Vorið 2021 opinberuðu þeir miðlar sem síðar sameinuðust undir hatti Heimildarinnar að stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið. Hópurinn sem sótt var að átti það sameiginlegt að hafa annaðhvort flett ofan af meintum lögbrotum Samherja eða gagnrýnt framferði fyrirtækisins á opinberum vettvangi. Þessar aðfarir voru meðal annars, en ekki einvörðungu, framkvæmdar af hópi sem kallaði sig sín á milli „Skæruliðadeild Samherja“.
Umfjöllunin byggði á gögnum. Þegar haft var samband við Samherja til að leita viðbragða við umfjölluninni barst svar frá lögmanni á vegum fyrirtækisins. Í svarinu, sem var birt samhliða umfjölluninni, var fullyrt að gögnin sem miðlarnir hefðu undir höndum hefðu fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja. „Hvorki Samherji hf. né fyrirsvarsmenn félagsins munu fjalla um inntak gagna sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti. Með því væri verið að ljá umfjöllun vægi sem hún á ekki skilið. Fyrirspurnum yðar verður því ekki svarað.“
Í umfjölluninni var tiltekið að gögnin hefðu borist frá þriðja aðila og blaðamenn því engin lög brotið. Blaðamenn mega ekki, samkvæmt lögum, upplýsa um heimildarmenn sína. Um er að ræða atburðarás sem er afar algeng í starfi blaðamanna. Einhver hefur aðgang að upplýsingum sem viðkomandi telur að eigi erindi við almenning. Sá aðili kemur þeim upplýsingum til blaðamanna, sem skrifa fréttir um málið. Oft og tíðum brjóta viðkomandi meðvitað lög eða trúnað með athæfi sínu. Þau lögbrot verða ekki, samkvæmt fyrirliggjandi fordæmum, heimfærð á blaðamenn.
Ekkert í umfjölluninni hefur nokkru sinni verið hrakið og viðbrögð við henni voru nær öll á þann veg að það atferli sem lýst var, og byggði á umræddum gögnum, var fordæmt harkalega. Samherji baðst í kjölfarið afsökunar á viðbrögðum sínum við fréttaumfjöllun um meint lögbrot fyrirtækisins, þar sem það hafði ráðist með offorsi gegn nafngreindum blaðamönnum.
Sjaldan eða aldrei hefur afsökunarbeiðni verið jafn innantóm.
Hugarburður gerir blaðamenn að sakborningum
Þann 14. febrúar 2022, fyrir tveimur árum og tveimur dögum, fengu fjórir blaðamenn; höfundur, Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson og Þóra Arnórsdóttir, símtöl frá lögreglunni á Norðurlandi eystra þar sem þeim var tilkynnt um að þeir hefðu stöðu sakbornings í rannsókn á vegum embættisins vegna gruns um að hafa brotið gegn 228. og 229. greinum almennra hegningarlaga sem snúast um friðhelgi einkalífs. Í mars 2023 var svo fimmta blaðamanninum, Inga Frey Vilhjálmssyni, bætt við sem sakborningi vegna gruns um sömu brot.
Um er að ræða ákvæði sem bætt var inn í lög árið 2021. Í lögskýringu er sérstaklega tekið fram að það eigi ekki að beita þeim gegn blaðamönnum, meðal annars „í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni“. Tilgangur ákvæðisins er að verja þolendur frá stafrænu kynferðisofbeldi.
Síðar hefur komið í ljós að rannsókn málsins hófst í maí 2021, fyrir næstum þremur árum. Rannsókn lögreglunnar byggir á sömu forsendum og lögmaður Samherja setti fram í áðurnefndu svari við fyrirspurnum fjölmiðla á svipuðum tíma. Forsendum sem mynda uppistöðuna í hugarburði sem áðurnefndur Páll Steingrímsson hefur selt umræddu lögregluembætti sem raunveruleika.
Innihald þess, sem hefur reyndar tekið sífelldum breytingum eftir því sem Páll hefur fengið að gefa fleiri skýrslur, snýst að uppistöðu um eftirfarandi: hann heldur því fram að fyrrverandi eiginkona hans hafi, í samráði við blaðamenn, lagt á ráðin um að byrla honum ólyfjan, stela síma hans og koma gögnum úr þeim í umfjöllun hjá fjölmiðlum.
Til viðbótar var látið, um tíma, eins og blaðamenn væru grunaðir um að hafa móttekið og dreift myndböndum af Páli Steingrímssyni stunda kynlíf með ónafngreindum konum. Það var gert til að reyna að láta hin dularfullu brot falla undir áðurnefnd ákvæði hegningarlaga. Þessi ávirðing hvarf þó fljótlega og hefur aldrei verið borin upp á nokkurn blaðamann við skýrslutöku. Enda einu skiptin sem höfundur hefur séð kynlífsmyndir sem tengjast Páli Steingrímssyni þau þegar lögreglan á Norðurlandi eystra hefur sent sakborningum slíkar sem hluta af rannsóknargögnum.
Stórkostlega tilviljunin
Fjórir þeirra blaðamanna sem um ræðir starfa á Heimildinni. Þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa fjallað um málefni tengd Samherja, bæði meint lögbrot fyrirtækis innanlands og erlendis og skipulagðar aðfarir þess til að grafa undan nafngreindu fólki með ýmsum hætti. Þrír þeirra skrifuðu umfjöllunina um „Skæruliðadeild Samherja“. Einn, Ingi Freyr, kom ekki nálægt þeim skrifum og hefur aldrei notað þau gögn sem skrifin byggðu á. Hann fékk hins vegar tölvupóst, sem hann svaraði ekki, frá fyrrverandi eiginkonu Páls Steingrímssonar mörgum mánuðum eftir að umfjöllunin birtist, sem þótti nægjanleg ástæða til að raða honum á sakamannabekk.
Ingi Freyr er bróðir fyrrverandi saksóknara sem kom að rannsókn Samherjamálsins, en gerir það ekki lengur. Það er auðvitað stórkostleg tilviljun að Ingi Freyr var tekinn til rannsóknar á sama tíma og einn sakborninga í því máli, lögmaðurinn Arna McClure, notaði vensl hans við bróður sinn til að reyna að gera saksóknarann vanhæfan fyrir dómstólum. Þeirri tilraun var vísað út í hafsauga.
Á þeim tíma sem liðinn er frá því að blaðamennirnir fengu stöðu sakbornings hefur ein skýrsla verið tekin af þeim sem starfa á Heimildinni. Af þremur í ágúst 2022, fyrir einu og hálfu ári, og af þeim fjórða í mars 2023.
Þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir blaðamanna og lögmanna þeirra þá hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, eða þeir starfsmenn hennar sem koma að rannsókninni, ekki fengist til að gera skýra grein fyrir því að hverju grunur um refsiverða háttsemi af hans hálfu beinist. Lögreglan vill ekki segja hvaða hátterni við eigum að hafa sýnt af okkur til að teljast glæpamenn. Það er leyndarmál.
Af meðferð málsins, þeim rannsóknargögnum sem hafa fengist afhent og á kynningu sakarefnis við upphaf skýrslutöku hjá lögreglu, verður þó ekki annað ráðið en að þessi grunur tengist störfum okkar sem blaðamenn og lúti aðeins að fréttaskrifum í tilviki þriggja og móttöku tölvupósts í tilviki eins.
Ekki rannsakað til sýknu
Í lögum um meðferð sakamála segir að ákærendur skuli „vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar“. Í þessu máli hefur ekki verið gerð ein tilraun til að rannsaka málið til sýknu, einungis sektar.
„Enginn sem hefur verið yfirheyrður hefur staðfest þá ályktun lögreglunnar á Norðurlandi eystra að gögnin komi úr síma Páls Steingrímssonar né að þeirra hafi verið aflað með ólögmætum hætti“
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Páley Borgþórsdóttir, sagði í svari við upplýsingabeiðni höfundar í október síðastliðnum að rannsókn embættisins hafi meðal annars beinst að því hvernig og af hverjum gögn voru afrituð af síma í einkaeigu. „Það liggur fyrir að ákveðnir fjölmiðlar fjölluðu um efni sem var að finna í einkagögnum á símtæki í eigu einstaklings. Þeir aðilar hafa meðal annarra verið til rannsóknar vegna meints brots gegn friðhelgi einkalífs enda ljóst að þeir höfðu aðgang að gögnum sem var aflað úr símanum með ólögmætum hætti.“
Í þeim rannsóknargögnum sem eru fyrirliggjandi, og sakborningar hafa fengið afhent, er ekkert sem sýnir fram á þetta. Enginn sem hefur verið yfirheyrður hefur staðfest þá ályktun lögreglunnar á Norðurlandi eystra að gögnin komi úr síma Páls Steingrímssonar né að þeirra hafi verið aflað með ólögmætum hætti. Æsilegar samsæriskenningar um að RÚV haldi úti sérstökum tæknimanni til að sinna slíkum glæpaverkum fyrir aðra fjölmiðla og að umræddur sími hafi verið afritaður þar, með vitund og vilja síbreytilegs hóps starfsmanna og yfirmanna, eiga sér enga stoð í gögnum málsins. Enda fjarstæðukennd þvæla.
Blaðamenn mega ekki tjá sig um uppruna gagna sem þeir hafa undir höndum samkvæmt ákvæðum laga sem fjalla um vernd heimildarmanna. Það að blaðamenn hvorki játi né neiti spurningum sem geti stefnt vernd heimildarmanna í voða verður aldrei notað gegn þeim.
Fyrir liggur að öll gögn úr samskiptaforritum eða tölvupóstum eru aðgengileg víðar en í síma Páls, til dæmis í gegnum Internetið. Lögreglan reyndi sjálf að afrita síma Páls með þeim hætti sem hann hélt fram að hefði verið gert, og komst þá að því að það er ekki hægt að afrita skilaboð af WhatsApp-samskiptaforritinu, sem hún taldi að blaðamenn, eða tæknilegir útsendarar þeirra, hefðu gert. Þau eru dulkóðuð og færast ekki milli símtækja. Með tilraun sinni þá afsannaði lögreglan eigin áburð á blaðamenn.
Hún reyndi auk þess, seint á síðasta ári, að sækja gögn til Meta Platforms, eiganda WhatsApp, í veikri von um að geta barnað kenningu sína. Lögreglan hefur, enn sem komið er, ekki viljað afhenda gögn um þá upplýsingabeiðni en fyrir liggur að henni bárust svör í nóvember í fyrra um að þau gögn sem hún sóttist eftir væru einfaldlega ekki til.
Það var ekki eitrað fyrir neinum
Ekkert í gögnum málsins styður að Páli Steingrímssyni hafi verið byrlað eða að það hafi verið eitrað fyrir honum. Sjúkraskýrslur og önnur gögn úr heilbrigðiskerfinu raunar hafna því. Niðurstaða réttarmeinafræðings, sem var ráðinn af lögreglu til að fara yfir gögnin, var eftirfarandi: „Í fyrirliggjandi gögnum fundust engar handfastar vísbendingar um að reynt hafi verið að eitra fyrir honum.“ Þessar upplýsingar hefur lögreglan á Norðurlandi eystra haft síðan í september 2021. Enginn blaðamaður er til rannsóknar grunaður um að hafa eitrað fyrir Páli Steingrímssyni og enginn blaðamaður er til rannsóknar vegna gruns um að hafa stolið af honum síma.
Sá einstaklingur sem Páll Steingrímsson segir að hafi eitrað fyrir sér, fyrrverandi eiginkona hans, hefur þráfaldlega neitað því, síðast við skýrslutöku sem fór fram fyrir ári síðan. Það liggur ekki fyrir nein játning um að þetta hafi átt sér stað. Konan, sem stóð í skilnaði og grunaði mann sinn um framhjáhald, hefur gengist við því að hafa tekið símann hans, og skilað honum síðan nokkrum dögum síðar. Hún er sennilega hvorki fyrsti né síðasti makinn í þeim aðstæðum sem gerir slíkt.
Eina sem liggur fyrir er að Páll Steingrímsson veiktist og að hann hefur sett fram kenningu um að það hafi verið vegna byrlunar. Kenningu sem Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur kallað „getgátur“ í öðru en tengdu máli sem lögreglan á Norðurlandi eystra höfðaði gegn fyrrverandi eiginkonu Páls Steingrímssonar fyrir umsáturseinelti. Umrædd kona var sýknuð í málinu með afgerandi hætti og dómari málsins átaldi lögregluna sérstaklega fyrir slælega rannsókn þess. Ríkissaksóknari ákvað nánast samstundis að enginn grundvöllur væri til áfrýjunar. Verjandi konunnar sagði í færslu á Facebook að málið væri einstaklega dapurt í alla staði, „en ég efa það að sams konar ákæra hefði litið dagsins ljós hjá lögreglustjórum annars staðar á landinu“.
Samandregið þá hefur lögreglunni, með rannsókn sinni, tekist að afsanna allt sem hún lagði upp með að sanna. Eftir stendur ekkert nema hugarburður eins manns og rannsókn lögregluembættis, sem var eggjað áfram af áhrifafólki í stjórnmálum, á forsendum þess hugarburðar sem leitt hefur embættið út í skurð. Þar situr það embætti nú og neitar að koma upp.
Gefa lítið fyrir málshraðaregluna
Lögreglu ber ekki einungis að rannsaka mál til sýknu og sektar, henni ber líka að ljúka rannsókn eins fljótt og auðið er. Það leiðir af íþyngjandi eðli mála sem til meðferðar eru með tilliti til hagsmuna bæði sakborninga og brotaþola. Málshraðareglan er raunar ein af grundvallarreglum réttarfars sem víða kemur fram í settum lögum og er tryggð sérstaklega bæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
Almennt er því ekki réttlætanlegt að draga meðferð slíkra mála umfram það sem er algjörlega nauðsynlegt með tilliti til umfangs þeirra. Í fyrirliggjandi máli bætist við að sú háttsemi sem sakborningum er gefin að sök lýtur að störfum þeirra sem blaðamenn og rannsóknin felur af þeim sökum í sér skerðingu á tjáningarfrelsi þeirra.
Málshraðareglan virðist ekki vera í hávegum höfð hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Með bréfi til ríkissaksóknara 25. nóvember 2022 gerðu lögmenn blaðamanna sem eru með stöðu sakborninga athugasemdir við þær tafir sem þá voru þegar orðnar á meðferð málsins og óskað var eftir því að lagt yrði fyrir lögreglustjórann að ljúka meðferð málsins sem fyrst án frekari tafa.
Með bréfi ríkissaksóknara 6. febrúar 2023 var upplýst að veikindi eins sakbornings, fyrrverandi eiginkonu Páls Steingrímssonar, hefðu haft áhrif á framgang málsins og að rannsókn þess yrði ekki lokið fyrr en unnt yrði að taka skýrslu af umræddum sakborningi. Fram kom í bréfinu að ríkissaksóknari hefði óskað eftir því við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra að rannsókninni yrði hraðað eins og hægt væri. Fyrir liggur að skýrsla var tekin 14. febrúar 2023 af þeim sakborningi sem til var vísað í framangreindu bréfi ríkissaksóknara.
Engar aðrar ástæður voru tilgreindar fyrir töfunum og ekki vísað til annarra fyrirhugaðra rannsóknaraðgerða sem stæðu lyktum málsins í vegi. Lögmenn blaðamanna leituðu eftir upplýsingum hjá lögmanni umrædds sakbornings, sem sögð var of veik til að gefa skýrslu, hvort sú skýring stæðist. Samkvæmt svörum hans þá er svo alls ekki. Þvert á móti hafi skjólstæðingur hans, sem hefur mætt margoft til skýrslutöku, sótt það fast að ljúka málinu sem fyrst.
Ekki í forgangi, við höfum annað að gera
Þegar Eyþór Þorbergsson, aðstoðarsaksóknari og staðgengill lögreglustjórans, var spurður um hvað tefði rannsókn málsins af blaðamanni Vísis snemma sumars í fyrra svaraði hann: „Þetta er svolítið flókið mál og sakborningarnir hjálpuðu ekki til með einhverju rugli, eitthvað af þessum tíma er nú þeim sjálfum að kenna.“ Svo bætti hann við: „En þetta er náttúrlega ekki í forgangi. Við erum með stærri mál, heimilisofbeldi, alvarlegar líkamsárásir, kynferðisbrot sem sitja fyrir þessu máli [...] Nú er að koma sumar, sumarfrí, ég reikna ekki með þessu fyrr en í haust í fyrsta lagi. Allt hér liggur meira og minna niðri nema þessi akútmál á sumrin.“
„Lögreglustjórinn hefur meira að segja neitað að svara því hver það er sem stýrir rannsókninni.“
Svo kom haust og ekkert gerðist. Áfram neitaði lögreglan að upplýsa sakborninga og lögmenn þeirra um framvindu málsins og hvaða háttsemi þeir hafi átt að hafa sýnt af sér til að fremja glæp. Lögreglustjórinn hefur meira að segja neitað að svara því hver það er sem stýrir rannsókninni. Hvort það sé hún sjálf eða einhver af undirsátum hennar. Það kemur þeim sem eru til rannsóknar ekki við.
Í nóvember var því aftur óskað liðsinnis ríkissaksóknara með að fá upplýsingar um stöðu málsins. Þegar svar barst í janúar kom í ljós að eini eftirstandandi angi þess er gagnabeiðni til Google sem lögð var fram fyrir meira en ári síðan, og snýr að aðgengi að tölvupósthólfi fyrrverandi eiginkonu Páls Steingrímssonar vikurnar áður en fréttir um „Skæruliðadeild Samherja“ voru skrifaðar.
Um örvæntingarfulla lokatilraun er að ræða þar sem lögreglan vonast til þess að finna einhver samskipti sem sýni að blaðamenn hafi víst pantað byrlun (sem átti sér ekki stað), eitrun (sem átti sér ekki stað), símastuld (sem fyrrverandi eiginkona í miðjum skilnaði hefur gengist við og sagt hafa skilað nokkrum dögum síðar) og ævintýralega afritun (sem átti sér ekki stað) hjá andlega veikri konu (samkvæmt endurteknum fullyrðingum lögreglunnar og Páls Steingrímssonar).
Á grundvelli þessarar gagnabeiðni, sem mun ekki gera neitt fyrir málatilbúnað lögreglunnar á Norðurlandi eystra annað en að auka á auðmýkingu hennar, er blaðamönnum haldið áfram í rannsókn sem virðist ætla að verða endalaus.
Huldumennirnir sem borga reikninginn
Af hverju vill lögregluembætti vera að eyða tíma og peningum í að viðhalda rannsókn sem hún hefur sjálf sýnt fram á að muni aldrei leiða neitt fram sem rímar við kenningarnar þess?
Um það verður hver og einn að draga sína ályktun. Það blasir þó við að valkostir lögreglunnar eru ansi daprir. Hún þarf annaðhvort að reyna að ákæra blaðamenn fyrir að skrifa fréttir vitandi að hún á enga möguleika á að fá neitt út úr því annað en niðurlægingu, eða fella niður rannsókn málsins og gera sig réttilega að athlægi.
Þess vegna velur lögreglan þriðja kostinn, að gera ekki neitt. Fram hjá því verður enda ekki litið að á meðan á þessari leiksýningu hefur staðið fékk málið sjálfstætt líf í opinberri umræðu og samsæriskenningar verið settar í búning eðlilegrar þjóðmálaumræðu. Hér að neðan verður stiklað á stóru hvað það varðar.
Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari í Garðabæ, hefur bloggað af þráhyggju í hundruð skipta um málið, þar sem hann gengur út frá því að blaðamenn séu sekir um samsæri, byrlun, eitrun, þjófnað og ýmislegt annað sem þeir eru ekki til rannsóknar fyrir í þessu máli. Tveir sakborninga stefndu Páli fyrir meiðyrði vegna ásakana hans, sem eru tilhæfulausar og ærumeiðandi. Í mars 2023 sakfelldi Héraðsdómur Reykjavíkur Pál fyrir ærumeiðingar og tók að öllu leyti undir málflutning stefnenda. Í kjölfarið stefndi einn til viðbótar honum fyrir meiðyrði. Það mál bíður þess að verða tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og áfrýjun Páls á sektardómnum bíður þess að verða tekin fyrir í Landsrétti öðru hvorum megin við næsta sumar. Af skrifum hans að dæma virðast huldumenn, sem Páll hefur ekki viljað opinbera, hafa lagt honum til fé til að standa straum af kostnaði við málsvörn hans.
Fullur stuðningur úr Hádegismóum
Þrátt fyrir þetta hefur umræddur Páll haldið áfram af miklum krafti að bera óhróður sinn um ólögmætt og ósiðlegt athæfi blaðamanna Heimildarinnar og RÚV á torg. Það gerir hann oft í viku, og oftast þannig að um ærumeiðingar er að ræða.
Páll Vilhjálmsson hefur fengið að koma í einn vinsælasta útvarpsþátt landsins, Bítið í Bylgjunni, til að fara yfir samsæriskenningar sínar og tvívegis verið boðið í Dagmál hjá mbl.is. Fréttir hafa verið unnar upp úr þeim viðtölum og birtar á mbl.is, sem er einn mest lesni fréttamiðill landsins, þar sem fullyrðingar Páls Vilhjálmssonar hafa verið settar fram sem staðreyndir. Morgunblaðið og mbl.is hafa auk þess ítrekað endurbirt skoðanir Páls um málið í ritstjórnarefni – leiðurum og Staksteinum – og skrifað fréttir sem virðast gefa málflutningi hans vægi og sjónvarpsandlit miðilsins út á við hefur verið duglegur við að taka þátt í drullumallinu.
Þá hefur Páll Vilhjálmsson mætt í langt viðtal við Frosta Logason á miðlinum Brotkasti þar sem umfjöllunarefnið var það sama. Aðrir miðlar sem skráðir eru hjá fjölmiðlanefnd, sérstaklega Mannlíf og DV en líka stærri miðlar eins og Vísir, hafa tekið upp sumt af þessu efni og gert að sínu. Ofangreindir miðlar hafa flestir fjallað um brjálaðar lygar og aðdróttanir Páls Vilhjálmssonar um nafngreinda blaðamenn, og raunar alls kyns annað fólk, líkt og um staðreyndir sé að ræða.
„Láttu þá neita því“
Páll Steingrímsson fór sjálfur í fyrrasumar í tvö viðtöl, annars vegar við Frosta Logason á miðlinum Brotkasti og hins vegar við Reyni Traustason á Mannlífi. Þess utan hefur hann skrifað, og birt á Vísi og Nútímanum, fjölda aðsendra greina þar sem rangar staðhæfingar hans um nafngreinda blaðamenn eru settar fram sem staðreyndir. Þar er framsetningin mjög í anda þeirra vinnubragða sem hin svokallaða „Skæruliðadeild Samherja“ ástundaði til að reyna að hafa æruna og, í sumum tilvikum, lífsviðurværið af þeim sem tóku þátt í að opinbera möguleg lögbrot fyrirtækisins.
„Ef rangindi eru endurtekin nógu oft þá fást mögulega einhverjir til að trúa þeim. Tilgangurinn helgar meðalið.“
Í viðtalinu við Frosta var Eva Hauksdóttir, sem er lögmaður bæði Frosta og Páls Steingrímssonar, einnig þátttakandi. Tilgangurinn virtist vera sá að gefa ásökunum hans, sem ekki er hægt að sýna fram á með neinum hætti, lögmæti. Í báðum tilvikum endurtók Páll Steingrímsson fyrri ásakanir sínar á hendur blaðamönnum og bætti um betur með því að kynna til leiks nýja og enn ævintýralegri hugaróra. Viðtölin urðu fréttaefni á öðrum miðlum.
Þetta er klassísk „Láttu þá neita því“-aðferð. Lygum er dreift og ef þeir sem lygarnar fjalla um neita þeim ekki opinberlega í hvert sinn sem farið er með þær þá er því haldið fram að þær séu sannar. Ef rangindi eru endurtekin nógu oft þá fást mögulega einhverjir til að trúa þeim. Tilgangurinn helgar meðalið.
Glæpurinn sem var ekki framinn
Valdamesti stjórnmálamaður þjóðarinnar síðasta rúma áratuginn skrifaði, þegar hann ákvað að verja, styðja og hvetja lögregluna á Norðurlandi eystra áfram í vegferð sinni í þessu máli, degi eftir að blaðamenn voru gerðir að sakborningum, að engar fréttir hafi „verið fluttar af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar“.
Rannsóknargögn og vitnisburðir, sem farið er yfir hér að ofan, svara fróðleiksfýsn hans. Lögreglan hafði, og hefur, ekkert í höndunum annað en hugarburð eins starfsmanns Samherja sem seldi henni sögu um glæp sem var aldrei framinn. Tilefni til rannsóknarinnar var ekkert.
Málið mun með tíð og tíma verða kolsvartur minnisvarði um valdníðslu lögreglu gagnvart blaðamönnum fyrir að vinna vinnuna sína. Hún sýnir vangetu stjórnvalda til að stuðla að boðlegu starfsumhverfi fyrir fjölmiðla og er aðför að frjálsri fjölmiðlun. Fyrir vikið líður fjölmiðlafrelsi á Íslandi fyrir, líkt og sést á alþjóðlegum mælingum.
Þau fábrotnu rannsóknargögn, sem hefur verið aflað síðustu mánuði, og grafa enn frekar undan málatilbúnaði lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sýna það öngstræti sem rannsóknin er komin í.
Hennar eini tilgangur úr þessu virðist vera sá að dragast á langinn svo hægt sé að grafa undan málatilbúnaði á hendur Samherja og halda áfram að ljúga upp á blaðamenn sem hafa fjallað um meint lögbrot fyrirtækisins.
Það verður að vera hægt að koma í veg fyrir að geðþótti stjórnenda einstaks lögregluembættis geti leitt af sér kælingu á borð við þá sem hefur verið í gangi undanfarin tvö ár, og sér ekki fyrir endann á.
Þótt ekkert af þessu verði tekið aftur þá verður að minnsta kosti að draga þann lærdóm af málinu.
Svona lagað má aldrei gerast aftur.
Margt bendir til að fyllsta ástæða sé að gruna kæranda að hann sé ekki alveg við hugann við það hvað sé satt og rangt. Til er fólk sem haldið er ranghugmyndum og á það sérstaaklega við þegar veikindi koma við sögu og lyf geta afvegaleitt viðkomandi.
Óskandi er að lögreglan á Norðurlandi sjái sóma sinn í og ljúki þessari rannsókn sem virðist hafa verið hafin án þess að raunveruleg ástæða hafi verið til annað en einhver huglæg viðhorf þess sem málið varðar og sér ýmsa sér fjandsamlega. Og það myndi auka traust gagnvart viðkomandi ef beðið væri afsökunar.
1.Þórður Snær hefur ekki séð sjúkraskýrslurnar eða
2. Þórður Snær er ekki læs á sjúkraskýrslur
eða
3. Þórður Snær, sem ég geri ráð fyrir að sé enn með stöðu sakbornings, er vísvitandi að segja lesendum sínum ósannindi.
Um efni sem sakborningar og brotaþolar fá innsýn í, frá rannsakendum máls, virðast svo gilda nokkuð aðrar reglur í Noregi en á Íslandi. Sakborningar í símastuldarmálinu hafa skrifað fleiri greinar en ég hef tölu á sem þeir gefa til kynna að unnar séu upp úr lögreglugögnum. Út á þetta hafa þeir fengið smelli og þannig auglýsingatekjur fyrir fjölmiðilinn sem þeir vinna á og sumir þeirra eru hluthafar í. Í Noregi fæ ég að lesa gögn málsins sem ég er brotaþoli í en þau yfirgefa ekki skrifstofu réttargæslumanns míns og ég má ekkert um þau segja á meðan málið er til rannsóknar. Hvorki satt né logið.
Vona svo að Heimildin geti útskýrt fyrir ykkur nafnleysi mitt í fyrri athugasemd minni en óttast að það vefjist fyrir húsráðendum þar. Leiðarahöfundurnn hefur nefnilega fyrir löngu blokkað fésbókarprófíl minn af því að það vafðist víst eitthvað fyrir honum að svara gagnrýnum spurningum mínum. Og Heimildin gerði það sama á Facebook, - blokkaði mig þar frá að geta skrifað athugasemdir og spurningar. Þetta er væntanlega hvort tveggja til marks um virðingu leiðarahöfundarins og fjölmiðils hans fyrir tjáningarfrelsinu.