Það er rétt sem komið hefur fram að við höfum lent í nokkrum erfiðleikum varðandi launagreiðslur til starfsfólks og vegna launatengdra gjalda,“ skrifar Elvar Ingimarsson, eigandi veitingastaðarins Ítalíu, í yfirlýsingu sem hann sendi á fjölmiðla vegna yfirlýsingar stéttarfélagsins Eflingar um meintan launaþjófnað og kjarasamningsbrot veitingastaðarins.
Félagar í Eflingu mótmæltu þessum meintu brotum fyrir utan veitingastaðinn í gær. Fyrr í dag sendi stéttarfélagið fjölmiðlum vitnisburði frá fólki sem starfað hefur fyrir veitingastaði í eigu eða rekstri Elvars.
„Ég fór margsinnis á fund Elvars [Ingimarssonar] og krafðist þess að laun yrðu greidd. Svarið var yfirleitt á þá leið að það yrði gert daginn eftir,“ segir í vitnisburði eins þeirra – Eriks Kristovco. „Nú, átta mánuðum síðar, hefur ekkert gerst í þeim málum og í sms-samskiptum við Elvar staðfesti hann við mig að hann hygðist ekki greiða mér þau laun sem mér ber, hvorki nú né síðar.“
Áfall í krefjandi rekstri
Í yfirlýsingu sinni ber Elvar fyrir sig áföll í rekstrinum. Hann keypti veitingastaðinn Ítalíu í maímánuði í fyrra. Fyrsta áfallið segir Elvar að hafi komið þegar húseigandi á Laugavegi ákvað að endurnýja ekki leigusamning við veitingastaðinn.
„Af þeim sökum þurftum við að flytja í árslok 2023 og flutti veitingastaðurinn á Frakkastíg. Það er alltaf erfitt að flytja rótgróinn veitingastað í nýtt húsnæði,“ skrifar Elvar.
„Það hefur verið mjög krefjandi að reka veitingastaði í núverandi rekstrarumhverfi, sem einkennist af háum vöxtum, verðbólgu þar sem aðföng hafa hækkað stjórnlaust og hækkandi launakostnaði.“
„Það hefur verið mjög krefjandi að reka veitingastaði í núverandi rekstrarumhverfi,“
Elvar segir veitingastaðinn nú skulda 2 milljónir króna í ógreidd laun og að það samsvari um tveimur prósentum af þeim launum sem til greiðslu hafa komið á þessu ári.
„Vinnan við að leysa úr því er í fullum gangi og viljum við biðja um vinnufrið á meðan sú vinna er í gangi,“ skrifar Elvar. Hann segir að það hafi verið honum afar þungbært þegar stéttarfélagið Efling blés til mótmæla fyrir utan veitingastaðinn í gær.
„Tilgangurinn er, að manni sýnist, að skaða reksturinn sem mest þannig að okkur sé ekki kleift að vinna að lausn þessara mála og gera upp útistandandi skuldir.“
„Umræddur Elvar sagði iðulega þegar ég ræddi við hann að ég ætti að prófa að setjast í hans stól, það væru einfaldlega engir peningar til að greiða mér laun“
Miðað við frásagnir félaga í Eflingu sem starfað hafa fyrir félög Elvars hefur það ekki gengið vel.
„Umræddur Elvar sagði iðulega þegar ég ræddi við hann að ég ætti að prófa að setjast í hans stól, það væru einfaldlega engir peningar til að greiða mér laun,“ er haft eftir Vitalii Shybka í tilkynningunni frá Eflingu. Hann var ráðinn til starfa á Ítalíu í desember í fyrra. Haft er eftir honum að hann hafi ekki fengið greidd laun og það hafi sent hann út í fjárhagsvandræði.
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir