Isaac Kwateng, vallarstjóri Þróttar, sat inni á hóteli í Gana og var að læra fyrir íslenskupróf þegar framkvæmdastjóri Þróttar tjáði honum að hann hefði fengið atvinnuleyfi á Íslandi til eins árs.
„Ég varð svo hamingjusamur,“ segir Isaac. Honum var vísað frá Íslandi til Gana um miðjan október. Þá hafði hann búið á Íslandi í um sex ár og unnið sem vallarstjóri Þróttar í tvö ár. Þróttarar mótmæltu þessum aðgerðum harðlega og aðstoðuðu Isaac við að komast aftur til Íslands með atvinnuleyfi.
Í aðdraganda þess að Isaac flúði Gana voru hann og vinur hans að boða kristna trú í Gana. Þeir lögðu áherslu á þá sýn sína að samkynhneigð væri ekki samþykkt innan trúarinnar og að samfélagið ætti að hafna henni. Í kjölfarið segir Isaac að fjórir menn hafi ráðist að þeim vinum í tvígang. Eftir seinni árásina hafi vinur hans látist af sárum sínum og Isaac flúið land.
Ekki andstæður hamingju annarra
Isaac segir í samtali við Heimildina að hann sé alls ekki lengur á móti samkynhneigðum. Viðhorf hans hafi breyst mikið síðan hann kom til Íslands.
„Ég var alinn upp af kristnum foreldrum með viðhorf sem eru mjög ólík þeim evrópsku,“ segir Isaac. „Eftir að ég kom til Íslands þroskaðist ég og byrjaði að skilja ýmislegt betur. Það breytti mér.“
Hann segir að nú skilji hann að það sé ekkert athugavert við það að fólk laðist að sama kyni.
„Ég hef ekkert á móti samkynhneigðum, ég vil að allir fái að lifa sínu lífi eins og þeir vilja,“ segir Isaac. „Ef þú ert samkynhneigður, þá er það þitt líf og þú átt að gera það sem gerir þig hamingjusaman eða hamingjusama. Ég er ekki á móti neinum. Allir vilja vera hamingjusamir og ég er ekki á móti því.“
Í faðm Þróttara að nýju
Isaac segist hlakka mikið til að koma aftur „heim til Íslands“ og stefnir hann á að fara aftur að vinna sem vallarstjóri Þróttar. „Fólkið í Þrótti er fjölskyldan mín,“ segir Isaac.
Hann hefur sótt um ríkisborgararétt og er á leið í íslenskupróf 21. nóvember næstkomandi.
„Það gengur vel að skrifa en ég á erfiðara með að tala,“ segir Isaac um íslenskuna. „Það er erfitt að æfa sig að tala hérna því ég get ekki talað íslensku við neinn. Þegar ég kem til Íslands verður auðveldara fyrir mig að æfa mig að tala íslensku.“
Hann bíður nú eftir vegabréfsáritun. Þegar hún er klár mun hann leggja í hann, heim til Íslands og í faðm íþróttafélagsins í Laugardalnum.
Hvað kostaði allt þetta rugl og hver borgar?