Árin streyma alltaf fram af sama þunga og ferja okkur með sér. Þeim lýkur ávallt með sama hætti; veisluhöld, smærri í ár, en sami veislumatur. Við göngum afvelta inn í nýja árið, uppfull af iðrun. Skýr markmið um sjálfsbetrun leiða okkur áfram og fyrstu mánuði ársins róum við á móti straumnum. Við ætlum að borða hollar, hreyfa okkur meira, verða bestu útgáfurnar af okkur sjálfum. Sólin vaxandi fer.
Einu sinni kölluðum við þetta megrun. Nú heitir það heilsuátak. Heilbrigður lífsstíll. Við eigum að elska okkur sjálf, elska líkamann okkar og vilja honum allt það besta. Þessi ást er hins vegar háð ýmsum skilyrðum. Við megum ekki að vera of góð við okkur. Það er óheilbrigt.
Í samtímanum er hefðbundin megrunarorðræða sveipuð óljósri dulu heilsunnar. Við sjáum hennar fögru fyrirheit í ljóma og hillingum. Ekki eru allir á eitt komnir um réttu leiðina að þessu markmiði. Þær ná misjöfnum vinsældum og steypa hver annarri sífellt af stalli. Næringarflokkar berjast hver við annan um yfirráð í heimi heilsunnar. Nú eru kolvetnin dottin úr tísku. Prótein og sértilgreindar heilsusamlegar fitusýrur njóta ásta á hverjum diski.
Fjölmiðlar birta síbreytilegar forskriftirnar eins og þær séu heilagar steintöflur. Svo burðumst við með þær upp fjallið eins og Móses. Sellerídjús, grænkál, ylvolgt sítrónuvatn, sykurlaust, kolvetnaskert, náttúrulegt, flókið, trefjaríkt, heilsusamlegar fitusýrur, súrdeigsbrauð, avocado. Það hangir í loftinu að matur sem er hollur er megrandi, en óhollur fitandi. Grannir líkamar heilbrigðir en feitir óheilbrigðir. Það er ákveðin félagsleg forskrift að hinum fullkomna líkama. Æskilegt mittismál, læri sem snertast ekki. Líkamshlutar háðir tískubylgjum. Vertu réttum megin við kjörþyngd, með lítið mitti og sýnilega magavöðva. Eftirsóknarverð læri skilgreind út frá neikvæða plássinu á milli þeirra. Sannarlega enga appelsínuhúð eða fellingar.
„Það var auðvelt að grennast í fyrstu bylgju Covid-19“
Nú er vendipunkturinn í tímalínunni sem við kölluðum 2020 liðinn. Nýr tölustafur í röðinni markar nýtt upphaf. Annað ár gengið í garð með öllum sínum venjubundnu fyrirheitum. Ég er kílói þyngri núna en ég var þegar ég fór í átak fyrir ári. Það virðist svo stutt síðan. Um daginn horfði ég á kærasta minn og dæsti. Ég nennti ekki aftur í megrun. Það var eins og ekkert væri sjálfsagðara en að setjast aftur í hringekjuna. Upp og niður um tíu kíló á hverjum árshelmingi. Þvílíkt vesen.
Árið 2020 byrjaði nógu vel, heimurinn opinn, ótæmandi möguleikar. Gegn betri vitund fór ég í átak. Nokkuð saklaust. Ég var 57 kíló og ætlaði bara að grennast aðeins. Ekkert svo mikið, enda þurfti ég svo sem ekki á því að halda. Mig langaði bara til þess að vera aðeins mjórri. Ekkert brjálæðislega mjó, bara svona eins og tvítug Victoria’s Secret fyrirsæta.
Það var auðvelt að grennast í fyrstu bylgju Covid-19. Ég hitti engan og fór nánast aldrei út úr húsi. Áfengi og skyndibiti heyrðu sögunni til. Ég eldaði allar mínar máltíðir sjálf. Grænmeti, egg, berjahristingar. Hollustan uppmáluð í 1.300 kaloríum eða minna. Fyrst missti ég fimm kíló. Svo nokkur í viðbót. Í byrjun apríl hafði ég fengið nýtt og sjarmerandi gælunafn meðal vinkvenna minna; beinahrúgan. Ég sá ekki hvað vandamálið var. Líklega bara öfundsýki. Vandamálið var ekki megrun, enda var ég bara að borða hollt og sleppa áfengi. Ég var hvort eð er ekki með neina matarlyst og löngu búin að sjálfgreina mig með Covid-19, enda fann ég ekkert bragð af hafrapönnukökunum mínum.
Ég veit að þetta er ekki reynsla allra þeirra sem fara í átak. Margir léttast bara smá, sumir ekki neitt. Rannsóknir benda hins vegar til þess að megrunarkúrar virki ekki. Fólk missir að jafnaði fimm til tíu prósent af byrjunarþyngd sinni á fyrstu sex mánuðum. Allt að tveir þriðju þeirra þyngjast aftur, um meira en byrjunarþyngd sína. Það er ágætt að hafa þetta í huga í vorátakinu. Við þurfum ekki að nauðbeygja okkur undir líkamlega fullkomnun. Megrunin og áhrif hennar vara hvort eð er aldrei að eilífu. Í ár valdi ég mér nýtt áramótaheit: að gæta hófs.
Athugasemdir