„Ég hélt í einfeldni minni að einu sinni kæmist ég ógrenjandi í gegnum Gleðigönguna en svo sá ég ykkur öll og fann ástina og stuðninginn ...“ skrifaði ég 6. ágúst og stafrænum hjörtum, þumlum og knúsum rigndi yfir færsluna í hundraða tali. Það er aldrei dásamlegra að vera hinsegin kona á Íslandi en þessa viku sem við fögnum hinseginleikanum með öllum sem vilja samgleðjast yfir þeirri staðreynd að við séum alls konar. Þegar ég settist niður til að skrifa þessa grein rann upp fyrir mér að það var ekki svo langt síðan ég grenjaði síðast á Facebook. Þann 25. júní síðastliðinn skrifaði ég nefnilega: „Reyni að senda ást og muna að fyrir hvern lítinn karl sem beitir ofbeldi og hatri eru til þúsundir góðra manneskja sem vilja að ástin og samkenndin sigri. Samt græt ég og hjartað mitt núna.“ Þetta var daginn eftir skotárásina á hinsegin fólkið í Osló.
En víkjum aftur að Gleðigöngunni, því það er betra að hugsa um gleði en sorg. Þessi fallegi sólardagur var einstaklega hjartnæmur fyrir mína fjölskyldu því í fyrsta sinn frá því sonur minn kom út sem trans, þá sjö ára gamall, gat hann tekið þátt í Gleðigöngunni sem hafði legið í Covid-dvala. Nú er hann níu ára. Hann heitir Eldar og er fullkominn. Ég skrifa hér nokkur orð um hann í þeirri von að sem flest skilji hann en líka vegna þess að stundum er ég alveg ógeðslega hrædd um hann. Í dag er hann saklaus fótboltastrákur – glaðlyndur, skapstór, klár, hagmæltur, stjórnsamur, fyndinn og bjartur. Rétt eins og öll börn er hann alls konar en eitt get ég fullyrt og það er að hann hefur aldrei verið eins hamingjusamur eins og frá því að hann gat treyst heiminum fyrir því hver hann raunverulega er.
Ég er farin að hata orðið „bakslag“
Í Gleðigönguna hafði sonur minn mætt árlega frá fæðingu, eigandi tvær mömmur, en í fyrsta sinn í ár gekk hann sem Eldar. Hann sjálfur. Þegar við söfnuðumst saman við Hallgrímskirkju með öðrum sem gengu undir merkjum Samtakanna 78 í göngunni sagði hann skyndilega: „Mamma, mig langar í trans fána.“ Fyrir tilviljun var einmitt verið að leita að fólki til að bera slíkt flagg sem drengurinn sveipaði sig stoltur og arkaði svo af stað. Ég horfði á þessar litlu axlir umvafðar viðkvæmnislegum litum fánans og sá glitta í nafnið hans á landsliðsbúningnum sem hann klæddist þennan dag. ELDAR. Þetta var efsta nafnið af 10 á listanum sem hann hafði sett saman aleinn á gólfinu í herberginu sínu, löngu áður en hann þorði að segja okkur að hann væri strákur. Nú stóð nafnið hans á þessu litla fullkomna baki sem er svo ótrúlega langt frá því að vera breitt. Á mjúka líkamanum sem er svo allt of lítill til að eiga að þurfa að þola það að vera fordæmdur eða hataður fyrir nokkurn hlut.
Undanfarna mánuði hef ég séð orðið „bakslag“ oftar en mömmuhjartað mitt þolir með góðu móti og í hvert sinn hugsa ég um litla fallega bakið á syni mínum. Mun einhver gelta á hann einn daginn eða segja honum að kála sér? Ég ætla að leyfa mér að trúa því að svo verði ekki því ég trúi á þetta litla samfélag okkar og ég veit hvers við erum megnug þegar samtakamátturinn ræður för. En kannski er ég bara í afneitun. Ég veit nefnilega að það þarf meira en hjörtu og like á Facebook til þess að sá sjálfsagði draumur að barnið mitt fái að lifa án þess að verða fyrir hatri og fordómum verði að veruleika. Það þarf raunverulegar aðgerðir.
Ragnhildur Sverrisdóttir skrifaði merkilega grein í tímarit Hinsegin daga þar sem hún sagði meðal annars: „Mannréttindi okkar eru bara þunn skán. Eða öllu heldur litrík olíubrák sem liggur yfir öllu, nóg til að lægja stærstu öldurnar. En auðvitað allt of þunn til að halda aftur af kraftinum í djúpinu til lengri tíma, fari að hvessa duglega.“ Grein Ragnhildar er reynslusaga um þá fordóma sem samkynhneigðir hafa orðið fyrir í gegnum áranna rás. Í henni segir: „Hatrið sem núna beinist að trans fólki lýtur öllum sömu lögmálum og hatrið sem áður beindist að okkur. Það eru öll sömu rökin. Nei, öll sama rökleysan. Allt sama fólkið sem talar og talar og talar um tilfinningar annars fólks. Hvernig því getur hreinlega ekki liðið svona, hvernig því hlýtur að líða eða ætti að minnsta kosti að líða, hvernig heimsmyndin öll er undir því komin að þetta fólk sé ekki það sjálft.“
Einu sinni voru hatursfullu athugasemdirnar við fréttir á netmiðlum um hinsegin málefni kannski ein til tvær, en núna skipta þær gjarnan tugum. Það er ekki langt síðan að fjölmiðillinn sem þú ert að lesa birti einhliða umfjöllun um málefni trans barna sem var olía á fordómaeldinn og kynti verulega undir málstað þeirra sem neita að skilja hversu stór hluti af sjálfsmynd og hamingju kynvitund er. Það er líka óþægilega stutt síðan regnbogafánarnir voru skornir niður á Hellu. Aðeins lengra síðan krotað var í tvígang á fánann við Grafarvogskirkju. Fáninn við kirkju í Kópavogi var líka skorinn niður fyrir skemmstu og það eru bara nokkrir mánuðir síðan hinsegin ungmennin opnuðu sig í Kastljósi um kerfisbundna og ógeðslega eineltið sem þau verða fyrir. Eitt barnið úr þeim vinahópi brotnaði og tók líf sitt. Einhverjar vikur eru liðnar frá því gelt var á hommana sem voru að fagna brúðkaupsafmæli sínu. Sennilega var það um svipað leyti og aðstoðarríkissaksóknari sagði hinsegin hælisleitendur ljúga um kynhneigð sína og spurði svo í framhaldinu hvort skortur væri á hommum á Íslandi? Ég man ekki tímalínuna nákvæmlega en ég veit að þegar þetta er skrifað var það í gær sem nýnasista-slagorð var krotað yfir hinsegin listaverkin við Austurvöll. Mikið af þeirri hatursfullu orðræðu sem er farin að vella upp á yfirborðið á netinu beinist gegn trans fólki, jafnvel börnum.
„Því miður eru fordómar og ofbeldi gegn hinsegin fólki á Íslandi ekki nýlunda“
Ég hef blendnar tilfinningar gagnvart orðinu bakslag því ég óttast að of mikil athygli á neikvæðar aðgerðir kyndi undir slíkri háttsemi. Því miður eru fordómar og ofbeldi gegn hinsegin fólki á Íslandi ekki nýlunda. En óneitanlega mynda öll þessi tilvik mynstur. Flest tilvikin eiga það sameiginlegt að hafa gerst á þeim stutta tíma sem liðinn er frá skotárásinni í Osló. Árásinni sem setti hinsegin hatrið í ógnvænlegt samhengi sem er kannski ástæðan fyrir því hversu gjörn við erum nú á að nota orðið bakslag. Heildarmyndin lýgur ekki og þetta mynstur er bakslag. Högg. Raunveruleg högg í bakið á okkur öllum í hinsegin samfélaginu og þar með högg í andlitið á mannréttindum á Íslandi. Það er farið að hvessa og litríka olíubrák regnbogans, sameiningartáknsins okkar, dugir ekki ein og sér til að lægja þessar öldur. Þó við þéttum raðirnar eftir fremsta megni þá getum við ekki staðið þetta veður af okkur ein. Því er ákall mitt með þessari grein að samfélagið sýni samtakamátt sinn og standi gegn þessari vindátt fordóma áður en það gerir frekara mannskaðaveður. Fordómar og fáfræði verða aðeins sigruð með fræðslu og samtali. Ég bið um samstöðu til þess að krefja stjórnvöld okkar um að skerast strax í þennan leik og veiti fjármagni til fræðslu með afgerandi hætti.
Sumir strákar eru með typpi
Áður en Eldar kom út sem strákur var tilvist hans að mörgu leyti flókin. Um leið og hann náði aldri til að geta tjáð sig um útlit sitt var ljóst að hann vildi ekki líta „stelpulega“ út. Hann hafnaði öllum fötum sem gátu flokkast kvenleg og krafðist að fá að klippa sig stutt strax í leikskóla. Eftir því sem á leið fannst okkur foreldrum hans þetta meira áberandi hluti af tjáningu barnsins og við leituðum ráðgjafar hjá Samtökunum 78. Þar hittum við frábæran ráðgjafa sem sagði okkur að hann væri að sýna „ódæmigerða kyntjáningu“ sem þýddi í raun ekkert sérstakt á þessu stigi. Við fengum upplýsingar um að ágætt væri að fræða hann, rétt eins og önnur börn, um það að sumir strákar fæðast með typpi en aðrir með píku. Við gerðum það með afslöppuðum hætti eitthvert kvöldið og viðbrögð hans voru að spyrja forviða hvers vegna honum hefði ekki verið sagt þetta fyrr? Við gátum aðeins svarað af einlægni að okkur hefði ekki dottið það í hug. Hann vildi ekki ræða þetta frekar og það var ekki fyrr en einu og hálfu ári síðar sem hann trúði mömmu sinni fyrir því að hann væri hinsegin – hann væri strákur. Léttirinn sem barnið upplifði var áþreifanlegur þegar honum var sagt að þetta væri allt í lagi og að við myndum styðja hann til að hann gæti verið sá sem hann er.
Á þessum tímapunkti héldum við foreldrarnir að við hefðum nægan tíma til þess að haga seglum okkar eftir vindi, en svo reyndist alls ekki. Barnið var löngu tilbúið og við þurftum hreinlega að hlaupa til að geta rutt honum braut. Strax næstu helgi var búið að tala við skólastjórnendur og kennara. Fræðslustýra Samtakanna 78 brást við á örskotsstundu og kom á mánudeginum og fræddi bekkjarfélaga og kennara um trans málefni og hinseginleikann. Fræðsla sem augljóslega ætti að standa öllum börnum og kennurum til boða. Fyrir krökkunum var þetta jafn sjálfsagt og að tölustafurinn þrír kemur á eftir tveimur og frá þessum tímapunkti hefur ekki verið neitt vesen í skólanum þar sem allir umvefja drenginn með kærleika og sjá hann fyrir það sem hann er.
„Mér hefur fundist eins og honum hafi vaxið agnarsmáir vængir sem smám saman stækka og styrkjast“
Andleg líðan barnsins gjörbreyttist um leið og hann fann sinn rétta stað. Skyndilega gat hann æft íþróttir og mætt í barnaafmæli án vandræða, en hvort tveggja hafði reynst honum þrautinni þyngra. Ég man eftir að hafa keyrt með hann grátandi oftar en einu sinni frá stelpuafmælum í algjörri uppgjöf því hann treysti sér ekki inn. Sé fyrir mér innpakkaða gjöf með handskreyttu korti í smáum höndunum. Hann er flinkur með tungumálið og hafði á þessum tíma orðað líðan sína með því að segja „mamma, ég tilheyri ekki“. Að sama skapi sáum við hvernig hann elskaði að nota karlkynsfornöfn um sjálfan sig frá fyrsta degi og ruglaðist aldrei á okkar flókna og kynjaða tungumáli. Loksins pössuðu orðin á hann. Tilfinningar á borð við kvíða, reiði og spennu rénuðu markvisst og sífellt styttra var í prakkaralegt brosið. Að sjá krakka sem hefur verið boginn og utanveltu vakna til lífsins og opna sig eins og lítið blóm er undursamleg tilfinning fyrir foreldri. Mér hefur fundist eins og honum hafi vaxið agnarsmáir vængir sem smám saman stækka og styrkjast og lyfta sál og sjálfsáliti hans örlítið hærra með hverjum mánuðinum. Þrátt fyrir gleðina sem þetta veitir mér, væri ég að ljúga ef ég segðist ekki kvíða því hvernig líðan hans verður á unglingsárunum. Eða ef ég segði að ég hefði ekki áhyggjur af ýmsu sem tengist því að hann sé trans – rétt eins og foreldrar hafa áhyggjur af börnum sínum af alls kyns ástæðum. Það skyggir þó ekki á þakklætið sem ég finn fyrir vegna aukinnar lífshamingju sem það hefur fært honum að gangast við sjálfum sér og hversu vel honum líður í eigin skinni í dag.
Biðlistar sem stytta sig sjálfir
Sonur minn horfði hugfanginn á trans fólk í Gleðigöngunni bera risavaxinn fána þessa hóps með stolti. Mörg báru líka skilti. Hann skildi sumar áletranir en spurði út í aðrar. Sem betur fer sá hann ekki skiltið sem á stóð: „Biðlistar sem stytta sig sjálfir“. Þessi áletrun hitti hins vegar foreldra hans í hjartastað enda er það ógnvænleg staðreynd hversu undirmannað trans teymi Landspítalans er. Í Facebook-hópi fyrir aðstandendur trans barna birtast reglulega færslur frá örvæntingarfullum foreldrum barna sem fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa og þjást fyrir vikið. Hér er mikilvægt að árétta að á Íslandi eru ekki gerð líkamleg inngrip á trans börnum sem ekki eru afturkræf. Það virðist t.d. ríkja sá misskilningur sums staðar að framkvæmdar séu skurðaðgerðir á trans börnum á Íslandi en slíkt er einfaldlega rangt.
„Samþykki trans barna getur hreinlega skilið á milli lífs og dauða“
Rannsóknir[1] sýna að eitt atriði sker sig aðallega úr hvað varðar andlega heilsu trans barna og ungmenna. Þetta stóra lykilatriði er samþykki – að börnin fá að vera þau sem þau segjast vera án þess að umhverfið reyni að kúga þau til annars. Samþykki trans barna getur hreinlega skilið á milli lífs og dauða. Þó þetta eigi auðvitað fyrst og fremst við um það hvernig fjölskyldan tekur þeim, er samþykki margslungið fyrirbæri. Er samþykkið skilyrðislaust eða ertu hvattur til þess að bíða aðeins eða ekki segja öllum frá þér? Þarna liggur stór munur. Samþykkið þarf líka að teygja anga sína út í öll kerfi samfélagsins, sérstaklega skóla-, félags- og heilbrigðiskerfa.
Til að barn sé fullkomlega samþykkt í sínu kyni og kyntjáningu þarf barnið að fá að stjórna ferðinni, til dæmis vera rétt kynjað og að rétt nafn þess sé notað. Fyrir suma er þetta því miður of stór biti til að kyngja. Ótti fullorðinna við afturkræfar breytingar á borð við nafn, fornöfn, hvernig barn klæðir sig eða hefur hár sitt getur því miður orðið það mikill að barnið fær ekki þetta dýrmæta samþykki, sem andleg heilsa þess veltur á að svo stóru leyti. Þó þetta reynist ekki öllum auðvelt er sem betur fer hægt að sækja bæði fræðslu og stuðning hjá Samtökunum 78 um þessi mál. Auk þess sem starfræktir eru jafningjafræðsluhópar fyrir börn, ungmenni, foreldra og aðstandendur.
Ákall
Ég þekki það af mínum störfum sem lögfræðingur að það er að mörgu leyti einfaldara að berjast fyrir réttindum annarra en sjálfs síns og sinna nánustu. Að skrifa um son minn er eins og að setja hrátt og sláandi hjartað úr sér á silfurbakka og rétta hann fólki sem þú veist ekki hvort þú getur treyst. En orð eru til alls fyrst. Nú falla hatursfull orð og gjörðir í meira mæli en áður. Orðin sem falla eru stórhættuleg, ekki bara vegna þess að þau meiða heldur líka vegna þess að þau búa til farveg fyrir grafalvarlegar gjörðir eins og áreiti og ofbeldi.
Börn eru bara börn. Þau eru alls konar en eiga það sammerkt að fæðast saklaus og eiga rétt á að vera samþykkt eins og þau eru. Sonur minn fæddist ekki í „röngu kyni“. Það er nákvæmlega ekkert rangt við hann. Hann er dásamlegur hraustur strákur sem mun lenda í ýmsu flóknu í lífi sínu rétt eins og við hin. Hann tekur ekki meira pláss en aðrir og hann biður ekki um annað en að fá að vera sá sem hann er, því aðeins þannig getur hann verið heill og hamingjusamur og tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
Ég endurtek: Fordómar og fáfræði verða aðeins kveðin niður með fræðslu og samtali. Við getum ekki sigrað þessa baráttu ein og þess vegna verða stjórnvöld að skerast í leikinn strax með afgerandi hætti og styrkja fræðslu um hinsegin málefni, til dæmis með auknu fjármagni til fræðsludeildar Samtakanna 78. Við þurfum samstöðu um þrýsting á stjórnvöld á Íslandi til að sýna með raunverulegum gjörðum að þau standi með þeim stóra meirihluta þjóðarinnar sem styður mannréttindi hinsegin fólks. Akkúrat núna þarf að draga línu í sandinn og hún verður ekki dregin öðruvísi en með því að veita stórauknu fjármagni til fræðslu um hinsegin málefni og styrkja grundvallarþjónustu á borð við trans teymi Landspítalans með tafarlausri fjölgun starfsgilda svo útrýma megi biðlistum fyrir þessari nauðsynlegu þjónustu.
Að lokum vil ég segja þetta: Sú staðreynd að hatur gegn hinsegin börnum og ungmennum frá jafningjum virðist vera að færast í aukana er óbærileg. Því biðla ég til allra sem þetta lesa að leita sér fræðslu um hvernig best sé að ræða við börn sín og unglinga til að tryggja að þau skilji hversu mikilvægt er að standa gegn fordómum hvernig sem þeir birtast. Ekkert okkar getur lagað allt, en öll getum við þó gert eitthvað.
Megi samkenndin sigra.
Athugasemdir (2)