Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Samfylkingin með yfir 30 prósent fylgi og nálægt því að vera jafn stór og stjórnin

Það er inn­an vik­marka að Vinstri græn falli af þingi, en flokk­ur­inn mæl­ist sá minnsti á Al­þingi. Aldrei áð­ur í sögu Gallup mæl­inga hef­ur Sam­fylk­ing­in mælst næst­um tíu pró­sentu­stig­um stærri en Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn, en rúm­ur ára­tug­ur er síð­an að sá flokk­ur rauf 30 pró­senta múr­inn.

Í fyrsta sinn í fjórtán ár mælist fylgi Samfylkingarinnar yfir 30 prósent í könnun Gallup, sem RÚV birti í gær. Raunar hefur flokkur ekki mælst með svo mikið fylgi síðan að Píratar rufu 30 prósenta múrinn um nokkurra mánaða skeið fyrri hluta árs 2016, fyrir sjö árum síðan. Sjálfstæðisflokkurinn, sem sögulega hefur verið stærsta aflið í íslenskum stjórnmálum, hefur ekki mælst með yfir 30 prósent fylgi í könnunum Gallup í meira en áratug, eða síðan í janúar 2013. 

Fylgi Samfylkingarinnar, sem er mælist nú 30,1 prósent, er nálægt því að vera jafn mikið og fylgi allra stjórnarflokkanna þriggja: Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, samanlagt. Alls segjast 34,2 prósent aðspurðra í könnuninni að þeir myndu kjósa einhvern stjórnarflokkanna. 

Samfylkingin hefur þrefaldað fylgi sitt frá síðustu kosningum, þegar hún fékk 9,9 prósent atkvæða og rúmlega tvöfaldað það frá því að Kristrún Frostadóttir lýsti því yfir að hún sæktist eftir formennsku í flokknum fyrir rúmu ári. Jafnaðarmannaflokkurinn hefur nú mælst stærsti flokkur landsins allt þetta ár, í níu könnunum í röð, sem hefur aldrei gerst áður. Forskot Samfylkingarinnar á næst stærsta flokkinn, Sjálfstæðisflokkinn, hefur heldur aldrei verið meira, en það mælist nú næstum tíu prósentustig. 

Ef nýjasta könnun Gallup yrði niðurstaða kosninga gæti Samfylkingin vænst að fá allt að 22 þingmann. Það myndi þýða að flokkurinn gæti, ásamt Pírötum sennilega myndað þriggja flokka ríkisstjórn með annað hvort Viðreisn eða Framsóknarflokknum væri vilji til þess.

Stjórnin kolfallin eins og staðan er í dag

September var stór mánuður fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Fjárlagafrumvarp hennar, sem sýnir leið hennar fram á við, var lagt fram. Forystumenn stjórnarinnar reyndu, af veikum mætti, að leiða erjur innan stjórnar og ekki síður innan stjórnarflokka, í jörð. Þétta ráðirnar og koma þeim skilaboðum á framfæri að stjórnin ætlaði sér að klára kjörtímabilið, sem er nú hálfnað. 

Nýjasta könnun Gallup bendir ekki til mikilla undirtekta hjá landsmönnum. Sjálfstæðisflokkurinn fær sína verstu niðurstöðu í könnun fyrirtækisins síðan í fyrravor. Um fimmtungur, 20,4 prósent, segjast ætla að kjósa flokkinn. Það yrði versta niðurstaða hans í sögunni. Framsóknarflokkurinn mælist minni en klofningsflokkur fyrrverandi formanns hans með 8,1 prósent fylgi, sem er 9,2 prósentustigum minna en í síðustu kosningum. Rúmlega helmingur af fylginu er farið. 

Verst er staðan þó hjá Vinstri grænum, flokki forsætisráðherrans. Hann mælist minnsti flokkurinn á þingi, hefur tapað rúmlega helmingi fylgis síns, jafnar sína verstu mælingu í könnun hjá Gallup frá upphafi og er innan vikmarka frá því að falla af þingi með 5,7 prósent mælt fylgi.

Stjórnin, sem hefur nú 38 þingmenn, gæti átt von á því að ef kosningar færu eins og kannanir benda til þá fengi hún samanlagt 22 þingmenn ef Vinstri græn næðu inn yfir höfuð. Það eru jafnmargir þingmenn og Samfylkingin gæti vænst að fá. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna hefur farið úr því að vera 54,3 prósent í kosningunum í september 2021 í að vera 34,2 prósent. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist á svipuðum stað, um 35 prósent.

Þetta bendir allt til þess að ríkisstjórnin væri kolfallin ef kosið yrði í dag.

Miðflokkurinn stærri en Framsókn

Píratar eru sá flokkur á miðjunni sem líður mest fyrir uppgang Samfylkingarinnar. Hann mældist reglulega með 14 til 16 prósent fylgi í fyrra en hefur verið að mælast með á milli níu og tíu prósent síðustu mánuði. Fylgið nú mælist 9,6 prósent. Það er þó enn yfir kjörfylgi Pírata.

Viðreisn finnur líka fyrir þessum sviptingum og mælist með 7,2 prósent, sem er undir því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Þrátt fyrir að kannanir síðustu tæpu tvö ár sýni aukinn stuðning við eitt helsta stefnumál Viðreisnar, inngöngu í Evrópusambandið, þá skilar það sér ekki í fylgi við flokkinn. 

Miðflokkurinn er sá stjórnarandstöðuflokkur utan Samfylkingarinnar sem myndi bæta mestu við sig milli kosninga ef kosið yrði í dag. Flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist nú með 8,6 prósent fylgi en fékk 5,4 prósent í kosningunum í september 2021. Ljóst má vera að þingmenn Miðflokksins eru fyrst og síðast að reyna að sækja aukið fylgi úr röðum Sjálfstæðismanna þessi misserin, og reyna að höfða til þjóðernisíhaldsfylgis þar innanborðs með því að bera meðal annars á borð harðari stefnu gegn innflytjendum. Flokkur fólksins, sem fiskar stundum á svipuðum miðum en skilgreinir fyrst og síðast sem málsvara fátæks fólks í samfélaginu, er ekki að ná neinu flugi og mælist með 5,7 prósent fylgi. 

Það er meira en Sósíalistaflokkur Íslands sem fengi einungis 3,9 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, miðað við niðurstöðu Gallup. Það myndi ekki duga inn á þing og þau atkvæði því falla niður dauð.

Könnunin var gerð dagana 1. september til 1. október. Heildarúrtak var 11.005 manns, en þátttökuhlutfall 48,5 prósent. Vikmörk á fylgi flokka eru 0,6–1,4 prósent.

Kjósa
30
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Jón Ragnarsson skrifaði
    Hvert var erindi VG liða í ríkisstjorn ?
    Eina sem þeir hafa gert er að hækka eigin laun umfram allt eðlilegt . og svo ákváðu þau að hlægja að kjósendum ! Þetta muna allir !
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár