Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir rúmlega 12 mánuðum.

12 dagar og nætur um jólin 1972

Rétt 50 ár eru nú frá því að Nixon Banda­ríkja­for­seti lét gera ein­hverj­ar hörð­ustu loft­árás­ir eft­ir seinni heims­styrj­öld á Norð­ur-Víet­nam. Til­gang­ur­inn með því að láta dauða rigna úr lofti var að sjálf­sögðu að koma á friði.

Phyllis McNab var langt komin með að undirbúa jólin heima í smábænum Ashland í Nebraska þegar maðurinn hennar hringdi viku fyrir hátíðarnar og sagði að hann kæmist því miður ekki heim í jólafrí. Hann hét Richard „Gummo“ McNab og var flugstjóri um borð í risastórri B-52 sprengjuþotu í bandaríska flughernum og flugsveit hans hafði aðsetur á eyjunni Guam í Kyrrahafinu.

Hjónin höfðu hlakkað mikið til að halda jólin saman með dætrum sínum, 5 og 8 ára, en nú stóð víst mikið til, sagði Gummo á snarkandi línunni frá Guam, og öllum jólaleyfum flugsveitarmanna hafði verið aflýst. Phyllis beit í þetta súra epli, enda eitthvað sem eiginkonur bandarískra hermanna máttu alltaf búast við á þessum tíma.

„Friður í nánd“

Þetta var í desember 1972, hið kalda stríð stórveldanna stóð sem hæst og mörgu að sinna í hernaði, Víetnamstríðinu var enn ekki lokið þótt Kissinger utanríkisráðherra hefði lofað hátíðlega að „friður væri í nánd“ og Gummo hafði þegar tekið þátt í nokkrum sprengjuárásum yfir Norður-Víetnam á árinu. Svo Phyllis hélt áfram að undirbúa jólin, nú með dætrunum einum, og daginn eftir, þann 18. desember, kom í ljós hvað olli því að Gummo komst ekki heim í faðm fjölskyldunnar.

Walter Cronkite þulur sagði þá frá því ábúðarmikill í kvöldfréttum CBS að bandaríski flugherinn hefði hafið gríðarmiklar loftárásir gegn kommúnistastjórninni í Norður-Víetnam og B-52 sprengjuþotur frá bandarískum flugstöðum í Taílandi og á Guam létu nú sprengjum rigna yfir þetta þrjóska óvinaríki.

Miklar loftárásir

Richard Nixon

Haft var eftir Nixon Bandaríkjaforseta að tilgangur árásanna væri að koma á friði með því að knýja Norður-Víetnama aftur að samningaborði, en næstu dagana bólaði lítt á friði. Sprengjuárásirnar urðu greinilega sífellt harðari og fregnir tóku að berast af miklu mannfalli í Víetnam. Ekki síst meðal óbreyttra borgara.

Phyllis reyndi í jólaamstrinu að víkja frá sér hugsunum um víetnamskar mæður og börn sem yrðu fyrir sprengjum Gummos.

Skyldi fólk halda upp á jólin í Norður-Víetnam? hugsaði Phyllis. Áreiðanlega ekki, þetta voru jú bæði heiðingjar og kommúnistar. En samt, að láta sprengjur falla yfir konur og börn, það var óþægileg tilhugsun fyrir Phyllis um leið og hún mætti á aðventumessur í kirkjunni þar sem brosmildur prestur fór með kærleiksboðskap Krists fyrir litlu dæturnar hennar eftir að hafa spjallað um það fyrir messuna við kunningja sína að nú ætti greinilega loksins að sýna kommunum ærlega í tvo heimana.

Hörð mótspyrna

Svo fóru að berast óljósar fregnir af því að þrátt fyrir að þeir mættu þola ógnarlegt sprengjumagn væri mótspyrna Norður-Víetnama hörð og þeir hefðu skotið niður fáeinar, ja, nokkrar, kannski jafnvel margar, af risaþotunum B-52.

Gat það verið?

Phyllis varð æ ónotalegra við og þótt hún reyndi að vera glaðleg í fasi við dætur sínar á jóladag þar sem þær skríktu og skemmtu sér yfir jólagjöfunum, þá hafði mynd af látinni móður og tveim ungum börnum hennar í Víetnam skotið upp í huga hennar og henni tókst ekki að losna við hana.

Hafði Gummo kastað sprengjunni sem drap þessa móður og þessi börn? Hann Gummo, þessi ljúfi yndislegi piltur sem ekkert aumt mátti sjá? Og af hverju hringdi hann ekki til að óska gleðilegra jóla?

Ímynduð saga

Þessi saga um NcNab-fjölskylduna í Ashland, Nebraska, er að vísu tilbúningur greinarhöfundar en átti sér þó áreiðanlega stað í mjög áþekkri mynd um jólin 1972 eða fyrir réttum 50 árum.

Frá 18. til 29. desember gerðu Bandaríkjamenn einhverjar hörðustu og grimmilegustu loftárásir sem sagan kann frá að greina eftir síðari heimsstyrjöld, að minnsta kosti fram að innrás Rússa í Úkraínu. Jafnvel loftárásir Bandaríkjamanna sjálfra á Írak og Afganistan komast ekki í hálfkvisti við hryllinginn af himnum ofan „dagana 12 og nætur“ eins og Víetnamar kalla árásirnar sem á Vesturlöndum nefnast yfirleitt „Christmas bombings“.

Hvað var eiginlega á seyði?

Dien Bien Phu

Víetnam er ævafornt menningarríki en á ofanverðri 19. öld hafði ríkinu hnignað nokkuð. Nýlendusókn evrópsku stórveldanna stóð þá sem hæst og Frakkar réðust inn í landið og tóku það undir sína stjórn ásamt Laos og Kambódíu. Sjálfstæðishreyfingar komust á legg á fyrri hluta 20. aldar og voru kommúnistar þar á meðal. Japanir hertóku Víetnam í síðari heimsstyrjöld en þegar veldi þeirra hrundi hugðust Frakkar taka aftur við stjórn. Þá var hreyfing kommúnista orðin öflug í landinu, ekki síst í norðri, og árið 1954 biðu Frakkar ósigur fyrir Norður-Víetnömum í frægri orrustu við Dien Bien Phu.

Bandaríkjamenn mæta

Þá ákvað alþjóðasamfélagið að skipta Víetnam til bráðabirgða í tvennt og var norðurhlutinn undir óskoraðri stjórn kommúnista.

Halda átti kosningar til að ákveða framtíð landsins í heild en andkommúnísk öfl í suðurhlutanum, ekki síst í hernum, komu í veg fyrir það með því að stofna nýtt ríki Suður-Víetnams. Ljóst var frá byrjun að Norður-Víetnam hugðist leggja undir sig allt landið og naut stuðnings mjög öflugrar skæruliðahreyfingar í suðrinu, sem raunar laut beinni stjórn úr norðri.

Bandaríkjamenn komu þá til sögunnar og tóku að styrkja Suður-Víetnam með ráðum og síðar dáð til þess að koma í veg fyrir að kommúnistar í norðri (með stuðningi Sovétríkjanna og Kína) myndu ná landinu og síðan mögulega allri Suðaustur-Asíu.

Hér var búið að velja mynd af látinni víetnamskri móður með tveimur börnum sínum en þau voru öll drepin í jólaárás bandaríska flughersins. Að athuguðu máli ákvað greinarhöfundur þó að hlífa lesendum við þessari skelfilegu mynd nú rétt fyrir jólin.

Dómínó

„Dómínó-kenning“ Bandaríkjamanna gekk út á að ef einn dómínókubburinn á svæðinu (Víetnam) félli í hendur kommúnista myndu þeir allir falla (Laos, Kambódía, Búrma, Taíland).

Bandaríkjamenn tóku að sér æ stærri þátt í að verja Suður-Víetnam fyrir ásókn úr norðri og þegar kom fram á sjöunda áratuginn hófu þeir fulla þátttöku í átökunum og sendu þangað ógrynni liðs. En þrátt fyrir allan sinn hernaðarmátt náðu þeir aldrei að knésetja skæruliðahreyfinguna í suðri (oft kölluð Việt Cộng) og hvað þá heldur Norður-Víetnam. Þeir beittu frægum þyrlusveitum, þeir beittu stórskotaliði, þeir beittu Phantom-þotum og þeir beittu hinum risastóru B-52 sprengjuþotum en allt kom fyrir ekki.

Nixon og Kissinger

Um leið varð stríðið æ óvinsælla í Bandaríkjunum sjálfum og víðar og þótti augljóst dæmi um heimsvaldastefnu og yfirgang Vesturlanda.

Henry Kissinger

Árið 1969 komst Richard Nixon til valda í Bandaríkjunum en hann hafði lofað að binda endi á stríðið.

Leið hans lengi vel fólst þó fyrst og fremst í að halda áfram tilraunum til að brjóta Norður-Víetnam á bak aftur með hernaðarkrafti en þegar kom fram á árið 1972 var löngu orðið ljóst að það myndi ekki takast. Í forsetakosningum þá um haustið vann Nixon yfirburðasigur og lofaði nú „peace with honour“ eða „sómasamlegum friði“. Friðarviðræður, meira og minna leynilegar og með hléum, höfðu staðið yfir í París árum saman. Af hálfu Bandaríkjanna stýrði Henry Kissinger utanríkisráðherra. Þá um haustið var orðið nokkuð ljóst hvernig þær hlytu að enda.

Nixon reynir að bjarga andliti Bandaríkjanna

Nixon hafði þá fallist á að Bandaríkjamenn hyrfu á brott með her sinn án þess að herir Norður-Víetnams, sem héldu þá ýmsum svæðum í suðri, gerðu slíkt hið sama. Lýsa skyldi yfir vopnahléi, en ef stríðið héldi síðan áfram yrði það eingöngu á ábyrgð Suður-Víetnama að halda aftur af norðanmönnum og Việt Cộng.

Ljóst mátti vera að þetta væntanlega samkomulag væri Norður-Víetnam mjög í hag. Þrátt fyrir gríðarlega seiglu íbúa hafði stríðið gengið mjög nærri þeim. Þeim lá á að ljúka stríðinu.

Þá óttaðist kommúnistastjórnin í norðrinu að skánandi sambúð Bandaríkjanna við bæði Sovétríkin og Kína myndi leiða til þess að þeir fengju ekki fyrirvaralausan stuðning frá stóru kommúnistaríkjunum. Og þótt Norður-Víetnamar sýndu ótrúlega seiglu og baráttuhug var auðvitað ljóst að landið var á margan hátt í rúst og þjóðin orðin örþreytt á stríðinu.

Afhentir kommúnistum?

Þá vissu Norður-Víetnamar vel að fáir höfðu raunverulega trú á því að Suður-Víetnamar hefðu bolmagn til að verjast frændum sínum úr norðri.

Þrátt fyrir gífurlegan fjáraustur Bandaríkjanna í hirslur suður-víetnamska hersins (sem enduðu gjarnan á prívatreikningum gjörspilltra herforingja) grunaði flesta að sunnanmenn myndu til lengdar engan veginn standast þrautreyndum hersveitum skæruliða og norðanmanna snúning þegar óhjákvæmileg sókn kommúnista suður hæfist.

Og þannig yrðu íbúar Suður-Víetnams í raun afhentir kommúnistastjórninni í norðri á silfurfati, en þeir höfðu – hvað sem öflugri skæruliðahreyfingu kommúnista leið – ekki endilega áhuga á að lenda undir stjórninni í Hanoi, höfuðborg Norður-Víetnams.

Viðræður hökta

Í október og nóvember 1972 fór Nguyễn Văn Thiệu, forseti Suður-Víetnams, að setja fram ýmsar nýjar kröfur af því honum fannst Suður-Víetnamar eiga að sitja eftir í súpunni. Norður-Víetnamar, sem höfðu haldið að samningur væri meira og minna frágenginn, fyrtust við og settu þá fram sínar eigin nýju kröfur. Sama gerði Nixon fyrir hönd Bandaríkjanna, viðræðurnar fóru að hökta og þann 16. desember var þeim slitið í bili og Norður-Víetnamar neituðu í fússi að gefa upp dagsetningu fyrir nýjum viðræðum.

Nixon var ekkert að tvínóna við hlutina og strax daginn eftir fyrirskipaði hann ógurlegar loftárásir á Norður-Víetnam sem hófust svo þann 18. Hann hélt því statt og stöðugt fram að tilgangur með þessum morðárásum væri eingöngu að knýja Norður-Víetnama til friðarsamninga að nýju en ástæðan var líka, og ekki síður, pólitísk.

Pólitískar ástæður

Demókratar höfðu þá örugg tök á báðum deildum bandaríska þingsins og þeir höfðu boðað að þegar þing kæmi saman í byrjun janúar myndu þeir binda snarlegan endi á Víetnamstríðið með því einfaldlega að setja lög sem kæmu í veg fyrir fjármögnun þess. Nixon gat ekki hugsað sér að pólitískir andstæðingar fengju þannig „heiðurinn“ af því að stöðva stríðið, sem hann hafði tvívegis lofað kjósendum í USA að ljúka. Sú pólitíska þörf Nixons átti ekki minnstan þátt í því að hann sendi sprengjutröllin B-52 á loft að drepa fólk.

Að sjálfsögðu var því haldið fram að markmið sprengjuárásanna væri að eyðileggja innviði og hernaðarmannvirki Norður-Víetnams. En sprengjum rigndi þó oft eins og af handahófi yfir íbúðahverfi, sjúkrahús og skóla.

55 börn þurftu að deyja

Og þótt Norður-Víetnamar væru að fenginni sárri reynslu orðnir meistarar í að koma sínu fólki undan í loftvarnarbyrgi eða hreinlega út í sveitirnar þegar árásir hófust, þá var mannfall mikið. Í árás á Hanoi annan jóladag, meðan hin ímyndaða Phyllis mín McNab fór í jólaboð til pabba og mömmu og brosti taugaóstyrk þegar fólk óskaði henni til hamingju með hvað Gummo stæði sig vel við að lumbra á kommunum, þá voru 278 drepnir, þar af 91 kona, 40 gamalmenni og svo þurftu 55 börn að deyja svo Nixon þyrfti ekki að þola pólitískan löðrung.

Engar sprengjur komu hins vegar úr háloftunum til að drepa Phyllis og dæturnar í Ashland, hvorki raunverulegar né ímyndaðar.

Við eina götu í Hanaoi misstu 178 börn foreldra sína þennan dag og 534 hús – íbúðarhús, skólar, hof, leikhús, sjúkrastofnanir – voru gereyðilögð.

Alls dóu í loftárásunum að líkindum vel á þriðja þúsund óbreyttra borgara.

Sex B-52 skotnar niður á einum degi

En Norður-Víetnamar svöruðu fyrir sig, hvort þeir gerðu. Þótt B-52 vélarnar flygju svo hátt að þær voru ekki einu sinni sjáanlegar frá jörðu niðri og þótt Bandaríkjamenn hefðu gert sitt ýtrasta til að lama loftvarnir í norðri með sprengjuárásum allt árið 1972, þá náðu loftvarnarflaugar að skjóta niður hvorki meira né minna en 16 B-52 vélar og níu til viðbótar löskuðust.

Aðrar 12 bandarískar vélar voru og skotnar niður. Þar af voru sex B-52 grandað á einum og sama deginum, þann 20. desember. Þetta var ótrúlega mikið tjón fyrir herveldið USA. Æ

Eigum við ekki að segja að hann Gummo okkar McNab hafi verið einn 43 bandarískra flugmanna sem létu lífið?

Árásirnar vöktu mikil viðbrögð og hörkulega andúð um heim allan. Friður hafði verið sagður í nánd og þá gerðist þetta. 207 B-52 vélar „teppalögðu“ Norður-Víetnam með eldi og brennisteini – og blóði. Páfinn mótmælti. Olof Palme sagði hátterni Nixons og Kissingers sambærilegt við framferði þýskra nasista. Þeir létu sér þó fátt um finnast.

„Unnu“ Nixon og Kissinger?

Árásunum var hætt 29. desember. Þá höfðu Norður-Víetnamar gefið til kynna að þeir væru tilbúnir til að hefja viðræður að nýju. Nixon gat því fagnað blóðugum sigri. En siguróp hans voru hol. Áður en jólaárásirnar hófust hafði stjórnin í Hanoi þegar ákveðið að ganga til viðræðna að nýju. Og það mátti Nixon vel vita að myndi gerast. Hann og Kissinger ákváðu hins vegar að drepa svolítið af fólki til þess eins að geta sagt:

„Sáuði hvernig við tókum þá?“

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár