Þrjú í hnapp en Katrín komin með marktæka forystu viku fyrir kosningar
Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Þrjú í hnapp en Katrín komin með marktæka forystu viku fyrir kosningar

Æsispenn­andi loka­sprett­ur er framund­an í for­seta­kosn­ing­un­um. Fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra er með nokk­urra pró­sentu­stiga for­ystu en þrír anda of­an í háls­mál­ið á henni og eiga all­ir raun­hæf­an mögu­leika á að ná henni.

Alls ætla 24,2 prósent kjósenda að kjósa Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem næsta forseta Íslands eftir átta daga samkvæmt nýjustu kosningaspá Heimildarinnar. Það er mesta fylgi sem hún hefur mælst með í tvær vikur en þó ekki mikil breyting frá þeirri stöðu sem hún hefur verið í meira og minna allan maímánuð. Þá hefur fylgi hennar verið í kringum 24 prósent.  

Framan af mánuðinum var Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri í forystu í baráttunni um Bessastaði. Hún mældist með um 31 prósent fylgi í byrjun mánaðar, og um tíma með um fimm prósentustiga forskot á Katrínu, en er nú komin niður í 18,5 prósent, og hefur tapað 40 prósent af fylgi sínu á tveimur vikum. Því munar nú 5,5 prósentustigum á henni og þeim frambjóðanda sem er í forystu. 

Þær tvær eru einu frambjóðendurnir sem hafa leitt kosningaspá Heimildarinnar fram að þessu, en fyrsta spáin var keyrð 13. apríl síðastliðinn og þær eru orðnar alls 18 talsins. Katrín leiddi fram til 2. maí en þá tók Halla Hrund við og leiddi samfleytt þar til fyrir viku síðan. 

Athygli vekur að forysta Katrínar á þann frambjóðanda sem kemur næst hefur aldrei verið meiri en nú, þegar vika er í kosningar. Þótt hún sé mælanleg þá er vert að benda á að fylgið er enn á mikilli ferð og afar lítið þarf til svo að einhver þeirra sem anda ofan í hálsmálið á forsætisráðherranum fyrrverandi nái henni. Það má til að mynda benda á að árið 2016, þegar nýr forseti var síðast kosinn á Íslandi, varð rúmlega níu prósentustiga sveifla á fylgi eins frambjóðanda frá síðustu kosningaspánni, sem gerð var daginn fyrir kosningar og byggði á nýjustu skoðanakönnunum sem framkvæmdar voru daganna á undan, og niðurstöðu kosninga.

Slík sveifla er einsdæmi síðustu áratugi og bendir til þess að margir kjósendur hafi ákveðið á endasprettinum að skipta um val og styðja þann frambjóðanda sem var líklegastur til að vinna þann sem var í forystu, þá Guðna Th. Jóhannesson.

Halla Tómasdóttir á miklu flugi

Sá frambjóðandi sem naut þessarar fylgissveiflu árið 2016 var Halla Tómasdóttir, sem endaði með 27,9 prósent atkvæða. Hlutfall sem myndi duga henni til að verða forseti í ár miðað við stöðu mála í kosningaspánni. Halla er sá frambjóðandi sem er að bæta hraðast við sig fylgi nú og eftir að hafa mælst með fjögurra prósenta stuðning fyrir örfáum vikum er hún komin í 17,2 prósent.

Það er hraðari aukning en hún upplifði árið 2016 en þá náði hún ekki yfir 16 prósent fyrr en tveimur dögum fyrir kosningar. Samkvæmt könnunum er Halla Tómasdóttir líka sá frambjóðandi sem flestir gætu hugsað sér að skipta yfir á ef þeir kjósi ekki þann sem þeir styðja nú og hún er sá frambjóðandi af efstu fimm sem fæstir eru neikvæðir gagnvart því að verði næsti forseti. Þá þótti hún standa sig best í kappræðum RÚV í upphafi mánaðar samkvæmt könnun Gallup á þeirri frammistöðu en í næstu viku verða þrennar kappræður haldnar: á Heimildinni, Stöð 2 og Vísi og á RÚV daginn fyrir kjördag. Að sama skapi er Katrín sá frambjóðandi með umtalsvert fylgi sem fæstir kjósendur nefna sem sinn frambjóðanda B og sá sem flestir eru neikvæðir gagnvart að verði næsti forseti.

Stöðugasti frambjóðandinn í pakkanum sem fylgir á eftir Katrínu er Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann hækkar lítillega milli spáa og er kominn upp í 18,4 prósent sem er nánast sama fylgi og Halla Hrund. Í byrjun maí mældist Halla Hrund með tíu prósentustiga forskot á Baldur. Hann nýtur þess líka að vera vinsæll sem annar kostur margra og þykir einnig hafa staðið sig vel í kappræðum á meðan að þær hafa verið taldar stór ástæða fyrir því að Halla Hrund fór að síga í könnunum. Því eru stór tækifæri framundan fyrir Baldur að vinna á á lokasprettinum. 

Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri, er með ólseigt fylgi og hefur meira og minna verið að mælast með í kringum tólf prósent allan maímánuð. Það stendur nú í 12,4 prósent, sem þýðir að hann er rétt um hálfdrættingur við Katrínu. Ósennilegt verður að teljast, nema eitthvað mikið gerist, að Jón eigi möguleika á svo mikilli uppsveiflu á síðustu metrunum að hann eigi raunhæfa möguleika á sigri, sérstaklega ef horft er á hversu stöðugt fylgi hans hefur verið yfir margar vikur. 

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður og fyrrverandi dómari, mælist svo með 5,7 prósent sem er svipað og hann hefur verið með undanfarið. Hinir sex frambjóðendurnir skipta svo á milli sín 3,7 prósentustigum.

Hvað er kosningaspáin?

Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.

Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar reglu­lega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdrag­anda kosn­inga.

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Unnar Unnarsson skrifaði
  Kjósum Baldur 🇮🇸💪
  1
 • Jón Ragnarsson skrifaði
  Áróður elítunar fyrir Katrínu Jakobsdóttir virðist vera ótakmarkaður og einhver peningahít er til ?
  Þar skipta skoðanakannarnir máli til að afvegaleiða fólk til Katrínar Jakobsdóttir ?
  2
  • Bryndís Dagbjartsdóttir skrifaði
   Mér finnst bara mjög lélegt að Heimildin virðist ekki geta birt samantekt hvað þessir frambjóðendur eyða í kosningabaráttuna svona um það bil
   1
 • trausti þórðarson skrifaði
  Skoðanakannanir sýna tvennt:
  Katrín Jakobsdóttir er sá frambjóðandi sem kjósendur vilja síst aðverði næsti forseti.
  Katrín Jakobsdóttir er sá frambjóðandi sem kjósendur eru líklegir til að velja sem næsta forseta.
  Getur einhver hjálpað mér að skilja þetta?
  3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Forsetakosningar 2024

Katrín niðurstaða flestra í Kosningaprófi Heimildarinnar
FréttirForsetakosningar 2024

Katrín nið­ur­staða flestra í Kosn­inga­prófi Heim­ild­ar­inn­ar

Katrín Jak­obs­dótt­ir lenti oft­ast í fyrsta sæti hjá þeim sem þreyttu Kosn­inga­próf Heim­ild­ar­inn­ar fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar 2024. Um fjórð­ung­ur þátt­tak­enda var oft­ast sam­mála fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herr­an­um. Yf­ir 8.000 tóku próf­ið en svör bár­ust ekki frá Vikt­ori Trausta­syni eða Ást­þóri Magnús­syni.
Halla Tómasdóttir verður sjöundi forseti lýðveldisins
GreiningForsetakosningar 2024

Halla Tóm­as­dótt­ir verð­ur sjö­undi for­seti lýð­veld­is­ins

Kjarna­fylgi tveggja efstu fram­bjóð­enda til for­seta var hníf­jafnt dag­inn fyr­ir kosn­ing­ar. Fjöldi kjós­enda valdi að velja á milli þeirra á kjör­dag og lang­flest­ir þeirra völdu Höllu Tóm­as­dótt­ur, sem vann af­ger­andi sig­ur. Þrjár kon­ur fengu þrjú af hverj­um fjór­um at­kvæð­um, kjós­end­ur Jóns Gn­arr kusu „með hjart­anu“ og fjöldi fram­bjóð­enda fékk mun færri at­kvæði en með­mæli með fram­boði sínu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár