Á Íslandi ríkir víða fákeppni, einokun og stæk sérhagsmunagæsla. Á flestum mörkuðum sem landsmenn þurfa að eiga viðskipti við eru tvö til þrjú fyrirtæki, með sambærilega vöru eða þjónustu, sem skipta bróðurlega með sér markaðshlutdeild og bjóða upp á meira og minna sömu verð. Þannig er málum háttað í bankageiranum, á tryggingamarkaði, skipaflutningum, fjarskiptum og nær allri smásölu.
Þetta tryggir umtalsverðan ágóða fyrir einkafjárfesta og viðhengi þeirra sem eru búnir að koma sér vel fyrir í bakpoka lífeyrissjóða sem eiga þorra þessara fyrirtækja en hafa að mestu valið að skipta sér sem minnst af því hvernig þau eru rekin. Einkafjárfestarnir, sem hafa sérhæft sig í að hagnast á hinum séríslensku aðstæðum, geta því, oft í miklum rólegheitum og í góðu samstarfi við fjármálageirann, sem starfar nær einvörðungu á innanlandsmarkaði, leikið sér að því að búta fyrirtæki í sundur eða líma þau saman. Tilgangur er að geta aukið mögulegar útgreiðslur til sín í formi arðs eða endurkaupa á eigin bréfum.
Þessu fyrirkomulagi fylgir líka umtalsvert vald. Því meira af peningum og fyrirtækjum sem safnast undir regnhlíf helstu leikenda, því meiri áhrif hafa þeir á banka, stjórnmál og samfélagið allt. Það gera þeir meðal annars með því að ausa milljörðum króna í rekstrarlega ósjálfbæra fjölmiðla sem hægt er að beita í þessari kerfisvörn. Skósveinar á þingi tryggja svo áframhaldandi samkeppnisbjögun annars vegar með því að koma í veg fyrir allar umbætur á rekstrarumhverfi fjölmiðla og hins vegar með því að leggja sífellt fram tillögur sem hafa þann eina tilgang að reyna að drepa samkeppni sérhagsmunamiðlanna, bæði einka- og ríkisrekna.
Ráðandi stjórnmál á Íslandi hafa að miklu leyti snúist um það á síðustu árum að verja þetta fyrirkomulag, í nafni stöðugleika. Lítill áhugi virðist vera á því að taka stöðu með neytendum og verja þá fyrir samráði, kerfisbundnum skattaundanskotum, óhóflegri auðsöfnun þeirra sem fá að nýta þjóðareign eða okurverði með sterkara regluverki og virkara eftirliti. Afstaðan kristallast ágætlega í nýlegri grein sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, skrifaði í Viðskiptablaðið. Þar gagnrýndi hann eftirlits-, leyfisveitinga- og reglugerðarkerfið. Boðin og bönnin. Stjórnlyndið. „Þetta andlitslausa kerfi sem lætur framtakssömu fólki líða eins og það sé að synda í sírópsfeni.“
Tækifærismennska og valdabarátta
Það sem einkennir þessa nálgun, sem er sérstaklega inngróin í yfirlýsta íslenska hægrimenn, er ótti og meðalmennska. Hópurinn þorir ekki að keppa um hylli neytenda á sanngirnisgrundvelli. Hann skortir sjálfstraust til að vera stór og frjór og er þess í stað lítill og heimóttarlegur. Það er betra að græða á kerfum en hugmyndum og duglegheitum. Miklu meiri orka og átak fer í að skekkja leikinn þannig að hann þjóni fáum frekar en öllum en að búa til leikvöll þar sem jafnræði gildir.
„Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda upp á kant við þá.“
Þetta er ekki bölsýni þess öfundsjúka sem getur ekki unað hinum duglega að græða peninginn. Þetta er einfaldlega almenn skoðun flestra sem hafa almennilega þekkingu á gangverki íslensks samfélags, hvort sem þeir skilgreina sig til vinstri, hægri, eða alls ekki. „Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda upp á kant við þá,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við annan af fyrirrennurum Heimildarinnar árið 2021. Gylfi Magnússon, þá formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og í dag forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, fylgdi í kjölfarið og sagði ofangreint vera „raunverulegt vandamál og við þurfum ekki að láta sérhagsmunaöflin sigra alltaf, þó að það sé oftast tilhneiging til þess. Þau eru oftast einbeittari heldur en þeir sem eru að verja almennu hagsmunina. Og oft miklir fjármunir undir sem menn geta lagt í að fá til dæmis einhverjar breytingar á regluverki í gegn sem þjóna hagsmunum eins hóps, en ekki hins breiða fjölda.“
Þar voru þeir að enduróma fræga, og margendurtekna, yfirlýsingu Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, þegar hann var kallaður fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um að Ísland væri „ógeðslegt þjóðfélag“ þar sem væru „engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Síðan að ummæli Ásgeirs og Gylfa féllu eru liðin næstum þrjú ár og lítið sem ekkert hefur breyst til batnaðar.
Þeir sem hafa sterkustu röddina
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, kom inn á þessa stöðu í nýlegu viðtali við Pressu Heimildarinnar. Þar vísaði hann í orð Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að kapítalismi án samkeppni sé arðrán. „Þetta raungerist þannig að eðli málsins samkvæmt eru stóru fyrirtækin og öflugustu sem hafa mesta möguleika á því að sækja fram sem eru þá mjög gagnrýnin á Samkeppniseftirlitið. Og hafa til þess sterkustu röddina. Eiga stundum fjölmiðla eða eiga bestan aðgang að stjórnmálamönnum.“
„Þar vísaði hann í orð Joe Bidens Bandaríkjaforseta um að kapítalismi án samkeppni sé arðrán“
Þetta séu sérhagsmunirnir, og hinum megin séu hagsmunir almennings, sem hvorki hefur tíma né ráðrúm til að standa sömu varðstöðu og stóru fyrirtækin, eða helstu eigendur þeirra.
Páll Gunnar sagði að Samkeppniseftirlitið finni fyrir miklum stuðningi frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum en þegar eftirlitið sé að fást við viðkvæm mál, gagnvart fyrirtækjum sem eiga mikið undir sér og hafi sterka rödd í samfélaginu, þá magnist gagnrýni á það upp. Það dylst engum að þar var hann meðal annars að vísa í mál tengd íslenskum sjávarútvegi, sem er orðinn að eins konar fáveldi hérlendis sem teygt hefur sig inn á nær öll svið íslenskrar tilveru, og samráð skipafélaga, sem reiknað hefur verið út að hafi kostað íslenskt samfélag 62 milljarða króna.
Það er ekki einungis Samkeppniseftirlitið sem sætir stanslausum árásum fyrir það eitt að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu og passa upp á að þátttakendur í íslensku efnahagslífi starfi eftir settum reglum og lögum. Skatturinn, stofnun sem hefur meðal annars það lykilhlutverk að passa upp á að fyrirtæki og einstaklingar greiði það sem þau eiga að greiða til samneyslunnar, hefur líka verið ítrekaður skotspónn þessara afla og fjölmiðla á þeirra vegum síðustu misseri. Það gerðist líka eftir að hann fór að færa sig upp á skaftið með því að krefja stóra leikendur um skatta sem þeir höfðu reynt kerfisbundið að komast hjá því að greiða.
Að sakna eftirlitsleysis sem leiddi af sér hrun
Brynjólfur Bjarnason, sem verið hefur stjórnarformaður Arion banka um nokkurra ára skeið og verið virkur leikandi í hagsmunahópunum sem stjórnað hafa Íslandi áratugum saman, notaði tækifærið í kveðjuræðu sinni á aðalfundi bankans til að vera á þessum slóðum.
Þar sagði hann: „Á mínum nær hálfrar aldar starfsferli í fjölbreyttum atvinnurekstri á ólíkum sviðum íslensks atvinnulífs; bókaútgáfu, sjávarútvegi, fjarskiptum og bankastarfsemi, hef ég því miður þurft að eyða mörgum stundum í skylmingum við eftirlitsstofnanir sem nálgast sín verkefni á sviði atvinnulífsins að mínu viti oft af of mikilli neikvæðni.“ Staðan sé þannig að á síðustu árum fari stór hluti tíma starfsfólks í að sinna sífellt meira íþyngjandi kröfum eftirlitsstofnana þar sem engin takmörk virðist vera á útþenslu. „Maður fær jafnvel á tilfinninguna að starfsfólk þessara stofnana þurfi að sanna tilvist sína með sífellt meiri kröfum um skýrslur og eftirlit.“
Hann vék sér svo að fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands, sem í fyrra lagði metsekt upp á 1,2 milljarða króna á Íslandsbanka eftir að hann viðurkenndi að hafa brotið margháttuð lög við söluna á hlut ríkisins í sjálfum sér, og er enn að rannsaka aðkomu annarra fjármálafyrirtækja að því afar illa lukkaða söluferli. Brynjólfur ákvað að taka sem dæmi að árið 2005 hafi verið einn starfsmaður hjá fjármálaeftirlitinu á hverja 128 starfsmenn í fjármálageiranum en í fyrra hafi þeir verið einn á hverja 25 starfsmenn sem sýsla með peninga að atvinnu.
Þetta sagði Brynjólfur án þess að minnast á að hið veika fjármálaeftirlit sem viðhaft var á fyrstu árum aldarinnar spilaði stóra rullu í að íslenska bankakerfið hrundi haustið 2008. Afleiðingar þess voru meðal annars þær að gjaldmiðill Íslendinga veiktist um tugi prósenta, verðbólga fór í nálægt 19 prósent, stýrivextir í 18 prósent, atvinnuleysi í tveggja stafa tölu, ríkissjóður fór úr því að vera nær skuldlaus í að vera nær gjaldþrota, skuldir heimila margfölduðust, neyðarlög tóku gildi, fjármagnshöft voru sett á, Ísland þurfti að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð og allt traust milli almennings og stofnana samfélagsins hvarf. Trúin á markaðshagkerfið og hið frjálsa framtak beið líka varanlega hnekki. Þetta var, að stóru leyti, afleiðing af því að alvarleg lögbrot voru framin innan bankakerfisins og afleitir viðskiptahættir stundaðir, án þess að virkt eftirlit gæti brugðist við.
Brynjólfur virðist sakna þessara tíma og vilja þá aftur.
Af hverju óttast hægrið Evrópu?
Ein leið til að losa um þá stöðu sem er uppi er innganga í Evrópusambandið og upptaka evru. Það er engin töfralausn sem leysir allar áskoranir Íslands en hún myndi sannarlega ryðja stórum vandamálum úr vegi. Við inngöngu myndi sá verndartollur sem íslenska krónan er gagnvart erlendri samkeppni hverfa. Í stað þess að vera risastórir fiskar í pínkulítilli busllaug yrðu íslensku hagsmunahóparnir smásíli í úthafi. Kostnaðurinn af krónunni, aðallega vegna þess að háu vextirnir sem hún útheimtir gera allt fjármagn miklu dýrara, hleypur á hundruð milljarða króna á ári fyrir íslenska ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki og neytendur.
Það er skiljanlegt að ekki verði ráðist í annað inngönguferli á meðan að ekki er meirihluti fyrir því innan þings og ríkisstjórnar, sérstaklega eftir illa ígrundaða tilraun til að þröngva landinu inn í sambandið á árunum eftir hrun þegar slíkan meirihluta skorti. Sú tilraun frestaði sennilega inngöngu Íslands um mörg ár, illu heilli. En það er óskiljanlegt að fleiri flokkar, eða stakir stjórnmálamenn, sjái sér ekki hag í að gera aðild að stefnumáli, í ljósi þeirra miklu jákvæðu breytinga sem hún myndi hafa í för með sér fyrir nær alla nema hagsmunahópana sem græða á núverandi aðstæðum.
Þannig er þó staðan jafnvel þótt allar kannanir – gerðar af þremur mismunandi könnunarfyrirtækjum – sem birtar hafa verið frá byrjun árs 2021 hafi sýnt að mun fleiri Íslendingar eru hlynntir því að ganga í sambandið en á móti því. Og enn fleiri vilja fá að kjósa um hvort ráðist verði í viðræður.
Það vekur sérstaklega athygli hvað áhugi hægri manna, sem í orði aðhyllast frjálshyggju og alþjóðavæðingu, á því að ganga inn í efnahagssamband sem fellir niður tolla og byggir á frjálsu flæði fólks og fjármagns, er nánast enginn. Í raun er búið að selja landsmönnum þá hugmynd að slíkur áhugi sé stæk vinstrimennska, eins fjarstæðukennt og það hljómar. Innri markaður Evrópu byggir enda á málamiðlun um félagslegt öryggisnet, sérstaklega þegar kemur að öflugri neytendavernd og byggðastefnu annars vegar og markaðsbúskap hins vegar.
Ekki hræðast bjarta framtíð
Orðræðan í íslenskum stjórnmálum snýst allt of mikið um hvað sé ekki hægt að gera til að breyta samfélaginu til hins betra en allt of lítið um það sem er hægt. Þótt vissulega megi forgangsraða betur í opinberum fjármálum, til dæmis með sameiningu sveitarfélaga, einfaldari stjórnsýslu og niðurlagningu óþarfra ráðuneyta, þá er það ekki forsenda þess að hægt sé að afnema vond kerfi og koma á öðrum, sanngjarnari og réttlátari, í staðinn. Það þarf ekki að sleppa þjóðarhöll eða borgarlínu til að styðja við barnafjölskyldur og rétta Grindvíkingum hjálparhönd. Slík framsetning í landi sem býr til um fjögur þúsund milljarða króna af verðmætum á ári er raunar kostuleg.
Það er hægt að ná fram miklum þjóðhagslegum ávinningi, sem hægt er að nota til að bæta lífsgæði og innviði úti um allt land, með aukinni samkeppni og neytendavernd, öflugra eftirliti og láta alla greiða réttláta upphæð til samneyslunnar.
Það þarf ekki að hræðast stanslaust framtíðina. Hún er björt. Ísland er eitt besta, öruggasta og ríkasta land í heimi. Það þarf bara að taka aðeins til og láta gangverkið virka fyrir fjöldann, ekki fyrst og síðast fyrir hina fáu valdamiklu.
Þangað til að við þorum að verða betri þá sitjum við föst í sírópsfeni þeirra sem hræðast ekkert meira en það að almenningur í landinu átti sig á því að þeir eru ekki ómissandi.
Þvert á móti á móti er fyrirferð þeirra algjör óþarfi og stendur okkur fyrir þrifum.
Athugasemdir (5)