Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

„Ótrúlega falleg framtíðarsýn“ að hlaupa með pabba sínum á níræðisaldri

Rann­veig Haf­berg hélt að hún gæti aldrei byrj­að að hlaupa. Hún létt­ist um 38 kíló á einu og hálfu ári með breyttu mataræði og hleyp­ur vænt­an­lega sitt tí­unda of­ur­m­ara­þon á Lauga­veg­in­um í sum­ar. Ey­steinn Haf­berg, fað­ir henn­ar, byrj­aði að hlaupa um sjö­tugt eft­ir hjarta­áfall. Hann er orð­inn fræg fyr­ir­mynd í ís­lenska hlaupa­heim­in­um. Móð­ir henn­ar er líka byrj­uð að hlaupa. Og barna­börn­in.

„Ótrúlega falleg framtíðarsýn“ að hlaupa með pabba sínum á níræðisaldri
Rannveig og Eysteinn Hefðu ekki talist líklegust til að verða hlauparar fyrir mörgum árum, en hlaupa nú saman.

Rannveig Hafberg var lengi í mikilli yfirþyngd. Árið 2007 hljóp hún – eða aðallega gekk – Reykjavíkurmaraþonið ásamt vinnufélögum sínum. Tveimur árum síðar tók hún mataræðið í gegn og á einu og hálfu ári léttist hún um 38 kíló. Þarna byrjaði líf hennar að breytast, en hún átti eftir að komast að því að líf annarra í kringum hana fylgdi með.

Hún fór að skokka ásamt systur sinni á þessum tíma. „Mig hafði dreymt um að byrja að hlaupa en aldrei haldið að ég gæti það.“ Það gat hún hins vegar og árið 2009 tók hún aftur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hljóp þá 10 kílómetra. Í það sinn hljóp hún nánast allan tímann. Rannveig fór svo að æfa hjá Skokkhópi Hauka þar sem þjálfari leiðbeindi henni.

Þegar hún var nýbyrjuð að hlaupa með hópnum rakst hún á föður sinn, Eystein, sem er 83 ára, þar sem hann var úti að hlaupa. Hún segist ekki hafa haft hugmynd um að hann væri byrjaður að hlaupa. Í kjölfarið ýtti Rannveig á föður sinn að fara að æfa með skokkhópnum sem hann gerði í kjölfarið.

„Pabbi fékk hjartaáfall árið 2007 og þurfti að fara í stóra aðgerð. Hann fór síðan í endurhæfingu á Reykjalundi og þar var hann aðeins látinn vera á bretti og fékk leiðbeiningar til að koma sér í form. Hann hafði svo sem gengið svolítið í gegnum árin en ekkert markvisst. Svo án þess að við systkinin vissum það fór hann að ganga upp Áslandsbrekkuna í Hafnarfirði sem er frekar brött. Svo fór hann að hlaupa niður brekkuna.“ 

Og boltinn var byrjaður að rúlla. „Hann var sjötugur þegar hann byrjaði sinn hlaupaferil.“

„Team Hafberg“

Hlaupið varð ástríða hjá fjölskyldunni. Móðir Rannveigar, Elín Ó. Hafberg, sem er að verða 82 ára, byrjaði líka að mæta á æfingar hjá skokkhópnum þar sem hún gekk og skokkaði. „Þannig að þetta varð sameiginlegt áhugamál hjá fjölskyldunni.“

FyrirmyndirRannveig Hafberg heyrir oft sagt að faðir hennar, Eysteinn, sé svo mikil fyrirmynd, sem færi öðrum von. Nú er móðir hennar, Elín, líka farin af stað.

Skokkhópurinn fór til Berlínar til að taka þátt í Berlínarmaraþoninu árið 2011. „Pabbi vildi ekki koma með af því að hann hélt að hann gæti ekki hlaupið hálft maraþon. Við systurnar fórum og það var mjög gaman. Daginn sem við hlupum maraþonið hljóp pabbi sjálfur sama dag hálft maraþon hérna heima.“

Sagt var frá því í Fjarðarpóstinum í maí 2011 að Eysteinn hefði hlaupið sitt fyrsta hálfmaraþon, sjötugur að aldri.

„Ég held að hann hafi verið svolítið svekktur að hafa ekki farið. Í kjölfarið fórum við systur með fjölskyldum okkar og mömmu og pabba í helgarferð til Mývatns þar sem pabbi fór í sitt fyrsta keppnismaraþon ásamt okkur systrum og börnum okkar og mamma tók þátt í styttri vegalengdum. Þetta var æðisleg helgi og þar sem þetta var tiltölulega fámennt hlaup lentum við ansi mörg á verðlaunapalli. Við systkinin ákváðum í kjölfarið að fara með foreldrum okkar í hlaupaferð til Stokkhólms um haustið þar sem við hlupum hálft maraþon en mamma var í þetta sinn í klappliðinu. Við vorum í merktum bolum. Team Hafberg. Svo héldum við áfram þessari hlaupavegferð og höfum meðal annars farið í nokkrar hlaupaferðir erlendis með Skokkhópi Hauka.“

TeymiðFjölskyldan hleypur saman í Reykjavíkurmaraþoninu.

Rannveig segir að faðir sinn hafi heyrt af hlaupi á eyjunni Borgundarhólmi í Danmörku. Hún segir að um hafi verið að ræða fimm daga hlaupahátíð og að faðir sinn hafi verið spenntur fyrir að fara með fjölskyldunni þangað. 

„Úr varð að þau buðu okkur í hlaupaferð og fórum við systkinin ásamt mökum og sjö börnum sumarið 2014. Við vorum aftur í bolum merktum Team Hafberg og vöktum mikla athygli og fórum í sjónvarpsviðtal. Fullorðna fólkið hljóp á hverjum degi í fimm daga og kláraði sem samsvaraði heilu maraþoni á mismunandi stöðum á eyjunni. Unglingarnir hlupu þrjú hlaup og kláruðu hálft maraþon á þremur dögum. Og þau sem voru aðeins yngri hlupu held ég tvö hlaup og kláruðu 10 kílómetra. Þetta var mjög skemmtileg og eftirminnileg ferð.“ 

Rannveig segir að nánast öll fjölskyldan hafi mætt saman í Reykjavíkurmaraþonið undanfarin ár, sumir að horfa og hvetja og aðrir að hlaupa og hún og bróðir hennar hafa hlaupið með föður þeirra. „Dóttir mín hefur undanfarin ár farið með mömmu minni 10 kílómetra og í hittifyrra voru þær með barnabarnið mitt, sem var þá tveggja ára, í kerru. Sama ár var ég meidd og gat ekki farið lengri vegalengd eins og ég er vön en hljóp þá með eldra barnabarni mínu. Við fórum líka með pabba til Kaupmannahafnar í fyrra og hlupum með honum hálft maraþon. Og undanfarin tvö ár hef ég hlaupið mörg keppnishlaup með honum.“

HlaupafeðginEysteinn og Rannveig Hafberg eftir Reykjavíkurmaraþonið.

 Ert þú dóttir Eysteins?

Rannveig segir að það sé mjög gefandi að hlaupa með föður sínum og að það tengi þau saman. „Þetta er sameiginlegt áhugamál og gaman að sjá hvað hann getur hlaupið orðinn þetta gamall. Þetta gefur manni ótrúlega fallega framtíðarsýn: Að sjá að maður geti sjálfur verið í þessum sporum eftir 20 ár. Þetta hefur líka sameinað fjölskylduna. Mamma hefur líka gaman af því að vera með og dóttir mín hefur verið að fara með henni. Þær hafa farið saman í Reykjavíkurmaraþonið allavega fjórum sinnum 10 kílómetra þar sem þær ganga og skokka til skiptis. Þegar mamma varð áttræð gaf fjölskyldan henni það í afmælisgjöf að við hlypum með henni í miðnæturhlaupinu. Henni fannst það vera alveg meiri háttar að hlaupa með  barnabörnunum en þau voru sjö sem gátu mætt.“

„Hann er lifandi sönnun þess að það er aldrei of seint að byrja að hlaupa“
Rannveig Eysteinsdóttur
um föður sinn, Eystein, 83 ára hlaupara
Elín og Eysteinn HafbergHjónin víla ekki fyrir sér að taka keppnishlaup á níræðisaldri.

Rannveig segir að margir í hlaupasamfélaginu viti hver faðir hennar er. „Ert þú dóttir Eysteins?“ er spurning sem hún hefur fengið. „Maður heyrir það svo ótrúlega oft að hann sé svo frábær og mikil fyrirmynd. Ég held að það sé gott fyrir fólk að hafa svona fyrirmynd og vita af honum. Hann er lifandi sönnun þess að það er aldrei of seint að byrja að hlaupa.“

Hún segir að heilsufarslega hafi hlaupin gefið honum mikið, svo sem gleði og ánægju sem og rútínu og mikla samveru með alls konar fólki en þó aðallega með fjölskyldunni.

HafbergsliðiðFjölskyldan hefur vakið athygli erlendis fyrir að vera samhent í hlaupunum.

Hlaup, göngur og gönguskíði

Rannveig keppir reglulega í hlaupum og hún segir að sér finnist vera gaman að keppa. „Ég er að fara Laugaveginn í tíunda skiptið. Ég setti mér það markmið á sínum tíma að hafa farið tíu sinnum fyrir sextugt. Vonandi gengur það upp. Ég elska að hlaupa og ég elska að keppa og ég er búin að fara í alls konar hlaup bæði hérna heima og erlendis. Ég fer eins mikið og ég get.“ Rannveig á þó enn meira en tvö ár í sextugt og á samkvæmt genunum áratugi eftir af öflugum hlaupaferli.

Þegar hún er spurð hvað standi upp úr nefnir hún æfingatímabilið og undirbúninginn. „Oftast eru það vinkonurnar eða skokkhópurinn sem fer saman. Það hlaup sem stendur upp úr er hlaup sem ég reyndar náði ekki að klára. Það er hlaup á Madeira sem ég hef tvisvar reynt við en hlaupnir eru 85 kílómetrar. Þetta var mögnuð upplifun í bæði skiptin og þetta er eitthvað sem mig langar að reyna við í þriðja sinn.

Það er svo mikil áskorun og ögrun að sjá hvað maður getur og þetta er svo skemmtilegt og það er svo mikil stemning í kringum þetta. Þetta er svo mikil upplifun að mínu mati.“

Rannveig segir að sig dreymi um að halda áfram að hlaupa og njóta eins lengi og hún mögulega getur – að hún geti haft orku og tíma til að njóta. „Ég elska að vera uppi á fjöllum og ég elska utanvegahlaup.“

Hún elskar fjöll – ekki bara til að hlaupa heldur fer hún líka í göngur. „Ég gekk meðal annars upp á Kilimanjaro í ár. Ég hef líka verið á gönguskíðum og hef líka ferðast í kringum það og farið í alls konar keppnir erlendis. Það er ótrúlega gaman.“

Rannveig HafbergRannveig keppir reglulega í hlaupum og stefnir á sitt tíunda Laugavegsmaraþon. Hér er hún við markið í Ultra Trail Serra Montsant í Katalóníu á Spáni.

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Hlaupablaðið 2024

Hvað gerist í huganum þegar við hreyfum okkur?
ViðtalHlaupablaðið 2024

Hvað ger­ist í hug­an­um þeg­ar við hreyf­um okk­ur?

„Mögn­uð“ breyt­ing verð­ur á hug­an­um þeg­ar við hreyf­um okk­ur. Hreyf­ing virk­ar eins og þung­lynd­is­lyf á þau sem glíma við vægt eða miðl­ungs þung­lyndi. Endorfín, sem fást við hlaup, hafa áhrif á túlk­un til­finn­inga, deyfa sárs­auka og valda sælu­til­finn­ingu. Steinn B. Gunn­ars­son íþrótta- og lýð­heilsu­fræð­ing­ur veit­ir inn­sýn í áhrif­in og ráð til að fá hug­ann til að halda sig við hreyf­ing­una.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár