Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Bardaginn um útlendingafrumvarpið – „Langatöng í andlitið á flóttafólki“

Mik­ill has­ar var á Al­þingi í vik­unni þeg­ar svo­kall­að út­lend­inga­frum­varp var rætt og síð­an sam­þykkt eft­ir aðra um­ræðu. Þing­menn eru gríð­ar­lega ósam­mála um ágæti frum­varps­ins og hef­ur mál­ið reynst Vinstri græn­um til að mynda flók­ið. Þing­mað­ur Pírata seg­ir að frum­varp­ið muni eng­in vanda­mál leysa – þvert á móti séu for­send­ur þess byggð­ar á út­lend­inga­and­úð og „langa­töng í and­lit­ið á flótta­fólki“. Þing­mað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins er ósam­mála og seg­ir að með frum­varp­inu straum­línu­lag­ist kerf­ið. „Þetta er mála­flokk­ur sem er síkvik­ur og það má bú­ast við því að það þurfi reglu­lega að bregð­ast við.“

Bardaginn um útlendingafrumvarpið – „Langatöng í andlitið á flóttafólki“

Umdeilt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra var samþykkt á Alþingi í vikunni eftir aðra umræðu og fer nú aftur til allsherjar- og menntamálanefndar. Hiti var í fólki í atkvæðagreiðslunni enda gríðarlega langur aðdragandi að frumvarpinu en það var fyrst lagt fram, þó í annarri mynd, fyrir  fimm árum síðan. 

Píratar voru áberandi í umræðum um frumvarpið en heildarræðutími var yfir 80 klukkustundir í annarri umræðu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu um málþóf og kvartaði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra yfir því og sagði að það væri slæmt fyrir orðspor Alþingis þegar örfáir þingmenn tækju „þingið í gíslingu“ svo dögum skipti.

Þingmaður Pírata Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Bryndís Haraldsdóttir hafa verið í forsvari fyrir andstæð sjónarmið varðandi frumvarpið en þær spjölluðu við Heimildina um hvaða áhrif það myndi hafa, gagnrýni sem komið hefur á frumvarpið og næstu skref. 

Flýta ferlinu og ná fram hraðari afgreiðslu á málum

Bryndís er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og talsmaður allsherjar- og menntamálanefndar. Hún varði frumvarpið á Alþingi en hún segir í samtali við Heimildina að það sem komi fyrst og fremst út úr frumvarpinu sé ákveðin straumlínulögun á kerfinu sem slíku. „Það er verið að laga ákveðna þætti sem misfórust í lögunum á sínum tíma. Ég held að nefndinni sem vann lögin sem tóku gildi 2016 hafi alltaf verið ljóst að það þyrfti að aðlaga þau. Auk þess hefur svakalega mikið breyst síðan þá. Þetta er málaflokkur sem er síkvikur og það má búast við því að það þurfi reglulega að bregðast við,“ segir hún.

„Auðvitað eru einnig leiðir þarna sem koma í veg fyrir einhvers konar misnotkun á ákvæðum sem eru framsett til að ýta undir skjóta og góða afgreiðslu.“

Hún telur að með frumvarpinu náist að flýta ferlinu og ná fram hraðari afgreiðslu á málum. „Auðvitað eru einnig leiðir þarna sem koma í veg fyrir einhvers konar misnotkun á ákvæðum sem eru framsett til að ýta undir skjóta og góða afgreiðslu,“ segir hún. 

Ákvæði til að ýta undir skjóta afgreiðsluBryndís segir að í frumvarpinu séu leiðir sem komi í veg fyrir einhvers konar misnotkun.

Varðandi umræður um frumvarpið á þinginu þá segir Bryndís að framan af hafi þær verið málefnalegar. „Ég held að það sé mikilvægt að geta þess að við höfum allt þetta þing verið í mikilli vinnu varðandi útlendingamálið. Við byrjuðum á því að fara öll nefndin til Noregs og Danmerkur og kynna okkur málið þar. Svo auðvitað höfum við verið með þetta mál til umfjöllunar og ég held að það séu þrettán eða fjórtán fundir sem við höfum verið með málið til umfjöllunar og fengið fjölda gesta – og átt góðar og gagnlegar umræður. 

Mér finnst fyrsti hluti annarrar umræðu hafa verið góður og gagnlegur líka og ég ber virðingu fyrir því að fólk hafi önnur sjónarmið en ég. Ég get líka sagt það að mér fannst ræðurnar undir lokin kannski vera orðnar allmikil endurtekning og kannski innihaldsrýrar eins og gengur í málþófi.“

Verið sé að horfa af mikilli mannúð og mikilli tillitsemi til aðstæðna fólks

Mikil gagnrýni kom fram á frumvarpið, til að mynda í umsögnum Rauða krossins og UNICEF og í umræðum á þingi. Bryndís áréttar í því sambandi að hún beri virðingu fyrir því að ekki allir hafi sömu skoðanir og hún á þessum málum. 

„En ég held að gagnrýni litist líka af því að þetta sé í fyrsta skiptið sem málið kemur fram. Það hefur tekið verulegum breytingum í öll þessi skipti í samræmi við umsagnir, ábendingar og umræður. Þannig að einhverju leyti voru umsagnir og gagnrýni eitthvað sem að hluta til var búið að bregðast við með breytingum en það eru auðvitað þarna umdeild ákvæði,“ segir hún og nefnir í því samhengi ákvæði um þjónustusamning. 

Hún segist enn fremur skilja þá gagnrýni en að hennar afstaða sé sú að það geti ekki verið stjórnarskrárvarin mannréttindi að búa á Íslandi á kostnað íslenskra skattgreiðenda eftir að niðurstaða í málinu er komin. „Ég held að ákvæðið eins og það er umbúið í frumvarpinu sem verður fljótlega að lögum sé þannig að verið sé að horfa af mikilli mannúð og mikilli tillitsemi til aðstæðna fólks. Því er gefið 30 daga, og sé það samvinnufúst eða sé það í sérstökum aðstæðum þá búi það ennþá í úrræðinu og fái þjónustu. 

Ég heyri hin sjónarmiðin en ég deili ekki þeim áhyggjum sem margir þeir sem gagnrýnt hafa frumvarpið að þetta muni leiða til þess að hér verði fólk á götunni. Ég vil ekki meina að það muni hafa þau áhrif. Mér finnst það fyrst og fremst hvetja fólk sem ekki hefur fengið hér vernd til heimferðar sem hlýtur að vera eðlilegt eftir að þau fá úrlausn sinna mála á tveimur stjórnsýslustigum,“ segir hún. 

Vill opna fyrir frekari tækifæri fyrir útlendinga að vinna á Íslandi

Frumvarpið mun nú aftur fara á borð allsherjar- og menntamálanefndar. Bryndís segir að gert verði nýtt nefndarálit þar sem ákveðin ákvæði verði skýrð. „Það munu verða einhverjar breytingar sem eru ekkert stórkostlegar og þá frekar gerðar til að skýra markmið frumvarpsins og tryggja að það verði ekki einhver misskilningur um það hvað ákvæðin þýða í raun og veru.“

„Ég held að það sé hægt að hreinsa út úr þessu verndarumsóknarkerfi með því að opna frekari möguleika fyrir fólk að flytja til landsins og búa hér og starfa.“

Bryndís segist enn fremur telja að þessi málaflokkur útlendinga sé óskaplega stór og viðamikill. „Við sjáum það í löndunum í kringum okkur og tekst þetta frumvarp einungis á hluta þess málaflokks. Ég held að umræðan um málefni útlendinga verði ennþá til staðar og tel ég í rauninni mikið mikilvægara að við förum að bregðast við því og þá vil ég sérstaklega fara að ræða hvernig við tökum á móti börnum í skóla, hvernig þjónustan okkar er, hvernig aðlöguninni er háttað og opna fyrir frekari atvinnutækifæri útlendinga hér á landi. Ég held að það sé hægt að hreinsa út úr þessu verndarumsóknarkerfi með því að opna frekari möguleika fyrir fólk að flytja til landsins og búa hér og starfa.“

Telur stjórnarliða fylgja flokksfyrirmælum

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata vann við málaflokkinn sem lögfræðingur í mörg ár áður en hún settist á þing árið 2021 en hún hélt í kringum 130 ræður um frumvarpið í umræðum á Alþingi. Hún segir í samtali við Heimildina að stjórnarliðar hafi ekki hlustað á nein rök við afgreiðslu frumvarpsins. „Hvorki frá umsóknaraðilum eða okkur og ég fæ svolítið á tilfinninguna að þau taki ekki mark á neinum rökum.“

Eins og áður segir mun frumvarpið nú fara í síðasta sinn til allsherjar- og menntamálanefndar en þar verða ekki gerðar efnislegar breytingar á frumvarpinu. Þar á eftir fer það í þriðju umræðu á þingi og síðan samþykkt. Arndís Anna segir að enn geti stjórnarliðar í nefndinni stöðvað afgreiðslu þess úr nefndinni en hún býst ekki við að það muni gerast. 

Arndís AnnaPíratar vilja fá úttekt óháðs aðila, til dæmis frá Mannréttindastofnun HÍ.

„Það er ekki vafi í mínum huga að þarna er fólk að fylgja einhverjum flokksfyrirmælum – og einhverjir gegn eigin sannfæringu en einhverjir líka sem ekki eru búnir að setja sig in í málið og skilja ekki neitt og vita ekkert hvað er að gerast. Þá er auðvelt að fylgja formanninum,“ segir hún. 

Það var ein af ástæðum þess að Píratar vildu fara ítarlega yfir frumvarpið í umræðum á þinginu, að sögn Arndísar Önnu. „En um leið og við opnum munninn þá kalla þau málþóf. En þau hlusta ekkert á okkur hvort sem er, þeim er alveg sama um þetta allt saman.“ Þannig sé frumvarpið ákveðið – og segir Arndís Anna að sumir hafi beinlínis sagt það við hana. 

„Ég er kannski einföld en ég hef bara meiri trú á löggjafasamkundu Íslands en svo að þau ætli að setja eitthvað í gegn sem þau eru bara búin að ákveða og hlusta ekki á eitt eða neitt,“ segir hún. 

„Þau hlusta ekkert á okkur hvort sem er, þeim er alveg sama um þetta allt saman.“

Píratar hafa gefið það út að þau vilji fá úttekt óháðs aðila á frumvarpinu. Hafa þau til að mynda lagt til að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands fari yfir frumvarpið og greini hvort það standist stjórnarskrá. „Þessi krafa sem við höfum verið með er eðlileg og sanngjörn. Stærsti skandalinn er að við skulum vera að gera hana í einhverjum samningaviðræðum við þau.“

Hún segir jafnframt að frumvarpið snúist ekki um skilvirkni og sé í raun mjög vanhugsað. Það snúist um að sýna fólki að það sé ekki velkomið. Nánast sé um yfirlýsingu að ræða af hálfu stjórnvalda. 

Frumvarpið í breyttri mynd

Vinstri græn hafa verið mikið gagnrýnd fyrir að styðja frumvarpið en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður flokksins tjáði sig um það í óundirbúnum fyrirspurnum í vikunni þegar Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata spurði hana hvað hefði breyst frá því hún hélt ræðu á Alþingi árið 2017 þar sem hún sagði að hlusta ætti á umsagnaraðila á borð við Rauða krossinn.

Ráðherrann sagði meðal annars að umrætt frumvarp væri í talsvert annarri mynd en þegar það var kynnt á sínum tíma í samráðsgátt, meðal annars vegna þeirra áherslna, sem hefðu ekki breyst af hálfu Vinstri grænna, sem varða grundvallaratriði í útlendingamálum og ættu raunar samhljóm með ýmsu af því sem var rætt á þinginu síðast þegar þessi mál voru til umfjöllunar og varðar til dæmis þau atriði sem tengjast sérstökum tengslum útlendinga við landið og upptöku efnismeðferðar. 

Umsagnir komu seintKatrín segir að ákveðin mál verði reifuð milli umræðna.

„Þá hefur einnig verið fjallað sérstaklega um hagsmunamat barna sem er eitt af því sem hefur verið töluvert lengi til skoðunar af hálfu dómsmálaráðuneytisins og unnin var um það sérstök skýrsla en líka af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytis. Þegar háttvirtur þingmaður fer hér yfir hvort eitthvað hafi breyst þá er það svo sannarlega ekki svo. Það hafa einmitt verið gerðar breytingar á málinu frá því að það var kynnt upphaflega og þangað til það var lagt fram í þá átt sem ég hef ávallt talað fyrir, sem snýst um það að við höfum vissulega útlendingalöggjöf, það séu ákveðnar reglur um það hvernig við framkvæmum hlutina en þar sé mannúðarsjónarmiða gætt. 

Ég hef sagt það og mér finnst eðlilegt að tiltekin atriði verði tekin til skoðunar, meðal annars vegna umsagna sem komu seint fram eftir því sem mér er sagt í meðförum nefndarinnar og það hefur verið reifað að þau mál verði skoðuð milli umræðna.“ Þetta sagði Katrín út frá upplýsingum frá fulltrúa VG í allsherjar- og menntamálanefnd því hún situr ekki í nefndinni. „Það er bara til marks um þá afstöðu okkar að mjög mikilvægt sé að vanda til verka þegar svona mál eru til meðferðar í þinginu,“ sagði hún.  

Mikilvægt að geta litið til einstaklingsbundinna aðstæðna

Jódís Skúladóttir þingmaður Vinstri grænna hefur einnig tjáð sig um málið í máli og riti en í atkvæðagreiðslunni í vikunni sagði hún að frumvarpið hefði tekið miklum breytingum milli framlagninga.

Þakkaði Bryndísi fyrir samstarfiðJódís segir að meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hafi unnið saman af heiðarleika.

„Stærsta breytingin áður en frumvarpið kom inn í þingið núna síðast er að halda þeirri heimild inni í lögunum að taka megi mál til efnismeðferðar þó svo að fólk hafi fengið vernd í öðru ríki. Þetta er ákvæði sem VG hefur staðið vörð um enda er mikilvægt að geta alltaf litið til einstaklingsbundinna aðstæðna og að enginn hópur sé gjörsamlega útilokaður frá því að geta fengið málsmeðferð. Fleiri breytingar hafa verið gerðar, svo sem að stórir hlutar fólks eru undanskildir niðurfellingu á þjónustu. Svo er mikilvægt ákvæði um að ávallt skuli framkvæma sérstakt hagsmunamat fyrir börn og að reglugerð um það til hvaða sjónarmiða eigi að líta sé sett af mennta- og barnamálaráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra.

Málið hefur síðan verið áfram til þinglegrar meðferðar hjá Alþingi og ég bendi á að eins og fram hefur komið hef ég kallað frumvarpið aftur inn í nefnd á milli annarrar og þriðju umræðu Meirihluti nefndarinnar hefur unnið saman af heiðarleika. Ég vil þakka þeim samstarfið og þá sérstaklega formanni nefndarinnar sem hefur tekið vel í allar beiðnir um gesti og umræður,“ sagði hún. 

Frumvarpið byggi á röngum forsendum

Arndís Anna gefur lítið fyrir slíkan málflutning. „Það er ekkert hægt að laga þetta frumvarp vegna þess að það byggir á röngum forsendum. Það byggir á þeim forsendum að þeir sem leita sér verndar séu upp til hópa að svindla og að þeir séu afætur á kerfinu.“

Af þessum ástæðum sé ekki hægt að „laga“ frumvarpið, að mati Arndísar Önnu. Hún segir að sumir séu búnir að bíta í sig að eitthvað verði að gera vegna þess að málaflokkurinn sé í ólestri en hún telur að það hafi ekkert með frumvarpið sjálft að gera. 

Frumvarpið hefur vissulega breyst frá því það var fyrst sett fram fyrir fimm árum. Arndís Anna segir að þrátt fyrir það sé frumvarpið ekki vel unnið. „Jú, fáránleg ákvæði voru tekin út en önnur fáránleg ákvæði komu bara í staðinn. Ástæðan fyrir því að við tölum alltaf um sama frumvarpið, þrátt fyrir breytingar, er þessi forsenda. Andrés Ingi hefur einmitt kallað það „ógeðis-frumvarpið“ því það byggist á þessari andúð, það byggist á fyrirlitningu gagnvart flóttafólki.“

„Jú, fáránleg ákvæði voru tekin út en önnur fáránleg ákvæði komu bara í staðinn.“

Þegar Arndís Anna er spurð hvað Píratar ætli nú til bragðs að taka þá segir hún að þau ætli aldrei að gera það auðvelt fyrir stjórnarliða að láta þetta frumvarp verða að lögum. „Við munum aldrei leyfa þessu að renna í gegn með auðveldum hætti, það er klárt mál. Við munum halda áfram að vekja athygli á því hvað er verið að gera hérna. En það er alveg ljóst að það er ekkert sem við getum gert til að stoppa frumvarpið núna. Valdið er hjá hinum. Við teljum það fullreynt að fá þau til þess að hlusta á okkur. Núna reynum við að vara við afleiðingunum.“ Í því samhengi nefnir hún möguleg stjórnarskrárbrot en hún telur að fólk á flótta eigi erfitt með að láta reyna á það fyrir dómi þar sem miklar hindranir séu á vegi þess varðandi það. 

„Málþófið“ vont fyrir stjórnmálin á Íslandi og alls ekki til heilla fyrir þjóðina

Nokkuð hefur verið rætt um langar umræður stjórnarandstöðunnar í vikunni, sérstaklega Pírata. Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, kom í pontu Alþingis í vikunni og sagði að þingmenn þyrftu að sníða sér stakk eftir vexti. „Óbreytt löggjöf í útlendingamálum leiðir okkur í ógöngur. Útlendingamálin verða að taka mið af smæð þjóðarinnar.“

Hann sagðist vera þeirrar skoðunar „að þegar menn haga sér eins og gert er í þessu máli sem hér hefur verið á dagskrá undanfarna daga, að beita sér í grímulausu málþófi en þykjast vera á sama tíma að greiða fyrir störfum þingsins, þá dragi töluvert úr virðingu fyrir þingstörfunum og stjórnmálastarf í landinu“.

Grímulaust málþófRáðherrann var ekki sáttur við Pírata þegar útlendingalögin voru rædd og talaði um „grímulaust málþóf“.

Þá sagði Bjarni að þegar þingið sýndi ekki getu til þess að leyfa meirihlutaviljanum að ná fram að ganga og þeirri forgangsröðun sem yfirgnæfandi meirihluti þingmanna væri sammála um að þyrfti að vera á þingi, vegna þess að örfáir þingmenn tækju þingið í gíslingu svo dögum skipti, þá væri það slæmt fyrir orðspor Alþingis. „Það sé vont fyrir stjórnmálin á Íslandi og það sé alls ekki til heilla fyrir þjóðina,“ sagði hann og bætti við: „Hættið málþófinu og höldum áfram að vinna vinnuna.“

Spyr hvar ráðherrarnir hafi verið

Arndís Anna vill aftur á móti ekki kalla umræðu Pírata endilega málþóf. Þau hafi verið að reyna að lýsa því hverjar afleiðingarnar væru ef frumvarpið yrði að lögum. „Ég vildi óska þess að þau hefðu hlustað á ræðurnar,“ segir hún og á þar við stjórnarliða.

Píratar sendu frá sér tilkynningu í vikunni þar sem þau ít­rekuðu að frum­varpið fæli í sér mikl­ar skerðing­ar á mann­rétt­ind­um fólks á flótta. „Þrátt fyr­ir að frum­varpið hafi hlotið al­var­lega gagn­rýni frá um­sagnaraðilum hef­ur stjórn­ar­meiri­hlut­inn á þingi ákveðið að hafa málið áfram í for­gangi á kostnað annarra mála, í stað þess að hlusta á gagn­rýn­ina og gera um­bæt­ur á frum­varp­inu, eða draga það til baka, en dag­skrár­valdið er í hönd­um meiri­hlut­ans,“ sagði í til­kynn­ing­unni en flokkurinn hvatti rík­is­stjórn­ina til að standa vörð um stjórn­ar­skrána. 

„Ákvæði frum­varps­ins hafa hlotið al­var­lega gagn­rýni um­sagnaraðila fyr­ir að kveða á um að svipta fólki á flótta heil­brigðisþjón­ustu, hús­næði og ann­arri aðstoð und­ir viss­um kring­um­stæðum, að skerða rétt til fjöl­skyldusam­ein­ing­ar og þannig aðskilja fjöl­skyld­ur á flótta.“

„Hvar voru þeir? Af hverju fannst þeim þetta í lagi?“

Þá gagnrýndi flokkurinn að Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra og Ásmund­ur Ein­ar Daðason mennta- og barna­málaráðherra hefðu ekki tekið þátt í umræðu um málið þrátt fyr­ir sí­end­ur­tekn­ar til­raun­ir til að kalla eft­ir viðveru þeirra.

Arndís Anna áréttar gagnrýni á ráðherranna í samtali við Heimildina. „Við eigum ekki að vera á eintali um svona mál. Hvar voru þeir? Af hverju fannst þeim þetta í lagi?“ spyr hún. 

Snýst um það hvernig samfélagi við viljum búa í

Líkt og áður segir þá telur Arndís Anna ekki mögulegt að laga frumvarpið og að það versta við það séu forsendurnar – og viðhorfin sem búi þar að baki. Hún segir að frumvarpið muni engin vandamál leysa. „Þetta er bara langatöng í andlitið á flóttafólki. Það er það sem þetta frumvarp er að gera.“

Að endingu mótmælir hún málflutningi Bryndísar um að það geti ekki verið stjórnarskrárvarin mannréttindi að búa á kostnað íslenskra skattgreiðenda eftir að niðurstaða í máli umsækjenda um alþjóðlega vernd sé komin í hús. „Það er stjórnarskrárbundinn réttur um ákveðna lágmarksaðstoð, alveg sama hvaðan þú ert og hvaða stöðu þú hefur. Þess vegna erum við með ákvæði um réttindi útlendinga í neyð. Þetta snýst ekki einungis um mannréttindi flóttafólks, þetta snýst líka um það hvernig samfélagi við viljum búa í,“ segir Arndís Anna að lokum. 

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • MB
  Magnús Bjarnason skrifaði
  Að hætti Heimildarinnar er hér ágæt greining.
  Ályktun mín er að Píratar vita ekki hvað þeir vilja?? Ekki tilbúnir til að setjast niður og ræða efnislega hvað skilur þá frá öllum hinum. Ekki frekar en SA gagnvart Eflingu.
  0
 • Jóhannes Baldvinsson skrifaði
  Orðatiltækið er ,,að sýna e-m löngutöng". Ekkert annað og alls ekki í andlitið á neinum.
  0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár