Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipti í dag út öllum þremur stjórnarmönnum í Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og hefur séð um að selja þá hluti sem seldir hafa verið. Skipunartími fráfarandi stjórnarmanna: formannsins Lárusar Blöndal, Vilhjálms Bjarnasonar og Margrétar Kristmannsdóttur, rann út um miðjan síðasta mánuð. Í þeirra stað hafa verið skipuð Tryggvi Pálsson, Þóra Hallgrímsdóttir og Þórir Haraldsson. Tryggvi er formaður nýrrar stjórnar, en hann var stjórnandi hjá Seðlabanka Íslands á árum áður og um tíma formaður bankaráðs Landsbankans.
Hann ákvað að gefa ekki lengur kost á sér til setu í bankaráðinu á árinu 2016 vegna Borgunarmálsins svokallaða. Þá ákvörðun tók Tryggvi eftir að Jón Gunnar Jónsson, þá og nú forstjóri Bankasýslu ríkisins, krafðist þess að hann segði af sér ásamt varaformanni bankaráðsins og þáverandi bankastjóra Landsbankans. Samhliða því að Tryggvi, og fleiri meðlimir bankaráðsins, ákváðu að víkja sendu þau frá sér yfirlýsingu þar sem þau sögðu Bankasýsluna hafa gengið „skrefi of langt“ með kröfum sínum.
Forstjóri Bankasýslunnar er ráðinn, og eftir atvikum rekinn, af stjórn stofnunarinnar. Afdrif Jóns Gunnars í starfi heyra því í dag beint undir Tryggva, sem taldi hann hafa gengið of langt fyrir rúmum sjö árum, og þá stjórn sem hann stýrir.
Margháttuð gagnrýni
Gustað hefur um Bankasýslu ríkisins undanfarin misseri. Í nóvember síðastliðnum var birt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem komst að þeirri niðurstöðu að fjölmargir annmarkar hefðu verið á lokuðu söluferli Íslandsbanka á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í bankanum, sem fram fór í mars í fyrra, og var á ábyrgð Bankasýslu ríkisins. Mikil gagnrýni var sett fram á framgöngu Bankasýslunnar og starfsmanna hennar í því.
Niðurstaðan var sú að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlut ríkisins sem var seldur auk þess sem Bankasýslan hafði ekki haft réttar upplýsingar um eftirspurn þegar ákvörðun um verð og umfang sölu var tekin. Í skýrslunni segir að „upplýsingar til ráðherra í rökstudda matinu voru ónákvæmar bæði hvað varðar fjölda þeirra fjárfesta sem skráðu sig fyrir hlutum og heildarfjárhæð tilboða. Ákvörðun ráðherra byggði því á ónákvæmum upplýsingum.“
Í byrjun sumar var svo birt sátt sem Íslandsbanki, einn þeirra söluráðgjafa sem Bankasýsla réð til að selja hlutinn, gerði við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vegna alvarlegra, kerfislægra og margþættra lögbrota sem framin voru í tengslum við útboðið. Sú niðurstaða hefur kostaði Birnu Einarsdóttur, sem hafði verið bankastjóri Íslandsbanka frá árinu 2008, og tvo aðra stjórnendur starfið auk þess sem Íslandsbanki samþykkti að borga næstum 1,2 milljarða króna sekt vegna lögbrotanna. Þá var þorra stjórnarmanna Íslandsbanka skipt út á hluthafafundi sem fór fram seint í júlí.
Auk þessa stendur yfir athugun umboðsmanns Alþingis á hæfi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við söluna í ljósi þess að félag föður hans var á meðal kaupenda á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Forstjóri Bankasýslunnar og fráfarandi stjórnarformaður hennar raunar líka hafa ekki gefið mikið fyrir þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á störf þeirra. Jón Gunnar sagði á þingnefndarfundi í lok júní að salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars í fyrra hafi ekki bara verið eitt af farsælustu útboðum Íslandssögunnar heldur „heldur væntanlega eitt af farsælustu hlutafjárútboðum sem átti sér stað í Evrópu á síðustu mánuðum.“
Frumvarp til að leggja stofnunina niður kemur í janúar
Allt frá því að það kom í ljós að víða var pottur brotinn í söluferlinu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í fyrravor hafa breytingar á hlutverki Bankasýslu ríkisins legið í loftinu.
Í yfirlýsingu sem birt var á vef Stjórnarráðs Íslands 19. apríl í fyrra sagði að ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður og innleitt yrði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Þar verður lögð áhersla á ríkari aðkomu Alþingis og að styrkari stoðum verði skotið undir að tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings. Frumvarp þessa efnis verður lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er.“
Heimildin greindi frá því í byrjun júlí að stefnt væri að því að leggja fram frumvarp um stofnun Félagasýslu ríkisins á komandi þingvetri, samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn miðilsins. Í því ferli verði „kynnt nýtt fyrirkomulag varðandi eignarhald og ráðstöfun eignarhluta allra félaga í eigu ríkisins.“ Ein þeirra stofnana sem til stendur að leggja inn í Félagasýsluna er Bankasýsla ríkisins.
Í tilkynningu sem birt var á vef Stjórnarráðsins í dag segir hins vegar að Bjarni Benediktsson muni leggja slíkt frumvarp fram „í janúar 2024 og að það feli í sér að lög um Bankasýslu ríkisins falli brott, og starfsemin verði þannig lögð niður í núverandi mynd.“
Athugasemdir