Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Borgin standi í vegi fyrir „stórfjölskylduhúsi“ sem þjóni þörfum samfélagsins

Skipu­lags­full­trú­inn í Reykja­vík­ur­borg fékk ný­lega inn á sitt borð hug­mynd að húsi á óbyggðri lóð í Blesu­gróf, sem var með átta svefn­her­bergj­um. Hvert og eitt her­bergi var með sal­ern­is­að­stöðu, sturtu og eld­hús­krók. Eig­andi lóð­ar­inn­ar og arki­tekt hafna því að hug­mynd­in hafi ver­ið að byggja marg­ar litl­ar út­leigu­ein­ing­ar og telja emb­ætt­is­menn borg­ar­inn­ar standa í vegi fyr­ir arki­tekt­úr sem þjóni þörf­um sam­fé­lags­ins.

Borgin standi í vegi fyrir „stórfjölskylduhúsi“ sem þjóni þörfum samfélagsins
Stórfjölskylduhús Eins og þessi teikning af húsinu sýnir er innra skipulagið ansi óhefðbundið. Hvert átta svefnherbergja hússins hefur sína eigin salernis- og sturtuaðstöðu og eldhúskrók að auki.

Skipulagsfulltrúinn í Reykjavíkurborg hafnaði í byrjun júlímánaðar umsókn félagsins Sýrfells ehf. um byggingu einbýlishúss með bílskúr á lóð við Blesugróf 30. Á meðal þess sem kemur fram í umsögn skipulagsfulltrúa um málið er að erfitt sé að sjá að um einbýlishús sé að ræða.

Ef til vill þarf ekki að undrast það mat, enda gerir teikning af innra skipulagi hússins ráð fyrir því að það sé hólfað niður í átta svefnherbergi, sem hvert um sig hafi salerni með sturtu og eldhúskrók. 

Þá er gert ráð fyrir að hægt sé að fara beint út úr húsinu úr öllum herbergjunum, auk þess sem eldhús og þvottahús yrði að finna í húsinu. Dagbjartur H. Guðmundsson byggingarverkfræðingur er eigandi Sýrfells og hefur átt umrædda lóð frá því að hann keypti hana, og tvær aðrar samliggjandi lóðir, af Reykjavíkurborg árið 2014. Honum hefur gengið erfiðlega að fá leyfi frá borginni til að koma hugmyndum sínum um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framkvæmda.

Einbýlishús og íbúðarhús

Í samtali við Heimildina hafnar hann því að rétt sé að tala um að þetta sé einbýlishús. „Ég sótti bara um að byggja íbúðarhús,“ segir Dagbjartur og bætir því við að þegar sótt sé um leyfi til að byggja hús, í þar til gerðri vefgátt, sé spurt „hverju húsið líkist helst“. Þar hafi hann hakað við einbýlishús.

„En þetta er bara íbúðarhús, það má kalla það íbúðarhús,“ segir Dagbjartur, en í innsendum gögnum frá honum vegna lóðarinnar hefur orðið „stórfjölskylduhús“ einnig verið notað um hið áformaða hús.

Þrjár lóðirDagbjartur keypti lóðirnar þrjár af borginni árið 2014, fyrir þrettán milljónir króna, hverja um sig. Enn gengur honum lítið að koma framkvæmdum af stað.

Blaðamaður nefnir að teikningin líti út eins og þarna séu átta litlar stúdíóíbúðir í sama húsi, með sameiginlegum rýmum að auki. Dagbjartur hafnar því hins vegar alfarið að herbergi hússins gætu talist vera íbúðir. Þær lúti allt öðrum lögmálum. „Ertu kunnugur skipulagslögum?“ spyr hann blaðamann og segist alveg vera til í að fara yfir það hvernig íbúðarhús og einbýlishús séu skilgreind í lögunum.

Við fórum þó ekki nánar út í þá sálma. Dagbjartur leynir því ekki að hann er ósáttur með afgreiðslu skipulagsfulltrúa borgarinnar og nefnir að embættinu virðist hafa þótt skrítið að það væri salerni inni á hverju svefnherbergi.

„Mér finnst það nú bara það sem koma skal. Einu sinni voru kamrar úti og það þótti framúrstefnulegt að setja klósett inn í húsin, ég veit ekki hvað skipulagsfulltrúinn hefði sagt þá,“ segir Dagbjartur, sem hafnar því að hugmyndin með tillögunni hafi verið sú að búa til átta litlar útleigueiningar á einni einbýlishúsalóð.

Allir með sér afdrep

Hann segir að skipulag hússins sé kannski ekki hefðbundið, en að „það mætti hugsa sér að það væri stórfjölskylda í þessu húsi, þar sem hver hefði sér afdrep og góða aðstöðu fyrir sig. Þetta gætu verið hjón og tengdaforeldrar, eða afi og amma skilurðu, og eitthvað svoleiðis. Það er dýrt húsnæðið í dag þannig að það getur verið hagkvæmt fyrir fólk að krunka sig saman en samt hafa svona prívat. Það er pælingin,“ segir Dagbjartur.

Annars segir Dagbjartur að arkitektinn og skipulagsfræðingurinn Gestur Ólafsson, sem teiknaði húsið, gæti gert hugmyndinni betri skil. Heimildin heyrði í Gesti og fékk að heyra meira um pælingarnar. 

„Ég er nú gamall kennari við Háskóla Íslands í skipulagsfræðum og gott skipulag og góð hönnun bregst við þörfum í þjóðfélaginu. Þetta gengur út á að bregðast við þessum þörfum. Alkunna er að það er erfitt fyrir ungt fólk að eignast íbúðir og líka dálítið leiðinlegt fyrir fólk á efri árum að hafa ekki aðra kosti en að fara á elliheimili. Það eru margir sem að okkar mati vildu eiga þann kost að geta dvalið áfram með börnunum sínum,“ segir Gestur og bætir því við að það væri gott, þegar „börnin manns og barnabörnin eru að prófa að búa með einhverjum öðrum, af hinu kyninu, að geta bara prófað það heima hjá sér. En samt svona prívat.“

„Það er svo kostur að geta tekið foreldra sína eða tengdaforeldra inn til sín og lofa þeim að búa svolítið sjálfstætt. Út á það ganga þessar hugmyndir,“ segir Gestur og nefnir einnig breyttar matarvenjur og aukið hreinlæti landsmanna sem rök fyrir því fyrirkomulagi íbúðarhúsnæðis sem birtist í hugmynd hans og Dagbjarts.

„Það eru margir sem eru að verða vegan, eða „vegetarian“, og vilja helst ekki borða þennan venjulega íslenska mat, kjöt og fisk og svoleiðis,“ segir Gestur. Fólk vilji þá frekar elda bara út af fyrir sig og hafi kost á því, í húsi eins og því sem hann hefur teiknað.

„Fólk er líka farið að baða sig miklu oftar en það gerði áður. Ég hef ekki farið í liggjandi bað í marga áratugi, en ég fer alltaf í sturtu á morgnana þegar ég er búinn að hlaupa úti með hundinn. Þetta er hluti af nútímalífstíl. Við vildum prófa þetta og við teljum að skipulags- og byggingaryfirvöld eigi ekki að koma í veg fyrir svona þróun sem er að eiga sér stað, heldur frekar auðvelda hana frekar en hitt,“ bætir Gestur við.

„Við teljum þetta geta komið til móts við þarfirnar í þjóðfélaginu,“ segir Gestur ennfremur og fer svo út í aðra sálma. „Það er lítið gaman fyrir foreldra manns að fara inn á elliheimili þar sem er að verulegu leyti töluð pólska og enginn til að tala við. Fyrir utan það að krakkar geta lært heilmikið af foreldrum sínum og öfum og ömmum, sem kunna oft betri íslensku en kennararnir sem eru að kenna þeim í skólanum. Sérstaklega þegar skólarnir fyllast allir af innflytjendum, hvernig koma menn svona venjulegri menningu áfram?,“ spyr Gestur.

„Alveg hreint,“ segir hann þegar blaðamaður spyr hvort hann væri sjálfur til í að búa í húsi eins og því sem hann teiknaði að Blesugróf 30, með fjölskyldu sinni. Hann segir, rétt eins og Dagbjartur, að hugmyndin hafi aldrei verið að útbúa þarna átta litlar útleigueiningar.

„Neinei,“ svarar Gestur og bætir við að ef menn vilji rangfæra það eitthvað sé það hægt.

„Það var aldrei meiningin með þessu. En það segir enginn að einbýlishús sé bara hús fyrir einn. Okkur fannst sjálfsagt að bjóða upp á svona „flex“-hús sem tekur tillit til þarfanna í þjóðfélaginu. Og mér finnst sem gamall kennari í skipulagsfræði að skipulag sveitarfélaga eigi ekki að standa í vegi fyrir svona þróun,“ segir arkitektinn og skipulagsfræðingurinn.

Komin kergja í samskipti við borgina

Dagbjartur hefur sem áður segir átt þrjár lóðir í Blesugrófinni frá árinu 2014. Í tilkynningu frá borginni frá þeim tíma kom fram að hann hefði fengið að kaupa hverja og eina lóð á 13 milljónir króna.

Hann lýsir því að það hafi verið „svolítið basl“ að reyna að fá samþykki frá borginni fyrir þeim hugmyndum sem hann hefur sett fram. Upphaflega vildi hann fá að byggja þrjár íbúðir á hverri lóð en segir að borgin hafi vísað þeim hugmyndum alfarið frá. 

Afgreiðslan á þessari tilteknu hugmynd, um stórfjölskylduhúsið, finnst honum fremur „líkjast einhverri persónulegri skoðun en faglegri afgreiðslu“. „Þeim finnst húsið kannski ljótt og ekki vel innréttað, en það er ekki skipulagsfulltrúa að ákveða það hvernig hús eiga að vera innréttuð, er það?“ spyr Dagbjartur.

Hann segir að það sé komin kergja í samskipti hans við embættismenn borgarinnar og vill meina að það liti afgreiðslu borgarinnar á beiðnum hans og tillögum.

Hefur þú sest niður með einhverjum frá borginni og fengið þeirra sýn á hvað væri ásættanlegt?

„Já, það byrjaði þannig. En svo varð þetta allt miklu flóknara. Ég náði ágætis lausn fyrir lóðina númer 34 en ég er enn að basla með hinar tvær, því þær eru svo niðurgrafnar. Það er enginn áhugi á að ræða málin. Ég var svo leiðinlegur að ég stefndi borginni og eftir það fæ ég enga samúð.“

Hvernig enduðu þau málaferli?

„Ekki vel fyrir mig, því miður. En það breytir því ekki að ég er enn með þessar tvær lóðir og það þarf að gera eitthvað við þær og ég hefði haldið að ég ætti að fá eðlilega afgreiðslu og málefnalega afgreiðslu, þó ég hafi verið leiðinlegur. En sitt sýnist hverjum auðvitað. En eins og ég segi, það er búið að ganga á ýmsu.“

Kjósa
23
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár