Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Enduðu hlæjandi utan vegar

Ferða­menn á Aust­ur­landi, sem festu bíl sinn í sandi í Lóns­firði eft­ir að hafa ek­ið út af veg­in­um, virt­ust hafa gam­an af eig­in óför­um. Aldrei hafa fleiri bíla­leigu­bíl­ar ver­ið skráð­ir á Ís­landi en eig­andi bíla­leig­unn­ar sem leigði út bíl­inn seg­ir tjón­um fara fækk­andi.

Ferðamenn komust í hann krappan í Lónsfirði í Lónsvík í sumar þegar bíll þeirra festist í sandi. Ökumaður bílsins ók út af veginum sem fór ekki betur en svo að bíllinn sat fastur. Ekki liggur fyrir hvað ferðalöngunum gekk til en þeir ráku upp hlátur þegar ljóst var að bíllinn var fastur. 

Ferðamennirnir voru á nýjum bílaleigubíl sem er í eigu Blue Car Rental ehf. Magnús Sverrir Þorsteinsson, stofnandi og eigandi Blue Car Rental, hafði ekki heyrt af vandræðum þessara tilteknu ferðamanna þegar Heimildin hafði samband en segir tjónum almennt fara fækkandi. 

„Við erum með færri tjón heldur en í fyrra en við höfum lent í fleiri stærri tjónum, verri tjónum,“ segir Magnús. Viðskiptin hafa þó verið minni samanborið við síðasta sumar. „Sumarið er ekki búið að vera eins gott og í fyrra en nokkuð fínt. Það er greinilegt að rúturnar eru orðnar sterkari en í fyrra, það hefur aðeins breyst eftir Covid. En þetta er bara fínasta sumar og heilt yfir hefur gengið vel,“ segir Magnús. 

Aldrei fleiri bílaleigubílar skráðir en nú 

Ferðamönnum fer fjölgandi en alls fóru 275 þúsund erlendir ferðamenn um Keflavíkurflugvöll í júlí samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu. Tölur fyrir ágúst liggja ekki fyrir. Erlendir ferðamenn hafa aðeins einu sinni verið fleiri í júlímánuði, á metferðamannaárinu 2018 þegar þeir voru tæplega 279 þúsund. 

30.540
skráðir bílaleigubílar í umferð í júlí

Rétt eins og ferðamönnum hefur skráðum bílaleigubílum fjölgað jafnt og þétt og voru 30.540 í ágúst, samanborið við 24.484 á sama tíma í fyrra. Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á í ársbyrjun 2020 voru rúmlega 20 þúsund bílaleigubílar skráðir hér á landi en þeim fækkaði ört og voru 12.613 í apríl 2021. Síðan þá hefur þeim farið ört fjölgandi og hafa aldrei verið jafn margir og nú. 

Ferðamennirnir í Lónsfirði óku utan vegar, hvort sem þeir gerðu sér grein fyrir því eða ekki. Magnús segir tilkynningar um utanvegaakstur ekki algengar. „En þær koma alltaf inni á milli.“ Hann segir atvikin sem bílaleigur fá fregnir af margar og sumar mun skrýtnari en utanvegaakstur. „Við lendum í ótrúlegustu atvikum, en auðvitað eru einstaklingar inni á milli sem ætla sér að skemma, við fáum alveg svoleiðis kúnna til okkar líka, því miður.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár