Samtök um dýravelferð á Íslandi hafa um árabil krafist þess að fylgst verði með blóðhag og heilsu hryssna sem sæta blóðtöku.
Sú blóðtaka felst í því að árlega er dælt allt að 40 L(lítrum) af blóði úr fylfullum hryssum sem hafa heildarblóðrúmmál upp á 26 L. Flestar hryssurnar eru með folald undir þegar á blóðtökunum stendur. Þetta gífurlega blóðmagn er tekið úr þeim með þeim hætti að vikulega eru teknir 5L af blóði í allt að 8 skipti á þeim tíma meðgöngu sem hormónið PMSG er með hæstan styrk í blóði þeirra. Dælt er úr þeim blóði yfir 8 vikna tímabil síðsumars og að hausti. Stungið er 0,5 cm þykkri nál í hálsæð þeirra á meðan höfuð þeirra er hengt upp og þær strappaðar niður. Allt að 20% blóðrúmmáls er svo tæmt úr þeim á ofsahraða með tilheyrandi hættu á blóðþurrðarlosti og blóðleysi.
Líftæknifyrirtækið Ísteka vinnur hormónið PMSG úr blóði hryssanna og selur til bænda erlendis til þess að auka á frjósemi dýra umfram það sem er þeim náttúrulegt. Lyfið er svo notað við fjöldaframleiðslu í kjötiðnaði og eykur það enn frekar á eymd þeirra dýra.
Mjög erfitt hefur reynst að fá upplýsingar um rannsóknir um áhrif blóðtökunnar á hryssurnar frá Ísteka og Mast, en eftir margar beiðnir og ítrekanir birtu þau eina töflu með grófri samantekt af meðaltals hemóglóbíngildum úr litlum hluta blóðtökuhryssna í janúar árið 2022.
Meðaltöl geta þó hæglega gefið blekkjandi mynd þar sem í þessu samhengi eru það útlagarnir sem skipta mestu máli. Þ.e.a.s. hversu margar hryssur fara undir viðmiðunarmörk um eðlileg hemóglóbín gildi og teljast því blóðlausar, og hversu mikil og mörg frávikin eru. Gerðum við því árið 2022 í grein okkar hermilíkan út frá meðaltals gögnum töflunnar sem sýndi að einhverntímann á blóðtökutímabilinu voru mörg hundruð hryssur blóðlausar. Þar kom fram að 475 hryssur lágu á bilinu 80-90g/L í hemóglóbíni, 133 hryssur á bilinu 70-80 g/L, 22 hryssur á bilinu 60-70g/L, og 2 hryssur fóru undir 60g/L.
Það var ljóst að ofangreind tafla með meðaltalsgildum hemóglóbíns gaf ekki skýra mynd af heilsu dýranna. Síðsumar 2022 fól Matvælaráðuneytið tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum að rannsaka hvaða áhrif umrædd vikuleg blóðsöfnun hefði á blóðhag hryssanna.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru raktar hér að neðan en þær sýna að um 1500 íslenskar blóðhryssur þjást árlega af blóðleysi. Því teljum við að rannsakendur dragi rangar ályktanir um gögnin varðandi heilsu dýranna en þeir halda því fram að blóðtakan hafi lítil áhrif á heilsu þeirra. Ennfremur teljum við að í raun þjáist allar blóðtökuhryssur af blóðleysi en skilgreiningar rannsakenda á blóðleysismörkum íslenskra hryssna eru vægast sagt takmarkaðar og til þess fallnar að skekkja og milda niðurstöður rannsóknarinnar.
Rannsóknin frá Keldum
Skýrslan um rannsóknina var birt 7. febrúar 2024 og er hún þarft innlegg í umræðu um blóðmerahald. Í skýrslunni er gerð grein fyrir rannsókninni sem fram fór.
Tvö blóðtökustóð voru til rannsóknar á 12 vikna tímabili frá júlí fram til október 2022. Annað stóðið var á Norðurlandi og taldi alls 72 hryssur, hitt stóðið var á Suðurlandi og taldi alls 127 hryssur. Blóðsýnatökur voru fyrir hverja blóðtöku og mældur var blóðhagur og heildar prótein. Þar sem blóðsýnin voru tekin við blóðtökuna sjálfa er hætta á óeðlilega háum mælingum á ýmsum gildum í blóðhag vegna streitu eins og fram kemur í skýrslunni.
Niðurstöður rannsóknarinnar
Skýrsluhöfundar greina í upphafi frá því að viðmiðunarmörk á blóðgildum hjá íslenskum hryssum hafi hingað til vantað og skýra frá rannsókn sinni frá 2023 á íslenskum fylfullum hryssum á beit, sem miðaði að því að ákvarða þessi viðmiðunarmörk (Charlotta og fleiri, 2023). Í töflu 7 á bls. 18 í skýrslunni má finna niðurstöður þessara mælinga og kemur m.a. eftirfarandi fram um hemóglóbin/Hgb (blóðrauði) magn og hematókrít/Hct (blóðkornahlutfall) hjá íslenskum hryssum á beit (einungis hluti töflunnar):
Fram kemur í rannsókninni að blóðtökuvikur voru miklu færri hjá sunnlensku hryssunum á blóðtökutímabilinu eins og mynd 2 í rannsókninni sýnir1:
Sunnlensku hryssurnar voru þess vegna ekki jafn oft með í þeim útreikningum sem fram koma í töflu 8 hér að neðan. Mun meira fall var í ýmsum blóðhagsgildum hjá hryssum á Suðurlandi eins og fram kemur á mynd 8 hér að neðan, svo að reikna má með því að þetta hækki meðaltölin í töflu 8. Þrátt fyrir þetta koma skýrt fram þau alvarlegu áhrif sem blóðtakan hefur á hryssurnar eins og sjá má í töflu 8 hér að neðan:
Eins og sjá má í töflunni liggur meðaltals hemóglóbínmagnið hjá hryssunum í neðra öryggisbili fyrir íslenskar hryssur á beit (Charlotta og fleiri, 2023), en neðri mörkin eru 111-117 (tafla 7). Blóðtakan hefur því alvarleg áhrif á hryssurnar.
Meðaltöl eru gagnleg en þau segja þó ekki nema hluta af sögunni. Á mynd 8 í skýrslunni kemur eftirfarandi fram um þróun meðaltals hemóglóbín og hematókrít gilda hjá hryssum á Norðurlandi (grænt) og Suðurlandi (blátt) í þær 8 vikur á meðan á blóðtöku stendur, en tekið var blóð úr hlutfallslega mun færri hryssum á Suðurlandi en Norðurlandi.
Alvarleg áhrif blóðtökunnar koma glögglega fram hjá stóðinu á Suðurlandi en strax á annarri viku blóðtöku er hemóglóbín magnið komið niður í 102 g/L að meðaltali, sem er meira en 8% undir neðri mörkum íslenskra hryssna á beit (111 g/L) (Charlotta og fleiri, 2023) og 25% frá hemóglóbín gildum áður en blóðtakan hófst (135 g/L). Gildin eru svo 12-15% undir neðri mörkum íslenskra hryssna á beit (Charlotta og fleiri, 2023) það sem eftir líður blóðtöku tímabilsins, en seinustu tvær mælingarnar sýna gildi eftir að blóðtöku er hætt. Í 7. viku er meðaltals hemóglóbín magnið komið í 99 g/L. Áhrifin eru miklu vægari á Norðurlandi en á Suðurlandi. Þrátt fyrir það eru áhrifin á Norðurlandi einnig alvarleg. Rannsakendur geta ekki skýrt þann mikla mun sem blóðtakan hefur á stóðin.
Samantekt
Niðurstöður rannsóknarinnar eru grafalvarlegar eins og fram kemur á bls. 36 og þær sýna að 20,6% af íslenskum hryssum sem sæta blóðtöku þjást skv. flokkun rannsakenda af mildu blóðleysi á blóðtökutímabilinu, um 8,6% þjást af greinilegu blóðleysi, og 2,1% af alvarlegu blóðleysi. Samtals 31,3%. Því má ætla að um 1500 blóðtökuhryssur þjáist ár hvert af blóðleysi á blóðtökutímabilinu með tilheyrandi vanlíðan og veikindum.
Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi þar sem fram kemur að mun fleiri hryssur þjást af blóðleysi en hermilíkan okkar sem áður er nefnt sýndi.
Þetta segir þó því miður ekki alla söguna því við teljum víst að raunveruleikinn sé enn verri en sá sem niðurstöður rannsóknarinnar sýna. Þá skoðun byggjum við fyrst og fremst af eftirfarandi þáttum í liðum 1-3.
1) Greiningarmörk um blóðleysi sem höfundar rannsóknarinnar nota eru óeðlilega lág. Rannsakendur skilgreina viðmiðunarmörk íslenskra stóðhryssa út frá blóðrannsóknum sem þeir sjálfir gerðu á íslenskum fylfullum hryssum á beit (Charlotta og fleiri, 2023). Lögð er mikil áhersla á þetta í upphafi skýrslunnar þar sem slík viðmiðunarmörk hafi ekki verið til fyrr en nú.
Viðmiðunarmörkin eru eins og áður kemur fram, eftirfarandi fyrir hematókrít, og hemóglóbín (sjá töflu 7 á bls. 18 í skýrslunni):
Í miðri rannsókn virðist svo sem rannsakendur snúi við blaðinu og ákveði að nota ekki þessi viðmiðunargildi. Þess í stað eru notaðar eldri samantektir þar á meðal frá öðrum hestakynum og ösnum frá seinni hluta síðustu aldar og þau mörk notuð fyrir hemóglóbín og hematókrít til að fá fram mörk um blóðleysi2 (Lording 2008, Dewitt og Grondin 2010). Þessi viðmiðunargildi liggja mun lægra en íslensku gildin. Myndin hér að neðan er mynd 12b úr skýrslunni, en við höfum fært rauðu línuna inn á myndina til að sýna neðri mörk fyrir íslenskar hryssur á beit sem fengin eru úr rannsókninni (Charlotta og fleiri, 2023) og til samanburðar mörkin sem rannsakendur kjósa að nota til skilgreiningar á blóðleysi. Við höfum fært inn textann í hringjunum til skýringar.
Myndin hér að neðan er mynd 13b úr skýrslunni, en við höfum fært rauðu línuna inn á myndina til að sýna neðri mörk hematókrít (Hct 30,8%) fyrir íslenskar hryssur á beit sem fengin er úr rannsókninni (Charlotta og fleiri, 2023). Við höfum fært inn textann í hringjunum til skýringar. Mörkin við 24% eru frá Lording (2008) og Dewitt & Grondin (2010) og er fjallað um þau í neðanmálsgrein 1 hér að ofan. Neðstu mörkin sem eru við 20% og ákvarða alvarlegt blóðleysi fá rannsakendur úr Balan (2019), en sú grein byggir á rannsókn á blóði úr 60 fullorðnum hrossum sem þjáðust af blóðleysi. Hrossin voru af óljósum uppruna á Írlandi (ýmist veik eða ekki veik). Af þessum 60 hrossum voru einungis 4 kaldblóðshross og getur því varla talist klínísk rannsókn.
Rannsakendur skilgreina því blóðleysi við afar lág hemóglóbín- og hematókrít gildi sem fengin eru úr samantektum og rannsóknum sem hæpið er að endurspegli íslenskan veruleika, ólíkt þeirra eigin rannsókn (Charlotta og fleiri, 2023). Þrátt fyrir þetta eru niðurstöðurnar sláandi og grafalvarlegar.
Furðu sætir að rannsakendur hafi ekki notað þau viðmiðunarmörk á blóðgildum sem þau skilgreindu í upphafi rannsóknar við úrvinnslu gagnanna og nota í þeirra stað mörk frá síðustu öld úr m.a. ösnum til að skilgreina blóðleysismörk sem liggja mun neðar.
Hefðu rannsakendur notað þau viðmiðunarmörk sem þeir fengu fram við sínar eigin mælingar hefðu langtum fleiri hryssur náð greiningarskilmerkjum um blóðleysi. Raunveruleikinn er því enn ömurlegri en þær sláandi niðurstöður sem rannsóknin sýnir.
2) Blóðtökum fækkar þegar á líður.
Það sem einnig vekur athygli, sérstaklega á Suðurlandi, er að blóðtökuhryssum fækkar verulega þegar líður á blóðtökutímabilið. Færri blóðtökur eru án útskýringa, en þar sem verið var að taka blóðsýni um leið og blóðtaka var gerð þá gæti þetta skekkt niðurstöður, ekki síst ef hætta hefur orðið blóðtökum á Suðurlandi þar sem hryssur voru orðnar veikar.
3) Hvernig voru stóðin valin?
Ekkert kemur fram í skýrslunni um hvernig stóðin í rannsókninni voru valin. Það hefði farið vel á því að skýra val þeirra. Þetta er sérstaklega áleitið þar sem svo mikil munur reyndist á blóðleysi á milli stóðanna á Norðurlandi og Suðurlandi, en blóðleysið er mun alvarlegra á Suðurlandi.
Lokaorð
Niðurstöður rannsóknarinnar eru þvert á ályktun rannsakenda. Áhrif blóðtöku á hryssurnar eru mikil og alvarleg. Nánast allar blóðtökuhryssur þjást af blóðleysi, það er greinilegt þegar eðlileg greiningarmörk um blóðleysi fyrir íslenskar stóðhryssur eru notuð. Skýrsluhöfundar seilast býsna langt eftir öðrum blóðleysismörkum í stað þess að styðjast við niðurstöður eigin rannsóknar um blóðleysismörk og varpar þetta skugga á úrvinnslu gagnanna.
1 Rétt er að benda á að ekki voru tekin sýni úr öllum blóðtökuhryssum, en yfirleitt vantaði t.d. 3-4 hryssur upp á á Suðurlandi.
2 Ekki er um eiginleg blóðleysismörk að ræða heldur viðmiðunarmörk fyrir tegundirnar og eru þessi mörk fengin úr tveimur heimildum (Lording 2008 og Gronding & Dewitt 2010). Í grein Lording kemur fram að um almenn mörk fyrir dýrategundirnar sé að ræða en ekki blóðleysismörk. Þau hafi verið fundin hjá Háskólanum í Melbourne með því að skoða “draft horses, ponies, hacks, and donkeys.” Í grein Dewitt og Gronding kemur einnig fram að ekki sé um blóðleysis mörk að ræða og að þau séu eins og þar segir “Adapted from Jain NC. Schalm ’s Veterinary Hematology. 4th ed. Philadelphia: Lea & Febiger, 1986. These reference intervals were determined by unknown methods.“
Það að ætla að nota almenn mörk fyrir hið mjög svo losaralega hugtak kaldblóðshross, þar sem hvorki er kveðið á um tegund, aldur, kyn eða aðrar aðstæður, til að ákvarða blóðleysismörk fyrir fylfullar íslenskar hryssur vekur furðu, ekki síst þar sem höfundar hafa skilgreint mörk fyrir slíkar hryssur í ritrýndri grein (Charlotta og fleiri, 2023).
Heimildir
1. Charlotta Oddsdóttir, Hanna Kristrún Jónsdóttir, Erla Sturludóttir. (2023). Haematological reference intervals for pregnant Icelandic mares on pasture. Acta Vet Scand, 65, 57-63. https://doi.org/10.1186/s13028-023-00721-x
2. Grondin TM, Dewitt SF. (2010). Normal hematology of the horse and donkey. Í: Weiss DJ, Wardrop KJ. (ritstjórar). Schalm’s veterinary hematology, 6. útg. Wiley-Blackwell, Iowa, USA, 821-829.
3. Lording PM. (2008). Erythrocytes. Vet Clin North Am Equine Pract, 24, 225-237. https://doi.org/10.1016/j.cveq.2008.04.002
4. Balan M, McCullough M, O’Brien PJ. (2019). Equine blood reticulocytes: reference intervals, physiological and pathological changes. Comp Clin Pathol, 28, 53–62. https://doi.org/10.1007/s00580-018-2820-4
Athugasemdir (1)