Á sumrin njóta hjólreiðar töluverðra vinsælda meðal Íslendinga enda er íþróttin aðgengileg fólki á öllum aldri og hana er hægt að iðka víðs vegar um landið. María Ögn Guðmundsdóttir byrjaði að hjóla árið 2008 og starfar í dag sem hjólaþjálfari hjá Icebike. „Ég var ófrísk 2007 og fékk hugdettu að það væri sniðugt að kaupa sér hjól í verðlaun fyrir að hafa verið ófrísk. Þannig að ég keypti mér fjallahjól og fór að hjóla.“
Þegar María byrjaði að hjóla tók hún eftir því að fáar konur voru í hjólreiðasamfélaginu. „Þegar ég kem inn í hjólreiðar þá eru ekkert margar stelpur. Þá hugsaði ég með mér að ég þyrfti að taka þetta í mínar hendur. Stelpur eflast svo þegar þær eru í kringum aðrar stelpur, þær verða svo kröftugar. Þannig að ég fór að vera með námskeið og samhjól, bara fyrir stelpur.“
Efla konur til hjólreiða
María hefur staðið fyrir alls konar viðburðum fyrir konur í rúman áratug. Samhjól virkar þannig að hópur af konum hittist til að hjóla og spjalla saman. Síðan er borðað. „Á vorin vorum við á malbiki þar sem öll hjól gátu mætt, svo var súpa og kaka eftir á. Þá var hægt að velja lengri og styttri leið. Á haustin voru þetta aðallega þær sem eiga fjallahjól og þá enduðum við í burger og bjór. Það er góð stemning að taka saumaklúbbinn á hjólinu og fara kannski á kaffihús eða eitthvað svoleiðis. Í þokkabót er útiveran frábær.“ Síðastliðinn miðvikudag stóð María, ásamt The W Collective, fyrir alþjóðlegu stelpusamhjóli hér á Íslandi tengt erlendri mótaröð. „Það snerist um að efla konur til hjólreiða og sýna þeim hvernig maður getur hjólað til að upplifa ævintýri með sínum eigin krafti.“
Það er í miklu uppáhaldi hjá Maríu að hjóla efst á Heiðmerkurvegi í átt að Hafnarfirði. „Þá er ég með borgina og hraunið á hægri hönd, náttúruna fyrir framan mig og á vinstri hönd er Keilir og fjöllin. Ég fæ ekki leiða á því.“ Aðspurð hvers vegna sé gaman að hjóla segir María: „Fyrst og fremst er þetta útiveran. Þú kemst yfir stór svæði og ég elska líka samfélagið í hjólreiðum. Þetta er útiveran, frelsið og samfélagið.“
Fyrir einstaklinga sem eru að taka sín fyrstu skref í hjólreiðum mælir María með því að fólk kynni sér góðar hjólaleiðir með því að skoða appið Strava. „Fyrsta skrefið væri að kynna sér þær leiðir sem hjólreiðafólk er að nota í borginni.“ Þannig er hægt að læra inn á hentugustu svæðin fyrir hjólreiðar þar sem minnst hætta er á bílaumferð.
Átta skemmtilegar leiðir
Heimildin tók saman hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Ekki eru sérstakir hjólastígar á öllum leiðunum. Einnig er hverjum og einum frjálst að breyta þeim að vild.
Fyrir þau sem elska brekkur
Í Elliðaárdalnum í Árbæ er hægt að hjóla 10 kílómetra hring umhverfis ána. Kjörið er að byrja á Rafstöðvarvegi, hjóla yfir brúna sem blasir við af bílastæðinu hjá Hinu húsinu og síðan upp í átt að stíflunni. Hjólari heldur síðan áfram upp í móti þangað til komið er að brúnni sem skilur að Árbæ og Kópavogsbæ. Á leiðinni er merktur hjólastígur. Leiðin er tilvalin fyrir þau sem vilja hjóla upp brattar brekkur í náttúrufegurð en þó innan borgarinnar. Einnig er hægt að byrja hringinn hjá Árbæjarlaug og enda þar í sundi eða á fótboltaleik hjá íþróttafélaginu Fylki.
Mátulegi hringurinn
Fyrir þau sem vilja hjóla 5 kílómetra leið meðfram sjónum er tilvalið að hjóla um Gróttu á Seltjarnarnesi. Hægt er að hefja ferðina hjá sundlauginni á Seltjarnarnesi. Þaðan er hjólað meðfram ströndinni og í átt að Gróttuvita. Frá Gróttuvita er síðan hjólað aftur í átt að sundlauginni nema hinum megin við nesið. Fyrir þá sem vilja lengja ferðina er hægt að hjóla Ægisíðuna líka eða út á Granda og að listaverkinu Þúfu. Einnig geta hjólagarpar endað túrinn í sundi eða á íþróttaviðburði Gróttu, hafi þeir áhuga á því. Leiðin er einstaklega falleg við sólsetur. Þá er líka hægt að taka nestispásu og tylla sér á ströndina ef logn er úti.
Sjávarleiðin
Hjólreiðatúr meðfram sjónum getur verið afar skemmtilegur, sérstaklega þegar stillt er úti. Fínt er að byrja í Nauthólsvík og hjóla meðfram sjónum í átt að Kópavogi. Síðan er hjólað eftir göngustíg utan Kársness og alla leið að Sjálandi í Garðabæ. Þar er hægt að stoppa og fá sér hádegis- eða kvöldmat. Svo er að sjálfsögðu hægt að hjóla lengra meðfram strandlengjunni eða snúa við og enda í Nauthólsvík. Þá er leiðin tæpir 17 kílómetrar. Á leiðinni má sjá fallega náttúru og byggingar, meðal annars Bessastaði.
Listræni hjólarinn
Á höfuðborgarsvæðinu eru fjölmörg listaverk. Listunnendur gætu haft gaman af því að hjóla að ýmsum listaverkum Reykjavíkur. Hægt er að skoða listaverk á byggingum, eins og á Sjávarútvegshúsinu. Aðrir staðir þar sem sjá má listaverk eru Hljómskálagarðurinn, Skerjafjörður, Grandi og Nauthólsvík svo eitthvað sé nefnt. Hjólagarpar geta kynnt sér verkin með því að staldra aðeins við og lesa skilti með upplýsingum um listaverk. Hver og einn getur sniðið hjólreiðatúrinn að sínu áhugasviði. Það er einnig hægt að hjóla á milli íþróttaleikvanga, sundhalla, hverfa eða tjarna svo eitthvað sé nefnt.
Heimsókn til forseta
Leiðin að Bessastöðum og um Bessastaðanes hentar þeim sem vilja komast út úr hraðanum sem oft einkennir borgina. Mikið fuglalíf er á Álftanesinu og því kjörið að hafa fuglabók í bakpokanum. Staðsetningin veitir einnig nýtt sjónarhorn á byggðina á höfuðborgarsvæðinu. Leiðin er frekar stutt. Ef byrjað er hjá hringtorginu við Bessastaði, hjólað út að nesi, til vesturs að byggðinni og þaðan að hringtorginu á ný er leiðin um tveir kílómetrar.
Svangi hjólarinn
Á höfuðborgarsvæðinu eru hundruð veitingastaða og kaffihús. Því getur verið skemmtilegt að velja sér stað og hjóla þangað. Þessi hjólaferð er tilvalin ef bjóða á vinum með. Hér væri til dæmis hægt að hjóla í Laugardalinn, setjast inn á kaffi Flóru og ganga síðan um Grasagarðinn áður en haldið er heim á leið. Svangir hjólarar sem elska brekkur geta líka gætt sér á mat á veitingastað á Rafstöðvarvegi. Að sama skapi er veitingastaður á Gróttu fyrir sólseturselskendur.
Stóri hringur
Lagt er af stað frá Víkingsheimilinu í Fossvogi. Þaðan er hjólað upp meðfram Elliðaánni. Við brúna undan skilum Kópavogs og Reykjavíkur er haldið til vinstri og þaðan framhjá Rauðavatni, Golfklúbbi Reykjavíkur, niður að Úlfarsfelli, inn í Mosfellsbæ og þaðan með strönd Grafarvogs til baka. Leiðin er ætluð lengra komnum enda tæpir 40 kílómetrar með þónokkrum brekkum. Stóri hringurinn er eins konar bland í poka þar sem hjólari fer í gegnum hverfi, náttúru, meðfram sjónum og í gegnum iðnaðarhverfi.
Litli hringur
Þessi leið er styttri útgáfa af stóra hringnum hér að ofan. Þegar hjólari er kominn framhjá Golfklúbbi Reykjavíkur er hjólað niður í Grafarvogsdal og þangað að Víkingsheimilinu á ný. Leiðin hentar vel fyrir hjólatúr eftir vinnu eða þegar hjólari vill taka vel á í styttri tíma.
Athugasemdir