Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Starfshópar Svandísar leggja til að auðlindaákvæði verði lögfest í stjórnarskrá

Hóp­arn­ir sem mat­væla­ráð­herra skip­aði til að end­ur­skoða sjáv­ar­út­vegs­kerf­ið hafa skil­að bráða­birgðanið­ur­stöð­um. Þeir ætla að skila end­an­leg­um nið­ur­stöð­um í maí. Á með­al þeirra breyt­inga sem þeir leggja til er að skrá öll við­skipti með kvóta í op­inn gagna­grunn, að hækka eða breyta inn­heimtu auð­linda­gjalda og ráð­ast í breyt­ing­ar á skil­grein­ing­um á tengd­um að­il­um.

Starfshópar Svandísar leggja til að auðlindaákvæði verði lögfest í stjórnarskrá
Ráðherra Svandís Svavarsdóttir sést hér halda erindi á málþingi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um stöðu íslenskra útgerðarfélaga í lok október. Mynd: Stundin / Davíð Þór

Starfshópar sem Svandís Svavarsdóttir skipaði til að endurskoða sjávarútvegskerfið leggja til, í bráðabirgðaniðurstöðum sínum sem birtar voru í dag, að það verði lögfest í stjórnarskrá Íslands að fiskveiðiauðlindin sé í sameign íslensku þjóðarinnar. Þannig verði óvissu um inntak 1. greinar um stjórn fiskveiða, þar sem segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, eytt. 

Þessir starfshópar eru ný hálfnaðir með vinnu sína og birtu af því tilefni bráðabirgðaniðurstöður úr vinnunni hingað til. Þær eru birtar á alls 219 glærum. Þar kemur meðal annars fram að starfshóparnir muni skila lokaniðurstöðum í maí 2023. 

Á meðal annarra tillagna sem kynntar eru til leiks er tillaga um að öll viðskipti með aflaheimildir verði háð skráningu í opinn gagnagrunn, að hvatar verði skapaðir fyrir útgerðir til að skrá sig á markað og að innheimtu auðlindagjalds verði breytt og það hækkað.

Þá leggja starfshóparnir til ýmsar leiðir til að auka gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, meðal annars breytingar á skilgreiningu á tengdum aðilum og kvótaþaki og að gerð verði fræðileg úttekt á því hvaða áhrif eignatengsl innan sjávarútvegs og milli óskyldra greina geta haft á samkeppni og aðra almannahagsmuni.

Svan­dís skip­aði stóra sam­ráðs­nefnd um sjáv­ar­út­vegs­stefnu í maí í fyrra. Undir henni starfa svo fjórir starfs­hóp­ar auk þess sem sér­stök verk­efna­stjórn er að störf­um. Þessi hóp­ur, sem telur um 50 manns, á að  starfa út árið 2024 og skila meðal ann­­ars af sér nýjum heild­­ar­lögum um stjórn fisk­veiða eða nýjum lögum um auð­lindir hafs­ins, verk­efnum á sviði orku­­skipta, nýsköp­un­­ar, haf­rann­­sókna og gagn­­sæi og kort­lagn­ingu eigna­­tengsla í sjá­v­­­ar­út­­­veg­i. Einn starfs­hóp­ur­inn á að fjalla um ágrein­ing um stjórn fisk­veiða og mög­u­­leika til sam­­fé­lags­­legrar sátt­­ar, sam­­þjöppun veið­i­­heim­ilda, veið­i­­­gjöld og skatt­­spor. 

Bráðabirgðaniðurstöðunum er skipt niður í þrjú skref. Umdeildustu tillögurnar eru í skrefi 3, sem ber yfirskriftina „Sanngjörn dreifing“. Þar er meðal annars fjallað um gjaldtöku fyrir nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar, gagnsæi í eignarhaldi og stjórnunartengslum sjávarútvegsfyrirtækja og að samþjöppun innan greinarinnar, sem hefur verið mikil á undanförnum árum.

Hærri veiðigjöld eða fyrning

Í umfjöllun um auðlindagjald er ekki tekin afstaða til einnar leiðar umfram aðra heldur velt upp tveimur tillögum. Sú fyrri snýst um að hækka veiðigjaldið sem leggst á útgerðir og einfalda útreikning þess með það fyrir augum að „leiða til meiri sáttar um sjávarútveg“. Samhliða þurfi þó að gæta að samkeppnishæfni útgerða á alþjóðlegum mörkuðum og sérstaklega er tekið fram að starfshópar hafi ekki lokið skoðun sinni á auðlindarentu og auðlindagjaldi. 

Hin snýst um að taka upp svokallaða fyrningarleið. Í henni felst að allur kvóti fyrnist um fastan hundraðshluta á ári og fyrndur kvóti verði svo seldur á markaði eða uppboði. Þeir fjármunir sem fást fyrir þá sölu rati svo í ríkissjóð. Drög að frumvarpi um slíka leið voru unnin fyrir nokkrum árum. Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti þau drög árið 2014. Í þeim fólst að gera átti nýtingarsamninga til 23 ára við þáverandi handhafa aflaheimilda. Á endanum var frumvarpið aldrei lagt fram vegna andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins, sem þá sat í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, við það að ríkið myndi á endanum eignast veiðiheimildirnar. 

Í tillögum starfshópanna sem kynntar voru í dag er ekkert sagt um það á hversu löngum tíma aflaheimildir ættu að fyrnast né um hversu hátt hlutfall þær ættu að fyrnast á hverju ári.  

Í bráðabirgðaniðurstöðunum er líka að finna tillögu um svokallaðan auðlindasjóð og að binda eigi það í lög að fjármunum sem í hann safnast, vegna innheimtu auðlindagjalds, verði dreift til sveitarfélaga með lögbundnum hætti. Á mannamáli þýðir það að ákveðið hlutfall þess auðlindagjalds sem safnast, óháð því hvort farin verði veiðigjalda- eða fyrningarleið, renni alltaf til sveitarfélaga í landinu en ekki óskipt í ríkissjóð líkt og nú er. 

Skortur á gagnsæi til staðar

Starfshóparnir hafa komist að þeirri niðurstöðu að gagnsæi þeirra sem nýta fiskveiðiauðlindina sé ábótavant, til dæmis varðandi eignarhald. Í tillögunum segir að stjórnvöld verði „að hafa yfirsýn yfir eigendur útgerða og eigna - og stjórnunartengsl milli þeirra sem er forsenda þess að reglur um kvótaþak nái markmiðum sínum.“ Það sé nauðsynlegt svo traust skapist um nýtingu auðlindarinnar. 

Á meðal þess sem nefnt er sem ábótavant eins og nú sé málum hátta er að eftirlitsaðilinn, Fiskistofu, skorti rauntímaupplýsingar um eignarhald útgerða og eignatengsl þeirra á milli. 

Lagt er til að tekið verði upp bætt miðlun rauntímaupplýsinga til stjórnvalda um eignarhald útgerða, og eigna- og stjórnunartengsl þeirra á milli. Þá er lagt til að þær upplýsingar verði færðar í rafrænan gagnagrunn stjórnvalda. 

Önnur tillaga sem lögð er til undir þeim formerkjum að auka gagnsæi snýst um að láta útgerðarfyrirtæki sundurliða tekjur og framlegð eftir tegundum, að öll viðskipti með aflaheimildir verði háð skráningu í opinn gagnagrunn og að hvatar verði skapaðir fyrir útgerðir til að skrá sig á markað. 

Í bráðabirgðaniðurstöðunum er að finna tillögu um úttekt á áhrifum eigna- og stjórnartengsla innan sjávarútvegs og óskyldum greinum. Þar er meðal annars lagt til að Fiskistofa leggi mat á eigna- og stjórnunartengsl útgerða með reglubundnum og markvissum hætti og fái til þess nauðsynleg verkfæri. Auk þess ætti að gera fræðilega úttekt á því hvaða áhrif eignatengsl „innan sjávarútvegs og milli óskyldra greina geta haft á samkeppni og aðra almannahagsmuni“.

Þar er verið að bregðast við gagnrýni á það að eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja landsins hafa nýtt það fjármagn sem þeir hafa tekið út úr sjávarútvegi á undanförnum áratugum til að kaupa sig inn í aðra geira á Íslandi. Þar á meðal eru smásala, bankastarfsemi, tryggingastarfsemi, fasteignafélög og fjölmiðlar svo fátt eitt sé nefnt. 

Vilja breytingu á skilgreiningu á tengdum aðilum

Samkvæmt gildandi lögum má enginn einn aðili, eða aðilar tengdir honum, halda samanlagt á meira en tólf prósent af úthlutuðum kvóta. Þakið er reiknað út frá þorskígildum. Reglur um  tengda aðila eru þó mun rýmri í sjávarútvegi en í mörgum öðrum geirum. 

Í bráðabirgðatillögum starfshópanna er tillaga um að breyta útreikningum á þakinu þannig að fallið yrði frá þorskígildisviðmiðum og tekin upp viðmið um hámarksaflahlutdeild í hverri tegund fyrir sig.

Þá er lagt til að skilgreining á tengdum aðilum vegna kvótaþaks verði samræmd við það sem gildir á öðrum sviðum þannig að það nái betur utan um ólíkar gerðir eigna- og stjórnunartengsla. Til útskýringar þá þarf sjávarútvegsfyrirtæki að eiga 50 prósent í öðru til að þau teljist tengdir aðilar, á meðan að það hlutfall er til að mynda 25 prósent á fjármálamarkaði. Þá teljast hjón, börn þeirra eða sambúðarfólk ekki tengdir aðilar í sjávarútvegi samkvæmt lögum. Það teljast systkini ekki heldur. 

Í tillögunni um nýja skilgreiningu á tengdum aðilum er lagt til að stuðst verði við „skilgreiningu á tengdum aðilum í öðrum lögum samhliða ríkari kröfum um upplýsingaskyldu af hálfu einstaklinga og lögaðila sem njóta nýtingarréttar skv. lögum um stjórn fiskveiða“.

Hagnaður sjávarútvegs jókst um 36 milljarða króna

Frá árinu 2009 og út árið 2021 högnuðust sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki lands­ins um 533 millj­arða króna, samkvæmt gagnagrunni sem Deloitte heldur úti um geirann. Mestur var hagn­að­ur­inn í krónum talið á tíma­bil­inu á síðastnefnda árinu, þegar geir­inn hagn­að­ist um 65 millj­arða króna. Hann jókst um 124 pró­sent á milli ára og var 36 millj­örðum krónum meiri þá en árið 2020.

Á sama tíma­bili, frá 2009 og út árið 2021, hefur sjáv­ar­út­veg­ur­inn greitt 219,3 millj­arða króna í opin­ber gjöld, þar af 85,9 millj­arða króna í veiði­gjöld. Auk þess er um að ræða tekju­skatt og tryggingagjald. Sú tala dregst frá áður en hagn­aður sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækja er reikn­að­ur auk þess sem búið er að taka til­lit til fjár­fest­ingar í geir­an­um, sem býr til eign. 

Opin­beru gjöldin voru 22,3 millj­arðar króna árið 2021, sem var 28 pró­sent meira en árið 2020. Á sama tíma og hagn­að­ur­inn sem sat eftir hjá sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­unum jókst um 36 millj­arða króna milli ára juk­ust opin­beru gjöldin um 4,9 millj­arða króna.

Hagn­aður geirans áður en hann greiddi veiði­gjöld, tekju­skatt og tryggingagjald í rík­is­sjóð var sam­tals 752,3 millj­arðar króna frá 2009 og út árið 2021. Af þessum hagn­aði sat tæp­lega 71 pró­sent eftir hjá útgerðum lands­ins en rétt um 29 pró­sent fór í opin­ber gjöld.

Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kári Jónsson skrifaði
    Í þessum tilllögum er ekki stakt orð um óslitna-virðiskeðju, sem tryggir að ríkistyrkta-einokunar-útgerðin kemst upp með að borga 30-50% lægra fiskverð til sjómanna sinna eða hvað er til ráða. Ekki er stakt orð um frjálst-framsal aflaheimilda sem er augljóst eign þjóðarinnar samkvæmt gildandi lögum um stjórn fiskveiða, sagan í 30ár með frjálsu-framsali hefur sýnt og sannað RÚSTUN sjávarbyggða um allt land með tilheyrandi afleiðingum fyrir íbúa og annan fyrirtækja-rekstur í þessum eyðilögðu byggðum.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Tillögur Auðlindarinnar okkar

Byggðakvóti fari þangað „sem veiðar og vinnsla eiga framtíð fyrir sér“
FréttirTillögur Auðlindarinnar okkar

Byggða­kvóti fari þang­að „sem veið­ar og vinnsla eiga fram­tíð fyr­ir sér“

Í til­lög­um starfs­hópa Auð­lind­ar­inn­ar okk­ar er gert ráð fyr­ir að al­menn­ur byggða­kvóti verði af­lagð­ur. Hon­um verði í þess stað bætt við strand­veið­ar og sér­tæk­an byggða­kvóta. Sér­tæk­um byggða­kvóta verði ráð­staf­að á færri staði en nú og Byggða­stofn­un leggi mat á hvaða svæði eigi fram­tíð fyr­ir sér í veið­um og vinnslu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár