Í fyrsta þætti Stóru málanna hér á Stundinni er rætt við Bryndísi Haraldsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, um sölu ríksins á um fjórðungshlut í Íslandsbanka. Salan er umdeild og samkvæmt könnun Gallup um málið er meirihluti þjóðarinnar, um 56%, á móti sölu hlut ríksins í bankanum. Eingöngu 23,5% sögðust vera fylgjandi sölunni. Langmestur er stuðningurinn við söluna hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins.
Í þættinum segir Bryndís að hún telji að íslenska ríkið eigi ekki að vera í bankarekstri og vill að báðir ríkisbankarnir, Landsbankinn og Íslandsbanki, verði á endanum seldir til einkaaðila. Kosningar eru áætlaðar í september og telur Bryndís að það eigi ekki að bíða eftir kosningum með að taka ákvörðun á sölunni.
„Nei, ég er ekki alveg það þolinmóð, þó ég hafi lært þolinmæði í veru minni í stjórnmálum. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það, mér finnst það skynsamlegt og mér finnst það varfærin leið, að fara með þessi 20 til 30 prósent í skráningu til að sjá. Auðvitað drögum við það til baka ef það fæst ekki viðunandi verð fyrir þetta og eftirspurnin sé ekki til staðar. Mér finnst það í rauninni mjög spennandi að ná að gera þetta á þessum tímapunkti. Ég vildi þá frekar sjá umræðuna, eftir það og fyrir næstu kosningar, ganga út á það hversu langt við eigum að ganga í því að selja Íslandsbanka“, segir Bryndís.
Þá segir Bryndís einnig að hún telji að mikil áhætta fylgi eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka, sú áhætta sé meðal annars sú að rekstur banka er að breytast og að iðnaðurinn sé að gangast í gegnum miklar tæknibreytingar.
Viðtalið við Bryndísi í heild má sjá hér að ofan.
Athugasemdir