Í kosningabaráttunni um Bessastaði hefur mikið verið rætt um skautun í umræðu, traustleysi í samfélaginu og þá rætnu orðræðu sem er ríkjandi og er sífellt að verða verri. Frambjóðendur hafa hver á fætur öðrum lýst því yfir, hver með sínu nefi til að mála sig upp sem hluta af lausninni frekar en orsök vandans, að þeir telji sig til þess bæra að byggja brýr. Sameina fylkingar. Leiða samtal. Skapa innri ró.
Þótt það sé falleg hugmynd að ofurmenni flytji á Álftanes og nái, með persónutöfrum sínum og hæfileikum, að stuðla að friði í heiminum og sátt í íslensku samfélagi þá er það ekki raunveruleikatengd sýn.
Líkt og kom svo skýrt fram í frábærri skopmynd í vikunni þá snýst starfið meira um að planta trjám í rigningu en að fljúga skikkjuklæddur um vistaverur tilverunnar, breyta vatni í vín og röngu í rétt.
Það er heldur ekkert nýtt að fólk sem sækist eftir opinberum embættum klæði sig í sparifötin, fari snemma í jólabaðið og dygðaskreyti sig með sambærilegum loforðaflaumi þegar það þarf á því að halda að kjósendur veiti þeim endurnýjað umboð.
Staðreyndin er líka sú að rúmlega níu af hverjum tíu landsmönnum ætlar sér að kjósa þá fimm frambjóðendur sem mælast með tveggja stafa fylgi. Kosningaspá Heimildarinnar, sem byggir á vigtun á þeim skoðanakönnunum sem gerðar eru, sýnir að allar líkur eru á að næsti forseti landsins verði kosinn með minnsta stuðningi sem forseti hefur nokkru sinni fengið í kosningum, eða í besta falli með um fjórðungi atkvæða.
Það verður varla til að sameina sundraða þjóð.
Flestir vilja ekki þann sem leiðir
Síðustu daga hefur fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, Katrín Jakobsdóttir, leitt það kapphlaup. Það þarf kannski ekki að koma mikið á óvart enda sýnir ný könnun að hún er sá frambjóðandi sem langflestir vita hver er, eða 78 prósent aðspurðra.
Katrín er samt sem áður líka sá frambjóðandi með umtalsvert fylgi sem nýtur minnst fylgis sem annar valkostur hjá svarendum í könnunum og sá frambjóðandi sem flestir nefna sem þann sem þau vilja síst sjá sem næsta forseta. Tvisvar sinnum fleiri nefna Katrínu Jakobsdóttur sem versta kost en Jón Gnarr, þann sem er næstoftast nefndur, og næstum sex sinnum fleiri nefna hana en Höllu Tómasdóttur, sem flestir svarendur í könnunum Maskínu virðast geta sætt sig við.
Þau þrjú sem mælst hafa í öðru til þriðja sæti keppa nú af ofsa um að verða valkostur þeirra sem ætla að kjósa taktískt, og ná þar með atkvæðum þeirra sem hafa ekki endilega sannfæringu fyrir því að sá sem X-ið verður sett við sé besti valkosturinn í embætti forseta Íslands.
Gera minna gagn eða breyta engu
Hlutfall þeirra sem munu kjósa næsta forseta er svipað og ber traust til Alþingis Íslendinga, alls 27 prósent, og ekki fjarri fjölda þeirra atkvæða sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins fékk í síðustu þingkosningum, þegar 24,4 prósent kusu Sjálfstæðisflokkinn.
Eftir að Katrín ákvað að hætta í stjórnmálum og stefna að því að færa sig um einn stól og á borðsendann við ríkisráðsborðið þá varð Bjarni Benediktsson, langóvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, forsætisráðherra.
Könnun Maskínu fyrir Heimildina sem gerð var í apríl sýndi að sjö af hverjum tíu voru neikvæðir gagnvart nýju ríkisstjórninni og einungis níu prósent svarenda treystu henni betur en þeirri sem sat á undan. Þá sögðust 84 prósent vera þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Bjarna myndi gera minna gagn eða engu breyta og 73 prósent sögðust bera lítið traust til Bjarna sem forsætisráðherra. þar á meðal mikill meirihluti kjósenda samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, en tæplega 16 prósent landsmanna sögðu að þeir treystu honum.
Treystum ekki þeim sem ætluðu að auka traust
Í fyrstu könnun Gallup eftir breytingarnar var stuðningur við ríkisstjórnina kominn niður í 30 prósent, sem er minnsti stuðningur sem hún hefur mælst með síðan hún tók við síðla árs 2017 og hafði þá það að meginmarkmiði að auka traust í samfélaginu. Það er jafnlítill stuðningur og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem sat 2009 til 2013, mældist minnst með en sú stjórn tapaði 16 þingmönnum og 27,7 prósentustigum af fylgi í kosningunum sem fylgdu eftir setu hennar. Ríkisstjórn Bjarna er með minni stuðning en bæði ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem féll vegna Panamaskjalanna, og fyrri ríkisstjórn Bjarna, skipuð Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð í örfáa mánuði áður en hún féll, mældust minnst með.
„Þessar tölur benda til þess að enginn salur sé fyrir sitjandi ríkisstjórn“
Vinstri græn, flokkurinn sem Katrín leiddi áður en hún fór í forsetaframboð, er við það að þurrkast út í íslenskri pólitík. Sjálfstæðisflokkurinn er líka í djúpri holu og hefur ekki mælst stærsti flokkur landsins síðan síðla árs 2022. Miðað við stöðu mála í könnunum mun hann enda með undir 20 prósent fylgi í fyrsta sinn í sögu sinni. Framsókn, þriðji flokkurinn í ríkisstjórninni, hefur tapað helmingi fylgisins sem hann fékk síðast þegar kosið var til þings.
Þessar tölur benda til þess að enginn salur sé fyrir sitjandi ríkisstjórn. Nýi forsætisráðherrann gaf þó lítið fyrir slíkar ávirðingar. Þegar hann tók við lyklunum að stjórnarráðinu sagðist Bjarni vera „með langa sögu þess að sigra allar væntingar og skoðanakannanir“. Það segir hann þótt allt stefni í að hann leiði flokk sinn í gegnum sex af sjö verstu kosningum hans frá upphafi.
Stöðugleiki er teygjanlegt hugtak
Það er kannski ekki skrýtið að sífellt fleiri hafi misst algjörlega trúna á Bjarna. Það hefur fátt staðist sem hann hefur sagst standa fyrir, annað en að koma í veg fyrir nauðsynlegar kerfisbreytingar. Síðast þegar kosið var á Íslandi stóð yfir heimsfaraldur og öll hefðbundin stjórnmál höfðu verið tekin úr sambandi. Ríkissjóður hafði tekið gríðarlegt magn peninga að láni til að dæla út í efnahagskerfið með óljós markmið um að borga reikninginn seinna og Seðlabanki Íslands hafði gert lánsfé nánast frítt með vaxtalækkunum til að örva neyslu.
Í greinum sem Bjarni birti í aðdraganda kosninganna 2021 sveipaði hans sig áru stöðugleika og ábyrgðar, á baki þeirra aðgerða. Að hann hefði fært Íslendingum lágvaxtaumhverfi til frambúðar sem þýddi lægri afborganir og meiri kaupmáttur. „Fólk fær meira fyrir launin sín, skattarnir hafa lækkað og verðbólgan verið hófleg.“
Hvítt er orðið svart
Nú er staðan allt önnur, og hefur verið í lengri tíma. Stýrivextir fóru úr 0,75 í 9,25 prósent þar sem þeir munu hafa verið í eitt ár næst þegar möguleiki opnast á að breyta þeim. Vextir á breytilegum óverðtryggðum lánum hafa farið úr 3,5 í ellefu prósent og greiðslubyrði þeirra sem eru með slík lán rúmlega tvöfaldast. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila landsins hefur dregist saman í fimm af síðustu sex ársfjórðungum, sem þýðir að fólk fær minna fyrir peningana í veskinu sínu. Ástæðan er þrálát verðbólga sem hefur nú verið yfir verðbólgumarkmiði í fjögur ár samfleytt, náði um tíma tveggja stafa tölu og stendur nú í sex prósentum. Þá miða áætlanir við að ríkissjóður verði rekinn í halla í níu ár í röð, og hið opinbera er að greiða þrisvar sinnum hærra hlutfall af landsframleiðslu í vaxtakostnað en meðaltal þeirra ríkja sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skoðar reglulega.
Við skoðun á nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður varla hægt að segja að skattar séu að lækka. Grípum niður í umsagnir þeirra lobbíista sem telja má lengst til hægri í íslensku hagsmunagæsluflórunni og eiga þar með mesta hugmyndafræðilega samleið með Sjálfstæðisflokki, að minnsta kosti í orði. Viðskiptaráð segir í sinni umsögn að skattheimta á Íslandi sé „nú þegar með því hæsta sem þekkist í hinum vestræna heimi“ og heill kafli í 24 blaðsíðna umsögn Samtaka atvinnulífsins heitir „Skattar og meiri skattar“. Yfirfyrirsögn eins hluta hans er „enn á ný er seilst dýpra í vasa skattgreiðenda til að brúa bilið“.
Skapandi túlkun á því sem er best
Ofangreindar tölur, og gagnrýni hugmyndafræðilegra bræðra og systra, bítur þó lítið á Bjarna. Hann stóð keikur í pontu Alþingis fyrr í þessum mánuði og sagði: „Þetta er sterkasta ár Íslands í efnahagssögunni.“
Það rökstuddi forsætisráðherrann með því að á Íslandi hefði verið meiri hagvöxtur og fleiri störf verið sköpuð en annars staðar yfir nokkurra ára tímabil. Svo lengi sem einhver er að græða þá sé allt í góðu.
Og það er rétt. Hér hefur verið mikill hagvöxtur og störfum hefur fjölgað gríðarlega, aðallega út af miklum vexti í ferðaþjónustu. En þeim vexti hafa fylgt margar afleiðingar og gríðarleg umframeftirspurn. Fólki sem flutt hefur til landsins til að starfa í þeim geira, og í afleiddum störfum, hefur fjölgað gríðarlega og ferðamönnunum sjálfum fjölgað úr hálfri milljón í 2,4 milljónir á örfáum árum.
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, sagði í viðtali við Vísbendingu í fyrra að þessi hagvöxtur sem verið hefur hér á undanförnum árum sé ekki sjálfbær og að Ísland ráði ekki við svona mikinn vöxt. „Aukinn straumur ferðamanna veldur hliðaráhrifum á aðra og sum þeirra eru neikvæð. Hún býr til kostnað fyrir þá sem fyrir eru og í prinsippinu ættu ferðamennirnir og greinin að greiða þann kostnað. [...] Það er þó ekki mitt að koma með patentlausnir á því. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa að ákveða það kerfi.“
Kjörnir fulltrúar hafa frekar innleitt örvandi hvata fyrir ferðaþjónustu en að setja á hana bremsu, enda hagvöxtur sá mælikvarði sem skiptir ríkjandi stjórnvöld mestu máli, ekki áhrif hans á samfélagið.
Er best að geta ekki búið einhvers staðar?
Hægt er að grípa niður í nokkrar tölulegar staðreyndir til að styðja við þessa greiningu Más. Allt þetta hagvaxtardrifna fyllerí hefur til að mynda haft mikil áhrif á húsnæðismarkað, þar sem eftirspurn er miklu meiri en framboð. Nýlegar greiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sýna til að mynda að miklu fleiri leigjendur keppa um hverja íbúð nú en áður, að íbúðaverð hafi tvöfaldast frá aldamótum að teknu tilliti til verðbólgu og að yngri hluti aldamótakynslóðarinnar svokölluðu, sem er fædd á árunum 1988 til 1993, hafi verið langsamlega óheppnust þegar kemur að því að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þetta er fólk sem hefur verið að skríða inn á fullorðinsárin á síðasta rúma áratug.
Ýmsar ástæður eru fyrir þessu. Flestar eiga þær það sameiginlegt að vera afleiðing pólitískra ákvarðana á síðustu tveimur áratugum. Í áðurnefndri umsögn Viðskiptaráðs var til dæmis bent á að á því tímabili hafi kostnaður húsnæðisaðgerða verið um 900 milljarðar króna á föstu verðlagi, eða um 45 milljarðar króna á hverju ári. „Uppistaða þessa stuðnings hefur verið til að auka eftirspurn eftir íbúðum frekar en framboð. Til skamms og meðallangs tíma hafa slíkar aðgerðir meiri áhrif til verðhækkana en framboðsaukningar.“ Stærstu aðgerðirnar eru skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól lána og Leiðréttingin, sem nýttust efstu tekjuhópum fyrst og síðast.
Áhrifin á heilbrigðiskerfi og löggæslu
Áhrifin eru víðtækari. Á ársfundi Landspítalans fyrr í þessum mánuði var til að mynda greint frá því að sjúklingum hans hafi fjölgað um 4.500 milli ára, eða um tólf á dag að meðaltali, samhliða því að stöðugildum fækkaði. Í tilkynningu sagði: „Hlutfallslega hefur erlendum sjúklingum fjölgað meira en sjúklingum með íslenskt ríkisfang eða um ríflega 15 prósent milli ára, að meðtöldum ferðamönnum.“
„Þá eru ótalin svöðusárin. Til dæmis skipting auðlindarentu milli þjóðarinnar sem á þær og þeirra sem fá að nýta“
Í nýlegri umsögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um fjármálaáætlun sagði að „fjölgun íbúa og sérstaklega aukning ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár hefur fjölgað verkefnum lögreglu verulega auk þess sem nýtt viðskiptamódel skipafyrirtækja, með aukinni viðkomu á Íslandi þar sem farþegaskipti eiga sér stað, verða mikil áskorun á þessu ári og næstu árin.“ Samt er verið að skera niður í framlögum til lögreglunnar og hún hefur áhyggjur af því að sýnileiki hennar hverfi vegna hans. Til að rökstyðja það er bent á að í dag séu að jafnaði 20 almennir lögreglumenn að störfum á hverjum degi á höfuðborgarsvæðinu. Það er sami fjöldi og var eingöngu í Reykjavík árið 2007. Við þetta má bæta bersýnilegri innviðaskuld í mennta- og samgöngumálum.
Þá eru ótalin svöðusárin. Til dæmis skipting auðlindarentu milli þjóðarinnar sem á þær og þeirra sem fá að nýta. Könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum sýndi að 77 prósent voru fylgjandi því að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Breytingar á stjórnarskrá sem fela í sér bráðnauðsynlegar uppfærslur og staðfestingu á að þjóðin eigi auðlindirnar eru líka eitthvað sem langstærsti hluti landsmanna er fylgjandi.
Að hagnast á kostnað vellíðunar leiðir ekki til sáttar
Hér að ofan hefur verið talað um ýmsar tölur. Þær eiga það sameiginlegt að sýna að Ísland er klofin þjóð. Við erum ekki sammála um hvert við eigum að stefna né hver eigi að fylgja okkur þangað. Fyrir vikið sitjum við oftar en ekki uppi með fólk við stýrið sem mikill meirihluti þjóðarinnar vill ekki hafa þar, og er ósátt við. Nú stefnir allt í að næsti forseti verði þannig líka.
Það þarf að ráðast í stórtækar kerfisbreytingar til að leiða þetta ósætti í jörð og samhliða þarf að jarða þessar þröngu skilgreiningar á árangri sem hafa fengið að vera ráðandi allt of lengi og snúast fyrst og síðast um hagvöxt og hagnað sumra. Að hagnast á kostnað vellíðunar fólks getur ekki verið leið til sáttar.
Vonandi tekst næsta forseta landsins, sem kosinn verður á laugardag, að gera það sem þau segjast ætla að gera. Að leiða samtal og sameina sundraða þjóð. Vonandi tekst honum það sem öðrum hefur ekki tekist á síðustu tæpu tveimur áratugum. Vonandi tekst viðkomandi að koma á óvart frekar en að valda enn meiri vonbrigðum.
Flest bendir hins vegar til þess að þjóðin hafi litla trú á því að svo verði.
Allir sem lærðu að reikna í grunnskóla hljóta að sjá að þetta er dæmi sem gengur ekki upp.
Langar svona í restina að benda á grein eftir Indriða Þorláksson [ÁL EÐA GLÓPAGULL] sem er hér á Heimildinni.