Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, og Sýn, sem rekur fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, fengu hæstu rekstrarstyrkina sem ríkissjóður veitir einkareknum fjölmiðlum árlega. Alls fengu fyrirtækinu tvö 107,2 milljónir króna hvort. Það er umtalsvert hærri upphæð en þau fengu í fyrra, þegar greiðslur til hvors þeirra námu 66,7 milljónum króna. Greiðslur til Árvakurs, sem er að uppistöðu í eigu aðila með sterk tengsl við íslenskan sjávarútveg, og Sýnar, sem er skráð á hlutabréfamarkað og er að stóru leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða, jukust því um 61 prósent milli ára.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Fjölmiðlanefnd sendi frá sér í dag.
Tvennt hefur breyst umtalsvert frá því í fyrra. Annars vegar fór Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, í gjaldþrot í vor en það fékk hámarksstyrkt úr ríkissjóði á árinu 2022. Hins vegar bættust 100 milljónir króna óvænt við pottinn sem úthlutað var til einkarekinna fjölmiðla eftir að hætt var við að veita sjónvarpsstöðinni N4 slíkan viðbótarstyrk framhjá almennu styrkjakerfi í desember í fyrra. Sú fjárveiting var stöðvuð eftir að aðrir fjölmiðlar fjölluðu um tilraun meirihluta fjárlaganefndar til koma henni í gegn skömmu fyrir þinglok á síðasta ári. Til að setja þá upphæð í samhengi má benda á að styrkur til Árvakurs og Sýnar jókst samtals um 81 milljón króna milli ára. Miðað við það fóru átta af þeim tíu krónum sem bætt var við pottinn til þessarra tveggja fyrirtækja.
Sótt um næstum hálfan milljarð meira en var úthlutað
Í ár bárust 28 umsóknir um styrk en þremur þeirra var synjað þar sem þær uppfylltu ekki öll skilyrði fyrir rekstrarstuðningi. Því fengu 25 fyrirtæki rekstrarstuðning sem eru jafnmörg og í fyrra. Útgáfufélag Útvarps Sögu fær styrk í ár en fékk ekki í fyrra en Torg er, líkt og áður sagði, ekki lengur á meðal þeirra sem fá styrk, enda félagið farið á hausinn. Alls var sótt um styrki fyrir 962 milljónir króna en til úthlutunar voru 470 milljónir króna.
Sameinaða útgáfufélagið, sem gefur út Heimildina, fékk þriðja hæsta styrkinn eða 54,7 milljónir króna. Þeir miðlar sem sameinuðust inn í það félag í upphafi árs, Kjarninn og Stundin, fengu samtals 36,8 milljónir króna í fyrra. Því hækkaði greiðslan um 48,6 prósent milli ára en bæði félög juku fjárfestingu sína í ritstjórnum á árinu 2022.
Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, fær 33 milljónir króna nú sem er um átta milljónum króna meira en í fyrra. Tvö önnur fjölmiðlafyrirtæki fá yfir 20 milljónir króna í styrk. Annars vegar Birtingur, sem heldur úti tímaritum á borð við Gestgjafann og Hús og Híbýli en rekur ekki fréttastofu, sem fékk um 20 milljónir króna úr ríkissjóði og bætt við sig tæpum sjö milljónum króna á milli ára, og hins vegar Bændasamtök Íslands, sem fengu 20,8 milljónir króna og bættu við sig 4,1 milljón króna í styrk á milli ára. Alls hefur styrkur til Bændasamtakanna, sem eru ekki atvinnugreinaflokkuð sem útgáfustarfsemi heldur sem hagsmunasamtök, vegna útgáfu Bændablaðsins aukist um 8,5 milljónir króna á tveimur árum.
Ritstjórn Bændablaðsins heyrir undir útgáfu- og kynningarsvið Bændasamtaka Íslands. Á heimasíðu Bændasamtakanna segir að hlutverk þeirra sé að vera „málsvari bænda og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna“. Meginmarkmið þeirra sé að „beita sér fyrir bættri afkomu bænda, betri rekstrarskilyrðum í landbúnaði auk þess að miðla upplýsingum og sinna fræðslu til sinna félagsmanna.“
Skerðist hlutfallslega
Rekstrarstuðningurinn getur að hámarki verið 25 prósent af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda sem uppfylla ýmis skilyrði sem sett eru fyrir því að fá greitt úr pottinum. Lög um hann voru endurnýjuð fyrr á þessu ári, en einungis til tveggja ára. Auk þess fá staðbundnir fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins 20 prósent álag á upphæð styrks.
Sé sótt um hærri upphæð en búið er að gera ráð fyrir að ráðstafa skerðist hlutfallið af rekstrarkostnaði sem fæst greitt hjá hverjum og einum umsækjanda. Í þau skipti sem greiðslunum hefur verið úthlutað þá hefur ætið verið sótt um mun hærri upphæð en er til skiptanna. Sá kostnaður sem er stuðningshæfur er kostnaður við rekstur ritstjórnar.
Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar hljóta eftirfarandi 25 fjölmiðlaveitur rekstrarstuðning árið 2023:

Leiðir skoðaðar til að minnka umsvif
Það fjölmiðlafyrirtæki sem fær hæstu upphæðina úr ríkissjóði er þó ekki einkarekið, heldur ríkismiðillinn RÚV. Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi mun sú upphæð sem RÚV fær úr ríkissjóði fara í rúmlega 6,1 milljarð króna á næsta ári og hefur þá hækkað um 1,5 milljarða króna frá árinu 2021.
Ástæða þeirrar miklu hækkunar er sú að tekjurnar sem ríkissjóður skammtar RÚV hækka í samræmi við verðbólgu og aukast samhliða því sem landsmönnum fjölgar, en sú mikla eftirspurn sem er í hagkerfinu eftir vinnuafli hefur fjölgað íbúum landsins um tæplega 15 þúsund frá byrjun síðasta árs og út júní síðastliðinn.

Til viðbótar hefur RÚV miklar tekjur af samkeppnisrekstri, aðallega sölu auglýsinga, en þær skiluðu 2,4 milljörðum króna í kassann fyrir RÚV í fyrra. Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra skipaði í sumar starfshóp sem ætlað er að skoða mögulegar leiðir og tillögur til að breyta eðli og umfangi auglýsingadeildar RÚV til að minnka umsvif þess á auglýsingamarkaði og að skoða möguleika á að létta lífeyrisskuldbindingum RÚV. Hópurinn, sem leiddur er af Karli Garðarssyni, fyrrverandi þingmanni Framsóknarflokksins, á að skila af sér tillögum um miðjan næsta mánuð.
Þá er í mótun fjölmiðlastefna fyrir Ísland innan ráðuneytisins sem stendur til að kynna á næstu mánuðum. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er alls gert ráð fyrir að ráðstafa tæpum sjö milljörðum króna úr ríkissjóði í fjölmiðlun. Alls 88 prósent þeirrar upphæðar fer til RÚV, um 1,4 prósent fer í rekstur fjölmiðlanefndar og það sem eftir stendur, tæplega tíu prósent, í stuðning við einkarekna fjölmiðla. Um helmingur þeirrar upphæðar fer í að endurgreiða hluta af ritstjórnarkostnaði þeirra en ekki liggur endanlega fyrir hvernig hinum hluta fjármagnsins verður ráðstafað. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er meðal annars horft til þess að miðla viðbótarfjárhæðinni til fjölmiðla í gegnum skattaívilnun og er aðgerðinni þannig að hluta til ætlað að hvetja fjölmiðla til að taka upp áskriftarfyrirkomulag.
Athugasemdir (1)