Það er hæglátur dagur, veðrið er milt og ég sest niður, horfi út um gluggann og leyfi huganum að reika yfir árið sem nú er senn á enda, þetta skrýtna ár sem breytt hefur öllu.
Þetta blessaða ár hefur kennt mér að ganga ekki út frá neinu sem vísu því árið hófst með miklum áskorunum í kjölfar alvarlegra veikinda eiginmannsins. Heilsa hans var ekki upp á marga fiska, bataferlið var erfitt og andvökunætur margar. Á erfiðum stundum rifjuðust gjarnan upp orð góðrar konu sem sagði að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af okkur hjónunum, við værum svo samstillt og flott. Það gaf styrk og saman höfum við fetað brekkurnar, stundum runnum við örlítið niður en með kærleika og styrk stöndum við alltaf upp aftur, hönd í hönd og höldum áfram, upp á við.
Árið færði okkur ekki bara heilsufarslegar áskoranir mannsins míns heldur einnig mína stærstu sigra. Þegar við vorum stödd í einni brekkunni kom þessi ógeðslega veira til landsins og því miður líkaði henni svo vel að hún ákvað að setjast hér að.
Strax í febrúar kom kallið til sjálfboðaliða í viðbragðshópum Rauða krossins, mín þar á meðal, að verið væri að undirbúa opnun farsóttarhúss fyrir þá sem ekki hefðu tök á að vera í sóttkví eða einangrun heima hjá sér. Við hjónin horfðumst í augu í augnablik og án þess að hika sagði maðurinn minn: „Farðu, þú gerir þetta.“ Svona er fjölskyldan mín, hún stendur þétt við bakið á mér og hvetur mig áfram, sem ekki er sjálfgefið.
Þannig atvikaðist það að ég varð hluti af sjálfboðaliðahópi sem mannaði vaktir í Farsóttarhúsinu, alla fyrstu bylgjuna. Hópurinn sinnti starfinu af alúð, jákvæðni og samheldni, þrátt fyrir að verkefnið væri okkur öllum framandi. Þegar næsta bylgja skall á var lítill hópur, ég þar með talin, sem færðist yfir í að verða fastir starfsmenn í Farsóttarhúsinu og erum við enn á vaktinni, samstillt og flott. Í Farsóttarhúsinu hef ég kynnst fullt af frábæru fólki, eignast góða vini og saman höfum við tekist á við ótrúlegar áskoranir, hönd í hönd, með kærleika og styrk að leiðarljósi.
Í Farsóttarhúsið hafa komið einstaklingar úr öllum þjóðfélagsstigum, af fjölmörgum þjóðernum og oft og tíðum úr lygilegum aðstæðum, en hver og einn þeirra hefur fengið húsaskjól, fæði og umhyggju sem einkennir Farsóttarhúsið. Saman hafa þessir einstaklingar breytt sýn minni á lífið, til dæmis snerti ung stelpa hjarta mitt þegar hún horfði á okkur og sagði að enginn vildi eiga hana. Það er líka mögnuð og þroskandi lífsreynsla að taka á móti einstaklingum um miðja nótt, svöngum og þreyttum, sem gráta af þakklæti þegar maður býður þá velkomna til Íslands og sýnir þeim rúm með sæng til að skríða upp í að hvíla sig.
Árið hefur því ekki síst kennt mér auðmýkt og þakklæti. Ég er þakklát fyrir að hvorki ég né mínir nánustu hafa smitast af veirunni því við í Farsóttarhúsinu vitum að hún er dauðans alvara. Ég hef líka lært að það skiptir engu máli hvort búið er að skúra fyrir jólin eða hvort ég kemst í sund. Og það skiptir heldur ekki máli hvort ég er með flest „like“ á myndirnar mínar eða hvort ég kemst út að borða. Ég reyni hins vegar að gera það besta úr því sem lífið færir mér, ekki síst núna um jólin, og þakka um leið fyrir að eiga góða fjölskyldu og vini, nægan mat og þak yfir höfuðið. Það sem skiptir síðan mestu máli er að við förum upp brekkurnar, með kærleika og styrk að leiðarljósi, því saman getum við allt.
Athugasemdir