Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra er hætt við að leggja fram frumvarp sem átti að undanskilja afurðastöðvar í sláturiðnaði frá ákvæðum samkeppnislaga um bann við ólögmætu samráði. Þess í stað er hafin vinna í ráðuneyti hennar við smíði frumvarps sem á að heimila fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Það frumvarp verður lagt fram á haustþingi.
Ástæða þess að fallið var frá því að leggja frumvarpið fram var alvarleg gagnrýni ýmissa umsagnaraðila á innihald þess. Samkeppniseftirlitið sagði málið miða að því að koma á einokun í slátrun og frumvinnslu afurða og gengi auk þess gegn ákvæðum EES-samningsins. Verið væri að hygla kjötafurðastöðvum á kostnað bænda. Neytendasamtökin kölluðu frumvarpið aðför að neytendum.
Byggt á tillögum spretthóps Steingríms J.
Í frumvarpsdrögunum, sem voru aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda í síðasta mánuði, var lagt til að ákvæði yrði bætt við búvörulög til bráðabirgða sem undanskilji afurðastöðvar í sláturiðnaði frá ákvæðum samkeppnislaga um bann við ólögmætu samráði. Það átti að gera til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Afurðastöðvunum átti þá að verða heimilt, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að stofna og starfrækja félag um flutning sláturgripa, slátrun, birgðahald og frumvinnslu afurða auk skyldra verkefna. Ákvæðið átti að gilda til 2026.
Frumvarpið byggði að hluta á tillögum spretthóps, sem Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi formaður Vinstri grænna leiddi, og skilaði af sér tillögum í fyrrasumar. Hópurinn var skipaður vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi sökum þess að verð á aðföngum til bænda hafði hækkað gríðarlega eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Markmið lagasetningarinnar átti að vera að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu. í greinargerð sem fylgdi með drögunum sagði að með tillögunum væri lagt til að fylgt yrði eftir þeim markmiðum búvörulaga að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. „Með aukinni hagkvæmni í slátrun má draga úr kostnaði við framleiðsluna sem er afar mikilvægt við erfiðar aðstæður. Þá getur þessi heimild orðið til þess að flýta fyrir endurnýjun í sláturhúsum og ýtt undir úreldingu síður hagkvæmra framleiðslueininga. Ef ekki verður aðhafst eru líkur á að enn muni aukast þörfin á hagræðingu og uppstokkun verði í rekstri kjötafurðastöðva með ófyrirséðum byggða- og samfélagslegum áhrifum þar sem þær starfa.“
Slátraði drögunum
Tíu umsagnir bárust um frumvarpið. Sú sem hafði mesta vigt var frá Samkeppniseftirlitinu. Það hreinlega slátraði frumvarpsdrögunum. Í umsögninni sagði meðal annars að af greinargerð frumvarpsdraganna mætti ætla að slátursleyfishafar væru allmargir. „Í reynd eru sjálfstæðir keppinautar sem taka við sauðfé fjórir sé horft til landsins alls; fjórir taka við stórgripum, fjórir við svínum og þrír við alifuglum. Yfirlýstar áætlanir sláturleyfishafa, sem fram koma í erindi til ríkisstjórnar í nóvember 2020, sem ítrekað hefur verið í tvígang eftir það, gera ráð fyrir að 2-3 sláturhús verði í sauðfjárslátrun á landinu og 2 í stórgripaslátrun. Í þessu felst að kallað er eftir heimildinni til að geta fækkað sláturhúsum í allt að eitt sauðfjársláturhús og eitt stórgripasláturhús á Norðurlandi og eitt sláturhús af hvorri gerð á Suðurlandi. Ekki hefur átt sér stað mat á byggða- og samfélagslegum áhrifum slíkra aðgerða.“
Frumvarpsdrögin tóku einnig til afurðastöðva í alifuglaslátrun og svínaslátrun, en ekki einvörðungu til afurðastöðva í sauðfjárslátrun og stórgripaslátrun. „Þörfin fyrir undanþágu er þó fyrst og fremst rökstudd með erfiðri stöðu í hefðbundnum landbúnaði. Til dæmis hefur ekki verið aflað greininga á stöðu afurðastöðva í alifuglaslátrun við undirbúning frumvarpsins og greining Deloitte tekur ekki til alifugla- og svínaslátrunar. Þá tekur greining KPMG aðeins til sauðfjárafurða.“
Þá hafi ekki verið aflað tölulegra gagna frá afurðarstöðvum sem varpað geti ljósi á rekstur afurðarstöðva og mögulega hagræðingu.
Þeir sem taka við sauðfé til slátrunar eru Kaupfélag Skagfirðinga (KS), Norðlenska Kjarnafæði, SS og Fjallalamb. Önnur fyrirtæki eru í eigu eða verulegum eignatengslum við þrjú stærstu fyrirtækin.
Sjálfstæðir keppinautar sem taka við stórgripum eru einnig fjórir talsins, þar af þrír þeirra hinir sömu og starfa við sauðfjárslátrun, þ.e. KS, Norðlenska Kjarnafæði og SS, auk B Jensen á Akureyri. Þá taka fjórir við svínum og þrír við alifuglum.
Tilraun til að koma á einokun
Í umsögn eftirlitsins sagði að við undirbúning frumvarpsins hafi ekki verið litið til þess að kjötafurðastöðvar eru að óverulegu leyti í meirihlutaeigu eða undir stjórn bænda lengur. „Ekki er heldur tekið mið að könnunum sem leiða í ljós að bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum slæma.“
Áform sláturleyfishafa hafi að líkindum miðað að því að koma á einokun í slátrun og frumvinnslu afurða. Engin ákvæði séu í frumvarpsdrögunum sem verji „bændur, aðra viðskiptavini eða neytendur gagnvart sterkri stöðu afurðastöðva. Þannig er afurðastöðvum mögulegt að eyða samkeppni án þess að bændur geti spornað við því og engin opinber stýring eða eftirlit er til staðar til að verja hagsmuni bænda, annarra viðskiptavina afurðastöðva og neytenda.“
Þá hafi ekki verð gengið úr skugga um að efnisákvæði frumvarpsdraganna samræmis EES-samningnum.
Aðför að neytendum
Neytendasamtökin voru ekki síður myrk í máli í sinni umsögn. Þau sögðu drögin og hugmyndirnar sem búi að baki þeim óboðlegar. „Að hér sé lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir því að fyrirtæki geti komið sér undan mikilvægum ákvæðum samkeppnislaga er aðför að neytendum [...] Hér er því um að ræða tilraun sem Neytendasamtökin telja óforsvaranlega og alls óvíst að sá óljósi árangur sem stefnt er að muni skila neytendum nokkrum ábata. Þvert á móti sýnir reynslan einmitt að samkeppni er helsta vörn neytenda gegn háu verðlagi. Í ljósi framangreinds leggjast Neytendasamtökin hart gegn því að þetta mál nái fram að ganga.“
Hagsmunaaðilar í landbúnaði skiluðu hins vegar margir inn jákvæðum umsögnum og studdu frumvarpsdrögin. Þar má nefna Bændasamtök Íslands sem sögðust telja „markmiðin með lagabreytingunni séu góð og geti orðið til góðs fyrir landbúnaðinn og íslenskt samfélag í heild en það sem mögulega vanti í frumvarpið sé nákvæmari útlistun á því hvernig eigi að ná fram þessum markmiðum.“ Ein helsta athugasemd Bændasamtakanna var að undanþágan frá nú ólögmætu samráði yrði tímabundin til 2026 en ekki varanleg.
Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði tóku undir markmið frumvarpsins en gerðu líka athugasemd við tímabindingu undanþágunnar. Undir umsögn þeirra skrifaði stjórnarformaður samtakanna, Sigurjón R. Rafnsson. Hann er líka aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, sem er umfangsmikið í sláturiðnaði og hefði haft mikinn hag af því ef frumvarpi yrði að lögum.
Sigurjón er líka formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, sem skiluðu líka umsögn þar sem einnig var tekið undir markmið frumvarpsins en kallað eftir því, líkt og aðrir hagsmunagæsluaðilar landbúnaðarins, að undanþágan yrði gerð varanleg.
Fjarstæðukennt að víkja lögum til hliðar
Hljóðið var annað í þeim sem gæta hagsmuna verslunar í landinu. Samtök verslunar og þjónustu sögðu í sinni umsögn að frumvarpsdrögin væru ekki á vetur setjandi. „Eru þau ekki aðeins háð tæknilegum annmörkum heldur virðist efni draganna hvorki samræmast þeim gögnum sem þau þó eiga að byggjast á né þeirri stöðu sem þau eiga að bæta úr. Verður ekki betur séð en að drögunum séu settar fram haldlitlar réttlætingar sem hafa þann tilgang að víkja samkeppnisreglum til hliðar án þess að raunveruleg þörf sé á. Sérstaka athygli vekur að efnisákvæðum draganna virðist ætlað að ná til afurðastöðva í sláturiðnaði sem ekki liggur neitt fyrir um að búi við hagræðingarþörf eða hafi að neinu leyti þörf á að komast undan ákvæðum samkeppnislaga. Verður ekki betur séð en að litið sé svo á að hagsmunir bænda, sem standa frammi fyrir erfiðu rekstrarumhverfi, kalli á að viðsemjendum þeirra, afurðastöðum í sláturiðnaði, verði heimilað samstarf óháð gildandi regluverki samkeppnislaga. Ekki verður séð að leitt hafi verið fram orsakasamhengi sem styður slíka niðurstöðu heldur má þvert á móti gera ráð fyrir að ákvæði draganna veiki bæði stöðu bænda og neytenda.“
Í niðurlagi umsagnarinnar sagði að það orki ekki aðeins tvímælis heldur sé hreint út sagt fjarstæðukennt að „víkja samkeppnislögum til hliðar í þeim tilgangi að koma því til leiðar að afurðastöðvar í sláturiðnaði komist hjá því að setjast niður og ræða tækifæri til hagræðingar innan ramma gildandi regluverks.“
Félag í „hálfgerðum vandræðum“ með að eyða hagnaði
Félag atvinnurekenda gagnrýndi frumvarpsdrögin líka harðlega í sinni umsögn. Í henni sagði að sú erfiða staða afurðastöðva í sláturiðnaði sem dregin sé upp í greinargerð frumvarpsdraganna eigi klárlega ekki við um öll fyrirtæki sem talin séu upp sem sláturleyfishafar. Ljóst væri að mörg þeirra séu í prýðilegum rekstri. „Afkoma Kaupfélags Skagfirðinga (KS) hefur þannig verið ljómandi góð. Félagið hefur hagnazt um 18,3 milljarða króna á síðustu fjórum árum, þar af 5,4 milljarða í fyrra [2021]. Stjórnendur félagsins hafa verið í hálfgerðum vandræðum með hagnaðinn, eins og sjá má á því að þeir hafa m.a. fjárfest hann í skyndibitakeðjum í Reykjavík.“ Er þar vísað í kaup KS á Gleðipinnum, sem reka hamborgarastaðina American Style, Aktu Taktu og Hamborgarafabrikkuna, pizzastaðina Shake & Pizza og Blackbox auk Saffran, Pítunnar og Keiluhallarinnar. Auk þess reka Gleðipinnar trampólíngarðinn Rush. Áður hafði KS keypt hamborgarastaðinn Metro.
Þá benti Félag atvinnurekenda á að hagnaður Stjörnugríss hafi verið 325 milljónir króna á árinu 2021, eða 68 prósent meiri en árið 2020. „Hagnaður Sláturfélags Suðurlands á síðasta ári var 232 milljónir króna og í ársreikningi vitnað til betri markaðsaðstæðna og sterkari stöðu.“
Það furðaði sig á að hvergi í greinargerð frumvarpsdraganna sé minnst einu orði á nýlegt dæmi um samruna kjötafurðastöðva sem samkeppnisyfirvöld heimiluðu. Þar er vísað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þegar það heimilaði samruna kjötafurðastöðvanna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH afurða með skilyrðum, sem tryggja eiga hag bæði bænda og neytenda. „Möguleikar til hagræðingar á þessum markaði, innan ramma núgildandi samkeppnis- og búvörulöggjafar, eru því augljóslega fyrir hendi.“
Að mati Félags atvinnurekenda hafi höfundar frumvarpsdraganna reynt að skrifa inn í bráðabirgðaákvæðið um hina tímabundnu undanþágu frá samkeppnislögum sum af þeim skilyrðum, sem sett voru fyrir samruna kjötafurðastöðvanna nyrðra, til að bæta áferð málsins. „Það breytir ekki þeirri staðreynd að yrðu frumvarpsdrögin að lögum gætu samkeppnisyfirvöld ekki haft eftirlit með því samstarfi sem undanþágan myndi heimila og sett því skilyrði til að gæta hagsmuna neytenda og keppinauta. FA sér enga ástæðu til að undanþiggja samstarf á þessum markaði slíku eftirliti, sem fyrirtæki á öðrum mörkuðum mega og eiga að sæta.“
Athugasemdir