Lögreglan á Íslandi er í krísu. Hún er minnst heimatilbúin. Ábyrgðina bera stjórnmálamenn og við sem veitum þeim umboð til þess. Á ekki löngum tíma hefur lögreglumönnum fækkað umtalsvert. Fækkunin er ekki bara hlutfallsleg, miðuð við höfðatölu eða fjölda á hvern íbúa.
Næstum fimmtíu færri eru nú í lögregluliði höfuðborgarsvæðisins en voru árið 2007. Íbúum hefur á sama tíma fjölgað og ekki síður ferðamönnum. Ef sama hlutfall lögreglumanna á hvern íbúa væri á höfuðborgarsvæðinu og er í þeim landshluta þar sem það er næstlægst, væru 200 fleiri lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu en þeir eru núna. Núna, þegar þeir eru 279.
Mönnunin er síst betri úti á landi, eins og margoft hefur verið bent á. Á Suðurlandi eru dæmi um að lögreglumenn á vakt séu teljandi á fingrum annarrar handar, jafnvel þó að á meðalhelgi fjölgi um nokkur þúsund manns í umdæminu. Á Norðausturlandi hafa jafnvel þrír lögreglumenn sinnt svæði sem spannar nærri fjórðung landsins. Ekki er langt síðan sagt var frá því að lögreglumenn á Akureyri væru jafnmargir á vakt á meðaldegi og var árið 1970.
Í umræðum á Alþingi í vikunni vakti Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, athygli á þessu og benti á að árið 2020 hafi fjöldi lögreglumanna á hverja þúsund íbúa á Íslandi, verið næstlægstur í hópi 32 Evrópuríkja.
Það þarf ekki að koma á óvart þó oft og tíðum sé sagt frá því hvernig dæmdir menn sleppa við refsingu, vegna seinagangs við rannsókn einföldustu sakamála. Þeir sem svo eru dæmdir til refsingar hafa svo jafnvel sloppið undan henni vegna plássleysis í fangelsum landsins, sem þrátt fyrir að vera heilsuspillandi og óörugg virðast samt alltaf hafa rými fyrir fárveika, alvarlega geðsjúka einstaklinga.
Afleiðingin verður líka óhjákvæmilega sú að flóknari og stærri mál dragast eða jafnvel daga uppi. Það er einfaldlega þannig að fámenn og yfirhlaðin löggæsla á betra með að beita sér niður fyrir sig en að teygja sig upp fyrir sig.
Hættan að utan
Af opinberri umræðu að dæma er þetta ekki og hefur ekki verið helsta áhyggjuefni þeirra sem fara með raunverulegt vald til að breyta þessari þróun. Umræðan um lögregluna snýst helst um að færa henni auknar valdheimildir til að stunda eftirlit með borgurunum í nafni óskilgreindrar og oft óljósrar hættu af skipulögðum erlendum glæpagengjum.
Nú upp á síðkastið hafa svo stjórnmálamenn og ráðherrar spyrt þessari kröfu saman við þá að nú sé komið nóg af aðstoð við fólk sem flýr hingað stríð og hörmungar. Akkúrat þegar þurfa í skjól einstaklingar í ögn dekkri húðtón en Íslendingur eftir vetursetu á Kanarí.
Á meðan ekki hefur tekist að sannfæra meirihluta þingheims um nauðsyn þess að færa lögreglunni víðtækar njósnaheimildir, jafnvel eftirlitslausar, hefur þó tekist að koma í gegn bakdyramegin breytingum sem gera lögreglu kleift að beita þeim heimildum, sem hún þó hefur, af meiri krafti en áður.
Á síðustu misserum hafa bæst við handjárn og kylfur, sem fyrir voru í beltum lögreglumanna, rafbyssur, piparúðar og hríðskotabyssur (sem hvergi nema í dómsmálaráðuneytinu eru kölluð rafvarnarvopn, varnarúði og skammbyssur).
Leið þessara vopna í belti lögreglumanna hefur oft verið sérstök. Lögreglan hefur fengið gefins og hálf smyglað hingað aflögðum norskum hríðskotabyssum, sem þegar upp komst var reynt að telja okkur trú um að væru í raun bara skammbyssur, með fleiri skotum. Rafbyssum var lætt í belti lögreglunnar af ráðherra sem ákvað það upp á sitt einsdæmi. Eftir á var það rökstutt með auknum vopnaburði landans.
Leiðtogafundurinn í sumar sem leið var svo nýttur til að kaupa inn vopn fyrir 160 milljónir króna. Hvað og hve mikið má ekki segja frekar en síðast enda sé það þjóðaröryggismál að halda því leyndu hve mikið er verið að vopnavæða lögregluna. Síðast fengust reyndar upplýsingarnar frá norska hernum um hríðskotabyssurnar, sem var skilað aftur. Norska hernum er augljóslega ekki eins annt um þjóðaröryggi og íslensku löggunni.
Sérsveitarvæðingin
Lögreglumönnum hefur sumsé fækkað en í staðinn hafa þessir sem eftir eru fengið fleiri vopn. Að sama skapi hefur verið fjölgað í svokallaðri sérsveit Ríkislögreglustjóra. Helsti munurinn á sérsveitarlöggunni og þessari almennu sýnist manni oft vera sá að í stað tvískipts búnings er sérsveitin í heilgalla. Auk þess sem sérsveitarmönnum liggur talsvert hærra rómur en þessum almennu.
Að þessu frátöldu má færa fyrir því rök að búið sé að sérsveitarvæða stóran ef ekki stærstan hluta lögreglunnar. Að því er virðist til að bæta upp fyrir fámennið og kannski ekki síður róa þá sem telja að óljós en viðvarandi hætta vofi yfir, og eina ráðið sé að vígvæðast sem mest.
Það má vafalaust færa rök fyrir því að lögreglan á Íslandi eigi að bera einhver vopn. En þau koma ekki í staðinn fyrir fólk.
Það er enginn öfundsverður af því að sinna starfi lögreglumanns eins og staðan er í dag. Það horfir enda þannig við mörgum að beinlínis sé verið að etja lögreglunni gegn almenningi og oft má heyra lögreglumenn lýsa viðhorfi sem sýnir þá telja stórum hluta almennings uppsigað við sig.
Útvistun traustsins
Það eru ekki áratugir síðan að íbúar jafnvel stærri bæja á Íslandi þekktu lögreglumenn með nafni, án þess þó að teljast til góðkunningja lögreglunnar. Börn ólust upp við að eiga regluleg samskipti við lögreglumenn, önnur en þegar verið var að hafa afskipti af þeim. Það var til þess að oft byggðist upp traust og gagnkvæm virðing sem varð til þess að fólk upplifði sig geta leitað til lögreglunnar um aðstoð, sem fól ekki í sér vald- eða vopnabeitingu.
Eitt af því sem lögreglan gerði var að heimsækja skóla og leikskóla. Hún sinnti aðstoð við fólk, forvörnum og umferðarfræðslu. Það má vel færa rök fyrir því að ekkert af ofangreindum verkefnum falli undir þjóðaröryggismál. Og það var sannarlega ekki allt gott í gamla daga í samskiptum borgaranna og lögreglu. Alls ekki. En í minningunni allavega var lögreglan nær fólki en hún er í dag og hafði yfir sér aðra ásýnd en margir upplifa í seinni tíð.
Það deila fleiri þessari tilfinningu. Á síðastliðnum áratug hefur til að mynda fækkað umtalsvert í hópi þeirra sem telja lögregluna mjög aðgengilega og sá hópur sem telur lögreglu alls ekki aðgengilega er nú jafnstór, eða fjórðungur samkvæmt mælingum sem Ríkislögreglustjóraembættið vitnar til í skýrslum sínum.
Þar er þessu einnig lýst þannig að fámenn lögregla sé ekki fær um að stunda frumkvæði í löggæslu svo neinu nemur. Hana skorti einfaldlega styrk til þess:
„[S]á skortur varðar ekki eingöngu afbrot og löggæslu heldur ekki síður þá margvíslegu þjónustu sem lögreglan veitir borgurunum á degi hverjum. Það á m.a. við um viðbragð lögreglu vegna slysa, leit að týndu fólki, umferðareftirlit og aðstoð af margvíslegum toga.“
Þetta sést best á þeim fjölda þjónustuverkefna sem lögreglan hefur ákveðið að hætta eða láta aðra um. Þjónusta og viðbragð við öðrum en alvarlegustu árekstrum hefur einhverra hluta vegna verið færð í hendur tryggingafélaga, í gegnum millilið. Lögreglan hefur ekki tíma í hversdagleg viðvik og þjónustu eins og áður var, umferðareftirlit mætir sömuleiðis afgangi og jafnvel leit að týndu fólki.
Formaður stéttarfélags lögreglumanna hefur sagt að „lögreglumenn á Íslandi væru svo fáir að í óefni stefndi [...] lögregla væri ekki í stakk búin að veita almenningi þá þjónustu sem hann ætti rétt á. Þúsundir mála biðu úrlausnar hjá lögreglu.“
Kylfa ræður kasti
Fyrir ekki svo löngu gerðist það að barn á leikskólaaldri læsti sig óvart inni í bíl við leikskóla í borginni. Þeir í hópi viðstaddra sem voru komnir yfir fertugt töldu strax rétt að hringja í lögregluna eftir aðstoð. Þeir sem voru yngri áttu eftir að glotta út í annað þegar þau svör fengust hjá lögreglunni að hún væri beinlínis hætt að opna bíla fyrir fólk sem lenti í að læsa lykla inni í bílum sínum. Lögreglan sem svaraði benti einfaldlega á fyrirtæki sem tæki að sér að draga bíla, sem gæti mögulega aðstoðað.
Þegar lögreglunni var bent á að með lyklunum væri læst inni í bílnum tveggja ára barn, sagði lögreglan það ekki skipta máli nema um bráða lífshættu væri að ræða. Þá hins vegar kæmi lögreglan eingöngu til þess að brjóta bílrúðu til að nálgast barnið. Sú þjónusta var afþökkuð.
Lögreglan þjónustar ekki lengur þá sem þurfa að opna læsta bíla, jafnvel þótt þar sé lítið barn. Hún er hins vegar tilbúin að nota eitthvert vopna sinna til að mölva rúðu í bílnum.
Annað svipað dæmi af þjónustu, eða raunar fyrsta viðbragði til bjargar mannslífum, er af lyfinu Naloxone. Undanfarin tvö ár hefur aðgengi að úðalyfinu Naloxone verið auðveldað mjög. Áður þurfti að fá það uppáskrifað hjá lækni og greiða fyrir þúsundir króna. Sem er bagalegt þar sem lyfið er notað til að afstýra bráðum dauða eða alvarlegum skaða sem fylgt getur ofskömmtun ópíóða eða morfínlyfja. Fólk í vímuefnaneyslu er enda yfirleitt hvorki mjög fjáð eða áfjáð í að færa inn í læknaskrá sína beiðni um slíkt lyf.
Fyrir utan augljósan kost þess að lyfið sé aðgengilegt og einfalt í notkun, þá fylgir því engin áhætta, jafnvel þótt það sé gefið einhverjum sem ekki hefur ofskammtað. Á dögunum var mér sagt að þrátt fyrir tilraunir og samtöl við stjórnendur lögreglu á Íslandi hefðu þeir ekki séð leið til að hafa lyfið aðgengilegt á lögreglumönnum eða í lögreglubílum. Það væri nóg að hafa lyfið aðgengilegt á lögreglustöðvum.
Lögreglumenn eru og eiga að vera fyrstir á vettvang þegar kallað er eftir aðstoð vegna gruns um ofskömmtun vímuefna þar sem notkun lyfsins í tæka tíð bjargar lífi fólks.
Einhverjir lögreglumenn hafa hins vegar fundið upp hjá sjálfum sér að nálgast og hafa úðalyfið tiltækt.
Þær skýringar sem forsvarsmenn lögreglunnar gáfu fyrir því að gera úðalyfið ekki aðgengilegra, var ýmist sú að ekki væri pláss í beltum lögreglumanna og að í skotti lögreglubíla væri hætt við að kuldi og frost geti mögulega skemmt lyfið. Hér er rétt að benda á að úðalyfið, sem er litlu stærra en eldspýtustokkur, kemur yfirleitt í tösku, litlu stærri en snjallsíma.
En, nei. Það var ekki pláss. Það er hins vegar pláss fyrir handjárn, kylfu, rafbyssu, byssu og piparúða á búningi lögreglumanna, en ekki úða með lífsbjargandi lyfi. Það er heldur ekki hægt að hafa úðann í lögreglubílum, en þar er hægt að hafa byssur.
Lögreglulið víðs vegar um heiminn hafa fundið pláss á bæði búningum og í bílum sínum fyrir þessi lyf. Og eru þeir þó líka með byssur.
Við og þeir
Í vikunni birtist okkur enn einu sinni mynd af lögreglunni sem stakk í augu margra. Hún var af lögreglumönnum að handtaka unglingspilta fyrir að kasta eggjum í Alþingishúsið á mótmælum. Áferðin á þeirri aðgerð lögreglu var eins og í mörg önnur skipti sem lögreglan kemst í opinbera umræðu, hvort heldur sem er þegar hún tekur á fötluðum flóttamanni sem henda á úr landi, stendur fyrir nektardansi við útrýmingarbúðir eða sætir ásökunum um harðræði, skort á vilja til að bregðast við gagnrýni eftirlitsaðila og svo framvegis.
Það er fullkomlega ósanngjarnt að herma þessi dæmi upp á alla lögreglumenn eða að láta eins og þau séu lýsandi fyrir menningu innan lögreglunnar. En það er hins vegar svona sem lögreglan birtist okkur allt of oft.
Og það hjálpar heldur ekki til þegar slag í slag var farið gegn ráðleggingum alþjóðlegra eftirlitsaðila og flokksskírteini og þjónkun við flokka eða flokksfígúrur látin ráða því hverjir röðuðust í æðstu embætti lögreglunnar. Almenningur hefur enn fyllstu ástæðu til vantrausts í garð embættis hvers yfirstjórn er skipuð á þeim forsendum.
Það má vel hrósa lögreglunni fyrir að hafa í seinni tíð gert skurk í brotaflokkum eins og heimilisofbeldismálum, sem allt of lengi var af samfélaginu öllu álitið hálfgert einkamál utan laga og réttar.
Því átaki fylgdi þó, eins og átaki gegn kynferðisbrotum nokkrum árum fyrr, að vera farið í á kostnað annarra brotaflokka. Vegna manneklu. Það er fullkomnlega galið að lögreglan þurfi að afgreiða alvarleg lögbrot, í sérstökum átaksverkefnum, en gefa á meðan afslátt af öðrum alvarlegum brotum. Það hefur samt verið látið viðgangast.
Að þjóna og vernda
Lögreglan er sett í þá stöðu að geta ekki sinnt nema brýnustu og alvarlegustu verkefnum og jafnvel þá hefur fólk á tilfinningunni að hún þurfi að forgangsraða þannig að ástandið sem í upphafi var kannski viðráðanlegt, er orðið tilefni til valdbeitingar og vopnaburðar.
Það er kannski ekki nema von þegar valdbeitingu og vopnum er ætlað að leysa af fólk.
Vandinn er viðvarandi fækkun lögreglumanna og áherslur sem gera þeim sem eftir starfa erfiðara um vik að þjóna almenningi um leið og þeir eiga að vernda hann.
Hvorugt getur hún í dag.
Það verður ekki leiðrétt með auknum valdheimildum lögreglunnar. Og ekki heldur með því að hleypa ekki inn til landsins konum og börnum frá Palestínu.
Svona svo það sé sagt.
En svo er engin timi til ad bjarga barni ur læstum bìl !!!
Hvì ætti almenningur i þessu landi ad treysta eda virda lögregluna. Alltaf nægur timi til ad posta à insta samt.
Ef sömu Vinnubrögð væru höfð i Bretlandi og viðhöfð eru i Reykjavik væru flestir yfirmen Lögreglu her komnir undir Græna Torfu. AÐGAT SKAL HÖFÐ I NÆRVERU SALAR sagði Einar Ben Skald. Islenskir Yfirmenn Lögreglu Ætu að fara i Skola hja Scotland Yard og læra Glæpafræði og vinnubrögð er varða INRA ÖRYGGI RIKISINS. Svæsnustu Glæpa Foringjar Dop hringja eru með Utibu her nu þegar. Væntiskonur Erlendar vinna her i Massavis mörg Hundruð. Eiða þarf miklum Fjarmunum i að Biggj Upp Lögregluna og ekki spara neitt. Arið er 2024.
" Það er einfaldlega þannig að fámenn og yfirhlaðin löggæsla á betra með að beita sér niður fyrir sig en að teygja sig upp fyrir sig. "