Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Úrvalsvísitalan ekki lækkað meira í einum mánuði í 14 ár – Markaðsvirðið dróst saman um næstum 300 milljarða

Maí­mán­uð­ur var ekki góð­ur á ís­lensk­um hluta­bréfa­mark­aði. Úr­vals­vísi­tal­an, sem mæl­ir gengi bréfa í þeim tíu fé­lög­um sem hafa mest­an selj­an­leika, lækk­aði um 12,7 pró­sent. Það er mesta lækk­un í ein­um mán­uði síð­an í mars 2009.

Markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands dróst saman um 296 milljarða króna í maímánuði. Heildarvirði þeirra félaga sem skráð eru á Aðalmarkað og First North markaðinn var 2.296 milljarðar króna í lok þess mánaðar. Úrvalsvísitalan lækkaði um 12,7 prósent í síðasta mánuði, sem er mesta lækkun hennar innan mánaðar síðan í mars 2009, skömmu eftir að hún var sett á laggirnar, þegar hún lækkaði um 23,91 prósent. Því er um mestu lækkun að ræða á einum mánuði í rúmlega 14 ár. 

Þetta kemur fram í upplýsingum sem Heimildin hefur fengið frá Nasdaq á Íslandi, sem rekur íslensku kauphöllina. 

Úrvalsvísitalan mælir gengi þeirra tíu félaga sem eru með mestan seljanleika hverju sinni. Sem stendur eru þau tíu félög sem hana mynda Arion banki, Eimskip, Festi, Icelandair, Íslandsbanki, Kvika banki, Marel, Reitir, Síminn og Sjóvá. 

Loftið að fara úr eignabólunum

Kórónuveirufaraldurinn, og þær aðgerðir sem seðlabankar og stjórnvöld um allan heim, þar með talið hérlendis, gripu til vegna efnahagslegra áhrifa hans bjuggu til eignabólur. Það þýðir að verði á eignaflokkum hækkaði umfram það sem undirliggjandi þættir gefa tilefni til. Þeir eignamarkaðir sem hækkuðu mest voru hlutabréfa- og fasteignamarkaðurinn. 

Á árinu 2020 hækk­aði úrvals­vísi­talan til að mynda um 20,5 pró­sent og heild­ar­vísi­tala hluta­bréfa um 24,3 pró­sent. Mark­aðsvirði þeirra 23 félaga sem skráð voru á mark­að­ina tvo á því ári hækk­aði um 312 millj­arða króna á því ári, eða um 24 pró­sent. 

Árið 2021 gekk enn betur. Bréf í öllum félögum á aðal­mark­aði, og öllu nema einu á First North, hækk­uðu. Alls hækk­aði úrvals­vísi­talan um 33 pró­sent og heild­ar­vísi­tala hluta­bréfa um 40,2 pró­sent. Þau tvö félög sem hækk­uðu mest í virði, Arion banki og Eim­skip, tvö­föld­uðu mark­aðsvirði sitt. Að teknu tilliti til þess að fjögur félög voru skráð á markað á því ári þá hækkaði markaðsvirði allra skráðra félaga um næstum eitt þúsund milljarða króna á árinu 2021, og var 2.556 milljarðar króna í lok þess árs. 

Í fyrra dró úr þessum aðgerðum, fjármagn varð dýrara samhliða hækkandi stýrivöxtum og verðbólga fór á flug. Á því ári lækkað heildarvísitala Kauphallarinnar um 17 prósent.

Alvotech skekkti myndina framan af ári

Framan af þessu ári jókst heildarvirði þeirra félaga sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað. 

Vert er að taka fram skráðum félögum fjölgaði umtalsvert á síðustu árum. Þau eru nú 29 talsins á báðum mörkuðum og því eru fleiri um að mynda heildarmarkaðsvirðið en áður.  má þar nefna Íslandsbanka, Síldarvinnsluna, Nova, Play, Amaroq Minerals og Ölgerðina. Í þessum mánuði bættist svo Hampiðjan í hópinn. En verðmætasta félagið sem hefur verið nýskráð á síðustu árum er Alvotech.

Í lok febrúar var heildarmarkaðsvirði allra komið upp í 2.758 milljarða króna, aðallega á baki þess að bréf í Alvotech ruku upp í síðla árs í fyrra og framan af þessu ári. Eftir að opinberað var í apríl að félagið hafi ekki fengið markaðsleyfi fyrir lykilvöru sem það ætlaði að selja inn á Bandaríkjamarkað frá miðju þessu ári hrundi markaðsvirði Alovotech. Á tveimur mánuðum fór það úr því að vera 528 milljarðar króna í að vera 333 milljarðar króna. Það lækkaði um meira en þriðjung, eða 195 milljarða króna. 

Alvotech er hins vegar ekki hluti af úrvalsvísitölunni, sem lækkaði um 12,7 prósent í maí. Þar skipti mestu að markaðsvirði Marel, sem lengi vel var verðmætasta félagið á íslenska markaðnum, lækkaði um 24 prósent í mánuðinum. Það er nú um 331 milljarður króna. Sú lækkun kemur í kjölfar þes að virði Marel fór úr 663,5 í 367 milljarða króna á árinu 2022. Virðið í dag er því helmingur þess sem það var í byrjun árs í fyrra. 

Mikið útflæði úr hlutabréfasjóðum

Á vef Keld­unnar má sjá 12 mán­aða ávöxtun 16 íslenskra hluta­bréfa­sjóða. Þar kemur fram að þeir hafi allir skilað neikvæðri afkomu síðastliðið ár, á bilinu -4,0 til -16,8 prósent. 

Þeir sem eiga í sjóð­unum þurfa samt sem áður að greiða þókn­anir til þeirra, sem í flestum til­fellum eru hlut­falls­lega hærri en gengur og ger­ist alþjóð­lega. 

Þessar miklu breytingar sem orðið hafa á efnahagslegum aðstæðum hafa dregið verulega úr áhuga fjárfesta á því að eiga í íslenskum hlutabréfasjóðum. Frá miðju ári 2020 og fram í apríl í fyrra höfðu fjárfestar keypt hlutdeildarskírteini í slíkum sjóðum fyrir tæplega 91,5 milljarða króna, en innlausnir á sama tímabili voru einungis um 49,2 milljarðar króna. Því voru seld hlutdeildarskírteini fyrir 42,3 milljörðum krónum meira en það sem tekið var út úr sjóðunum á þessu tímabili.

Síðan þá hefur þessi staða snúist algjörlega við. Á tólf mánaða tímabili, frá maí í fyrra og út apríl í ár, voru einungis seld hlutdeildarskírteini í hlutabréfasjóðum fyrir 14,3 milljarða króna. Á sama tíma leystu fjárfestar út 26,1 milljarð króna út úr sjóðunum, eða 11,8 milljörðum krónum meira en flæddi inn í þá. 

Lífeyrissjóðirnir stækka en hinir minnka

Þegar skoðuð er fjárfesting í öllum íslenskum verðbréfasjóðum, bæði þeim sem fjárfesta í skuldabréfum og hlutabréfum, innanlands og erlendis, þá hefur orðið mikil breyting á. Frá byrjun síðasta árs og út aprílmánuð 2023 hafa verið seld hlutdeildarskírteini í þeim fyrir 589,6 milljarða króna. Á sama tíma hafa fjárfestar leyst út hlutdeildarskírteini fyrir 748,4 milljarða króna. Innlausnir voru því 158,8 milljörðum krónum meiri en sala á hlutdeildarskírteinum á tímabilinu. Á þessum 16 mánuðum hefur það einungis einu sinni gerst að hlutdeildarskírteini í sjóðum voru seld fyrir hærri upphæð en leyst var út úr sjóðunum innan mánaðar. Það gerðist í desember í fyrra.

Heimili landsins áttu hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum upp á 342,6 milljarða króna í lok árs 2021. Í apríllok var eign þeirra 305,4 milljarðar króna, og hafði því dregist saman um 37,2 milljarða króna. Eign atvinnufyrirtækja í sjóðunum hefur á sama tímabili dregist saman um 36,7 milljarða króna. Þeir fjárfestar sem hafa bætt mestu við sig af hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum frá byrjun árs 2022 eru íslenskir lífeyrissjóðir. Þeir eiga nú slík skírteini fyrir 296,1 milljarð króna, sem er 29,4 milljörðum krónum meira en þeir áttu í upphafi tímabilsins. Hlutdeild lífeyrissjóða í sjóðunum öllum hefur aukist úr því að vera 24,6 prósent í að vera 28,7 prósent frá byrjun árs í fyrra og út aprílmánuð 2023.

Kjósa
10
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár