Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Íslensku bankarnir hagræddu og fengu skattalækkun en stungu ávinningnum í vasann

Vaxtamun­ur ís­lensku við­skipta­bank­anna hef­ur ekk­ert lækk­að þrátt fyr­ir að þeir hafi hagrætt mik­ið í rekstri, með­al ann­ars með upp­sögn­um og lok­un úti­búa, og að lækk­un banka­skatts hafi spar­að þeim tólf millj­arða króna. Vaxtamun­ur­inn er miklu meiri en hjá sam­bæri­leg­um bönk­um á Norð­ur­lönd­un­um. Það kem­ur því ekki á óvart að arð­semi ís­lensku bank­anna sé líka hærri hér. Af und­ir­liggj­andi starf­semi hef­ur hún raun­ar ekki ver­ið hærri frá ár­inu 2008 en hún var í fyrra.

Stóru íslensku bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki hafa aldrei skilað meiri arðsemi af undirliggjandi rekstri sínum, sem snýst að uppistöðu um að lána peninga til íslenskra heimila eða fyrirtækja og innheimta þóknana- og þjónustugjöld af sama hópi, og þeir gerðu í fyrra. 

Þeir hafa líka aukið hagkvæmni í rekstri sínum verulega á undanförnum árum. Það gerðu þeir meðal annars með því að fækka starfsfólki og loka útibúum, en bjóða viðskiptavinum þess í stað upp á stafrænar lausnir til að stunda sín bankaviðskipti. 

Til viðbótar var tekin ákvörðun um það á árinu 2021, sem hluti af mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, að lækka bankaskatt úr 0,376 prósent af heildarskuldum banka umfram 50 milljarða króna í 0,145 prósent. Þessi lækkun átti að auðvelda bönkum að lækka vexti á útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands og auka útlán þeirra. 

Skattalækkunin, sem átti upphaflega að eiga sér stað í skrefum fram til 2024, minnkaði skattgreiðslur bankanna þriggja um samtals tólf milljarða króna. Ef bankaskatturinn hefði haldist óbreyttur væri lækkunin enn meiri. Bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkuninni og sagt að með henni myndi vaxtamunur – munurinn á því sem þeir greiða í vexti af peningum sem þeir fá lánað og þeim vöxtum sem þeir innheimta fyrir að lána peninga út – dragast saman. Lán til heimila og fyrirtækja yrðu, samkvæmt yfirlýsingum, ódýrari. 

Af því varð hins vegar ekki. Þess í stað stungu Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki ábatanum af aukinni rekstrarhagkvæmni, meðal annars vegna fækkunar starfsfólks og útibúa, og ávinningnum af skattalækkuninni í vasann. Þeir notuðu hann til að auka arðsemi sína, og hluthafa sinna. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um greiningu á gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem birt var í dag.

Formaður hópsins var Daníel Svavarsson, skipaður án tilnefningar. Aðrir meðlimir hópsins voru Gylfi Zoega, tilnefndur af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Tinna Finnbogadóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra, Auður Alfa Ólafsdóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Breki Karlsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum, Kristín Eir Helgadóttir, tilnefnd af Hagsmunasamtökum heimilanna og Yngvi Örn Kristinsson, tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja. Einar B. Árnason, sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, var einnig vinnuhópnum til aðstoðar. 

Stóran hluta tímabilsins sem var skoðað í greiningunni voru tveir bankanna í eigu íslenska ríkisins. Það á enn allt hlutafé í Landsbankanum og 42,5 prósent í Íslandsbanka. Arion banki er hins vegar að öllu leyti í einkaeigu. Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka, Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans, og Jón Guðni Ómarsson tók við sem bankastjóri Íslandsbanka af Birnu Einarsdóttur í sumar en hún hafði stýrt bankanum frá því að hann var endurreistur haustið 2008.

Hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum lækkað mikið

Starfshópurinn var skipaður fyrir tæpu ári síðan. Honum var ætlað það verkefni að greina tekjumyndun viðskiptabankanna þriggja, þar á meðal þóknanir, þjónustu- og vaxtatekjur og vaxtamun, og bera hana saman við sambærilega banka á hinum Norðurlöndunum. 

Niðurstöður greiningarinnar staðfesta það sem marga hefur lengi grunað: að bankaþjónusta á Íslandi sé á mörgum sviðum mun dýrari fyrir viðskiptavininn en hún er í nágrannalöndunum. 

Samkvæmt greiningunni fór rekstrarkostnaður sem hlutfall af tekjum úr 59 prósent árið 2018 í 47 prósent í fyrra. Þetta hlutfall er nú með því lægsta sem þekkist meðal norrænna banka af svipaðri stærðargráðu og það er hjá miklu stærri norrænu bönkunum. Sömu sögu má segja um kostnað sem hlutfall af heildareignum, það hefur farið úr 2,2 í 1,6 prósent á fjórum árum. 

Í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að aukin hagkvæmni og lækkun bankaskatts hafi ekki skilað sér í minni vaxtamun. Hann var að meðaltali 2,7 prósent í fyrra, sem er nánast sami vaxtamunur og var árið 2018, þegar hann var 2,8 prósent. Þessi vaxtamunur er hár í norrænum samanburði. Í skýrslunni segir að hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð og þeir íslensku sé hann 1,6 prósent og hjá stórum norrænum bönkum sé hann enn minni, eða 0,9 prósent. 

Vaxtamunur íslensku bankanna hefur haldið áfram að aukast á þessu ári. Á fyrstu sex mánuðum ársins var hann 2,9 prósent hjá Landsbankanum en 3,2 prósent hjá bæði Íslandsbanka og Arion banka. 

Mikill hagnaður á síðustu árum

Á sama tíma og vaxtamunurinn hefur haldið svipaður, og miklu hærri en hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndunum, hefur afkoma Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka batnað til muna. Heimildin greindi frá því í sumar að bankarnir þrír hefðu hagnast um samtals 188 milljarða króna frá byrjun árs 2021 og fram á mitt þetta ár, eða á tveimur og hálfu ári. 

Eigið fé íslensku bankanna er hátt í öllum alþjóðlegum samanburði – um mitt þetta ár héldu samanlagt á 687 milljörðum króna í eigin fé – og stjórnendur þeirra hafa kvartað yfir því að það sé of hátt. Grynnka þurfi á því með arðgreiðslum og uppkaupum á hlutabréfum – sem skila fjármunum út úr bönkum til hluthafa – til að bæta getu þeirra til að sýna eftirsóknarverða arðsemi á eigin fé, en það er sá mælikvarði sem stjórnendurnir nota til að mæla árangur sinn. 

Í þeim tölum sem teknar eru saman í skýrslunni er ekki að sjá að miklar eiginfjárkröfur, sem gerðar eru til að auka getu banka til að takast á við áföll og virðisrýrnun lána, hamli getu þeirra til að skila viðunandi arðsemi. Þvert á móti. 

Arðsemi íslensku bankanna var 6,1 prósent á árinu 2018 en meðalarðsemi þeirra í fyrra var 10,7 prósent. Þetta er allt ívið meira en hjá bönkum af svipaðri stærðargráðu á hinum Norðurlöndunum, þar sem hún var 9,6 prósent. 

Arðsemin var líka meiri þegar borin er saman arðsemi heildareigna, sem var 1,5 prósent hjá íslensku bönkunum en að meðaltali eitt prósent slétt hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð. 

Mesta arðsemi af undirliggjandi rekstri síðan 2008

Þá vekur athygli að arðsemi af undirliggjandi rekstri – vaxta- og þóknanatekjur – hefur aldrei verið meiri en í fyrra frá því að íslensku bankarnir þrír voru endurreistir með handafli hins opinbera á nýjum kennitölum eftir bankahrunið. Í fyrra var hún 11,6 prósent. 

Stærsta tekjulind bankanna eru hreinar vaxtatekjur. Í fyrra voru þær um 130 milljarðar króna, eða um 24 prósent hærri en árið áður. Þessi vöxtur hefur haldið áfram á þessu ári. Á fyrri hluta ársins 2023 námu þær um 75 milljörðum króna, sem var fjórðungi meira en slíkar tekjur skiluðu á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra. Landsbankinn sagði í tilkynningu að vaxtatekjuvöxturinn hjá sér, sem var tæplega 29 prósent milli ára, aðallega hafa verið „vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs.“ 

Í skýrslunni segir að þóknana- og þjónustutekjur bankanna á árinu 2022 skiptist nokkuð jafnt niður á þrjú starfssvið þeirra: 31 prósent kom frá einstaklingssviði sem þjónar heimilunum, um 35 prósent frá fyrirtækjasviðum bankanna og 27 prósent frá eignastýringu og miðlun. Í heild jukust þóknana- og þjónustutekjur bankanna þriggja um tíu prósent milli 2021 og 2022 og voru tæplega 41 milljarður króna. Á fyrri hluta yfirstandandi árs voru þær samtals 21,5 milljarðar króna sem var 7,5 prósent meira en þær skiluðu í kassann á fyrri hluta árs 2022.

Bað banka að stíga varlega til jarðar í útgreiðslum

Þessi mikla arðsemi hefur leitt af sér miklar útgreiðslur til hluthafa á síðustu árum. Svo miklar að fyrr á þessu ári bað Seðlabanki Íslands bankana þrjá um að stíga varlega til jarðar þegar kemur að útgreiðslu á eigin fé á næstu misserum. 

Arion banki hefur verið duglegastur bankanna þriggja að skila umfram eigin fé til hluthafa sinna. Hann greiddi út arð og keypti eigin bréf af hluthöfum fyrir samtals 31,5 milljarð króna á árinu 2021 og 32,3 milljarða króna í fyrra. Í ár hefur Arion banki greitt hluthöfum sínum 12,5 milljarða króna í arð og til stendur að kaupa áfram eigin bréf þeirra. 

Íslenska ríkið hefur selt hluti í Íslandsbanka til einkaaðila í tveimur skrefum frá sumrinu 2021. Bankinn greiddi út 11,9 milljarða króna í arð vegna ársins 2021 og 12,3 milljarða króna vegna ársins 2022. Auk þess fékk stjórn Íslandsbanka heimild á síðasta aðalfundi til að kaupa allt að tíu prósent af hlutafé bankans í þeim tilgangi að „setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum.“

Lands­­bank­inn, sem er í eigu íslenska ríkisins, greiddi samtals 20,6 milljarða króna í arð á árinu 2022 og 8,5 milljarða króna í ár. Arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013 til 2023 til eiganda síns voru samtals 175,2 milljarðar króna.

Kjósa
24
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár