Þann 27. mars síðastliðinn var frumvarpi matvælaráðherra um lagareldi dreift á Alþingi. Það er skráð á Svandísi Svavarsdóttur, en hún var í leyfi frá störfum í ráðuneytinu á þeim tíma og Katrín Jakobsdóttir, þá forsætisráðherra en nú forsetaframbjóðandi, sinnti störfum Svandísar fyrir hana á meðan. Hún leiddi því matvælaráðuneytið þegar frumvarpið, sem ríkisstjórnin var búin að samþykkja fyrir sitt leyti, kom fyrst inn í þingið. Síðan hafa orðið vel þekktar hrókeringar í ríkisstjórninni og það fellur í hlut Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur að fylgja frumvarpinu úr hlaði.
Lítið hafði farið fyrir ákveðnu ákvæði í frumvarpinu, í 33. grein þess, þangað til að Heimildin vakti athygli á því í síðustu viku. Orðrétt segir í því: „Ótímabundin rekstrarleyfi. Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið. Rekstrarleyfi skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun skv. XII. kafla.“
Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir að ríkisstjórn Íslands vill að laxeldisfyrirtækin í landinu hafi „ótímabundin“ rekstrarleyfi til að stunda sjókvíaeldi í íslenskum fjörðum, en hingað til hafa rekstrarleyfin verið tímabundin í 16 ár. Með þessu ákvæði munu stjórnvöld á Íslandi ekki geta bannað sjókvíaeldi án þess að baka sér skaðabótaskyldu gagnvart laxeldisfyrirtækjunum. Þau ætla að gefa þeim kvótann í geiranum um aldur og ævi.
Aðallega formlegs eðlis?
Nýr ráðherra málaflokksins, Bjarkey Olsen, sem var þá nýlega búin að leika lykilhlutverk í því að afnema bann við ólögmætu samráði stærstu landbúnaðarfyrirtækja landsins, svo þau geti, einhliða og án afleiðinga, ákveðið verð og framleiðslumagn á kjöti sem fer inn á tollverndaðan íslenskan neytendamarkað, var spurð út í þetta í óundirbúnum fyrirspurnum í byrjun viku.
Hún svaraði því til að það væri aðallega formlegs eðlis að festa það í sessi í lögum að gefa einkafyrirtækjum varanlegan eignarrétt á nýtingu fjarða til að ala fisk. Það hafi þurft að taka af allan vafa hvort rekstrarleyfi væru tímabundin eða ótímabundin eign og fyrst Matvælastofnun hefði takmarkaðar heimildir til að synja aðilum um endurnýjun væri bara best að gefa þetta allt. Að mati Bjarkeyjar Olsen, sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna almennings samkvæmt samþykktum siðareglum ráðherra, mátti bara í rauninni „að eins og staðan er í dag þá séu leyfin ótímabundin“.
Eldishagsmunir með greiða leið inn í ríkisstjórn
Sjókvíaeldisfyrirtækin á Íslandi, Arnarlax, Arctic Fish, Fiskeldi Austfjarða og Háafell, eru í eigu norskra laxeldisfyrirtækja að stóru leyti. Arnarlax er í meirihlutaeigu Salmar, sem er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs; Arctic Fish er í meirihlutaeigu Mowi sem er stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi og Fiskeldi Austfjarða er í eigu Måsoval að hluta. Háafell á Ísafirði er aftur á móti alfarið í eigu útgerðarinnar Hraðfrystihússins-Gunnvarar. Þá eru íslensku útgerðirnar Síldarvinnslan, Ísfélagið og Skinney-Þinganes einnig stórir hluthafar í sjókvíaeldisfyrirtækjunum.
Ákvörðun sitjandi ríkisstjórnar um að gefa þessum eigendum íslenska firði um aldur og ævi þarf ekkert að koma sérstaklega mikið á óvart. Hagsmunir þeirra eiga mjög greinilega greiða leið inn í þá flokka sem hana mynda. Það sást bersýnilega fyrir síðustu jól þegar meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar, skipaður stjórnarþingmönnum, ákvað korteri í jól að leggja til nærri helmingi lægri hækkun á fiskeldisgjaldi sem leggst á laxeldisfyrirtæki en upphaflega hafði verið lagt upp með.
Munum eftir kvótakerfinu
Áður en auðlindir eru gefnar varanlega, og fyrir smánarleg auðlindagjöld, þá mættu stjórnmálamennirnir sem eiga að gæta hagsmuna landsmanna allra, ekki frekra fyrirtækjaeigenda, hugsa til þess þegar ákveðið var að ráðast í kerfisbreytingu í sjávarútvegi og festa kvótakerfið í lög árið 1983. Tilgangurinn þá var meðal annars að koma í veg fyrir að þorskstofninn myndi hverfa vegna ofveiði og að jafnstöðuafli hans yrði aftur um 500 þúsund tonn á ári. Þetta markmið hefur sannarlega ekki náðst en úthlutaður þorskkvóti fyrir yfirstandandi fiskveiðiár var um 166 þúsund tonn.
Tilgangurinn var líka sá að tryggja atvinnu í byggðarlögum sem orðið höfðu til utan um fiskveiðar og -vinnslu. Þau áform fóru fyrir lítið þegar framsal kvóta var gert frjálst á tíunda áratugnum og hurfu alveg þegar kvótakóngum var gert heimilt að veðsetja þessa þjóðareign eins og sína eigin í bönkum til að fá lánaða peninga svo þeir gætu keypt út samkeppnina.
Það var líka ætlunin að á einhverjum tímapunkti, eftir aðlögun, þá yrði sett á myndarlegt auðlindagjald sem myndi tryggja eigendum fiskimiðanna réttlátan hlut í arðseminni sem hlaust af nýtingu þeirra.
Af því hefur aldrei orðið. Þess í stað hefur orðið til kerfi þar sem eigandinn, almenningur í landinu, fær smælki fyrir að heimila leiguliðanum, stórútgerðinni, að nýta eign sína. Fyrir vikið er leiguliðinn farinn að líta á auðlindina sem sína persónulegu eign og fer jafnvel í mál við eigandann til að krefjast bótagreiðslna úr sameiginlegum sjóðum, ef farið er með hana öðruvísi en honum hentar.
Gjörið svo vel, fáið ykkur smælki
Í úttekt Heimildarinnar, sem birt var í fyrrahaust og byggði á tölum frá Deloitte sem teknar voru saman fyrir stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, kom fram að hagnaður sjávarútvegs var samtals um 847 milljarðar króna frá 2009 og út árið 2022. Af þessum hagnaði sat tæplega 71 prósent eftir hjá útgerðum landsins en rétt um 29 prósent fór í opinber gjöld, þar með talin veiðigjöld.
„Sennilega er ein versta viðskiptaákvörðun sem tekin hefur verið í Íslandssögunni sú þegar Reykjavíkurborg, þá stýrt af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, ákvað árið 2006 að selja 46 prósent hlut sinn í Landsvirkjun“
Hagnaðurinn 2022 var sá mesti frá upphafi og eignir sjávarútvegsfyrirtækjanna umfram skuldir sagðar 374 milljarðar króna. Sú upphæð er þó stórlega vanmetin þar sem kvótinn, langverðmætasta „eign“ útgerðarrisanna, er stórlega vanmetinn í bókum þeirra. Ef horft er á upplausnarverð alls úthlutaðs kvóta á Íslandi miðað við nýleg kaup á slíkum má áætla að raunverulegt eigið fé íslensks sjávarútvegs í heild sé um 1.100 milljarðar króna.
Þessa fjármuni, sem hefðu getað nýst í innviðauppbyggingu eða aukna almannaheillaþjónustu, hefur fáveldið í sjávarútvegi notað til að kaupa sig inn í nánast alla aðra geira íslensks samfélags. Það hefur líka notað þá til að fjármagna gríðarlega vel lukkaða hagsmunagæslu í gegnum lobbíistaarma sína og fjölmiðlana sem það hefur niðurgreitt fyrir milljarða króna á síðustu árum.
Versta viðskiptaákvörðun Íslandssögunnar
Í orkuvinnslu hefur okkur, hingað til, að mestu tekist vel til ef horft er fram hjá glórulausri einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja á bóluárunum fyrir hrun. Orkuvinnsla hefur, að uppistöðu, verið á forræði fyrirtækja í opinberri eigu.
Sennilega er ein versta viðskiptaákvörðun sem tekin hefur verið í Íslandssögunni sú þegar Reykjavíkurborg, þá stýrt af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, ákvað árið 2006 að selja 46 prósent hlut sinn í Landsvirkjun til íslenska ríkisins á 27 milljarða króna, sem er um 66 milljarðar króna á núvirði. Staðan 17 árum síðan er sú að Landsvirkjun greiðir í ár út 20 milljarða króna í arð til eiganda síns annað árið í röð. Reykjavíkurborg hefði fengið 18,4 milljarða króna í sinn hlut á tveimur árum. Slík upphæð myndi skila því að A-hluti borgarinnar, sem rekinn er fyrir skattfé og arðgreiðslur úr fyrirtækjum sem hún á í, væri rekinn í blússandi hagnaði.
Þetta er ekki tímabundin staða. Í nýbirtri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára kemur fram að gert sé ráð fyrir því að Landsvirkjun eigi að greiða 22 til 26 milljarða króna í arð á hverju ári sem áætlunin nær til. Peningar sem ríkið getur notað í að fjárfesta í innviðum eða auka þjónustu.
Til viðbótar við arðgreiðslurnar myndi borgin eiga næstum helming í fyrirtæki sem átti 326 milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót, sem hefur verið að greiða niður kostnað af uppbyggingu virkjana á miklum hraða og sér fram á að verða enn arðsamari í framtíðinni þegar endursamið verður um orkuna sem framleidd er í Kárahnjúkavirkjun. Hlutur hennar í því væri um 150 milljarðar króna.
Tapið af því að selja hlutinn þegar hann var seldur hleypur því á hundruðum milljarða króna.
Í þessu tilviki var hluturinn vissulega, og blessunarlega, seldur til ríkisins, og er þannig áfram í almannaeigu. Það var sannarlega ekki vilji allra stjórnmálaflokka á Íslandi á þeim tíma.
Hin eitraða blanda
Á Alþingi er nú til meðferðar frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um virkjunarkosti í vindorku. Það felur meðal annars í sér að ráðherra orkumála á hverjum tíma geti tekið ákvörðun um að hleypa vindorkuverkefnum fram hjá Rammaáætlun, og því faglega ferli sem fylgir henni, ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt.
Það er draumur hvers lobbíista, sem greiddir eru af fjársterkum aðilum með stórtæk áform, að losna undan þungu faglegu ferli og fá að eiga beint við sveitarstjórnarfólk. Spyrjið bara þá sem byggðu upp sjókvíaeldið á Íslandi. Þar er fyrirstaðan enda oft lítil og stundum til kaups. Í skýrslu verkefnastjórnar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum, sem birt var seint á árinu 2022, kom meðal annars fram að endurnýjunarhlutfallið hjá íslensku sveitastjórnarfólki væri miklu meira en hjá nágrönnum okkar. Því byggist ekki upp mikil sérhæfing eða reynsla. Ráðast þurfi í sameiningu sveitarfélaga – þau eru sem stendur 64 – bæta vinnuaðstæður, stuðla að markvissari vinnubrögðum, tryggja réttindi og sanngjarnari kjör fulltrúa í sveitarfélögum til að laga þessa stöðu. „Með sama hætti er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr hættunni á hvers kyns áreiti og ofbeldi í garð kjörinna fulltrúa. Brýnt er að veita kjörnum fulltrúum aukna fræðslu til að takast á við sífellt flóknara hlutverk sem og stuðning og ráðgjöf til að takast á við neikvæða fylgifiska þess.“
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, kynnti nýverið fyrstu niðurstöður rannsóknar sem hún vinnur að, en hún snýr meðal annars að bolmagni sveitarfélaga í skipulagsmálum. Þar kom fram að stór meirihluti fagfólks sem vinnur að skipulagsmálum í íslenskum sveitarfélögum þekki dæmi um það að fyrirgreiðsla, eða hrein og tær spilling, hafi hafi áhrif á skipulagsákvarðanir innan þeirra á síðustu þremur árum. Ásdís Hlökk sagði frá niðurstöðum sínum á Bylgunni á miðvikudag og sagði þessa blöndu – spillingu og skipulagsmál – vera eitraða.
Fáið ykkur frían vind
Frumvarp Guðlaugs Þórs felur í sér að sú grundvallarbreyting verður gerð á orkumálum hérlendis að orkuframleiðsla, sem nú er að uppistöðu á hendi opinberra fyrirtækja, getur færst í hendur einkaaðila. Það er gert án þess að fyrir liggi stefna eða löggjöf um sanngjarna og eðlilega gjaldtöku fyrir nýtingu vindorku á Íslandi.
„Það má ekki gerast að stjórnmálamenn, kirfilega undir hælnum á sérhagsmunaöflum, fái að gefa þeim íslenska firði um aldur og ævi“
Fjöldi einkafyrirtækja, mörg hver í erlendri eign, eru með áform um uppbyggingu á tugum vindorkuvera á Íslandi. Eitt þeirra, Qair Íslands, sem er dótturfyrirtæki hins franska Qair International, ætlar sér að byggja níu vindorkuver og vatnsaflsvirkjanir vítt og breitt um landið. Orkan sem þar á að verða til mun ekki rata í orkuskipti, heldur í rafeldsneytisverksmiðju sem Qair ætlar að byggja á Grundartanga. Það rafeldsneyti sem þar á að framleiða, svokallað „grænt“ ammoníak, á svo að flytja að mestu úr landi. Verksmiðjan þyrfti meira afl en Kárahnjúkavirkjun, langstærsta virkjun landsins, framleiðir. Sá sem hefur helst komið fram fyrir hönd Qair á Íslandi fram til þessa, og var lengi vel stjórnarformaður félagsins, er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem var líka um tíma efnahagsráðgjafi Bjarna Benediktssonar. Tryggvi Þór hætti í stjórn Qair Ísland í febrúar og Ásgeir Margeirsson, fyrrverandi forstjóri HS Orku, tók við sæti hans.
Hver á að borga fyrir neikvæðu áhrifin?
Þá er ótalin vangeta okkar sem þjóðar til að innheimta almennt auðlindagjald vegna ferðaþjónustu. Gríðarlegur vöxtur hennar hefur haft mörg jákvæð áhrif. Hagvöxtur hefur verið mikill, yfir tuttugu þúsund störf hafa skapast og gjaldeyrir flæðir inn í landið. Þessi vöxtur er hins vegar ekki sjálfbær. Við ráðum ekki við hann og vöxturinn skapar alls kyns spennu vegna þess að eftirspurn er langt umfram framboð.
Mýmörg neikvæð hliðaráhrif verða á samfélagið. Á húsnæðismarkað, alla samgönguinnviði, löggæslu, heilbrigðisþjónustu, menntakerfið, á náttúru og almenn lífsgæði. Ferðaþjónustan býr því til kostnað fyrir þá sem fyrir eru. Fyrir þann kostnað ættu ferðamenn eða ferðaþjónustan að greiða eðlilegt gjald. Í stað þess að leggja slíkt gjald á þá hafa íslensk stjórnvöld frekar vökvað bálið með bensíni með því að innleiða örvandi hvata. Þær aðgerðir eru stór ástæða þess að við erum að glíma við þráláta verðbólgu og þurfum himinháa vexti til að reyna að ná henni niður.
Hættið að gefa okkar eignir
Það má ekki gerast að stjórnmálamenn, kirfilega undir hælnum á sérhagsmunaöflum, fái að gefa þeim íslenska firði um aldur og ævi. Það getur ekki liðist lengur að meginþorri ávinningsins af nýtingu sameiginlegrar auðlindar lendi hjá nokkrum útgerðarfjölskyldum sem svo nota hann til að kaupa upp aðra anga samfélagsins í einhvers konar slor-Matador og dundi sér svo við það að færa ávinninginn milli kynslóða með eins litlum skattalegum kostnaði og þeir komast upp með.
Það verður að stöðva áform um að gera vindorkuna að nýja sjókvíaeldinu þar sem hnípin þjóð stendur allt í einu frammi fyrir því að daprir stjórnmálamenn gáfu einkaaðilum sameiginleg gæði án þess að einu sinni passa upp á að rukka sem neinu nemur fyrir afnotin. Það þarf einhver að hafa pólitískt þor til að taka umgjörðina í kringum ferðaþjónustuna í gegn þannig að hún skili krónum í kassann fyrir þá innviði sem hún notar og dragi um leið úr fjölmörgum neikvæðum hliðaráhrifum hennar á íslenskt samfélag.
Við getum rifist um margt. En flest ættum við að vera sammála um að það er íslensk þjóð sem á þetta land saman. Það á ekki að gefa handfylli útvalinna gæði þess.
Ef þau sem við kjósum til að gæta hagsmuna okkar sjá þetta ekki, þá þurfum við einfaldlega að kjósa allt annað fólk í þeirra stað. Helst sem allra fyrst.
Til að þrýsta á um virkjanaleyfi þá hefur verið básúnað að það þurfi að meir en tvöfalda raforkuframleiðsluna fyrir 2040. Þetta samsvarar byggingu 3-4 Kárahnúkavirkjana á rúmum áratug. Það sjá held ég allir sem kynnt hafa sér málið að þetta er fullkomlega óraunhæft. Auk þess er með öllu galið að þörf sé á allri þessari orku í orkuskipti fyrir 2040. Erlendar spár um orkuskipti sýna það rækilega. Til að kóróna vitleysuna þá er með látum reynt að keyra virkjanaleyfin áfram með slíkum hraða að engin tími gefist til að vinna löggjöf um auðlindagjald eða forgang raforku til orkuskipta og til almennings eða löggjöf er setur hemil á stjórnlausa virkjun takmarkaðrar auðlindar og löggjöf er hefur hemil á verðsveiflum á markaði og tryggir hámarks arð af auðlindinni og sporni við óeðlilegum flutningi arðs úr landi. Í Evrópu eru tekjur af auðlindagjöldum og annarri skattlagningu raforku, gríðarlegar. Í raun er öll löggjöf er snýr að þessari hröðu uppbyggingu virkjana í algjöru skötulíki. Ég þekki þetta vel frá því að hafa unnið í orkugeiranum í nær hálfa öld, innanlands sem utanlands.
Halla Hrund orkumálastjóri hefur staðið í miðju þessu gjörningaveðri sérhagsmunaaðila og varið hagsmuni almennings af mikilli staðfestu. Það sem ég hef séð til hennar, þá minnist ég þess ekki að hafa séð heilsteyptari embættismann. Það eru fáir embættismenn sem geta staðið keikir af sér hörðustu storma sérhagsmunagæslu eins og Halla Hrund. Ekki hjálpar svo þegar veiklundaðir ráðherrar bergmála kröfur sérhagsmunaaðila.
LANDVERND og Stjórnarskrár (flokkurinn)
Allt það besta fyrir Ísland og komandi kynslóðir.
Stoppum alla burgeisana!
Óhugnanlegt.