Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Ungri konu vísað úr landi vegna niðurstöðu tanngreiningar: „Ég er engin, ég er ekki til“

Út­lend­inga­stofn­un hef­ur synj­að ungri konu um dval­ar­leyfi og vernd eft­ir fimm ára dvöl á Ís­landi vegna nið­ur­stöðu tann­grein­ing­ar, þrátt fyr­ir að kon­an sýni fram á lög­mæt skil­ríki með réttu fæð­ing­ar­ári. Lög­mað­ur kon­unn­ar seg­ir að um gróft mann­rétt­inda­brot sé að ræða. Út­lend­inga­stofn­un hef­ur sent henni brott­vís­un­ar­bréf án mögu­leika á frest­un réttaráhrifa.

„Ísland er heimilið mitt, hér þekki ég allt og skil tungumálið,“ segir ung kona sem fluttist til landsins 15 ára gömul og hefur búið hér síðustu fimm ár án kennitölu. Hún biður Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að skoða hvers vegna verið er að vísa henni úr landi og telur afstöðu Útlendingastofnunar í máli hennar ekki standast rök. 

Hafði ekkert að fela

Fyrst flúði konan frá heimalandi sínu 10 ára gömul. Hún fór til Svíþjóðar og sótti þar um alþjóðlega vernd sem fylgdarlaust barn. Á meðan málið var í farvegi þar ákvað hún að koma frekar til Íslands því hún taldi sig eiga möguleika á betra lífi hér. „Ég lenti á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2018 og sýndi skilríkin mín. Það gekk vel og svo fór ég til Hafnarfjarðar í viðtal. Eftir það var ég send í tannskoðun þrátt fyrir að ég hefði sýnt vegabréfið og öll gögnin, sem sönnuðu hver ég er.“

Tannskoðun er aðferð sem notuð er til að greina aldur en hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að vera ónákvæm og er bönnuð víðs vegar um heim. Skekkjan á mælingum getur verið allt að fimm ár. Í umsögn Rauða Kross Íslands frá árinu 2019 um tannskoðun segir: „Rauði krossinn hefur um alllangt skeið gert alvarlegar athugasemdir við aldursgreiningar Útlendingastofnunar.“ Neðar í skýrslunni kemur einnig fram að: „Gagnrýni Rauða krossins hefur aðallega snúið að því að oft á tíðum skorti verulega á að Útlendingastofnun framkvæmi heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásögn hans af ævi sinni [...]. Þá telur Rauði krossinn að Útlendingastofnun gefi niðurstöðum röntgenrannsókna á tönnum allt of mikið vægi við ákvörðun aldurs.“

Konan segist glöð hafa farið í tannskoðunina ásamt öðrum unglingum enda hafi hún ekkert að fela. „Ég gerði allt sem þau báðu mig um,“ segir konan, sem fann fyrir óþægindum í höfði eftir skoðunina. Niðurstöður prófsins voru að konan væri eldri en vegabréfið hennar segir til um. Henni var gefið nýtt fæðingarár og það var í kjölfarið skráð í íslenska kerfið. Það þýddi að hún var metin sem sjálfráða einstaklingur en ekki barn, þrátt fyrir að vera með lögmæt skilríki sem sýndu hennar rétta fæðingarár.

„Þetta er ástæðan fyrir því að ég lendi í erfiðleikum hér, vegna þess að þau samþykkja ekki raunverulegt fæðingarár mitt,“ segir hún með tárin í augunum. „Þetta lætur mig líta út fyrir að hafa gert eitthvað af mér og logið.“ Lögmaður konunnar, Davor Purusic, staðfestir frásögn hennar í samtali við Heimildina og bendir á að sænska ríkið hafi nú viðurkennt að upprunalegu skilríki hennar séu rétt. 

Davor Purusic, lögmaður konunnarSegir að um gróft mannréttindabrot sé að ræða í máli hennar.

Send úr landi 16 ára

Foreldrar konunnar búa á Íslandi og á hún þrjú systkini hér, þar af eru móðir hennar og tvö yngri systkini komin með kennitölu. Þar sem fjölskyldan kom ekki öll saman til landsins hefur umsóknum þeirra verið sinnt á einstaklingsgrundvelli. Vegna þessa var ákveðið að senda konuna aftur til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar rúmu ári eftir að hún kom til Íslands. 

„Ég var 16 ára þegar ég var flutt á brott af Íslandi. Við fjölskyldan bjuggum í félagsheimili í Norðurhellu í Hafnarfirði. Ég man að þetta kvöld var snjór úti og kalt.“ Tveir lögreglumenn og ein lögreglukona báru hana út í bíl sem var ekki einkennismerktur. „Þetta var rauður bíll.“ Hún rifjar upp að lögreglufólkið hafi líka verið óeinkennisklætt og minnt hana á ítölsku mafíuna. 

„Ég man eftir þessu lögreglufólki enn þann dag í dag. Þau hafa gert þetta við fleiri stelpur sem ég þekki.“ Konan segir lögreglufólkið hafa farið með sig til Keflavíkur. „Ég grét og spurði þau hvers vegna þau væru að taka mig. Þau sögðu mér að bíða því að þau ætluðu með mig á einhvern stað. Síðan sögðust þau ætla aftur heim að sækja dótið mitt. Ég skildi ekki hvað var að gerast.“

Hrædd, ringluð og ein var konan sett í herbergi sem minnti hana á fangaklefa inni í lögreglustöð Keflavíkur. Þar var henni sagt að skipta um föt og voru allir hennar munir teknir í burtu. „Ég hágrét. Það kom enginn og spurði mig… bað mig að hætta að gráta eða til að segja mér að það yrði allt í lagi. Enginn. Fjölskyldan mín leitaði að mér út um allt en fann mig ekki. Þau vissu ekki hvar ég var.“ 

„Fjölskyldan mín leitaði að mér út um allt en fann mig ekki“

Morguninn eftir var konan send til Svíþjóðar. Íslenska lögreglan fylgdi henni úr flugvélinni en skilaði ekki gögnum sem tengdust málinu. Sænskur lögreglumaður kom henni til aðstoðar og skildi lítið í því að hún hefði verið send úr landi, bæði vegna þess að hún var ekki orðin sjálfráða og eins vegna þess að hún á fjölskyldu á Íslandi. „Hann ætlaði ekki að senda mig til heimalandsins aftur og sagði: Þú ert frjáls í Svíþjóð. Ég get ekki aðstoðað þig neitt frekar, en þú getur farið hvert sem þú vilt fara.“ Sextán ára gömul labbaði hún út af lögreglustöðinni allslaus og nú á götunni. „Ég var á götunni af því að ég átti engan pening, þekkti engan í Svíþjóð og var barn. Hvað héldu þau eiginlega að ég myndi geta gert til að bjarga mér?“

Fékk aftur neitun

Þegar útlendingar koma til landsins er þeim gert að auðkenna sig með skilríkjum og afhenda þau til Útlendingastofnunar til að ríkislögreglustjóri geti skoðað þau. Framkvæmi ríkislögreglustjóri enga frekari greiningu á skilríkjum hefur Útlendingastofnun ekki lagalega heimild til að geyma skilríkin. Lögmaður konunnar segir það þekkt að Útlendingastofnun haldi skilríkjum fólks samt sem áður hjá sér og neiti að skila þeim. Það eina sem faðir ungu konunnar gat gert til að sækja dóttur sína til Svíþjóðar og nálgast skilríki sín var að draga umsókn sína um mannúðarleyfi til baka. Þar með þurrkuðust út allir þeir mánuðir sem hann hafði verið hér á Íslandi og hann neyddist til að byrja aftur á núllpunkti.

ÚtlendingastofnunGeymir skilríki hælisleitenda án leyfis samkvæmt lögmanni konunnar.

Þegar konan kom aftur til Íslands með föður sínum kærði hún mál sitt til héraðsdómstóls, enda taldi hún málið hafa fallið á 12 og 18 mánaða reglunni sem segir að ef viðkomandi hafi verið hér lengur en þann tíma eigi hann rétt á mannúðarleyfi samkvæmt 74 gr. útlendingalaga. „Ég vann málið en Útlendingastofnun áfrýjaði dómnum.“ Mótrök stofnunarinnar voru á þá leið að hún hefði viljandi tafið fyrir ferlinu með því að þykjast vera undir 18 ára þegar hún kom fyrst til Íslands. Í úrskurði héraðsdóms og Landsréttar var ábyrgðin ekki talin vera hennar heldur stjórnvalda, enda bað konan ekki um að vera send í tanngreiningu og gat þar með ekki verið með ásetning um að tefja fyrir umsóknarferlinu. 

Hún vann þetta mál og á líklega rétt á mannúðarleyfi í dag, en til þess að hafa rétt á mannúðarleyfi þurfa útlendingar, samkvæmt lögum, að sýna auðkenni sitt,“ segir Davor lögmaður í samtali við Heimildina. Íslensk stjórnvöld hafa hafnað vegabréfi konunnar ásamt öðrum auðkennum því að fæðingarárið sem þar er tilgreint samrýmist ekki niðurstöðum tanngreiningar. 

„Hún vann þetta mál og á líklega rétt á mannúðarleyfi í dag“

Konunni var sagt að ný umsókn yrði gerð fyrir hana sem hælisleitanda. Hún fékk synjun á sömu forsendum, að geta ekki sýnt fram á auðkenni sitt.

Útlendingastofnun á einnig að hafa fengið vísbendingu frá óskilgreindum tengilið í heimalandi konunnar um að þau gögn sem notuð voru sem grundvöllur fyrir útgáfu vegabréfs væru ekki trúverðug. Samt sem áður hafa yfirvöld í heimalandinu endurnýjað vegabréf hennar þrisvar og Svíar viðurkennt skilríkin. Ekki liggur fyrir hvort að Útlendingastofnun hafi formlega haft samband við yfirvöld í heimalandi konunnar til að sannreyna skilríkin.  

Beið í þrjá tíma 

Konan kærði synjun umsóknarinnar til kærunefndar útlendingamála. Formaður kærunefndar útlendingamála er Þorsteinn Gunnarsson, sem áður var staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar. Þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, skipaði Þorstein í embættið en ákvörðunin var harðlega gagnrýnd af ýmsum félagasamtökum. 

„Sam­kvæmt lögum er hlut­verk kæru­nefndar útlend­inga­mála að vera sjálf­stæð stjórn­sýslu­nefnd sem á að úrskurða um mál sem kærð eru til henn­ar, en eðli máls­ins sam­kvæmt eru það fyrst og fremst úrskurðir frá ÚTL. Helsta hlut­verk Þor­steins í nýju starfi sem for­maður kæru­nefndar er því að rann­saka og úrskurða um mál stofn­unar sem hann hefur sjálfur stýrt um ára­bil, sem sam­ræm­ist varla hlut­verki hennar sem „sjálf­stæð“ stjórn­sýslu­nefnd,“ sagði í yfirlýsingu Samtakanna ‘78, No Borders, Solaris, Röskvu, Félagsins Íslands-Palestína og Félags hernaðarandstæðinga ásamt fleirum í kjölfar ráðningarinnar.

„Ég má ekki vinna, samt er ég búin að fá nokkur atvinnutækifæri. Ég hef sótt um leyfi hjá Útlendingastofnun og þau segja nei.“ 

Konan segist farin að upplifa neitanir og frelsisskerðingu sína sem persónulega ákvörðun Útlendingastofnunar, frekar en ákvörðun sem er byggð á sterkum lagalegum grunni. Hún segir framkomu starfsmanna stofnunnarinnar óboðlegar og lágkúrulegar. Í eitt skipti beið konan í þrjár klukkustundir ásamt föður sínum hjá Útlendingastofnun án þess að fá aðstoð og voru þau síðan rekin út með látum þegar stofnunin lokaði. 

Skilaboð frá ÚtlendingastofnunUnga konan segir þessi skilaboð lýsandi fyrir starfshætti stofnunarinnar.

Svaf í sturtunni

Fjölskylda ungu konunnar býr nú í Reykjavík. Foreldrar hennar þurftu sjálf að verða sér úti um húsnæði í höfuðborginni vegna anna hjá félagsþjónustunni eftir að fólk á flótta frá Úkraínu sótti hingað hæli. Þau fluttu á Bergþórugötu í tveggja herbergja íbúð með vilyrði fyrir leigusamning í eitt ár. Eftir aðeins tvo mánuði hringdi leigusalinn og sagði þeim að yfirgefa íbúðina því að hann vildi nota hana sjálfur. Á stundum sem þessum finnur konan fyrir því að vera ekki með stuðningsnet á Íslandi eða lagaleg réttindi. Félagsráðgjafi benti þeim á að flytja inn á hostel í nokkrar vikur til að brúa bilið milli íbúða. Þá fluttust þau inn á Hostel B47 hjá Austurbæjarskóla og voru fimm saman í einu herbergi með salerni. 

Það reyndist konunni erfitt að vera í herbergi með allri fjölskyldunni enda hafði hún lítið sem ekkert persónulegt rými. „Ég flutti inn á baðherbergið. Tók kodda og teppi með mér.“ Í hvert skipti sem einhver í fjölskyldunni þurfti að pissa á nóttunni stóð konan upp og beið frammi eða þóttist vera sofandi svo hún þyrfti ekki að færa sig. „Ég svaf í sturtunni og klósettið var beint við hliðina á. Þetta var hræðilegt.“ Á þessum tíma átti konan erfitt með að halda athygli í skólanum en hún stundaði nám hjá Námsflokkum Reykjavíkur. 

Aðspurð hvort að hún hefði farið eitthvert annað ef móðir hennar og systkini væru án kennitölu segir konan: „Ég veit ekki hvert við ættum að fara. Ég hef ekki hugmynd. Núna er þetta svona, Ísland er heima og það er enginn að fara neitt.“ 

Gögnin ekki send

Konan sótti um ríkisborgararétt snemma á síðasta ári. Ferlið tók eitt ár en hún fékk á endanum neitun og segist hafa verið vonsvikin. „Ef ég er alveg hreinskilin þá var þetta mín síðasta vonarglæta. Ástæðan fyrir því er að inni á þingi eru grundvallar ákvarðanir teknar er varða lög, mannréttindi og börn. En þetta er bara innantóm gríma. Það er ekkert þarna á bakvið. Útlendingastofnun sendi aldrei gögnin mín til þingsins.“ Hún hafði samband við Útlendingastofnun og fékk það staðfest yfir símann að senda ætti gögnin hennar í mars á þessu ári, eftir að hún hafði fengið synjun.

„Skýrslan mín er ennþá á Dalvegi 18.“ Konan skilur ekki á hvaða forsendum gögn hennar voru ekki send. Hún segist líka hafa sótt um fjölskyldusameiningu eftir að hún kom frá Svíþjóð en fékk aldrei svar við þeirri umsókn. Í síðasta mánuði kom svo skýrt svar frá Útlendingastofnun.

Fimmtán dagar til að fara úr landi

„Útlendingastofnun sendi mér skjal með nýrri ákvörðun þeirra þar sem stendur að ég hafi 15 daga til að fara frá Íslandi. Mér verður brottvísað úr landi og bannað að koma til Íslands í tvö ár.“ Í skjalinu frá Útlendingastofnun er það ár sem tanngreiningin ákvarðaði sett sem óstaðfest fæðingarár. „Ég hef skjalið með mér hvert sem ég fer vegna þess að lögreglan getur komið hvenær sem er og tekið mig.“

Konunni var einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli viðauka 13 í útlendingalögum er lúta að tímabundinni heimild til að veita barnafjölskyldum dvalarleyfi hér. Í ákvörðun Útlendingastofnunar segir meðal annars í niðurstöðukafla: „Þar sem umsækjandi hefur ekki sannað auðkenni sitt þá hefur umsækjandi ekki heldur sýnt fram á að hún sé nánasti aðstandandi útlendings sem fengið hefur dvalarleyfi skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.

Konan segir: „Ég væri hamingjusöm ef ég sæi einhvern í minni stöðu sigra og fá réttlæti. Ég hef séð mikið af fólki tala um mannréttindi en sé ekkert þeirra fylgja þeim eftir.” Hún minnist aftur á stríðið í Úkraínu þar sem fjöldi fólks á flótta fengu dvalarleyfi vegna sérúrræðis. „Þið talið um börnin frá Úkraínu og hve mikið þau hafa gengið í gegnum vegna Rússa. En hvað gerðu þið við mig? Senduð mig í burtu frá fjölskyldu minni þegar ég var 16 ára gömul. Hvernig ætlið þið að svara fyrir það? Ég finn ekki neina ástæðu sem gæti svarað því. Fólk hér talar um mannréttindi þegar það hentar þeim, annars er því alveg sama. Eins og í mínu tilfelli.“

„Útlendingastofnun hefur eytt tímanum mínum og bernskuárum með því að hugsa að ég sé engin og ekkert. Ef ég legg mig fram í skólanum og verð eitthvað þá kannski endurhugsa þau hverjum þau hafa verið að neita. Kannski sjá þau eftir ákvarðanatöku sinni og koma betur fram við einhvern annan í framtíðinni, einhvern eins og mig. Þá er ég sátt.“

„Þið talið um börnin frá Úkraínu og hve mikið þau hafa gengið í gegnum vegna Rússa. En hvað gerðu þið við mig? Senduð mig í burtu frá fjölskyldu minni þegar ég var 16 ára gömul“

Lögmaður konunnar kærði ákvörðunina og undirbýr nú greinargerð sem fer fyrir kærunefnd útlendingamála. Í skjalinu frá Útlendingastofnun kom fram að kæran fresti ekki réttaráhrifum. Hún getur því verið flutt úr landi hvenær sem er.

Fái konan neitun er hægt að fara með málið fyrir dómstóla en því fylgir gríðarlegur kostnaður sem konan getur með engu móti greitt fyrir sjálf þar sem hún fær ekki leyfi til að vinna. Framtíð hennar veltur því á ákvörðun kærunefndar, en miðað við fyrri reynslu er afar ólíklegt að sjónarmið Útlendingastofnunar breytist. „Það er bara svo gróft mannréttindabrot í þessu máli að maður getur ekki tekið við þessu þegjandi,“ segir lögmaður hennar.

Hún grætur. Með þetta vitlausa fæðingarár í kerfinu get ég ekki farið neitt. Ég er ekki þessi manneskja. Jafnvel þó að þau hafi sent þessa ákvörðun til mín þá er þetta ekki ég. Þau geta ekki bara sett nafnið mitt við þessa dagsetningu. Þetta er ekki ég!“  

Aðspurð hvernig henni líði með að hafa fengið bréfið segir konan: „Þegar ég var að labba hingað reyndi ég að falla inn í umhverfið og fela mig. Hvert sem ég fer óttast ég að vera tekin á brott.“ En bætir svo ákveðin við: „Ég veit að ég er ekki að fara neitt, sama hvað þau gera við mig. Síðast var ég barn en núna er ég orðin fullorðin og ég ætla ekki að fara neitt. Ég geri hvað sem er til að vera hjá fjölskyldunni minni.“

Sterkur námsmaður

Hana dreymir um að verða fæðingarlæknir. „Konur ganga í gegnum svo mikið. Til þess að hjálpa þeim skiptir máli að skilja þær og geta veitt stuðning. Auðvitað langar mig líka að bjóða nýfædd börn velkomin í heiminn.“ Konan segir að það myndi veita henni innsýn inn í fegurð og sakleysi barnæskunnar, eitthvað sem hún fékk ekki að upplifa sjálf. 

Magnús IngvasonSegir hana standa sig vel í námi.

Hún stundar nám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla til þess að undirbúa sig fyrir læknisfræðinám. Magnús Ingvason skólameistari segir konuna standa sig vel í náminu og sýna mikinn áhuga. FÁ hefur einnig tekið á móti nemendum frá Úkraínu, Venesúela, Afganistan og Kólumbíu. „Það er gott fyrir alla einstaklinga að vera í skóla og námi. Eins og með hana, þá hefur hún staðið sig ævintýralega vel hérna hjá okkur og það er nógu góður rökstuðningur fyrir að gefa þessum ungmennum séns.“ 

Kennarar konunnar sendu bréf á Útlendingastofnun á síðasta ári þar sem yfirvofandi brottvísun var mótmælt. Þar segir meðal annars: „Það nístir sannarlega að verða vitni að slíkri aðgerð og ljóst er að einstaklingur má sín einskis þegar tölfræði og úreltur lagabókstafur virðist eingöngu ráða för í ákvarðanatökum í máli sem þessu.“

Hjálparstarf kirkjunnar hefur stutt við bakið á konunni í nokkur ár. „Við greiðum fyrst og fremst skólagjöldin og bækur til þess að hún geti verið í framhaldsskóla því hún fær hvergi stuðning í þetta,“ segir Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi í samtali við Heimildina og lýsir konunni sem metnaðarfullri. Núna í sumar er konan sjálfboðaliði hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og nýtir þar tungumálakunnáttu sína til að aðstoða aðrar konur. Aðspurð hvers vegna það skipti máli að styðja við konuna segir Vilborg: „Hún er eyland. Hún er án nokkurs stuðnings í alltof mörg ár. Hún er látin hanga í lausu lofti í svo langan tíma og mér finnst erfitt að horfa upp á það að svona ung stelpa sé látin vera í þessari stöðu.“

„Mér finnst erfitt að horfa upp á það að svona ung stelpa sé látin vera í þessari stöðu“

Áður hafði konan lokið áföngum hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Náms- og starfsráðgjafi skólands, Jódís Káradóttir, lýsir konunni sem skemmtilegum námsmanni, áhugasamri, lausnamiðaðri, drífandi og jákvæðri. „Það var gaman að fá að fylgja henni eftir og sjá framfarirnar.“ 

Jódís KáradóttirUmgekkst konuna hjá Námsflokkum Reykjavíkur.

Skólinn býður ekki upp á áfanga kennda á ensku. Því sat konan íslenska tíma þrátt fyrir að hafa ekki náð fullum tökum á tungumálinu og fékk svo aðstoð á ensku samhliða því. Í bréfi til kærunefndar útlendingamála skrifaði Jódís fyrir hönd Námsflokka Reykjavíkur að það væri mat kennara skólans um konuna „[...] að hún yrði góður samfélagsþegn og við heppin að fá hana inn í samfélagið til frambúðar. Hún á fjölskyldu hér og hefur skotið rótum í samfélaginu.“

Sendi bréf til Katrínar

Eitt af uppáhalds fögum ungu konunnar eru stjórnmál enda hefur hún brennandi áhuga á þeim. 

„Ég hef sent bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra en hún svarar aldrei. Og ég sendi bréf til konunnar sem var dómsmálaráðherra og hún svaraði ekki heldur. Ég hef líka sent bréf til annarra ráðherra en engin svarar. Kannski hafa þau heyrt um mig því að ég sótti um ríkisborgararétt… ég vil bara ná réttlæti og að forsætisráðherrann spyrji Útlendingastofnun hvers vegna þau koma svona fram við mig þegar ég er búin að segja þeim hver ég er allt frá fyrsta degi.

Katrín JakobsdóttirForsætisráðherra hefur ekki svarað bréfum konunnar.

Konan er metnaðarfull og vill gera allt sem hún getur til þess að eiga bjarta framtíð en dregur upp dökka mynd af sínu daglega lífi. „Ég get ekki labbað neins staðar, ekki einu sinni með systkinum mínum. Ég get ekki sagt neinum hver ég er útaf Útlendingastofnun. Ég er engin, ég er ekki til.“

Konan glímir við þónokkra erfiðleika vegna þeirra áfalla sem hún hefur upplifað. „Nokkrum sinnum í mánuði fæ ég mikinn verk í eyrað. Allt í einu finnst mér of mikil læti og líður eins og ég sé í stríðinu… eins og einhver sé að stinga hníf í heilann minn. Allt snýst upp og niður og verður svart. Ég get ekki höndlað það að neinn standi nálægt mér. Þetta leiðir yfir í vinstra augað mitt og varir í nokkrar mínútur eða kemur í bylgjum yfir nokkra daga.“ Hún segist ekki geta bókað tíma hjá lækni eða sérfræðingi án kennitölu. Það hvílir þungt á konunni að þurfa að útskýra fyrir öllum þeim sem hún hittir og veita henni aðstoð að hún sé ekki manneskjan sem þau sjá í kerfinu heldur sé hún í raun yngri.

Hún á erfitt með að koma reynslu sinni í orð án þess að fara í tilfinningalegt uppnám. „Ég get setið hér með þér, brosað til þín og spjallað. En það sem er innra með mér veit ég ein. Það gæti enginn skilið það, því að ég get ekki útskýrt það.“ 

Konan þakkar Hjálparstarfi kirkjunnar, skólunum sem hún hefur gengið í og góðu fólki fyrir stuðning og segist ekki ætla að gefast upp. „Þetta er heimilið mitt og ég ætla ekki að fara neitt. Sama hvað. Hér er fjölskyldan mín, ég geng í skóla og hef verið að leggja allt mitt að mörkum til að verða hluti af samfélaginu.“ 

Kjósa
69
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (10)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • VSE
    Virgil Scheving Einarsson skrifaði
    Þetta er sorglegt mal og liktar af Þvi sem Hægri menn vilja . Trulega er buið að Planta mönnum með Hægri skoðun FASISTUM hja Utlingastofnun. Þeim hefur verið komið a Jötuna viða. Þjoðkirkjan er gegnum sikt, Domsmal, og þar sem NAZISTAR Raða, Jon Raæherra sem for með þessa malaflokka er sökudolgirinn.
    1
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Hryllingssaga sem minnir á vinnubrögð stjórnmálaafls í Þýskalandi sem maður að nafni Hitler stofnaði og stýrði.
    6
  • Elías Ágústsson skrifaði
    Hefði ég verið tanngreindur fjórtán ára hefði ég eflaust verið talinn eldri en átján; var kominn með alla endajaxla og flestar fullorðinstennur með eldgömlum skemmdum.
    6
  • Hlynur Vilhjálmsson skrifaði
    Útlendingahatur Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn.
    6
  • Magnea Einarsdóttir skrifaði
    taka bara tengdadóttursnúninginn hennar jónínu bjartmars á þetta mál og veita þessari stúlku ríkisborgararétt. allt hægt ef viljinn er fyrir hendi
    7
  • Jóhann Einarsson skrifaði
    Hvað er eiginlega að gerast hér á landi?
    Er ekki hægt að hjálpa þeim sem svona er
    Komið fram við. Eða eru þetta helberar lygar??
    Ótrúlegt ef þetta er SATT
    6
  • Ingibjörg Ottesen skrifaði
    Útlendingahatrið er augljóst.
    6
  • MGÁ
    Marteinn Gísli Árnason skrifaði
    Það er verið flækja einföld mal, sem barnaskola börn gætu leyst.

    Spilligin i þessu landi okkar er komin ut fyrir öll mörk og var hun slæm fyrir

    Thordis eg sammala þer i flestu en spillinguna verður að uppræta.

    Thordis HVAÐ HAFA MARGIR LIKA FENGIÐ FYRIRGREIÐLU SINNA MALA VEGNA TENGSLA
    VIÐ POLITIKUSA OTAL.
    4
  • Jón Ragnarsson skrifaði
    ,,„Ég hef sent bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra en hún svarar aldrei."

    VG liðar tala mikið um allt mögulegt en eru svo vonlausir í öllu , en hvers vegna ?
    8
  • Thordis Arnadottir skrifaði
    Þvílíkur viðbjóður.
    Fasisminn og harkan er lærð í útlöndum á kostnað skattgreiðandans sem finnst allt í lagi að leyfa fólki að koma til islands og búa sér nýtt líf.
    Efnameiri í Garðabæ og atvinnurekendur eru að flytja inn ódýrt vinnuafl í hópum og fá fyrirgreiðslu í kerfinu. Frá sömu skrifstofu og þessi kona þarf að díla við.
    Island er algjört skran land. Allt er drasl á Íslandi nema vatnið í krananum og útsýnið úr glugganum. Mannréttindi fyrir neðan allar hellur og alltaf sparkað í minnimáttar en snobbað fyrir hyski sem stelur fyrir framan þig.
    22
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu