Átján ára gamall nemandi Verzlunarskóla Íslands var nálægt því að komast á lista yfir tekjuhæsta eina prósentið hér á landi. Launatekjurnar voru engar en tekjurnar voru tilkomnar vegna ávöxtunar á fjármunum.
Fyrir nokkrum árum eignaðist 19 ára nemandi Verzlunarskólans viðskiptaveldi sem velti rúmlega sex milljörðum króna. Fyrri eigandi félagsins var faðir hans, Karl Wernersson, en eignatilfærslan var tilkynnt daginn eftir að Karl fékk fangelsisdóm vegna efnahagsbrota. Eignirnar fólust meðal annars í 30 fasteignum; skrifstofuhúsnæði, jörðum, verslunarhúsnæði og íbúðum. Þar á meðal var 400 fermetra einbýlishús á Arnarnesi, heimili föðurins. Bentley og nýlegur Volvo-jeppi voru líka undir. Verðmætasta eignin var vafalaust lyfjaverslunarkeðjan Lyf og heilsa, sem Karl seldi út úr gjaldþrota félagi nokkrum mánuðum fyrir hrun. Seinna var Karl dæmdur til að greiða gjaldþrota félaginu milljarða skaðabætur. Hvorki Karl né nýr eigandi milljarða viðskiptaveldis svöruðu spurningum fjölmiðla vegna málsins. Annar þeirra skellti á blaðamann í miðju símtali.
Ykkur kemur þetta ekki við, voru skilaboðin.
Fyrr í sumar urðu sex systkini í Grindavík milljarðamæringar þegar þau seldu útgerðarfélag foreldra sinna fyrir yfir 20 milljarða. Þannig eignuðust jógakennari, ljósmyndari, leikskólakennari, kennari og kórstjóri, framkvæmdastjóri og útgerðarstjóri hvert um sig 3,4 milljarða. Það þurfa ekki allir leikskólakennarar að harka.
Saga Vísis
– saga af afskriftum, afslætti og milljarða hagnaði
Útgerðarfyrirtækið sem þau arfleiddu tók þátt í útrásinni fyrir hrun en endaði skuldum vafið, fékk sérstakan afslátt á veiðigjöldum vegna slæmrar skuldastöðu og 1.700 milljónir afskrifaðar.
„Þetta var allt gert í samræmi við andrúmsloftið 2007,“ útskýrðu stjórnendur fyrirtækisins. Ef eitthvað má læra af 2007 þá er það kannski að þeir sem fengu fyrirgreiðslur og himinháar launagreiðslur, sem voru skýrðar með mikilli ábyrgð, þurftu sjaldnast að axla hana þegar á reyndi. Gróðinn var eigenda, tapið lagðist á almenning. Sérstök veiðigjöld voru lögð á sameiginlega auðlind þjóðarinnar, en heildarafsláttur útgerðarfélaga nam meira en fjórðungi veiðigjaldanna, um 2.700 milljónum króna.
Í hagræðingarskyni var vinnslustöðvum lokað á Húsavík, Þingeyri og Djúpavogi, þar sem um 150 manns störfuðu. Bæjarstjórar töluðu um áfall, blóðtöku og boðað var til neyðarfundar. Erfingjarnir bentu hins vegar á að Grindavík hefði líka orðið fyrir röskun í fortíðinni, þar hefði líka verið blóðtaka og flutningar þaðan. „Allt er þetta breytingum háð,“ sagði sonur Vísis. Starfsfólkið gæti farið til Grindavíkur að vinna þar sem félagið hafði keypt fiskvinnsluhús sem verið var að breyta í litlar íbúðir. „Þetta er til að bæta í flóruna fyrir fólk.“ Áður en áratugur var liðinn var fyrirtækið síðan selt með milljarða hagnaði, sem er að mestu tilkominn vegna úthlutaðra aflaheimilda, sem rann í vasa erfingja.
Stóru raunverulegu verðmætin í útgerðarfélögunum eru kvótinn, heimildirnar til að nýta sameign þjóðarinnar, en þau verðmæti eru ekki bókfærð á réttu verði í bókhaldi útgerðanna. Nú hefur endurskoðandi útgerðarfélagsins Vísis kært hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands til siðanefndar, vegna þess að prófessorinn lýsti efasemdum um að aflaheimildir væru metnar með gagnsæjum hætti í árseikningum. Hagfræðiprófessorinn benti á að fyrst varanlegur kvóti er seldur á 4.000 krónur þorskígildið sé verðmæti kvóta sem útvegsfyrirtækið ráðstafar 50 til 60 milljarðar en ekki fjórtán, líkt og bókfært væri í ársreikningi. Það er „dálagleg dulin“ “eign,““ skrifaði hann.
Í systkinahópnum sem erfði milljarða virði af kvóta Vísis er „þingmaður útgerðarinnar“, eins og hann lýsti því sjálfur í ræðustól Alþingis og aðalfundi Landssambands íslenskra útgerðarmanna. Ekki aðeins hafði hann rætt málefni fyrirtækisins við þingmenn heldur einnig annarra útgerða. Oft fengi hann smáskilaboð frá útgerðarmönnum sem hann áframsendi til ráðherra. Á meðan hann sat á þingi sagðist hann gæta að eiginhagsmunaárekstri með því að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu um veiðigjöld. Tók samt þátt í nefndarstörfum við vinnslu lagabreytinganna, greiddi atkvæði með meirihlutaáliti atvinnuveganefndar og tjáði sig óhikað um breytingarnar. Veiðigjöld Vísis lækkuðu úr 450 milljónum í 231. Eins var hann virkur í nefndarstörfum vegna makrílkvótans, en frumvarpið færði útgerðarfyrirtæki í eigu eiginkonunnar kvóta að andvirði 50 milljónum. Áður hafði hann sjálfur átt hlut í félaginu, verið framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Þegar eiginkonan var innt svara við því hvenær hlutur hans hefði orðið hennar, sagðist hún „ekkert ætla að tjá sig um það“ .
Ykkur kemur það heldur ekki við.
Eða þegar hann sagðist hafa selt hluta af eign sinni í Vísi. „Ég hefði þess vegna getað sagt við fólk að það væri nú líf eftir Vísi,“ sagði Páll Jóhann Pálsson og bætti svo við: „Svo fékk ég arð.“
Íslenska eina prósentið
– sækja auðinn í sameiginlega auðlind
Kortlagning Stundarinnar á tekjuhæsta eina prósentinu leiðir tvennt í ljós. Annars vegar hvað það er fámennur hópur sem hagnast miklu meira en aðrir. Hins vegar hversu stór hluti hans hagnast á sameiginlegum auðlindum. Tekjuhæstu Íslendingarnir, að teknu tilliti til fjármagnstekna, eru útgerðarmenn. Þrír þeirra greiddu rúmlega 680 milljónir í fjármagnstekjuskatt. Allir sem greiddu meira en 300 milljónir í fjármagnstekjuskatt eru útgerðarmenn, með einni undantekningu. Sá seldi hugbúnað. Auðlindir sjávar eru sameign þjóðarinnar, en aðeins lítill hluti ágóðans af þjóðareigninni rennur til þjóðarinnar í formi veiðigjalda. Auðlindarentan rennur til fámenns hóps útvegsmanna, sem geta fénýtt auðlindina, veðsett hana, selt áfram og látið ganga til afkvæma sinna.
Lengi var litið á Ísland sem jafnaðarmannasamfélag, en það var í kringum 1995 sem stjórnvöld fóru að breyta leikreglunum með þeim hætti að ójöfnuður jókst smám saman, stigmagnaðist og náði hámarki á árunum fyrir hrun. Í bókinni Ójöfnuður á Íslandi, eftir þá Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson, er því vel lýst hvernig það var engin tilviljun að hér varð til eitt stærsta bóluhagkerfi sögunnar í hlutfalli við stærð þjóðarbús, heldur voru það aðgerðir stjórnvalda sem gerðu það að verkum að markaðurinn einkenndist af ofþenslu og spákaupmennsku með lánsfé, sem færði litlum hópi fólks í allra hæsta tekjuhópnum miklar fjármagnstekjur. Á þessum árum varð umfang fjármagnstekna vegna viðskipta með hlutabréf og aðrar eignir hlutfallslega meiri hér en hefur sést í öðrum vestrænum samfélögum á síðustu áratugum. Ójöfnuður jókst með meiri hraða hér heldur en í Bandaríkjunum og ríkustu Íslendingarnir voru með einna hæstu ráðstöfunartekjur samsvarandi hópa í Evrópu.
„Ójöfnuður skekkir þessa mynd. Hann gefur ákveðnum aðilum leiðir að völdum“
Samfélagið breyttist. Á því tímabili sem tekjur tekjuhæsta eina prósentsins hækkuðu um 653 prósent, hækkuðu tekjur almennings um 66 prósent. Samhliða jókst skattbyrðin mest á lágtekjufólk, minna á millistéttina en lækkaði hjá hátekjufólki. Eignamesti þriðjungur þjóðarinnar eignaðist á þessu tímabili 90 prósent hreinna eigna.
Svo skall hrunið á og allt breyttist – og þó.
Stjórnvöld gripu til aðgerða til að stuðla að auknum jöfnuði, með breyttu skattkerfi, auðlegðarskatti og veiðigjöldum. Þar til ný ríkisstjórn tók við völdum.
Þrátt fyrir hrunið sátu miklar eignir enn eftir hjá þeim sem mest áttu. Þeir sem eiga eignir hafa meiri tækifæri en aðrir til að auka eignir og þannig vex auður ákveðins hóps hraðar en annarra. Árið 2019 hafði ríkasta eina prósentið aukið eignir sínar um 94 prósent frá 2010. Um er að ræða 2.420 fjölskyldur sem áttu samtals 865 milljarða. Enn þrengri hópur, 0,1 eina prósentið, jók eignir sínar um 74 prósent á sama tímabili, eða 22 milljarða á milli ára. Þessum hópi tilheyra 242 fjölskyldur sem áttu hver um sig 1,2 milljarða í hreina eign. Til samanburðar má millistéttin prísa sig sæla með að eignast fasteign og lágstéttin á yfirleitt ekkert, nema skuldir.
Áhrif ójöfnuðar
– gefur ákveðnum aðilum leiðir að völdum
Fjárhagslegur auður veitir fólki ekki aðeins frelsi frá áhyggjum af afkomu, aukin lífsgæði og tækifæri, heldur vald. Samþjöppun auðs hefur tilhneigingu til að stigmagnast. Aukið vald fámenns hóps getur ógnað lýðræði.
Næstefstur á lista yfir launahæstu Íslendingana er Haraldur Þorleifsson, verkamannasonur sem hagnaðist á sölu hugbúnaðar. Í viðtali við Stundina viðrar hann áhyggjur sínar af þessari þróun. Lýðræði ætti að virka þannig að allir hafi sambærileg völd en ójöfnuður skekkir myndina. „Ójöfnuður skekkir þessa mynd. Hann gefur ákveðnum aðilum leiðir að völdum umfram eðlilegt lýðræðislegt umboð,“ segir Haraldur. „Að sama skapi getur ójöfnuður þaggað niður í þeim sem eiga minna.“
Hér á landi hefur það meðal annars birst í því að auðmenn hafa notað peningana til þess að niðurgreiða valda fjölmiðla og fara á eftir öðrum, stefna fjölmiðlafólki fyrir dóm, sækja að embættismönnum, eftirlitsstofnunum og einstaklingum sem þar starfa, fræðimönnum og öllum sem hafa það hlutverk að veita aðhald í samfélaginu. Útgerðir styrkja stjórnmálaflokka, ráðherra situr leynifund með LÍÚ og ný stjórnarskrá með skýru ákvæði um auðlindir í eigu þjóðarinnar er drepin. Forsætisráðherra lýsir áhyggjum af samþjöppun í sjávarútvegi, þar sem örfáir einstaklingar fóru með meira en 30 prósent kvótans í fyrra, en eignast stöðugt meira.
„Ef samfélagið passar ekki upp á að jafna þennan leik þá verður smátt og smátt til kerfi þar sem fáir einstaklingar hafa völd langt umfram það sem getur talist eðlilegt,“ segir Haraldur. Aðspurður hvort ójöfnuður sé áberandi í íslensku samfélagi, svarar hann afgerandi: „Við sjáum hann öll á hverjum degi.“ Þótt því sé gjarnan haldið fram, búi Íslendingar „alls ekki“ allir við sömu tækifæri.
Eitt skýrasta dæmið um það er eflaust þegar börn aðaleigenda Samherja fengu stærsta útgerðarfélag landsins að gjöf frá foreldrum sínum, fyrirfram greiddan arf að andvirði 60 til 70 milljarða. Félag sem heldur utan um eignir tveggja þessara barna hagnaðist um 3,2 milljarða á fyrsta árinu. Hrein eign félagsins nam tæpum sjö milljörðum árið 2021, en bókfærðar eignir voru um 40 milljarðar. Þótt faðir þeirra hafi þegar fært hluta eignanna yfir á börnin, sem hann gerði ári eftir að upp komst um mútugreiðslur í Namibíu, situr Þorsteinn Már Baldvinsson sjálfur enn ofarlega á lista yfir tekjuhæsta eina prósentið. Í árslok 2021 héldu Samherji og mögulega tengdir aðilar á meira en 22 prósent af öllum kvótanum.
Kannski kemur ykkur það við.
Á Íslandi býr fámennur hópur fólks í landi sem býr yfir óvenju miklum gæðum. Vaxandi ójöfnuður, eigna- og valdasamþjöppun er ekki náttúrulögmál, heldur afleiðing ákvarðana stjórnvalda. Ef stjórnvöld gerðu sanngjarna kröfu um ávöxtun af nýtingu auðlinda í þjóðareign, gætu allir lifað hér góðu lífi.
????
Stjórnvöld þóttust gripa til aðgerða ( og vel gætt að hægt væri að bakfæra öll óþægindi sem það gæti valdið... tímabundi amk. )og engin breyting varð á þeim þykjustuleik þegar ný ríkisstjórn tók við völdum. Af hverju heldur þú að 4 fjölmiðlamenn standi núna í málamyndargerningi sem kerfið þarf ekki að bera ábyrgð á að sé framkvæmdur. Ekkert hefur breyst og meðvirknin er nær alger.. þetta var ekki og er ekki spurning um okkur og hina... heldur hvort menn vilji kerfi sem virkar.... jafnvel þó svo "góða fólkið" falli í valinn.
Okkar maður á Íslandi ( our man ) sögðu Magmamenn... og það var ekki sjalli. Frekar fyndið að Samherji notaði víst svipað orðalag. Katrín hefur sýnt að það sem hún segir og það sem hún gerir er ekki það sama... því miður á það líka við pírata... því meðvirkni er spilling og í raun versta spillingin. Og bæði sitja sem fastast. Þessvegna stendur Samherji ennþá ósnertur.... líkt og svo margir aðrir. Mesta furða að "bjargvættirnir" hafa ekki sett þjóðina á hausinn... með skaldborgum (ólöglegum ?) um kröfuhafa, aðgerðarleysi vegna málarmyndargerninga og engri kröfu um ábyrgð kerfis eða stjórnmálamanna... því það gæti einhver úr "góða liðinu" fallið snarlega þá. Leynisamningar við breta og je dudda mía.
Og hvar eru sambærileg lög til að taka á bullinu eins og gert er stundum erlendis... jú... annaðhvort hunsuð eða hreinlega ekki til.
Það er auðvitað engin vitnavernd né varnir á Íslandi, sýndarleikur sem þið hósíönnuðuð yfir... og þið þegið meðvirk um þá staðreynd.
Þið talið mikið.... en er ykkur treystandi til að vinna verkin sem vinna þarf ? Eða eru "stjórnvöld" alltaf hinir ?