Það tók aðeins nokkrar vikur frá brotthvarfi erlenda herliðsins frá Afganistan þar til vígasveitir Talíbana höfðu umkringt allar helstu borgir landsins. Fráfarandi stjórn var gjörspillt og hötuð af miklum meirihluta landsmanna, auk þess sem stjórnarherinn var illa skipulagður og hafði engan baráttuanda. Víðast hvar lögðu hermenn niður vopn frekar en að hætta lífi sínu til reyna að verjast stórsókn Talíbana.
Í gær féll síðasta vígi stjórnarinnar, höfuðborgin Kabúl, og forsetinn flúði land. Fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC sagði í morgun að almennir borgarar virtust rólegir þrátt fyrir nýjustu vendingar og sjá mætti nokkrar konur á götum úti, að vísu með andlitsgrímur vegna Covid en ekki í búrkum.
Þess má geta að nokkrir helstu leiðtogar Talíbana eru sagðir hafa smitast af Covid undanfarið en sjúkdómurinn geisar í Afganistan eins og flestum öðrum löndum. Innan við eitt prósent þjóðarinnar hefur fengið bólusetningu, enda heilbrigðiskerfið í lamasessi. Það gæti hafa dregið enn frekar úr vilja stjórnarhersins til að veita mótspyrnu.
Lofa öllu fögru
Suhail Shaheen, talsmaður Talíbana, segir í viðtali við BBC að ekki standi til að ná fram neinum hefndum gegn þeim Afgönum sem hafi starfað með fráfarandi ríkisstjórn eða hersetuliðinu. Margir minnast þess þó að þegar Talíbanar voru síðast við völd beittu þeir grimmilegum aðferðum á borð við opinberar aftökur til að viðhalda túlkun sinni á íslömskum sjaría-lögum og kúga konur og minnihlutahópa.
Mikil óvissa ríkir því um framhaldið. Þrátt fyrir fögur fyrirheit Talíbana nú er hugmyndafræði þeirra gegnsýrð af bókstafstrúa svokallaðra Wahabista, sem aðhyllast ströngustu túlkunum á sjaría-lögum. Hins vegar byggðu þeir nýlega landvinninga sína ekki síst á að sannfæra aðra hópa um að ganga til liðs við sig, meira að segja sjía-múslima sem almennt eru álitnir réttdræpir af Wahabistum. Það þykir benda til þess að Talíbanar hafi lært af reynslunni og vilji forðast að styggja samlanda sína með afturhvarfi til miðalda líkt og þeir gerðu fyrir tveimur áratugum.
Herlið þeirra telur að minnsta kosti 50 þúsund manns en afganski stjórnarherinn var sagður búa yfir 300 þúsund hermönnum fyrir örfáum vikum. Þrátt fyrir það gufuðu heilu herdeildirnar upp þegar menn flúðu og skildu vopn sín eftir fyrir Talíbana til að hirða. Lítill baráttuandi var meðal hermanna sem kvörtuðu undan óstjórn innan hersins og fundu vel að þeir nutu ekki stuðnings almennings.
Þar að auki er talið að stór hluti skráðra hermanna hafi aldrei verið til, þeir séu bara nöfn á blaði sem herforingjar hafi falsað til að fá hærri fjárveitingar og stinga svo launum þessara ímynduðu hermanna í eigin vasa. Afganski herinn vissi því aldrei hversu margir hermenn þeirra voru raunverulega.
Minnihlutahópar í kastljósinu
Hreyfing Talíbana hefði vart lifað svo lengi ef hún nyti ekki einhver stuðnings meðal almennings en erfitt er að segja hversu mikill eða einlægur sá stuðningur er. Sjá mátti nokkurn hópur manna (ekki kvenna) fagna komu vígasveitanna í höfuðborginni í gær. Flestir virðast þó einfaldlega þreyttir á áratugalöngum átökum og vonast til að með falli stjórnarinnar megi binda enda á átökin sem hafa kostað meira en 250 þúsund mannslíf síðustu tvo áratugi.
Þar á undan hafði borgarastríð og innrás Sovétríkjanna lagt öll innviði landsins í rúst og hersetuliði vesturveldanna gekk bölvanlega að byggja þau upp aftur, ekki síst vegna spillingar. Þess í stað reistu ráðamenn sé hallir og eyddu opinberu fé í lúxusbíla og önnur stöðutákn sem koma þeim nú að litlu gagni enda flestir landflótta.
Stjórnin í Kabúl hafði reitt sig á stuðning ótal stríðsherra um allt landið til að halda í stjórnartaumana en þeir gengu margir á hönd Talíbana síðustu daga og vikur þegar ljóst hvar hvert stefndi. Sérstaka athygli vekur að vígamenn sem tilheyra þjóðarbroti Hazara, sem eru í minnihluta og aðhyllast sjía-íslam, gengu til liðs við fjandmenn sína í Talíbönum og fengu í staðinn loforð um sjálfsstjórn í þeim tveimur héröðum þar sem þeir eru fjölmennastir.
Mikið veltur á því hvort staðið verður við það loforð, það mun gefa sterka vísbendingu um hvort Talíbanar geti myndað breiða stjórn og friðþægt þá landsmenn sem óttast afturhvarf til ógnarstjórnarinnar fyrir 20 árum.
Rússar og Kínverjar vilja hjálpa
Upphaflega voru sveitir Talíbana nær eingöngu skipaðar Pastúnum, sem er stærsta þjóðarbrotið í Afganistan. Þeir eru líklega um helmingur landsmanna en að minnsta kosti sjö önnur þjóðarbrot mynda afgönsku þjóðina og Talíbanar hafa síðustu ár lagt áherslu á að afla sér fylgis meðal þeirra.
Hugmyndafræði hreyfingarinnar hefur að sama skapi tekið breytingum á meðan á hersetu Bandaríkjanna stóð. Bókstafstrúin á Íslam er orðin meira samofin þjóðernishyggju og andúð á íhlutun erlendra afla í landinu, sem er nokkuð sem hefur mælst vel fyrir meðal almennings.
Það má heldur ekki vanmeta áhrif erlendra stórríkja á afstöðu Talíbana í dag en þeir fundu fyrir hermætti vesturveldanna og vilja forðast erlenda íhlutun nú þegar þeir eru aftur komnir til valda. Þeir eru undir mikilli pressu og smásjá alþjóðasamfélagsins sem mun gera kröfu um að þeir hegði sér ekki með sama hætti og t.d. ISIS gerði í Sýrlandi og Írak. Viðleitni þeirra til að skapa sér trúverðugleika á alþjóðavettvangi virðist þegar hafa borið nokkurn árangur.
Talskona kínverska utanríkisráðuneytisins segir til að mynda að Kínverjar fagni öllum tækifærum til að eiga friðsamleg samskipti við hina nýju ráðamenn í Afganistan. “Talíbanar hafa ítrekað tjáð vilja sinn til að mynda góð tengsl við Kína og vonast eftir þáttöku Kínverja í að endurbyggja innviði landsins, við fögnum þeirri afstöðu,” segir í yfirlýsingu Kínverja.
Rússar segja að Talíbanar hafi tryggt öryggi sendiráðs þeirra í Kabúl og það verði áfram opið. Rússneski sendiherrann í Afganistan muni í fyrramálið ganga á fund leiðtoga Talíbana til að ræða hvernig koma megi á samstarfi í náinni framtíð. Rússar ætla þó ekki að viðurkenna stjórn Talíbana formlega fyrr en að höfðu samráði við önnur ríki. Þeirra afstaða sé að mynda beri bráðabirgðastjórn í fullri sátt með fulltrúum Talíbana og annarra hagsmunaaðila í Afganistan.
Ríkisstjórn Írans virðist sömuleiðis bjartsýn og segir fréttirnar frá Kabúl gefa von um að hægt verði að koma á varanlegum friði í Afganistan. Hóflegrar bjartsýni gætir einnig í yfirlýsingum ríkja á borð við Indland og Pakistan, sem eru þó sjaldan sammála um nokkurn hlut. Indverjar segjast ætla að ráðfæra sig við Kínverja um framhaldið og utanríkisráðuneyti Pakistans býðst til þess að hjálpa til við sáttaviðræður og myndun bráðabirgðastjórnar í Kabúl.
Staða kvenna í uppnámi
Það má segja að fíllinn í herberginu sé staða kvenna undir stjórn Talíbana. Flestir muna þegar þeir bönnuðu stúlkum að mennta sig og gerðu konur að föngum á eigin heimilum. Þeim var bannað að láta sjá sig opinberlega nema í búrku og fylgd karlmanns, auk þess sem þær gátu auðvitað ekki sótt vinnu eða framhaldsmenntun.
Leiðtogar Talíbana í dag segjast hafa breytt afstöðu sinni að því leyti að menntakerfið verði látið óáreitt en það verður að teljast nokkuð loðin yfirlýsing. Fréttir af vettvangi benda til þess að vígamenn Talíbana hafi þegar byrjað að reka konur heim til sín og bannað þeim að mæta til vinnu eftir að þeir byrjuðu að ná borgum landsins á sitt vald síðustu vikur.
Al Jazeera ræddi við konu að nafni Noor Khatera sem hefur verið gjaldkeri í banka í Kandahar í nokkur ár. Hún segir að sér hafi verið vísað heim af vopnuðum mönnum og sagt að karlmaður yrði að taka við starfinu. „Það er mjög skrýtið að fá allt í einu ekki lengur að fara í vinnuna en þetta er staðan sem við erum í núna,“ segir Khatera í samtali við fréttaritara. „Mér tókst að læra ensku upp á eigin spýtur og einnig að nota tölvu en nú verð ég að reyna að finna einhvern annan vinnustað þar sem konur geta starfað.“
Talsmaður Talíbana neitaði að svara spurningum al Jazeera um einstök atvik sem þessi en sendi þess í stað frá sér mjög almenna yfirlýsingu sem lofar alls ekki góðu með framhaldið: „Þegar við höfum komið á íslömskum stjórnarháttum mun staða kvenna vera ákvörðuð eftir þeim lögum sem gilda og ef Guð lofar mun það ekki skapa nein vandamál.“
Ef eitthvað getur haldið aftur af verstu hvötum Talíbana er það líklega þrýstingur alþjóðasamfélagsins en sem fyrr segir vilja þeir forðast íhlutun erlendra afla í landinu. Hvort það getur farið saman við hinn forneskjulegan hugsunarhátt og kvenfyrirlitningu sem einkennir hreyfinguna mun tíminn leiða í ljós en á meðan býr helmingur þjóðarinnar við algjöra óvissu um framtíð sína.
Athugasemdir