinda var veruleg lækkun tekjuskatts á hagnað fyrirtækja. Fleira mætti tína til.
Þessar breytingar komu margar til á gullárum nýfrjálshyggjunnar (1995 til 2007), þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn voru við stjórnarvölinn. Þó nokkrar breytingar hafi verið gerðar síðan þá hefur þeim skattfríðindum yfirstéttarinnar sem þar komu til sögunnar að umtalsverðu leyti verið viðhaldið frá 2013 til nútímans.
Í þessari grein mun ég sýna nokkur dæmi um umfang skattfríðinda þeirra sem hafa umtalsverðan hluta tekna sinna sem fjármagnstekjur (eignatekjur), en það eru tekjuhæstu og eignamestu einstaklingarnir í samfélaginu. Það verður gert með því að bera saman umfang þessara skattfríðinda við opinber útgjöld til nokkurra mikilvægra málaflokka á árinu 2023. Í lok greinarinnar er að auki bent á fleiri þætti skattfríðinda sem þau tekjuhærri og eignameiri njóta.
Umfang skattfríðinda fjármagnstekna
En hvert er umfang skattfríðinda þeirra sem hafa miklar fjármagnstekjur (arð, söluhagnað, vaxtatekjur og leigutekjur)? Fjármagnstekjur eru nú skattlagðar með 22% álagningu umfram persónufrádrátt. Álagning á atvinnutekjur og lífeyri er í þremur þrepum: 32%, 38% og 46% á tekjur umfram persónufrádrátt.
Skatttekjur hins opinbera af fjármagnstekjuskatti á árinu 2023 voru um 73 milljarðar. Ef álagningin á fjármagnstekjur á þessu ári hefðu verið þær sömu og í miðþrepi tekjuskattsins sem almenningur greiðir (38%), þá hefðu tekjur hins opinbera af fjármagnstekjuskatti verið um 52,4 milljörðum meiri, eða um 125 milljarðar í stað 73 milljarða. Ef álagningin hefði verið í efsta þrepi (um 46%) þá hefðu tekjur hins opinbera verið um 79 milljörðum meiri. Það er mikið hægt að gera fyrir 52 milljarða og enn meira auðvitað fyrir 79 milljarða.
Þeir sem hafa mestar fjármagnstekjur hafa yfirleitt einnig háar atvinnutekjur eða lífeyristekjur og því myndu fjármagnstekjur þeirra lenda í efsta þrepi álagningar (46%) ef þær væru skattlagðar eins og atvinnutekjur almennings. Það mætti því alveg réttlæta að nota hærri töluna sem mælikvarða á skattfríðindi fjármagstekna. En förum hóflegri leiðina og notum lægri töluna sem almennt mat á skattfríðindum fjármagnstekna – 52,4 milljarðar á ári. Skoðum svo hvers virði þessi fríðindi eru í samanburði við nokkra mikilvæga útgjaldaliði hins opinbera á sama ári. Það setur fríðindin í samhengi samfélagsins.
Hvað væri hægt að kaupa fyrir skattfríðindi þeirra ríku?
Á fyrstu myndinni berum við saman umfang skattfríðinda fjármagnstekna og kostnað ríkisins við helstu þætti í stuðningi við heimili launafólks í lægri og milli tekjuhópum, þ.e. stuðningi við stofnun fjölskyldu og heimilis á þeim tíma þegar byrðar fólks eru hvað mestar á starfsferlinum.
Þar er um að ræða tilfærslur til barnafólks í formi barnabóta, vaxtabætur til skuldugra heimila (sem í dag bera miklar byrðar umfram hálauna- og stóreignafólk af baráttunni við verðbólguna) og loks eru það útgjöld vegna leigubóta til lágtekjufólks sem býr við háa leigu.
Eins og myndin sýnir glögglega þá er kostnaður ríkisins af skattaafslætti vegna fjármagnstekna miklu meiri en nemur kostnaði af greiðslu barnabóta (52,4 milljarðar á móti 14,8). Kostnaður vegna húsnæðisstuðnings (vaxta- og leigubóta) er nánast eins og smápeningur í samanburði við kostnaðinn af fríðindum vegna fjármagnstekna.
Samanlagður kostnaður ríkisins af öllum þessum þremur stuðningsaðgerðum við tekjulægri heimili er um 27 milljarðar. Stuðningur ríkisins við tekjuhæstu og eignamestu heimilin er næstum tvöfaldur stuðningurinn við heimili þeirra tekjulægri. Áður en skattur á fjármagnstekjur var lækkaður (1997) þá voru útgjöld til stðnings við heimili vinnandi fólks nærri þrisvar sinnum meiri en nú er, þ.e. á árinu 2023.
Samhliða auknum skattfríðindum til þeirra tekjuhærri og eignameiri var stuðningur við heimili lægri og milli tekjuhópa þannig stórlega rýrður. Velferðarkerfi þeirra ríku blómstraði á meðan velferðarkerfi tekjulægra launafólks var dregið saman.
Skattfríðindin eru meiri en kostnaður af löggæslu og heilsugæslu
En skoðum þessi fríðindi þeirra ríku í samanburði við aðra þætti opinberrar þjónustu. Á næstu mynd eru útgjöld vegna löggæslu og brunavarna borin saman við kostnaðinn af skattfríðindum fjármagnstekna.
Um 39 milljarðar fóru í almenna löggæslu á síðasta ári og um 5,2 milljarðar í brunavarnir. Samanlagt eru þetta um 44,5 milljarðar. Ef skattfríðindi fjármagnsteknanna hefður verið afnumin þá hefði ábati hins opinbera dugað til að greiða þessa mikilvægu þætti samfélagsþjónustunnar – og 7,9 milljarðar hefðu verið afgangs í annað.
Á síðustu myndinni eru skattfríðindi fjármagnsteknanna síðan borin saman við nokkra þætti útgjalda til heilbrigðisþjónustu. Hið opinbera varði 18,7 milljörðum í niðurgreiðslu lyfjakostnaðar á árinu, 7,3 í hjálpartæki og um 16,2 milljörðum í kostnað við sérfræðilækna og 8,6 í niðurgreidda tannlæknaþjónustu. Þetta eru hvert um sig smápeningar í samanburði við kostnaðinn af skattfríðindum þeirra sem hafa miklar fjármagnstekjur af eignum sínum.
Ef við berum þetta saman við kostnað hins opinbera af rekstri almennu heilsugæslunnar þá var hann minni en umfang þessara fríðinda þeirra efnameiri. Ef fjármagnstekjur hefðu sem sagt verið skattlagðar eins og atvinnutekjur vinnandi fólks í fyrra hefði tekjuauki ríkisins verið meiri en nam rekstrarkostnaði heilsugæslunnar í landinu, og um 10,7 milljarðar hefðu verið afgangs til annarra mikilvægra verkefna.
Pælið í því – vel og lengi!
Það blasir þannig við að þau skattfríðindi sem felast í því að skattleggja fjármagnstekjur með minni þunga en leggst á atvinnutekjur launafólks og lífeyri eftirlaunafólks eru gríðarlega mikil, þó hér séu þau mjög varlega áætluð. Og samt er ekki allt talið.
Önnur skattfríðindi þeirra tekjuhæstu og eignamestu
Þó skattfríðindin sem fylgja fjármagnstekjum séu mikil þá eru mörg önnur fríðindi í skattkerfinu sem einkum gagnast þeim tekjuhærri og eignameiri. Hægt væri að skrifa langa grein um það. Hér á eftir fylgir hins vegar einungis stuttur listi yfir nokkur slík atrði.
-
Álagning tekjuskatts á hæstu tekjur er lægri hér en í mörgum grannríkjunum.
-
Álagning á hagnað fyrirtækja var lækkuð mikið hér á nýfrjálshyggjutímanum og er nú með því lægsta sem tíðkast meðal OECD-ríkjanna.
-
Auðvelt er að breyta atvinnutekjum í fjármagnstekjur með notkun eignarhaldsfélaga, sem ASÍ áætlar að kosti ríkið um 10 milljarða á ári.
-
Margvíslegir möguleikar eru hjá þeim sem eru með fyrirtækjarekstur og eignarhaldsfélög til að fá enn frekari skattfríðindi, bæði hér á landi og erlendis. Möguleikar á beinum skattaundanskotum eru einnig meiri hjá þessum aðilum, en þau kosta ríki og sveitarfélög meira en 100 milljarða ári.
-
Kaupendur nýrra rafbíla fá styrki frá ríkinu, en þau tekjulægri sem aka í meiri mæli á gömlum bensín- og olíubílum fá á sig hærri gjöld. Stefnt er á aukna notkun veggjalda sem leggjast munu með hlutfallslega mestum þunga á þá tekjulægri.
-
Nýting séreignasparnaðar til skattfrjálsrar niðurgreiðslu húsnæðisskulda gagnast þeim tekjuhæstu mest.
Samantekt
Hér hefur verið lagt mat á umfang skattfríðinda þeirra sem hafa stóran hluta tekna sinna sem fjármagnstekjur. Sýnt er að þessi fríðindi nema afar stórum fjárhæðum á hverju ári, í töpuðum skatttekjum hins opinbera (sjá einnig hér).
Hóflegt mat er að ef fjármagnstekjur hefðu verið skattlagðar samkvæmt miðþrepi tekjuskattsins (með um 38% álagning í stað 22%), þ.e. með svipaðri skattbyrði og var hjá þeim sem höfðu atvinnutekjur á bilinu 410.000 til 1.151.000 kr. á mánuði í fyrra, þá hefðu tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti verið um 52,4 milljörðum meiri en í reynd varð. Það eru miklir peningar.
Stefna ASÍ er að fjármagnstekjur verði skattlagðar eins og atvinnutekjur launafólks. Ef það væri gert til fulls væri sparnaður ríkisins enn meiri en hér er gert ráð fyrir.
Þegar haft er í huga að þessi fríðindi fara að stærstum hluta til þeirra tekjuhæstu- og eignamestu í samfélaginu þá blasir ekki einungis við mikið óréttlæti, heldur einnig afar óskynsamleg ráðstöfun opinberra fjármuna.
Ef hið opinbera hefði haft þessar aukatekjur til ráðstöfunar á hverju ári sl. áratug þá væri staða heilbrigðiskerfisins, innviða og velferðarkerfisins mun betri en nú er. Þessi skattapólitík óréttlætis og óskynsemi var einkum í boði Sjálfstæðisflokksins, með stuðningi eða afskiptaleysi Framsóknar.
Löngu tímabært er að laga skattkerfið og færa það í átt að því sem var fyrir tíma nýfrjálshyggjunnar. Þau tekjuhærri og eignameiri þurfa að gefa eftir óeðlileg skattfríðindi sín og ættu að vera stolt af því að leggja meira af mörkum til að koma samfélaginu á réttari leið.
Ekki er hægt að auka skattbyrði lægri og milli tekjuhópa til að greiða innviðaskuldir sem hlóðust upp á þeim tíma er Sjálfstæðisflokkurinn var áhrifamestur í ríkisstjórnum.
Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu.
Útgjöld til heilsugæslu eru ekkert annað en fjárfesting í heilsu landsmanna og fyrirbyggir frekari kostnað. Hliðstætt mætti segja um önnur útgjöld hins opinbera þau eru fjárfesting í fólki og innviðum framtíðarinnar.
Nýfrjálshyggjan heldur því fram að þessi skattaafsláttur þjóni því hlutverki að stækka kökuna fyrir okkur öll. Þessu var haldið fram í stuttri stjórnartíð Lis Truss, þó bretar sæju í gegnum þann málflutning. Íslenska nýfrjálshyggjan hefur vit á því að þegja um þetta, svo þeir verði ekki til athlægis nú í aðdraganda kosninga, þann 30. nóvember næstkomandi.
Smjörklípan frá þjónum auðvaldsins inniheldur orkumál og útlendingamál. Tilgangurinn er að beina athygli almennings frá hinu efnahagslega arðráni sem felst í þessum skattfríðindum þeirra auðugustu.
Það besta sem almenningur getur gert, er að krefjast svara við þessu arðráni, og halda athyglinni við efnahagsmálin, húsnæðismálin og heilbrigðismálin en síðast en ekki síst nýju stjórnarskrána.
Þ.e. 22% (og erum með 300.000 kr frítekjumark gagnvart skattinum á ári eins og aðrir) en + síðan 45% skerðingu ellilauna af hverri krónu ALLRA fjármagnstekna ÁN frítekjumarks.
(Erum þó með 25.000 kr. frítekjumark pr. mánuð gagnvart skerðingum heildartekna).
Þeir sem greiða háan fjármagnstekjuskatt eru yfirleitt í aðstöðu til að koma peningum sínum undan skattálagningu, hækkun skattsins er ekki gefin peningur.