
Eitruðu gasi dælt inn í stúlknaskólaFyrsta tilfellið, svo vitað sé, var tilkynnt í borginni Qom 30. nóvember þegar 18 stúlkur veiktust skyndilega og voru lagðar inn á spítala. Síðan þá hafa sambærileg tilfelli komið upp í að minnsta kosti 127 skólum. Írönsk stjórnvöld segja óvinveitt ríki bera ábyrgð á eitrununum. Enginn hefur látið lífið, enn þá, en frá því í nóvember hafa yfir þúsund stúlkur verið fluttar á spítala vegna eitrana. Einkennin eru öndunarerfiðleikar, ógleði, svimi og þreyta.
Mynd: AFP

Kona, líf, frelsiMótmæli hafa brotist út þar sem almenningur gagnrýnir viðbragðsleysi stjórnvalda. Mótmælendur óttast að tilgangur eitrananna sé að bæla niður menntun kvenna eða hefnd þar sem mótmælin sem hófust í Íran í haust voru leidd af konum, mótmæli sem stjórnmálaskýrendur skilgreina sem feminíska byltingu, byltingu þar sem krafan snýst um frelsi til að velja.
Mynd: AFP

Feminísk byltingNikoo Azad, íranskur sálfræðinemandi, tekur þátt í þöglum mótmælum í Bangalore á Indlandi. Í bakgrunni má sjá mynd af Masha Amini, 22 ára konu frá Kúrdistan, sem lést í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran um miðjan september í fyrra. Í kjölfarið brutust út umfangsmikil mótmæli. Amini var á ferðalagi í Teheran, höfuðborg Íran, þegar íranska siðgæðislögreglan handtók hana fyrir meint brot á reglum um að bera slæðu. Mat siðgæðislögreglan það svo að slæðan huldi ekki nægilega mikið af höfði hennar þar sem hár hennar var sýnilegt. Þá hafi klæðnaður hennar einnig verið „óviðeigandi“. Skikka átti Amini á námskeið um klæðaburð en skömmu eftir handtöku hennar féll hún í dá. Hún lést á sjúkrahúsi þremur dögum síðar. Fjölskylda hennar og vitni segja að hún hafi verið barin til dauða. Yfirvöld fullyrða hins vegar að hún hafi fengið hjartaáfall.
Mynd: EPA

„Ófyrirgefanlegir glæpir“Írönsk yfirvöld tilkynntu í síðustu viku að rannsókn væri hafin á málinu og á miðvikudag fóru fyrstu handtökur fram í tengslum við rannsókn á eitrununum. Ayatollah Ali Khameini, æðsti leiðtogi Íran, segir eitranirnar „ófyrirgefanlega glæpi“. „Gerendurnir verða að sæta þyngstu mögulegu refsingu,“ sagði Khameini í vikunni þegar hann ræddi eitranirnar opinberlega í fyrsta sinn í vikunni. Hér er hann hins vegar að sinna opinberum erindagjörðum í vikunni þar sem hann gróðursetti tré í tilefni af „náttúruauðlindaviku“ sem nú stendur yfir í Íran þar sem vorið er á næsta leiti.
Mynd: AFP
Kjósa
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.
Athugasemdir (1)
Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Hugsið ykkur hver staðan er. Khameini er að styðja við stríðsrekstur Rússa í Úkrainu og gerir um leið allt miklu erfiðara heima fyrir, eins og staða þjóðarinnar sé ekki nógu snúin fyrir. Khameini sveiflar sverði sínu jafnt gegn landsmönnum sínum sem og íbúum fjölbýlishúsa í Úkrainu. Vonandi nær kranastjórinn honum fyrr en seinna.